Færsluflokkur: Bloggar
17.6.2009 | 13:39
Í boði skattborgaranna
Postularnir tólf
Viltu skoða þig um í Ástralíu án þess að borga fyrir það? Gista á 5 stjörnu hótelum, sækja sýningu á La Traviata í nafntoguðu óperuhúsinu í Sydney og njóta síðan veitinga á lúxus snekkju á siglingu um flóann á meðan geislar kvöldsólarinnar baða hafflötinn. Til endurgjalds þarftu aðeins að leggja á þig nokkrar heimsóknir á vínræktarbúgarða, svolgra dálítið af heimabrugginu, fræðast um framleiðsluna og eiga uppbyggilegar samræður um gildi skrúftappa á vínuppskeruna.
Ferðina þarf ekki að gefa upp til skatts, engar kvittanir þarf að sýna og ekki þarf að greiða skatt af fríðindum. Skattborgararnir sjá um allt.
Nokkur hópur Íslendinga hefur komið auga á kostina sem búa í þessu einstæða tilboði. flestir tilheyra þeir Samfylkingunni, þótt einhverjir utanbúðarmenn hafi nú slæðst í hópinn. Allt sem þú þarft að gera er að ganga í Evrópusambandið og ná kosningu til Evrópuþingsins. Þegar þangað er komið bíða þín fríir farseðlar um allan heim. Muna bara að koma sér í réttu nefndina.
Vegna takmarkaðs aðgangs að fréttum á vinnutíma fóru boðaðar yfirlýsingar norrænu forsætisráðherranna sem mættu á einkaþotum á Egilsstaðaflugvöll, um sameiginlega ályktun í umhverfismálum, gersamlega framhjá mér. Það hefði verið fróðlegt að heyra hvaða markmið þessir mætu menn leggja áherslu á núna. Áhyggjum af loftslagsmálum deila þeir víst með félögum sínum í ESB, sem ályktað hafa um að dregið skuli úr losun skaðlegra efna í Evrópulöndum um 20-30% frá því sem losað var 1990 og þetta skal vera komið til framkvæmda fyrir 2020. Þeir eru spaugsamir þarna í ESB.
Evrópuþingmennirnir (MEP) sem fjölmenna til Ástralíu annað hvert ár, svo ekki sé minnst á "delagasjónirnar" sem fara reglulega til Seychelleyja til að kynna sér "landrofsvandamálin" sem þarlendir standa frammi fyrir eða 67 manna nefndina sem fór til Barbados að kynna sér hvernig draga megi úr fátækt í heiminum, og þá ekki síður þingmannanefndirnar sem leggja á sig langflug til Nýja Sjálands, Malí, Kína, Perú eða Chile til að rækta vináttutengsl við kollega sína sem hvorki komast lönd né strönd, því skattborgararnir eru of blankir til að greiða fyrir lúxusinn. Þessir fórnfúsu þingmenn hafa svo miklar áhyggjur af loftslagsmálum að þeir mega ekki vatni halda.
Þótt ESB hafi ekki fyrir því að halda utan um kostnað þingmanna í þessum "vettvangsferðum" (sem birtist meðal annars í því að reikningar sambandsins hafa ekki fengist uppáskrifaðir í 14 ár), þá eru alltaf einhverjir nöldurpúkar sem leggjast svo lágt að snuðra í fundargerðum og skýrslum þingsins. Open Europeer félagsskapur sem tekur reglulega saman ýmsar gagnlegar upplýsingar fyrir almenning sem vill vera meðvitaður en hefur ekki aðgang að öðrum upplýsingum en þeim sem áróðursmaskínur ríkisstjórna og fjölmiðla bjóða uppá. Nýlega birti OE skýrslu um flugmílur þingmannanna sem hlýtur að vekja athygli þó ekki væri nema fyrir þrálátt hjakk þessara umhverfispostula um loftslagsógnina.
Ef þessi skýrsla er skoðuð má með góðu móti komast að þeirri niðurstöðu að MEP-liðið, og þar með taldir þessir ágætu einkaþoturáðherrar sem mættu á Egilsstaðaflugvöll, séu mesta ógnin sem steðjar að í þessum loftslagsmálum. Á árum 2004 - 2008 flaug MEP-gengið litlar 10 milljón flugmílur á kostnað skattgreiðenda sinna. Þetta jafngildir 20 ferðum til tunglsins og til baka. Dágóð dagleið það. En fyrir þá sem ekki eru kunnugir tunglferðalögum, en láta sér nægja að keyra í kaupstað eða verða sér út um vitneskju um heiminn í sjónvarpinu hans Davids Attenborough, þá jafngilda þessar flugferðir 400 hringjum umhverfis hnöttinn sem við búum á og skilja eftir kolvetnisfótspor sem metið er á 3.500 tonn af CO2. Þetta er náttúrlega bara brot af því CO2 sem losað var þegar hinn umhverfisvæni forseti BNA, Barack Obama, var svarinn ínn í embætti og enginn treystir sér til að giska á flugmílurnar hans Al Gore. En þegar guðirnir tala krjúpa átrúendurnirog fórnirnar færa skattgreiðendurnir.
Það má vel spyrja hvaða erindi hjarðir "umhverfissinnaðra" MEPa eiga inn í frumbyggjabyggðir Ástralíu, Asíu og Suður Ameríku? Hvort umhverfisáhuginn þurfi endilega að vega svona þungt í buddum skattborgara og hvort loftslagsmálum væri ekki betur komið ef þeir sinntu bara vinnunni sinni heima?
Það má líka spyrja hvort skattborgararnir væru ekki betur settir ef þeir losuðu sig við þessar sjálftöku afætur og sæju um sín mál sjálfir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.6.2009 | 23:49
Norðurlöndin koma sér saman um stefnu í loftslagsmálum!
"Vilja Norðurlöndin stefna á að minnka útblástur skaðlegra efna og setja ákveðna losunarkvóta" segir á fréttavef mbl.is
Á visir.is les maður að forsætisráðherrar Norðurlanda hafi mætt til leiks á Egilsstaði í dag. Í fréttinni segir ennfremur:
"Það var um þrjúleytið sem einkaþotur ráðherranna lentu hver af annarri á Egilsstaðaflugvelli frá hinum Norðurlöndunum en áður hafði Jóhanna Sigurðardóttir komið með áætlunarflugi til Austurlands".
Þá er ekki minnst á hvernig Halldór Ásgrímsson mætti á fundinn, en varla hefur hann komið á hjóli.
Þessi örstuttu fréttaskot segja allt sem segja þarf um hug ráðamanna á Norðurlöndum til umhverfismála. Væri betra að menn ösluðu um í forinni og létu sem þeir sæju hana ekki, en að bjóða fólki upp á þessa hræsnisslepju.
Loftslagsumræðan er hvort eð er á útleið, hún tilheyrði 2007.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.6.2009 | 11:50
Forsjálnin í fyrirrúmi
Hann gerir það ekki endasleppt, náunginn sem fjallað var um á visir.is í gær. Á þessum síðustu og verstu tímum höfum við orðið vör við að fæstir hafa verið svo forsjálir að sjá fyrir þau áföll sem á okkur hafa dunið. Ekki ber endilega að ásaka fólk fyrir þá vangá í ljósi þess að aðeins þeir sem áttu frumkvæði að og þátt tóku í að stýra falli Íslands gátu séð fyrir hvað í vændum var.
En náunginn sem fjallað var um í frétt á visir.is í gær er undantekningin sem sýnir að með forsjálni má setja undir flesta leka. Girtur belti og axlaböndum tekst hann á við öll hugsanleg "scenarios" sem upp geta koma og er þannig undirbúinn það versta.
Fjölhæfnin leynir sér ekki enda athafnamaður á sviði innflutnings og fjarskipta sem hefði sómt sér vel í félagsskap fyrirmanna á borð við útrásarvíkinga okkar. Eins og þeir lætur hann lög og reglur ekki hefta umsvif sín og viðskiptaveldi hans teygir arma sína vítt um heiminn. Til að hraða tollafgreiðslu á innflutningi sínum og létta álagið á íslensku tollþjónustunni hafði hann komið sér upp eigin aðstöðu til tollskoðunar svo eftirsótt varan kæmist hratt og hindrunarlaust til viðskiptavinanna. Óþarfa tafir og pappírskreddur tollgæslunnar voru honum ekki að skapi enda hafði hann á að skipa vaskri sveit manna í vatnsgöllum sem ávallt voru til þjónustu reiðubúnir.
En þrátt fyrir frumlega hugsun og framtakssemi væri þessi maður varla fréttarinnar virði frekar en aðrir sem að innflutningi standa, ef ekki væri fyrir tonnatakið sem treystir undirstöður starfsemi hans ef svo ólíklega vildi til að tollvesenið gerði athugasemd við innflutningsskýrslur hans. Af einskærri forsjálni, sem ríkið mætti sannarlega taka sér til fyrirmyndar, hefur hann nú tryggt sér fullar tekjur af fataframleiðslu á fatamerkjunum Inmate, Criminal Record og Bastille, sem fanga á Litla Hrauni koma til með að framleiða í staðin fyrir númeraplötuframleiðsluna sem hrundi um leið og bankarnir.
Eflaust var það einskær mannkærleikur sem réði þessari fjárfestingu mannsins, en bágt á ég með að trúa að haft hafi verið með í myndinni að hann þyrfti sjálfur að setjast við saumavélina. En svona er lífið.
C'est la vie.
Mynd: www.visir.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2009 | 01:00
Gríman fellur
Línurnar eru að skýrast. Össur flengist um heiminn og safnar undirskriftum EU ráðherranna til stuðnings við aðildarumsókn Íslands að ástarbandalaginu, ESB. Enginn kippir sér sérstaklega upp við óheilindi Össurar, blettirnir á tungu hans segja sína sögu og hana erum við farin að þekkja nokkuð vel. Á meðan er Steingrímur Joð hér heima að fella grímuna. Maðurinn sem að eigin sögn er heiðarleikinn holdíklæddur hefur nú í hverju málinu á fætur öðru umpólast og þar með svikið bæði kjósendur Vg svo vel sem hugsjónir flokksins. En hvað gera menn ekki fyrir ráðherrastólinn? Er fullveldi Íslands merkilegra en hann?
Árum saman hefur SteinGrímur ásakað andstæðinga sína um að hanga á völdunum. Nú kemur í ljós að límið sem heldur honum á ráðherrastólnum er lygin sem breytist frá degi til dags. Hörðustu fótgönguliðar flokksins eru nánast hættir að blogga því þeir vita ekki nema dagskipun foringjans hafi breyst meðan þeir söðluðu tölvufákinn. Þingmenn Vg fá nú að finna fyrir hnefanum sem Grímur í stjórnarandstöðu steytti áður framan í Björn Bjarnason og lét dynja á þáverandi forsætisráðherra. Atkvæði þeirra skulu nú greidd fjármálaráðherra, samviskuna geta þeir skilið eftir heima. En það gera þeir auðvitað á eigin ábyrgð.
Lygavefurinn sem félagarnir, Össur og Grímur grímulausi, hafa spunnið er nú allur að rakna. Það eru ekki margir sem klappa fyrir þeim núna, en í samsekt geta þeir lagt sína höndina hvor til verksins. "Snilldarverk" gamla refsins Gestssonar reynist aðgangsmiðinn sem mun senda okkur á hnjánum inn í Evrópusambandið. Afsakanir Gríms grímulausa á þingi hafa nú sýnt sig að vera lítilmótlegar lygar; enginn bindandi samningur hafði verið gerður við Hollendinga í haust. Minnisblaðið sem Grímur grímulausi veifaði framan í þingheim á föstudag var afrakstu vinnu félaga Össurar; marklaust plagg eins og orðin sem frá honum koma. Það tók ekki langan tíma að sýna fram á að félagarnir í landsöluliðinu höfðu ekki haft fyrir því að prófarkalesa handritið sem þeir buðu þjóðinni uppá.
Grímur Gosi: Þetta var arfur fortíðar, við stóðum frammi fyrir gerðum hlut. Fyrri ríkisstjórn hafði samið við Hollendinga um afarkjör (Gosi veifar minnisblaði) og það tók alla okkar snilld að ná þessum frábæra samningi. Við vildum ekki vera vondir við Brown því hann stendur í stórræðum heima og það hefði verið lúalegt af okkur að koma illa fram við hann. Fyrir nú utan að þá hefði hann getað dregið tilbaka loforð um stuðning í aðildarviðræðunum. Samfylkingin hefði aldrei getað samþykkt það. (Mjúkur ánægjukliður frá Samfylkingunni fer um þingsal, en þingmenn Vg sitja hnípnir og horfa í gaupnir sér).
Félagi Össur vitnar: Ég hef líka staðið í ströngu. (Klapp berst úr sætum Samfylkingarinnar) Öllum stundum hef ég vakað yfir landi og þjóð til að hindra ófétin í Sjálfstæðisflokknum frá að gera fleiri landsölusamninga á borð við þennan sem gerður var við Hollendinga í október.
Heimur leikhússins er heimur opinberunar. Áhorfendur eru ekki blekktir að eilífu. Því fór það svo að þegar nýir leikendur (sem gleymst hafði að skrifa inn í handritið) fengu seint og um síðir að stíga á sviðið hrundi "skáldskapurinn" og langt nefið á Gosa varð öllum sýnilegt. Eins og venjan er um öll leikverk vita áhorfendur að sýndin er ekki reyndin. Minnisblaðið reyndist vera verk utanríkisráðherra ( í afleysingu) frá því í október síðast liðið haust. Sá ráðherra ku hafa heitið Össur Skarphéðinsson, "stuntman" ISG með gullfiskaminni og núverandi ljúgvitni Gosa. Félagi Össur lét líka hjá líða að geta þess í vitnisburði að minnisblaðið, sem Gosi veifaði svo glaðbeittur, var aldrei staðfest; hvorki af ríkisstjórn né Alþingi. Gosi stóð því aldrei frammi fyrir gerðum hlut og "snilldarverkið" hefur nú verið opinberað fyrir það sem það er; aðgöngumiði sitjandi ríkisstjórnar Íslands að Evrópusambandinu í boði Samfylkingar og Vinstri grænna.
Þingmenn Vg þurfa að gera það upp við sig hvort þeir ætla að taka þátt í leikritinu sem þegar er fallið eins og gríman af Grími eða hvort þeir ætla að standa með kjósendum sínum og ÞJÓÐINNI. Eitt mega þeir vita og það er að unga fólkið sem nú yfirgefur landið í leit að atvinnu mun ekki snúa aftur til að taka á sig IceSave skuldbindingar Gríms Gosa.
Mynd 1: www.geocities.com
Mynd 2: A.Scales/Landsbankinn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2009 | 15:42
ESB breytir appelsínum í banana
Því er gjarnan haldið fram af ESB-sinnum að innganga í sambandið muni færa okkur aukin áhrif í ákvarðanatökum sem varða íslensku þjóðina. Þeir sem telja fullveldi Íslands betur borgið hjá Íslendingum sjálfum, þ.e. ESB-efasemdamenn (ESBEM) benda hins vegar á að vegna fámennis mun hlutfallslegur styrkur okkar til sjálfsákvarðana falla úr 100% í 0.6%; verður ekki séð að þessi skipti séu Íslendingum sérlega hagfeld.
Þessi 0.6% eru hlutfallstala okkar miðað við mannfjölda í ESB ríkjunum. Sölumenn sjálfstæðis þjóðarinnar telja þó að áhrif okkar verði mun meiri en hlutfallstalan segir fyrir um, enda byggir goðsögn Samfylkingarinnar á því að innganga í ESB "færi okkur allt fyrir ekkert."
Því hefur líka verið haldið fram að eftir inngöngu verðum við þátttakendur í öllum ákvörðunum sem okkur varðar. Þetta er önnur goðsögn. Skipulag sambandsins og túlkun þess á fyrirliggjandi samningum, sér til þess að ákvarðanir eru iðulega teknar án þess að kjörn fulltrúar hafi þar áhrif. Agli Helgasyni rataðist satt orð af munni þegar hann líkti inngöngu í ESB við "að ganga inn í klúbb þar sem maður verður að beygja sig undir reglurnar." Reglurnar eru settar af þeim sem í krafti stærðar og auðs halda um stjórnartaumana.
Sem fyrrverandi stórveldi hefur það löngum angrað Breta að vera annar stærsti framfærandi bandalagsins án þess að því fylgi tilsvarandi völd. Því hafa háværustu gagnrýnisraddirnar innan sambandsins komið úr þeirri átt . Nýlega birtist greinarstúfur í TaxPayers' Alliance undir titlinum How Many "illegal "EU Laws ,sem gefur mynd af því hvernig farið er framhjá Evrópuþinginu. Ákvarðanir eru teknar í bakherbergjum ráðherra og framkvæmdarstjórnar sambandsins. Málið snýst um grein 308 í samningnum sem kenndur er við Maastricht og gengur út á að auðvelda sambandinu að ná markmiðum hins "sameiginlega markaðar," þegar samningurinn sjálfur ber ekki nægilegan styrk varðandi þau verkefni sem sett eru fram í grein 3 samningsins. Grein 308 færir Ráðinu í raun löggjafarvald. Löggjafarvald sem í seinni tíð hefur verið fært út fyrir ramma samningsins sem lýtur að hagsmunum tengdum hinum "sameiginlega markað." Ráðið hefur nýtt sér þetta ákvæði 908 sinnum síðan 1992, en á meðan grein 308 er til staðar í samningnum getur Ráðið sent út aðskiljanleg directive og reglugerðir að fengnum tillögum frá framkvæmdastjórn og að undangenginni álitsgjöfþingsins. Ráðið þarf að komast að samhljóma niðurstöðu (sic), en þingið þarf ekki að samþykkja neitt, aðeins að gefa álit. Þegar málið var borið undir Evrópudómstólinn kvað hann upp úr með að niðurfelling ákvæðisins um að greinin gilti um hinn "sameiginlega markað" sé hluti af þróun sem fái staðist lög sambandsins.
Þessi þróunarkenning Evrópudómstólsins sýni, svo ekki er um villst, að orðalag samninga og undirritanir einstakra ríkja á þeim er að engu haft þegar hagsmunir Brusselvaldsins breytast. Brusselvaldið er þá tilbúið að selja appelsínurnar sem banana án þess að hika. Lissabonsáttmálinn er einmitt þannig banani.
Eftir allan þann áróður sem dunið hefur yfir landsmenn úr hljóðdósum RÚV var frískandi að heyra Thorvald Stoltenberg gefa Íslendingum ráð um hvernig staðið skuli að samningsgerð við ESB. Benti Stoltenberg meðal annars á að tryggja þyrfti orðaval samningsins þannig að ekkert tilefni væri til misvísandi túlkana. Með tilliti til umfjöllunarinnar um grein 308 veitir ekki af slíku nesti í farteskinu þegar lagt er til atlögu við hina sleipu skepnu ESB. Taka þarf af öll tvímæli í málum sem varða okkur mestu. Auðlindir okkar SKULU vera á forræði Íslendinga og sjálfsákvörðunarréttur okkar TRYGGÐUR.
Án yfirráða Íslendinga á þessum grundvallarþáttum mun hlutfallslegur styrkur landsins innan Evrópusambandsins vera fyrrnefnd 0.6%. Það er ekki ásættanlegt. Eins og staðan er í dag erum við þjóð meðal þjóða; kannski lítil og fátæk, en engu að síður þjóð. Innan ESB, á þeim forsendum sem Samfylkingin er tilbúin að gangast inná, verðum við aldrei annað en þessi 0.6%.
Þannig eru bara reglurnar í "Klúbbnum."
Mynd: www.dailytelegraph.co.uk
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.5.2009 | 10:29
Ríkisstjórnin er týnd
Allsherjar útkall björgunarsveita
Skilti hefur verið sett upp á flötinni fyrir framan stjórnarráð Íslands því ríkisstjórnin er týnd. Er fólk beðið að svipast um í bakgörðum og á vinnusvæðum eftir ummerkjum um veru þessara 12 STARFSKRAFTA, sem hafa ekki skilað sér heim frá því á fimmtudagskvöld. Síðast sást til þeirra um miðnætti eftir lokaafgreiðslu bensín- og brennivínsfrumvarpsins og er talið að þetta síðasta útspil í björgunaráætluninni til handa heimilunum hafi riðið þeim að fullu. Enda virðast björgunaraðgerðirnar til þess fallnar að keyra heimilin endanlega í þrot.
Fjörur verða gengnar í dag ef næg þátttaka fæst. Fjörubál verður kveikt að lokinni göngu þar sem hægt verður að grilla (stjórnina ef hún finnst) og búi einhverjir svo vel að eiga gítar væri gott að taka hann með.
Látum ekki skuldasúpu heimilanna aftra okkur frá því að njóta dagsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2009 | 21:27
ESB í skugga réttvísinnar
Heyrði ekki betur en hausaveiðarinn mikli, Eva Joly bjargvættur íslenskrar alþýðu og einkavinur íslenska ofurálitsgjafans, sé ekki ánægð með forystu framkvæmdarstjórnar ESB. Samkvæmt frétt RÚV sækist hún eftir sæti á Evrópuþinginu, en þangað segist hún eiga eitt erindi og það er að koma forseta framkvæmdarstjórnar, José Manuel Barroso frá kjötkötlunum.
Þetta er virðingarvert markmið en væri enn betra ef frúin útvíkkaði hugmyndina ögn meira og einsetti sér að koma Evrópusambandinu fyrir kattarnef í eitt skipti fyrir öll.
Eitt og annað virtist þó vanta upp á fréttina. Má þar fyrst nefna að sem heimsþekktur refsivöndur fjárglæpamanna vekur markmið Joly upp spurningar um heiðarleika JMB. Heiðarleika framkvæmdastjórnarinnar og heiðarleika Evrópusambandsins þegar allt er talið til.
Varla er aðgerðarleysi JMB nægileg ástæða fyrir stjörnudómara, sem farið hefur með hala og bæði eyru harðvítugra fjárglæframanna út úr hringnum, að setja sigtið á þessa blekklessu ESB. Það væri eins og fyrir kollega hennar Baltazar dómara á Spáni að gefa út ákæru á barnfóstruna fyrir að gleyma að setja barnið í regngalla. Gruggið í ESB-vatninu hlýtur að hafa komið inn á borð rannsóknardómarans Evu Joly. Veiðihárin standa stíf á mjá-mjá-Joly.
Þetta leiðri svo hugann að því hvort Joly hafi gert vinkonu sinni Jóhönnu, forætisráðherra jafnréttismála viðvart um spillinguna í fyrirheitna landinu. Heilög Jóhanna getur illa lagt nafn sitt við aðildarumsókn að jafn vafasömum félagsskap nú eftir að hún hefur verið smurð og krossuð. Þótt Jóhanna hafi hafnað málflutning andstæðinga ESB, þá gegnir öðru máli ef upplýsingarnar koma frá sjálfu átrúnaðargoði ríkisstjórnarinnar. Þarf Jóhanna ekki að svara fyrir þetta?
Fréttamenn hinnar stjórnlægu fréttastofu báru okkur fréttina um framboð og markmið Joly án þessa að spyrja hvað tæki við þegar búið væri að hreinsa stíuna. Varla efast þeir um að Joly takist ætlunarverkið. Ekki eyðir Joly ævinni í skúringar? Hvar verður Joly um næstu jól?
Og þá væri ekki úr vegi að upplýsa í hvað mörg ár til viðbótar við fáum að njóta þeirra gleði að greiða Joly 70 milljónir á mánuði fyrir fjögurra daga vinnu.
Mynd 1: www.naturavox.fr
Mynd 2: www.forumnacional.net
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.5.2009 | 17:57
Nýja hugsun, nýja stjórn
Fyrir nokkrum árum fór hér fram lífleg umræða um innflutning á norskum kúm eða kúavísum eins og það var þá kallað. Þetta var á uppgagnstímum og margir bændur vildu stórar kýr, meiri mjólk og meiri hagræðingu. Mótrökin voru að norsku kýrnar væru of þungar á fóðrum og of þungar á fæti, að auki gætu þær borið hingað sjúkdóma sem ekki hefðu numið hér land áður. En þau rök sem helst hlutu hljómgrunn hjá almenningi voru þau að líklega væri íslensk kúamjólk hollari en önnur mjólk. Efnasamsetning mjólkur væri önnur en í skandínavískum kúm og orsakaði síður sykursýki í börnum. Hagræðingarbændur lutu í lægra haldi í umræðunni. Við þökkum fyrir það núna.
Ekki er víst hvernig þessari deilu hefði lyktað hefðum við verið gengin Noregskonungi á hönd eins og nú er komið. Norsk náðarsemi hefði þá að líkindum sent okkur vísana óumbeðin og nú væru allar mýrar sneisafullar af kviðsokknum kúm af tröllslegu norsku kyni, svo ekki sé minnst á umframmjólkina í flórnum. Hefðum við verið gengin í ESB hefði umræðan líklega aldrei átt sér stað því þá væri hver bær á Íslandi með sinn sérstaka evrópska kúastofn vegna nýjungagirni bænda og reglna ESB um óheftan flutning kvikfjár milli sambandslanda. Huppa og Skjalda hefðu þá farið sömu leið á ruslahauga sögunnar og hálstau alþingismanna.
En nú gætu daga Skjöldu aftur verið að renna upp. Menn eru að uppgötva að smátt sé ekki bara fallegt heldur getur smátt líka verið hagkvæmt. Gömlu evrópsku kúakynin sem flutt voru til Bandaríkjanna fyrir meira en 200 árum eru nú að fá uppreisn æru. Eftir áratuga kynbætur sem miðuðu að því að tröllgera þessar skepnur; auka kjöt og mjólkurframleiðslu þeirra hafa menn komist að því að fóðrun þeirra svari tæplega kostnaði. Dvergarnir frá Hereford skila eftirsóttari afurð en kynbættu risaeðlurnar og það má jafnvel hafa þá sem gæludýr í garðinum ef svo ber undir. Þessi krútt eru svo vistvæn.
Landnemakýr þykja nú aftur kostagripir. Um 300 hjarðir eru nú vítt og breitt um BNA og eftirspurnin eykst. Dýrt fóður, takmörkuð beitarlönd breyta hugsun bænda. Það virðist reyndar þurfa kreppur með reglulegu millibili til að rétta af kompásinn, en þeir sem hugsa hraðast komast best út úr kreppunum. Á Íslandi kjósa menn yfir sig ríkisstjórn sem hvorki getur, kann né þorir.
Hér sitjum við upp með ríkisstjórn sem hugsar ekki neitt. Hún ber dauðann í sér. Ríkisstjórn sem læsir tapskýrslur bankanna inni í loftþéttum hólfum og dulkóðar innihaldið; einvers konar þyrnigerði bernskuheima. Ef einhver hugsun er á bak við þessa aðgerð má leiða að því líkum að meðan skýrslurnar koma ekki fyrir sjónir almennings þá séu þær bara ekki til. Þetta er gamla sagan um strútinn í sandgryfjunni.
Til að breiða yfir hugmyndafátæktina dregur ríksistjórnin hvert gæluverkefnið á fætur öðru upp úr pússi sínu. Allt óarðbær verkefni sem hafa þann tilgang einan að hefta einstaklingsfrelsi; einstaklings hugsun. Verkefni sem urðu til á velmegunarárum þegar kostnaður var afstætt fyrirbæri. Tíminn sem ætti að fara í að keyra atvinnulífið í gang og koma þannig í veg fyrir gjaldþrot heimilanna fer nú í að vasast í einkamálum einstaklinga. Þegar ekki vill betur til er fatasmekkur fólks orðinn mál málanna. Bindi um háls þykir eitthvað svo púkó, en strengur um lend þarf nú nauðsynlega að uppfylla ýtrustu þekjustaðla siðapostulanna.
Fólk er ekki að fara fram á mikið, aðeins að stjórnin láti hendur standa frammúr ermum. Vinni með það sem við höfum (landnámskýr ef ekki vill betur) og noti ímyndunaraflið. Leyfa frumlegri hugsun að njóta sín í atvinnulífinu. Láta þá sem kunna til verka spreyta sig án þess að standa sífellt með björgunarhringinn á bakkanum. Það eru til peningar í landinu til að leggja í rekstur þessara fyrirtækja sem nú safnast upp í peningageymslum ríkisbankanna. En það er enginn tilbúinn að leggja út í slíkann rekstur með Steingrím Joð og sóvéthersveitir hans andandi ofan í hálsmálið. Þessi stjórn sem við búum við hugsar í ríkislausnum. Hún kann bara að dreifa annarra manna fé og nú þegar það er ekki fyrir hendi þá er hún andlaus. Hún á að sjá sóma sinn í því að fara frá og láta öðrum eftir að koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang.
Forfeður okkar tóku áhættu þegar þeir fluttu bústofn sinn til Íslands, en það var þeirra val og þeir lifðu hér af. Þeir höfðu áræðið og útsjónasemina sem svo tilfinnanlega skortir hjá ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms Joð. Hugur þeirra stóð hærra og það þurfti ekki að segja þeim að lífsbjörgin hafði forgang yfir dægurdekrið.
Enda vissu menn þá enn til hvers blóðið rann í æðum þeirra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.5.2009 | 17:19
Orðstír RÚV fer víða.
Miðillinn hefur sérhæft sig í að flytja landsmönnum einhæfan boðskap og aldrei annað en það sem starfsmönnum og útvöldum stjórnmálamönnum er þóknanlegt. Þetta hafa erlendir erindrekar rekið augun í og séð að þarna mætti fylgja fordæmi. Og nú hefur hinn nútímalegi Messías í BNA séð sér leik á borði og komið sér upp víðlíka verkfæri til að tryggja að rétti prófíllin sé alltaf sýndur þegar hann á í hlut.
Það hefur nefnilega borðið dálítið á því að undanförnu að Pressan sé farin að þreytast á hundaólinni sem hún sjálfviljug setti á sig þegar Barak Obama sté fram á leiksviðið. Stóru dagblöðin og sjónvarpsstöðvarnar, eins og Washington Post og New York Times, ABC og MSNBC, eru að átta sig á að sjónhverfingin sem þau féllu svo flöt fyrir er nú akkúrat það sem hún er. Blettirnir á geislabaugnum eru raunverulegir rétt eins og tvísagan í flestum málum og það dugir ekkert Silvo til að má þetta af.
Í upphafi voru miðlarnir himinlifandi yfir að draumaprinsinn skyldi hreppa konungdóminn, en nú eru að renna á þá tvær grímur. Obama líður enga lausung í samskiptum við fjölmiðla. Blaðamannafundirnir eru þaulskipulagðir og Obama ákveður fyrirfram hverjir megi spyrja spurninga og hann ákveður líka hvaða spurningarnar má bera fram. Vandinn er að Obama getur ekki alltaf séð fyrir að einhverjir ódannaðir fréttasnápar reyni að slá keilur á hans kostnað með óþægilegum spurningum. Og ljósmyndararnir eru ekkert betri. Ef sá gállinn er á þeim neita þeir sér ekki um að mynda Messa við að bora í nefið eða eitthvað enn nú óforsetalegt.
En þegar neyðin er stærst........... fréttist það til BNA að á Íslandi gætu stjórnvöld komist upp með morð af því að þau ættu fréttamiðil sem aldrei sýndi annað en sólina á sunnudögum þegar stjórnvöld væru annars vegar. Nú þegar 100 daga hveitibrauðsdögum Obamastjórnarinnar er lokið og grimmur hvunndagurinn tekinn við, var Obama kominn í startholurnar; búinn að koma sér upp litlu kvikmyndatökuteymi sem sér um að birta aðeins það sem Messa er þóknanlegt. Hingað til hafa þeir aðeins stigið eitt feilspor, en það var þegar þeir sendu herþoturnar til að hrella NY-búa um daginn. Eftir á að hyggja var það kannski ekki feilspor, heldur forsmekkurinn að því sem koma skal.
Obama-ljóma-rjómaver ehf
Þessi litli video-stubbur sýnir hvernig Obama vill að tekið sé á fréttaefni frá Hvítahúsinu. Körfuboltalið var heiðrað með heimboði til Snillingsins mikla og göfgin lekur af hverjum manni; allir tilbúinir að fórna sér og framtíð sinni fyrir góðverk í annarra þágu (afsakið meðan ég; bðöööööö). Slíka helgislepju er hvergi að finna nema þar sem hið "framsækna, frjálslynda vinstri", sem þekkir enga sjálfsgagnrýni, hefur náð völdum.
Hrun bankanna varð ekki til að gefa ímynd Íslands neinn gæðastimpil, en ef það spyrst nú út að við séum orðin fyrirmynd fyrir sjálfhverfa pólitíkusa, með einræðistilburði í PR málum, er orðspor okkar endanlega sokkið.
Kim Il Sung og félagi hans Omar al-Bashir munu fljótlega fylgja í fótspor Ljóss heimsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2009 | 23:31
Eftir hverju bíður ESB?
Af hverju tekur Evrubandalagið bara ekki upp krónuna. Getur þessi tangó í kringum evruna orðið mikið verri?
Takið eftir að samdrátturinn í landsframleiðslu hefst strax á útmánuðum í fyrra og ECB á enn í erfiðleikum með að viðurkenna að eitthvað sé að.
Verðum við ekki að senda Nossarann í Seðlabankanum til að liðsinna þeim? Er Noregur ekki hið leiðandi afl Evrópu á flestumm sviðum þessa dagana?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Janúar 2021
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Desember 2014
- Júlí 2014
- Desember 2012
- Maí 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
Bloggvinir
-
baldher
-
gattin
-
tilveran-i-esb
-
gun
-
gustaf
-
haddi9001
-
heimssyn
-
aglow
-
jonvalurjensson
-
ksh
-
altice
-
skrafarinn
-
sigurgeirorri
-
blauturdropi
-
postdoc
-
olijoe
-
hugsun
-
iceberg
-
annabjorghjartardottir
-
borgfirska-birnan
-
eeelle
-
gessi
-
elnino
-
muggi69
-
gustafskulason
-
bassinn
-
krist
-
samstada-thjodar
-
fullveldi
-
valdimarjohannesson
-
thjodarheidur
Bækur
Valið er mitt
Á, við og undir náttborðinu
-
: The Tyranny of Guilt; An Essay on Western Masochism (ISBN: 978-0-691-14376-7)
Góð greining á vandamálum Vesturlanda
-
: Þjóðmál_sumar 2010
Skyldulesning ársins
-
: Vísnafýsn (ISBN: 978-9979-2-2115-9)
Léttleiki í fyrirrúmi með djúpum undirtón
-
: Margherita Dolce Vita (ISBN: 1-933372-20-6)
Ádeila á neysluhyggju sögð með of mörgum orðum.
-
: Stolen without a Gun; confessions from inside history´s biggest accounting fraud (ISBN: 978-0-9797558-0-4)
Kennsla í aðferðafræði. -
: The Curious Incident of the Dog in the Night-Time (ISBN: 0 099 47043 8)
Sérstök bók; fyndin og döpur í senn.
-
: 79 af stöðinni (ISBN: 978-9979-53-523-2)
Sunnlenska bókakaffið blífur
-
: The Big Sort (ISBN: 978-0-618-68935-4)
Pólarísering í velmegunar samfélagi.
-
: Slander (ISBN: 1-4000-4952-0)
Fróðleg og fyndin
-
: Fjölmiðlar 2007 (ISBN: 978-9979-651-36-9)
Góð upprifjun
-
: The Nanny State (ISBN: 978-0-7679-2432-0)
Forsjárhyggja framar öllu
-
: Shakespeare (ISBN: 13-978-0-00-719790-3)
Það sem við vitum ekki um skáldið frá Stratford. Í senn fyndin og fróðleg.
-
: Shoot the Puppy (ISBN: 978-0-141-02706-7)
Útlistun á orðræðu viðskipta-og fjármálageirans, þar sem stríðsleikir samtímans fara fram.
-
: Lost in Translation (ISBN: 978-1-84317-272-7)
Góð í ferðalagið
-
: Surrender Is Not an Option (ISBN: 978-1-4165-5284-0)
Segir allt sem segja þarf um erindisleysu okkar í Öryggisráð SÞ
-
: House of Meetings (ISBN: 978-0-676-97787-5)
Bók sem vert er að eyða tíma í að lesa.