Leita í fréttum mbl.is

Nýja hugsun, nýja stjórn

Fyrir nokkrum árum fór hér fram lífleg umræða um innflutning á norskum kúm eða kúavísum eins og það var þá kallað. Þetta var á uppgagnstímum og margir bændur vildu stórar kýr, meiri mjólk og meiri hagræðingu. Mótrökin voru að norsku kýrnar væru of þungar á fóðrum og of þungar á fæti, að auki gætu þær borið hingað sjúkdóma sem ekki hefðu numið hér land áður. En þau rök sem helst hlutu hljómgrunn hjá almenningi voru þau að líklega væri íslensk kúamjólk hollari en önnur mjólk. Efnasamsetning mjólkur væri önnur en í skandínavískum kúm og orsakaði síður sykursýki í börnum. Hagræðingarbændur lutu í lægra haldi í umræðunni. Við þökkum fyrir það núna.

Ekki er víst hvernig þessari deilu hefði lyktað hefðum við verið gengin Noregskonungi á hönd eins og nú er komið. Norsk náðarsemi hefði þá að líkindum sent okkur vísana óumbeðin og nú væru allar mýrar sneisafullar af kviðsokknum kúm af tröllslegu norsku kyni, svo ekki sé minnst á umframmjólkina í flórnum. Hefðum við verið gengin í ESB hefði umræðan líklega aldrei átt sér stað því þá væri hver bær á Íslandi með sinn sérstaka evrópska kúastofn vegna nýjungagirni bænda og reglna ESB um óheftan flutning kvikfjár milli sambandslanda. Huppa og Skjalda hefðu þá farið sömu leið á ruslahauga sögunnar og hálstau alþingismanna.

eco-vænar Hereford kýrEn nú gætu daga Skjöldu aftur verið að renna upp. Menn eru að uppgötva að smátt sé ekki bara fallegt heldur getur smátt líka verið hagkvæmt. Gömlu evrópsku kúakynin sem flutt voru til Bandaríkjanna fyrir meira en 200 árum eru nú að fá uppreisn æru. Eftir áratuga kynbætur sem miðuðu að því að tröllgera þessar skepnur; auka kjöt og mjólkurframleiðslu þeirra hafa menn komist að því að fóðrun þeirra svari tæplega kostnaði. Dvergarnir frá Hereford skila eftirsóttari afurð en kynbættu risaeðlurnar og það má jafnvel hafa þá sem gæludýr í garðinum ef svo ber undir. Þessi krútt eru svo vistvæn.

Landnemakýr þykja nú aftur kostagripir. Um 300 hjarðir eru nú vítt og breitt um BNA og eftirspurnin eykst. Dýrt fóður, takmörkuð beitarlönd breyta hugsun bænda. Það virðist reyndar þurfa kreppur með reglulegu millibili til að rétta af kompásinn, en þeir sem hugsa hraðast komast best út úr kreppunum. Á Íslandi kjósa menn yfir sig ríkisstjórn sem hvorki getur, kann né þorir.

J&StJHér sitjum við upp með ríkisstjórn sem hugsar ekki neitt. Hún ber dauðann í sér. Ríkisstjórn sem læsir tapskýrslur bankanna inni í loftþéttum hólfum og dulkóðar innihaldið; einvers konar þyrnigerði bernskuheima. Ef einhver hugsun er á bak við þessa aðgerð má leiða að því líkum að meðan skýrslurnar koma ekki fyrir sjónir almennings þá séu þær bara ekki til. Þetta er gamla sagan um strútinn í sandgryfjunni.

Til að breiða yfir hugmyndafátæktina dregur ríksistjórnin hvert gæluverkefnið á fætur öðru upp úr pússi sínu. Allt óarðbær verkefni sem hafa þann tilgang einan að hefta einstaklingsfrelsi; einstaklings hugsun. Verkefni sem urðu til á velmegunarárum þegar kostnaður var afstætt fyrirbæri.  Tíminn sem ætti að fara í að keyra atvinnulífið í gang og koma þannig í veg fyrir gjaldþrot heimilanna fer nú í að vasast í einkamálum einstaklinga. Þegar ekki vill betur til er fatasmekkur fólks orðinn mál málanna. Bindi um háls þykir eitthvað svo púkó, en strengur um lend þarf nú nauðsynlega að uppfylla ýtrustu þekjustaðla siðapostulanna. 

Fólk er ekki að fara fram á mikið, aðeins að stjórnin láti hendur standa frammúr ermum. Vinni með það sem við höfum (landnámskýr ef ekki vill betur) og noti ímyndunaraflið. Leyfa frumlegri hugsun að njóta sín í atvinnulífinu. Láta þá sem kunna til verka spreyta sig án þess að standa sífellt með björgunarhringinn á bakkanum.  Það eru til peningar í landinu til að leggja í rekstur þessara fyrirtækja sem nú safnast upp í peningageymslum ríkisbankanna. En það er enginn tilbúinn að leggja út í slíkann rekstur með Steingrím Joð og sóvéthersveitir hans andandi ofan í hálsmálið. Þessi stjórn sem við búum við hugsar í ríkislausnum. Hún kann bara að dreifa annarra manna fé og nú þegar það er ekki fyrir hendi þá er hún andlaus. Hún á að sjá sóma sinn í því að fara frá og láta öðrum eftir að koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang.

Forfeður okkar tóku áhættu þegar þeir fluttu bústofn sinn til Íslands, en það var þeirra val og þeir lifðu hér af. Þeir höfðu áræðið og útsjónasemina sem svo tilfinnanlega skortir hjá ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms Joð. Hugur þeirra stóð hærra og það þurfti ekki að segja þeim að lífsbjörgin hafði forgang yfir dægurdekrið.

Enda vissu menn þá enn til hvers blóðið rann í æðum þeirra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband