Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Á gömlum pallbíl til Washington

Það hefur verið áhugavert að fylgjast með viðbrögðum demókrata eftir hinn sögulega ósigur þeirra í Massachusett í vikunni. Nina Totenberger, álitsgjafi á Inside Washington, segir að það hafi verið reiði kjósenda í garð bankamanna sem réði úrslitum. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins tekur undir þetta. Í tilfelli Nínu má flokka þessa afstöðu undir meðvirkni og skort á sjálfstæðri hugsun innvígðra demókrata. Leiðarahöfundurinn er enn ekki kominn af því rósbleika skýi sem Obama sveipaði umheiminn árið 2008. En forsetinn er ekki beinlínis að leiða hjörð sína inná grænni haga. Kjósendur eru að átta sig á því. Hann bregst við áfallinu vegna aukakosninganna í Mass, með hótunum í garð bankamanna með Volker gamla sér við hlið og veruleikafirringu sína kórónar hann með því að segja sigur Browns  vera sambærilegan við þá bylgju sem fleytti honum inn í Hvíta húsið, þ.e. reiði í garð ráðandi afla síðastliðin átta ár.

Bush að kennaHalló! Var repúblikaninn Brown kosinn með 31% viðsnúningi frá því í forsetakosningunum fyrir rúmu ári vegna þess að íbúar Mass eru enn reiðið út í Bush? Er ekki ástæða til að skoða þetta aðeins nánar. 

Í Mass eru aðeins 12.5% kjósenda skráðir fylgjendur Repúblikanaflokksins. Þrisvar sinnum færri en skráðir demókratar. Er það þess vegna sem demókratar koma allir bláir og marðir út úr þessum kosningum sem að mati Obama snerust um reiði kjósenda í garð Bush? Eftir ár á forsetastóli er tímabært að Obama fari að gangast við afleiðingum eigin verka.

Brúnn vs bláir og marðir

Massað í Mass

The Drudge Report heldur því fram að Obama "Hrifningin sé uppgufuð" (Thrill is gone) og Drudge er ekki einn um að halda þessu fram. Rasmussen Report hefur vinsældastuðul Obama í -19 í gær og stuðullinn hefur ekki verið jákvæður síðan um miðjan júlí. Í Þýskalandi, þar sem fyrir aðeins einu og hálfu ári síðan hundruð þúsundir hylltu Messías við Sigursúluna, birtir Der Spiegel umfjöllun um málið undir fyrirsögninni "Heimurinn kveður Obama" (The World bids Farewell to Obama). Hvernig var hægt að glutra þessum gífurlega meðbyr niður á aðeins einu ári? Var kannski aldrei innistæða á reikningnum? Var aldrei nein von í Voninni?

Var það kannski vegna þess að Obama sökkti sér í að ná fram pólitískum markmiðum sínum og gleymdi að tala til fólksins, eins og hann heldur nú fram. Það hljómar ekki sem trúverðug afsökun. Samkvæmt samantekt CBS fréttastofunnar hefur Obama veitt 158 viðtöl og haldið 411 ræður síðan hann tók við sem forseti . Fleiri en nokkur annar forseti á undan honum og að sumra mati fleiri en þeir allir til samans. Það vantar sem sé ekkert uppá orðgnóttina og því síður skrúðmælgina.

En Brown í Massachusetts er ekki boðberi fyrstu ótíðindanna fyrir Obama. Á undan honum komu ósigrar í ríkisstjórakosningum í Virginíu og New Jersey. Tvær fýluferðir til Kaupmannahafnar, fyrirburður í Osló og höfnun bandamanna hans í NATO á liðsauka til Afganistan. Og þeir sem dýrast seldu sig til að koma umbótafrumvarpi Obama í heilbrigðismálum (Obamacare) í gegn eru nú í frjálsu falli í vinsældakönnunum í fylkjum sínum. Nei, allt þetta getur ekki verið Bush að kenna.

Staðreyndin er að samkvæmt könnun sem Fabrizio, McLaughlin & Associates gerði sögðu 78%kjósenda Brown að þeir hefðu kosið hann til að hindra Obamacare og aðeins 25% allra kjósenda nefndu efnahagsmálin. Splunkuný könnun í Maryland greinir 53% andstöðu við Obamacare og aðeins 11% nefna efnahagsmálin sem áhyggjuefni.

Brown hafði þrjú mála á sinni dagskrá: hindra að Obamacare kæmist í gegn, afnema rétt hryðjuverkamanna til lögfræðilegrar aðstoðar á frumstigi rannsóknar og stöðva skattahækkanir og til vara; lækka skatta. Tiltölulega einföld kosningabarátta sem fólk átti ekki neinum erfiðleikum með að taka afstöðu til.

Það er nefnilega að kom betur og betur í ljós að þrátt fyrir alla fljúgandi ræðusnilldina (sem aðrir sjá um að skrifa) og mjúkmælgina, þá á Obama enga samleið með fólkinu í landinu. Fólkinu sem trúði því að nýir tímar færu í hönd, tími flokkadrátta myndi líða undir lok og eilíf sæla umvefja þjóðina. Í staðinn horfa menn upp á að öll þessi fantafína oratoría opinberar gjána sem liggur milli hans og hins almenna borgara. Hvað fékk hann til að tala niður til Brown og væna hann um lýðskrum með því að keyrir um á gömlum pallbíl. Um hvað var hann að hugsa? Er hann þarna að dæma útfrá eigin reynslu af samflokksmönnum sínum? Eða var hann kannski ekkert að hugsa? Var hann bara lokaður í sínum upphafna heimi þar sem hann situr ásamt þessum 10-12% sem hefur talað sig út úr veruleika hins almenna vinnandi manns og inní draumaveröld útópíunnar. Veruleikinn sem lætur 92% byrðarinnar af framlögðu heilbrigðisfrumvarpi á herðar vinnandi fólks á frjálsum markaði. Díllinn sem gerður var við Stéttarfélögin til að fá stuðning þeirra við frumvarpið skilur eftir óbragð í munni og sýnir hvert baktjaldamakkið leiðir. 

 Ritstjóri Newsweek, Fineman, sem greinilega er á sömu bylgjulengd og Obama, Breyting segir "sumstaðar" beri svona pallabíla með sér ákveðið stigma, það megi jafnvel segja að pallbílar stand fyrir ákveðna tegund rasisma. Mark Steyn sér fyrir sér að Brown hafi náð að keyra upp dágóðan slatta af rasisma á þessum 200.000 mílum sem hann hefur náð út úr trukknum, en varla sé við öðru að búast í þessu fúafeni Klu klux klan-hreyfingarinnar sem Massachusetts ríki er.

Demókratar geta látið sem Te-partýin hafi aldrei átt sér stað eða almennu fundirnir þar sem hróp voru gerð að þingmönnum demókrata síðsumars, ósigrarnir í Virginíu og New Jersey og nú Brown í Massachusetts, en  ef þeir gera það þá eru þeir eins lánlausir og ríkisstjórnin sem nú situr á Íslandi og grefur sér sífellt dýpri gröf.

Á endanum áttar fólk sig á að það er ekki orðsnilld sem fyllir grautarskálina heldur verkkunnátta. Það var mikið fjallað um reynsluleysi varaforsetaefnisins Söru Palin í kosningabaráttunni í BND 2008. Þótti ótækt að kona sem hefði enga reynslu af utanríkispólitík ætti erindi inní þá baráttu. Einhvern veginn áttu menn ótrúlega auðvelt með að líta framhjá þeirri staðreynd að sá sem sóttist eftir æðsta embætti landsins hafði heldur enga reynslu á því svið og hafði í raun aldrei verið nógu lengi í neinu starfi til að skilja eftir sig spor.

Nú er þessi staðreynd að verða mönnum ljós.

 

Allar myndir af: www.townhall.com

 


Út yfir gröf og dauða

Lýðræðið vefst fyrir sumum.

 

Stóra spurningin er "hver á Massachusetts þingsætið" sem Edward Kennedy yfirgaf (óviljugur) í sumar?

Rétt eins og kratarnir "eiga" Hafnarfjörð hafa Kennedýarnir slegið eign sinni á þingsæti Massachusetts. Ef svo ólíklega vildi til að enginn Kennedy vitjaði fæðingarréttar síns og tæki sæti sitt í öldungadeild Bandaríkjaþings, þá er trú manna að sjálfkrafa gangi það til Demókrataflokksins. Eða þannig.

Ef svo ólíklega vildi til að demókrati tapaði sætinu til repúblikana í kosningum þá gengur plan B í gildi. Nokkurra vikna eða mánaða endurtalning atkvæða. Sú gæti orðið staðan ef demókratar þurfa að tryggja meirihluta fyrir frumvarpi Obama um "heilbrigðisumbætur" með "bráðabirgða" þingmanninum. Þá kemur sér líka vel að bæði fylkisstjóri og dómsmálaráðherra Mass eru demókratar. Þeir sem fylgdust með manipúleringum ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms Joð með seðlabankastólinn átta sig á aðferðafræðinni.

En einstaka sinnum eru menn minntir á að þingsæti er ekki þinglesin eign eins né neins. Lýðræðið er eign fólksins. Jóhanna og Steingrímur Joð fengu sína áminningu þann 5. janúar.

Skyldi röðin einhvern tíma koma að íbúum Massachusetts? 


Tæpitungulaust

Ingvi Hrafn talar tæpitungulaust

Ef ekki tilfallandi höfuðhögg þá í það minnsta genetískt.


Rythym´n´Blues

Það er ekki hjá því komist að minnast Kóngsins.

  Take it from the top, boys. 

elvis and the Jordanians 1956

Elvis og Jórdanirnir 1956

 www@time.com

 


Líkt og reykurinn leitar útsvarið upp

Hvar nema í Morgunblaðinu gæti slík fyrirsögn komist á miðopnu fréttablaðs? Hér ræður ferð listræn hugsun og næm málvitund góðs blaðamanns og þá skiptir máli hver ritstjórinn er. Davíð Oddsson er listrænn arftaki Matthíasar Johannessen á ritstjórastóli Morgunblaðsins en jafnframt pólitískur skylmingameistari. Þetta er hinn nýi raunveruleiki sem andstæðingar Sjálfstæðisflokksins standa andspænis. Ekki að furða þótt um þá fari.

Það er mikill þungi í herkvaðningunni sem send hefur verið til andstæðinga Sjálfstæðisflokksins þessar dagana. Rykið hefur verið dustað af gömlu Albaníu-aðferðinn. Mogginn er hin nýja Albanía  og Davíð Oddson er hið illa sem "heiðarlegir" menn skulu ekki leggj lag sitt við: Segið upp Mogganum! Mogginn er pólitískur! Vei, vei. Fjölmiðlar eiga að vera ópólitískir (eða hallir undir ESB ella)! Davíð er skúrkur! Vei, vei.  Hann er hönnuður Hrunsins! Vei, vei. Davíð á ekki að hafa skoðun á endurreisninni! Vei, vei. Davíð er á móti Samfylkingunni, Steingrími Joð og Þráni Bertelssyni! Hann er á móti ESB! Vei, vei þeim illa manni!

Það verður að segjast eins og er að blessaður Ólafur Stephensen er ekki öfundverður af hlutverki fórnarlambsins sem hann hefur verið holdgerður í. Vandamál Ólafs, sem ritstjóra, var að engin leið var að greina hann frá Kaldal á Fréttablaðinu eða Páli á RÚV (DV telst ekki með því það er aðeins einsmanns rógsherferð). Þrír menn með sömu heimssýn: ESB hvað sem það kostar og karlar takið þátt í þrifunum. Hvergi í heiminum, utan hugsanlega Norður Kóreu, er litið á það sem kost að allir fréttamiðlar lands hljómi sem einn samhæfður kór. Íslenskir fjölmiðlungar, í sjálfumgleði síðustu ára, virtust ekki gera sér grein fyrir að enn finnast á Íslendi einstaklingar sem gera tilkall til sjálfstæðrar tilvistar. 

En þannig var landslagið á blaðamarkaði á Íslandi áður en Davíð tók við ritstjórn Morgunblaðsins. Nú kveður við nýjan tón. Það hefur kviknað líf þar sem ekkert líf var fyrir. Nú er samanburðurinn við aðra miðla áþreifanlegur. Skoðið bara þessa mynd hér að neðan. Hefði hún getað birtst í Fréttablaðinu? Nei, en hún lýsir þeim veruleika sem við stöndum nú frammi fyrir með "norrænu velferðarstjórnina" hennar Jóhönnu og Steingríms Joð. Tuttugu og fimm til þrjátíu ár aftur í tímann er loforð sem þau ætla sér að standa við. Hvað sem tautar og samþykkt ríkisábyrgðarinnar á Icesave þann 30. desember á að tryggja að þau geti staðið við orð sín.

Fortíðarhyggja-IFortíðarhyggja-II

Götumynd: Austurstræti á níunda áratugnum birt (endurbirt?) í Morgunblaðinu 24. des. 2009.

En gerðust einhver stórmerki þegar Davíð settist í ritstjórastólinn? Eru þetta ekki sömu blaðamennirnir sem eru að skrifa í blaðið? Eru þeir eitthvað verri skríbentar nú en þegar Ólafur stýrði ferð? Ekki verð ég vör við það. Andri Karl,Rúnar Pálmason, sem á setninguna sem prýðir þessa færslu, Kristján Jónsson, Karl Blöndal, Egill Ólafsson, Önundur Páll, amasónan Agnes og snilldarpennarnir Pétur Blöndal og Kolbrún Bergþórsdóttir eru öll enn til staðar. Um viðskiptavitið sjá svo Bjarni, Ívar, þórður og Örn. Vill einhver í alvöru halda því fram að þetta fólk hafi glatað verkkunnáttu við það eitt að ritstjóraskipti urðu á blaðinu. Vissulega er áferðin á blaðinu önnur. Það er meiri léttleiki yfir skrifunum, dálítið eins og þegar kálfum er hleypt út á vorin. Um það ræður ritstjórn. Styrmir Gunnarsson hafði á orði að þessa dagana sé skemmtun í lestri blaðsins.

Jú, blaðið er orðið pólitískara. En það er ekki til vansa. Þeir sem lesa Staksteina átta sig á muninum. Og stjórnmálamenn finna fyrir bitinu. Hvernig stendur "skjaldborg" ríkisstjórnarinnar fyrir fjöldkyldur og heimili samanburð við skjaldborg Hjálpræðishersins fyrir þá sem minnst mega sín? Hvernig standa vígorð Þráins Bertelssonar í Fréttablaðinu gagnvart afstöðu hans til Icesave? Össur og sannleikurinn? Steingrímur Joð og loforðin? Það undrar engan að fylgjendur þessarar duglausu ríkisstjórnar leggi nú allt kapp á að níða Morgunblaðið og ritstjórn þess í svaðið, því getuleysið ríkisstjórnarinnar er nú afhjúpað á hverjum einasta degi á síðum blaðsins. Aðeins valdafíkn, kúgun og ofbeldi heldur ríkisstjórninni saman.

En það er ekki bara beinhörð pólitík sem gerir Morgunblaðið þess virði að lesa það þessa dagana. Fréttaskýringarnar eru opnari, greinarbetri og víðsýnni. Hörmungar heimsins eru enn til staðar en lesendum er ekki lengur gert að taka á sig þjáningar heimsins, misskiptingu ábyrgðar í heimilisrekstri eða eyðingu ozonlagsins. Það þarf heldur ekki alltaf að taka marga dálksentimetra til að koma kímninni til skila, en þeir sem lásu umfjöllun Önundar Páls Ragnarssonar um "En kæmpe dansk christmas-fest" og horfðu á "showið" vita um hvað ég er að tala. Skapti Hallgrímsson sér svo um léttleikann fyrir Norðandeildina.

Styrkur blaðsins felst ekki hvað síst í frábærri grafíkdeild og yfirburða samsafni ljósmyndara sem fá að njóta afraksturs erfiðis síns dag hvern. Alþjóð þekkir verk RAX, en Ómar, Golli, Kristinn og Einar Falur láta sitt ekki eftir liggja. En fjölmargir aðrir, sem ekki eru nefndir hér, eiga sinn þátt í að gera Morgunblaðið að blaði allra landsmanna. Menningartengt efni blaðsins byggir ekki lengur á úreltum bókmenntakenningum afbyggingar og grótesku. Í dag er það tilhlökkunarefni þegar Sunnudags-Mogginn kemur inn um lúguna. Og tilhlökkunina má treina sér frameftir vikunni, því svo fjölbreytt og fróðlegt er efni blaðsins.

Þegar ég hóf þessa færslu ætlaði ég aðeins að skrifa mig frá þeim illa gjörning sem framinn var á Alþingi Íslendinga að kvöldi hins 30. desember. Vildi einfaldlega líta til þess sem jákvætt hefur gerst á því dæmalausa ári sem nú er liðið. Þetta átti ekki að veraða nein lofrolla, en þegar litið er yfir þessa liðlega tvo mánuði sem ég hef aftur verið áskrifandi að Morgunblaðinu fann ég ekkert nema gleði yfir þeim umskiptum sem átt hafa sér stað á blaðamarkaði á Íslandi. Megi frjáls hugsun og fjölbreytt mannlíf blómstra hér sem aldrei fyrr í krafti öflugrar blaðamennsku.

Bloggvinum mínum sendi ég mínar bestu nýjárs óskir.


Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband