Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Er Samfylkingin í Sjálfstæðisflokknum?

Eða er Sjálfstæðisflokkur og Samfylking gengin í eina sæng. Hvað kemur það eiginlega landsfundi Sjálfstæðisflokksins við hvernig Samfylkingin skipar sitt ráðherralið. Sagði ekki Ingibjörg strax eftir stjórnarmyndun að vel kæmi til greina að hún myndi hrókera eitthvað í ráðherraliðinu á kjörtímabilinu.

Er það núna undir landsfundi Sjálfstæðisflokksins komið hvað hún gerir með sína liðssveit? Verður Geir að sitja og standa eins og hún segir?

Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að láta þessa liðleskju skipa sér fyrir verkum. Vestamanneyingar og Ísfirðingar hafa skorað á hann að slíta samstarfinu og boða til kosninga. Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki koma vel út úr þeim, en verr kemur hann út úr þessu ógnarsambandi sem hann virðist fastur í um sinn.


mbl.is Bíða fram yfir landsfund Sjálfstæðisflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er ég? ragnhildurkolka 1:6.750.606.383 þegar síðast var talið.

Nú eru síðustu forvöð að nýta sér frelsið. mbl.is ætlar nefnilega að moka flórinn. Kasta út öllum þessum siðlausu nafnleysingjum sem saurgað hafa síður þessa óspjallaða bloggs og fengið það til að roðna í kinnum og hitna á eyrum. Ég er víst í hópi þessara ódæðismanna. Áramótin eru "deadline".

Ég sem hélt að netið, jafnvel moggabloggið væri frelsið í fjölmiðlum, þ.e. svo fremi sem maður er tilbúinn að bera ábyrgð á orðum sínum. Það er í það minnsta sú viðvörun sem við manni blasir þegar ýtt hefur verið á send takkann. Var jafnvel svo einföld að halda að bloggið væri bara svona afþreying eða skemmtun fyrir fólk með takmarkaðan áhuga á maka, líkamsrækt eða sjónvarpi.

Nei, mbl.is lítur á sig sem alvöru miðil, sóðakjöftum skal úthýst ef þeir gangast ekki undir ok þjóðskrár. Gott og vel, af hverju ekki DNA? Hvað hefur þjóðskrá fram yfir DNA mælingu?

Svo lengi sem ég man, og það er lengur en rafræn skráning þegna þessa lands hefur varað, hef ég kynnt mig á ákveðinn hátt - Ragnhildur Kolka, góðan daginn - lengst af án áreitis frá hinu opinbera. Hélt reyndar að hið opinbera væri bara að nuða þetta með millinafnið til að tryggKa sér skattpening. Hélt ekki að fyrirtæki út í bæ gætu beitt einstaklinga útskúfun á grundvelli þessara opinberu gagna. Sérstaklega þar sem enginn fjárhagslegur hagnaður er af samskiptunum. 

En svo kemst ég að því að mbl.is er dauðans alvara og hótar að taka af mér þessa skemmtun af því ég heiti einhverju millinafni sem ég hef aldrei notað og mun örugglega ekki standa á leiði mínu þegar þar að kemur.

mbl.is telur sig ekki getað greint mig frá suðsvörtum almúganum ef ég skrái mig ekki samkvæmt þjóðskrá. Sauðsvartur almúginn er ekki bara þessar 319.756 hræður sem skráðar voru hér á landi þann 1. desember og hver enginn bar nafnið ragnhildurkolka heldur líka þessir 6.750.606. 383 sem hírðust á jarðkringlunni nú fyrir svona uþb hálftíma síðan.

Ég er kannski ekki tilbúin að hengja mig upp á það, en næstum því, að það fyrirfinnist ekki önnur ragnhildurkolka á allri jörðinni. En svona til öryggis þá vil ég baktryggja hálsinn með fyrirvara um að ef svo ólíklega vildi til, þá færi hún varla að blogga á íslensku, sama hversu "imodekommende" mbl.is væri við hana (kannski óráðlegt að kyngreina í þessu tilviki) í upphafi. Ég er með hér til hliðar bók sem lýsir þessari stjórnunaráráttu sem náð hefur taki á mbl.is. Hun heitir The Nanny State og ætti að vera hverjum manni víti til varnaðar.

Famous last words: Af hverju ekki DNA?


Músarholuhugsunarháttur á mbl.is

Þessi snautlega frétt sýnir hvernig Íslenskum fréttamiðlum hugnast að greina frá atburðum  í Írak. Undir fyrirsögn um þinglega afgreiðslu mála varðandi 6000 manna "kokteil" erlendra hersveita kemur ein setning um 140 þús. manna lið Bandaríkjanna, sem gerðir eru að einhverju þurfalingalið sem "fær að vera svolítið lengur" með einhverjum "sérsamningi".   

 Um 140.000 manna lið Bandaríkjahers fær að vera í landinu til loka árs 2011, skv. sérsamningi sem hefur verið gerður.

Það hefði verið stórmannlegra að láta þess getið að atkvæði voru greidd á íraska þinginu í byrjun desember, um áframhaldandi dvöl bandarískra hermanna í Írak. Þessi þinglega meðferð sýnir auðvitað meiriháttar árangur innrásarinnar í Írak eftir erfitt úthald síðustu 5 ár.

Þótt engin tæki eftir þessu hér á landi fór ákvörðun íraks þings verulega fyrir brjóstið á Írönum sem lagt höfðu mikið upp úr að Shiitar höfnuðu áframhaldandi veru Bandaríkjahers. Aðeins fylgismenn al-Sadr greiddu atkvæði gegn tillögunni. Stærsti hluti Shiita, Kurdarnir  og Sunnitar greiddu atkvæði með veru hermannanna. Í raun höfðu Sunnar áhyggjur af því að tímasetningin væri full knöpp. En hún er táknræn og henni er hægt að breyta.

Það hefði ekki átt að fara framhjá mönnum að þingræði hefur verið komið á í Írak; þingræði, þar sem menn með ólíka sýn geta komið sér saman um hvað þjóðinni er fyrir bestu. En á Íslandi búa menn í músarholum og láta sem ekkert hafi breyst.

  


mbl.is Þingið greiði atkvæði um veru erlendra hersveita í Írak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigurður Kári og félagar eru hetjur dagsins

Það var tímabært fyrir þingmenn að hrista af sér doðann og standa með þjóðinni í þessu ömurlega máli. Maður var farinn að trúa því að ekkert yrði gert; við værum ekki bara sett í stöðu hreppsómaga heldur létum við það yfir okkur ganga umyrðalaust. Nú getum við þó horft stolt framan í heiminn, jafnvel þótt við verðum á stöguðum sokkum og bættri brók.

Það var líka tímabært að menn gengju samstíga til verks. Það hefur mikið skort á að þingmenn geri sér grein fyrir að þeir eiga að huga að hagsmunum þjóðarinnar en ekki þröngum flokkshagsmunum í slíkum málum. Það hefði verið betra að þeir hefðu áttað sig á því þegar fjölmiðlafrumvarpið var til umfjöllunar 2004. Frumvarp, upp á eina blaðsíðu, sem hefði getað sparað okkur mikla óhamingju. En þá hugðu menn aðeins að pólitískum keilum og létu hatur á einum manni villa sér sýn. Vonandi eru að renna upp nýir tímar?

Nú er um að gera að bretta upp ermar og hreinsa af okkur þennan smánarblett sem Bretar töldu viðeigandi að klína á okkur.


mbl.is Fé til málshöfðunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tími til kominn

Fjórfalt húrra fyrir Sigurði Kára og Helga Áss sem standa nú vaktina á meðan ríkisstjórnin sefur - eða kannski hún sé bara föst í rósrauðum vökudraumi um ESB og vilji ekki styggja vini sína í Brussel.

Það er fráleitt að láta kærufrest í þessu mikilvæga máli líða og samþykkja þannig þá smánarmeðferð sem Gordon Brown og hundingi hans Darling buðu okkur uppá. Það er frumskylda hvers manns að bera hönd fyrir höfuð sér og á sama hátt má segja að það sé frumskylda stjórnvalda að verja þjóð sína þegar á hana er ráðist. Komandi kynslóðir munu ekki þakka fyrir þá arfleifð sem þessi ríkisstjórn er að senda þeim. Við erum ekki hryðjuverkamenn og eigum ekki að taka við þeim stimpli.

Hafi allir flutningsmenn þessarar tillögu mínar bestu þakkir og megið þið koma þessu máli farsællega í höfn. Heiður þjóðar er að veði.


mbl.is Mál verði höfðað gegn Bretum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gerald á minn stuðning

Frábært viðtal við Jón Gerald í Silfrinu áðan. Hann heldur áfram baráttu sinni og er tilbúinn að leggja til atlögu við Baugsveldið á þeirra eigin vígstöðvum. Opna lágvöruverðsverslun og gefa fólki kost á að sýna í verki að það vilji ekki þá spillingu sem fylgt hefur Baugi og þeim sem því fyrirtæki stjórna.

Nú ríður á að fólk átti sig á samtakamætti sínum. Það er ekki nóg að beina reiði sinni að Alþingi og ríkisstjórn, það þarf að losna undan því áhrifavaldi sem Baugsmenn hafa beitt í baráttu sinni við að koma landslýð á hausinn. Þeir hafa getað treyst á að fólk láti budduna ráða, en budda þeirra helst full með aurunum okkar. Jón Gerald býður valkost og viðskipti sem ekki hafa á sér spillingarstimpil síðustu ára.

Ég vona að Íslendingar taki vel á móti honum og styðji hann í verki, en láti ekki fara fyrir honum eins og Ómari Ragnarssyni sem fyllti Laugaveginn af eldhugum sem létu sig svo hverfa þegar kom að kjördegi.  

Ef dæma má viðtökur þessarar fréttar á Eyjunni hef ég trú á að "hann þarna þessi Sullenberger" nái að knésetja Baug og allt það hyski. 


mbl.is Hyggst stofna lágvöruverðsverslun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftur og aftur og aftur og aftur ..........

... þar til samþykkt. Þegar sagt er að Írar séu reiðubúnir að kjósa aftur er ekki verið að tala um þjóðina sem hafnaði Lissabon-sáttmálanum í júní heldur ráðamenninna sem sitja við veisluborðið í Brussel.

Hjörtur J Guðmundsson er með ágætta færslu á bloggsíðu sinni um framkomu Brussanna gagnvart þjóðhöfðingja fullvalda ríkis, sem ekki kýs að láta Brussel segja sér hvernig þeir eiga að sitja og standa. Holl lesning fyrir þá sem eiga eftir að fá að kjósa aftur og aftur, þar til RÉTT svar fæst.


mbl.is Írar sagðir reiðubúnir að kjósa á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Chicago thuggery

Illinois

Það er auðvelt að bjóða sig fram sem umbótasinni í Illinois. Það er hins vegar óskiljanlegt hvernig kjósendur Illinois láta blekkjast aftur og aftur. En kannski eru þeir bara raunsæir; vita að í Illinois býðst ekkert betra.

Blagojevich  gefur Saddam Hussein lítið eftir þegar kemur að fjárkúgunum, mútum og öðru baktjaldamakki og ég er ekki frá því að Al Capon hefði látið þvo kjaftinum á honum upp úr sápu og vítisóta hefði hann hlustað á orðræðu hans og fljúgandi mælsku. Það kæmi svo varla nokkrum á óvart þótt hann hefði tekið sér fleira til fyrirmyndar frá þessum kumpánum. En það á kannski eftir að koma í ljós síðar.

Þessi rannsókn sem nú endar í 76 blaðsíðna ákæru hefur staðið í 5 ár. Verðum við ekki að trúa því að eitthvað hafi gengið á áður en rannsóknin hófst? Fór það framhjá pólitískum samherjum? Blago og Obama voru ekki bara flokksbræður, leiðir þeirra lágu saman á ýmsan veg. Það verður ekki þaggað. Þeir áttu sameiginlegan kunningjahóp. Snilldarvinurinn Tony Rezko átti eyra (og hugsanlega meira) þeirra beggja. Tony bíður nú dóms eftir að hafa verið fundinn sekur um fjársvik í 16 árkæruliðum. Spurning hvort lóðakaup Obama af konu Tonys verða núna dregin fram í dagsljósið.

Hafði verðandi starfsmannastjóri Hvítahússins, Rahm Emanuel (sem kallar heldur ekki allt ömmu sína) eitthvað með fall Blago að gera? Sigaði Emanuel FBI á kauða? Þarf Obama að óttast eitthvað?

Obama og BlagoEnn sem komið er hefur Obama ekki verið sakaður um aðild að þessari ógeðfeldu fjármálaspillingu flokksbróður síns, en það er óþarfi að ganga út frá því að Obama hafi enga vitneskju haft um það sem þarna gekk á. Hann var ekki meðvitundarlaus þegar hann lagði upp í pólitískan leiðangur sinn og hann var starfandi lögmaður á stofu sem fékkst við ýmis spillingarmál. Í gegnum feril forkosninganna og kosningabaráttuna hljóta menn að hafa spurt sig hvernig utanaðkomandi einstaklingur sem flyst til ókunnrar borgar, hefur þar stjórnmálaferil og verður jafnvel ágengt og raun ber vitni hafi aldrei orðið áskynja um þátttöku sína í spilltustu pólitísku maskínu Bandaríkjanna. Fljúga grísir um himinhvolfið?.

Ef frá er skilinn kosningasigur Baracks Obama þá hefur árið 2008 ekki verið gott ár fyrir demókrata. Hvert hneykslið hefur elt annað. Tugir stjórnmálamanna hafa orðið að taka pokann sinn eða bíða dóms: mútur, fjársvik, kynlíf, ofbeldi og misnotkun opinberra stofnana hafa tröllriðið flokknum, svo að berrassaðir repúblikanar á almenningklósettum falla gersamlega í skuggann. En vegna stuðnings fjölmiðla við kosningabaráttu Obama hefur lítið farið fyrir  fréttum af þessum loftfimleikum demókrata. Nú, þegar sigur er í höfn þá má kannski svipta hulunni af. Enda gengur græðgi Blago fram af flestum.

 


mbl.is Reynt að tengja Obama við ríkisstjórahneykslið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúgirni almennings í höndum loddara

Sumar fréttir fara ekki mjög hátt og stundum fara þær svo lágt að það læðist að manni grunur um að þær hafi aldrei gerst. Ein þessara ófullkomnuðu frétta er sagan af undirskriftasöfnuninni sem um tíma ærði þjóðina. Það var reyndar áður en menn uppgötvuðu skemmtanagildið sem falið er í því að grýta eggjum og öðru lauslegu í Alþingishúsið, sletta málningu og bíta lögregluþjóna.

Það er eins og vanti botn í fréttina. Hvar voru undirskriftirnar afhentar, hver tók við þeim og hverju breyttu þær? Vilja aðstandendur söfnunarinnar ekki vinsamlegast standa upp og gera grein fyrir þessum þáttum? Eða voru þeir bara að nýta sér trúgirni almennings til að koma sjálfum sér inn í umræðuna.

Ég tók þátt í undirskriftasöfnuninni því mér ofbauð harka Breta gegn varnarlausri þjóð. Var þó minnug óbilgirni þeirra í þorskastríðinu. Nú líður mér eins og ég hafi verið höfð að fífli (unga fólkið í dag mundi orða það grafískara) og mun hugsa mig um tvisvar áður en ég læt einhverja loddara slá sér upp á minn kostnað í framtíðinni.

Þetta sama eru Írar líklega að hugsa þessa dagana, eftir að fréttist af hádegisverðarfundinum á laugardaginn, þar sem nokkrir útvaldir sendiherrar frá Brussel lögðu á ráðin um hvernig kalla mætti írsku þjóðina aftur að kjörborðinu vegna Lissabon sáttmálans. Sáttmálinn sem hafnað var í júní síðast liðnum og látið var með eins og þar hafi honum verið greitt náðarhöggið.

En hrossaprangararnir í ESB láta ekki smámuni eins og þjóðarvilja leiða sig af braut. Þeirra mottó er: "If at first ou don´t succeed, try, try, try again". Getum við lært eitthvað af þessu?

 


Næsta síða »

Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband