Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

Í trölla höndum

Árni Matthíasson, blaðamaður skrifaði athygli verða grein í Morgunblaðið í dag, þar sem hann fjallar um "mestu illmenni vorra tíma". Reyndar tekur hann sér það bessaleyfi að ferðast til í tíma og gerast fornleifafræðingur sem, einhvers staðar í blámóðu framtíðarinnar, grefur niður á skjalasafn Sameinuðu þjóðanna. Í því merka safni munu þeir finna vitnisburð um illskuverk ísraelsku þjóðarinnar gagnvart "sárþjáðri" palestínsku þjóðinni. Jú, sönnunargögnin liggja fyrir, mannréttindaráð Sþ hefur á síðustu 5 árum fordæmt framferði Ísrael gagnvart Palestínuaröbum í vel á fjórða tug samþykkta. Og samkvæmt Árna er Ísrael eina landið sem hefur verið fordæmt í samþykktum þessa merka ráðs, þótt vissulega hafi það skoðað aðstæður víðar. Ráðið tók sér t.d. tíma til að kíkja á þjóðarmorðið í Súdan, en komst að þeirri niðurstöðu að það útheimti ekki fordæmingu. Þar dugði ráðinu að lýsa yfir áhyggjum, enda bara um þjóðernishreinsanir, hungursneyð og fjöldanauðganir að ræða.

Nú bíða ráðsmenn spenntir eftir að senda frá sér enn eina yfirlýsinguna svo fornleifafræðingar framtíðarinnar getið fullvissað sig um illsku þessara Ísraelsku níðinga, þegar þeir enn einu sinni vígbúast gegn friðelskandi mannvinum sem bera hinum hersetnu Gazabúum vistir og mat. OK, svo Gaza er ekki lengur hersetin og reyndar ekki heldur í herkví. Landamærin við Egyptaland hafa verið opnuð, en slíka smámuni er óþarfi að tína til í virðulegri samþykkt fordæmingarplaggsins.

Menn spyrja sig gjarnan hvernig það megi gerast að ein þjóð komist upp með slík fólskuverk. En þá má benda á samsetninguna á þingi Sþ, hvað að baki samþykktanna liggur, hverjir þar ráða ferð og hvernig þeir fara með vald sitt. Það þarf ekki að leita langt, en þó er það þannig að ekki skal treyst á að útvarp allra landsmanna sendi upplýsingar þar um til okkar sem greiðum hið lögboðna árgjald.

Þótt allar fordæmingar mannréttindaráðsins séu samviskusamleg tíundaðar í öllum fréttatímum miðilsins minnst þrjá daga í röð þá mun ekki finnast eitt stakt orð þar um hverjir sitja í þessu ráði. En meðal hinna æruverðugu mannréttindaríkja er Kína, Kúba, Kongó, Rússland, Sádi Arabía og Kamerún. Reyndar var Líbýu sparkað í  mars en það hefur eflaust reynt á suma meðlimi að standa að slíku óhæfu verki. Því ekki er svo langt síðan Líbýa var í forsæti á allsherjarþinginu og átti að auki sæti í öryggisráðinu. Meiri menn en Íslendingar sem ekki nutu slíks trausts.

Og þeir kalla ekki allt ömmu sína mannvinirnir hjá Sþ. Íran er í náðinni og var því treyst til að leiða Þróunaraðstoðarstofnun Sþ. Nú um stundir situr Íran í nefnd um stöðu kvenna í heiminum og skemmir þá ekki fyrir þeim framganga þeirra sjálfra gagnvart konum. En í Íran eru konur  hengdar, hýddar eða grýttar fyrir minnstu sakir. 

Það er orðið nokkuð síðan maður hætti að kippa sér upp við mannganginn á skákborði Sþ. Þó fer ekki hjá því að lítil frétt hafi ýtt duglega við mér í dag. Hélt í einfeldni minni að ekki væri hægt að ganga lengra í vitleysunni hjá þessari stofnun sem svo margir bundu vonir við í árdaga en fjarað hefur undan síðan. En nei, í sömu viku tókst Sþ að kóróna siðleysið sem stofnunin hefur verið að fikra sig inn á. Fyrst með því að aðalritari samtakanna Ban Ki-Moon lét sig hafa það að senda heillaóskaskeyti til hryðjuverkamannanna í Íran sem  um síðustu helgi héldu svokallaða "counter-terrorista" ráðstefnu í Teheran. Eins og þetta væri ekki nóg létu Sþ kné fylgja kviði á þriðjudag, þegar Norður-Kóreu var afhent forsætið á afvopnunarráðstefnu sem haldin er í Genf. 

Hafi einhver vafi leikið á því að Sameinuðu þjóðirnar séu nú í tröllahöndum, ættu þessar fréttir að færa mönnum sanninn um að þessari stofnun er ekki viðbjargandi. 


"Hjartadrottningin" mætt til leiks

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar kröftuga grein í Morgunblaðið í gær, þar sem hún fjallar um refsigleðina sem ríkir í samfélaginu. Hún segir að umburðarlyndi hafi verið úthýst og allir sem ekki rata hinn beina veg almenningsálitsins eru dæmdir sekir af dómstól götunnar. Titill greinarinnar er: "Hjartadrottningin snýr aftur" sem ætti að kveikja á einhverjum perum. Í það minnsta þeirra sem lásu Lísu í Undralandi  í æsku.

Kolbrún segir meðal annars að: " Mistök (eru)  flokkuð sem stórglæpur. Maðurinn sem gerði mistök er þá leiddur fram eins og glæpamaður. Sök hans á að vera öllum ljós og ekki nægir að hann iðrist og viðurkenni mistök sín, það þarf að refsa honum. Til dæmis með embættismissi og ef það er ekki hægt þá með ærumissi".

Þetta er einmitt það sem er nú að gerast í dag með biskup Íslands. Hann hefur verið dæmdur af dómstól götunnar og ekkert sem hann segir getur breytt þeirri niðurstöðu: "umburðarlyndi er vikið til hliðar, enda er það flokkað sem ómerkilegt væmnishjal" , eins og hún segir. 

KolbrúnKolbrún segir að konurnar sem urðu fyrir áreiti séra Ólafs: "hafa rétt á því að vera reiðar og það er fjarska auðvelt að reiðast fyrir þeirra hönd. En það verður líka að gæta sanngirni og það hefur ekki verið gert varðandi þátt Karls Sigurbjörnssonar".

Sr Karl útsetti sig fyrir þessum aðför óafvitandi fyrir mörgum árum þegar hann tók að sér sáttaumleitanir milli kvennanna og biskups. Sáttaumleitanir sem síðan báru engan árangur og þó hann hafi talið sig gera rétt á þeim tíma tali menn nú: "eins og (hann) hafi framið glæp. Hann er alls ekki sakamaður í málinu. Hann gerði hins vegar mistök. Í hinni frumlegu bók Lísu í Undralandi þeysti hjartadrottningin um sögusviðið, benti á hvern þann sem hún mætti og æpti í skrækjandi skipunartón að hermönnum sínum: »Hálshöggvið hann!« Þeir sem hjartadrottningin vildi taka af lífi höfðu ekkert af sér gert, annað en það að verða á vegi hennar".

Og nú segir Kolbrún að menn séu: "farnir að haga sér eins og hin miskunnarlausa hjartadrottning. Þeir benda í allar áttir og æpa: Glæpur! að þeim sem hafa gert mistök. Það er ekki í tísku þessa dagana að muna að mistök eru mannleg. En þau eru það nú samt."

Þetta er feikna góð grein eftir hana Kolbrúnu. Hún hittir beint í mark en eitt vantar í hana. Það er framkoma prestanna sem nú eygja tækifæri til að slá sig til riddara á ógæfu sr. Karls. Í þeim flokki eru þeir sem telja sig eiga harma að hefna og þeir sem telja að framhjá þeim hafi verið gengið. Líka þeir hugleysingjar sem alltaf benda á aðra þegar eitthvað óþægilegt kemur full nærri. Þegar maður horfir upp á þessa hegðun hlýtur maður að spyrja sig, "ef prestarnir geta ekki hamið sig hví skyldi þá pöpullinn sem lætur stjórnast af heiftugum fyrirsögnum og hefndarþorsta gera það.

Maður er farinn að hallast að því að láta þetta siðlausa klerkalið sigla sinn sjó. Láta þá sjá fyrir sér sjálfum. Úrsagnir úr þjóðkirkjunni eru að stórum hluta vegna þeirra eigin hegðunar. Sr Karl var kosinn vegna þess að þeir sem það gerðu vissu að þetta var góðmenni sem þeir gætu tuskast með. Nú þegar hann þarf á þeim að halda eru þeir stokknir fyrir borð eins og nagdýrin sem kenna má þá við. Bendandi í allar áttir en sjá enga sök hjá sjálfum.

Hvernig getur prestastéttinn krafist virðingar þegar hún sýnir enga sómatilfinningu eða siðvit.

 

Mynd: www.mbl.is

 


Að segja eitt en meina annað

Það blæs ekki byrlega fyrir samningaviðræðum Ísraela og Palestínuaraba um þessar mundir. Ísrael heldur áfram byggingarframkvæmdum á Veturbakkanum og Palestínumenn fylgja eftir kröfu sinni um atkvæðagreiðslu (sýndarsamþykki) Sþ um sjálfstætt ríki. Sérstakur sendimaður BNA, George Mitchell hefur gefist upp á þófinu og yfirgefið plássið. Og hvað gerir þá mannasættirinn mikli, Barack Obama. Þvert ofan í öll kosningaloforðin frá 2008 gerir hann kröfu til Ísraela að draga sig til baka að línu sem gilti fyrir 1967. Fyrirvaralaust kynnti hann þessa afstöðu rétt í þann mund þegar Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels var að mæta til viðræðna við hann. Einhver myndi segja að tímasetnigin væri ekki alveg í lagi.

Yfirlýsingin var eins og blaut tuska framan í Bibi, sem ekki tók trakteringunum vel. Stax eftir fundinn lýsti hann því yfir að ekki kæmi til greina að samþykkja þetta "friðartilboð" forsetans því það jafngilti sjálfsmorði Ísraelsríkis. Allt fór í háaloft og þremur dögum síðar reyndi forsetinn að fá menn til að trúa því að orð hans, í þessari stefnumótunarræðu um utanríkismál, hafi verið misskilin. Hann dró þó ekkert til baka og útskýringar hans vöktu menn aðeins til vitundar um að það væri ekki gott að forseti eins öflugasta ríkis heims gæti ekki talað skýrt og þyrfti sífellt að útskýra sín eigin orð. Spunameistarar hreinsunardeildar Hvítahússin eru einnig á handahlaupum við að leiðrétta ummæli sem framvarðarsveit demókratar lætur frá sér. Sem sýnir að jafnvel hans eigin menn eru að "misskilja" forsetann og eru þessar leiðréttingar farnar að verða regla frekar en undantekning eins og dæmið á myndbandinu með Bill Clinton hér að neðan sýnir.

Fjórði hluti ræðu Bibi

En það þurfa ekki allir að flækja orð sín þannig að kalli á útskýringar. Á þriðjudag kom Bibi í þingið og hélt þar þrumandi ræðu sem segja má að hafi gert stormandi lukku. Þingmenn, hvort sem var repúblikanar eða demókratar, hylltu Bibi með því að rísa úr sætum sínum 29 sinnum undir ræðu hans með dynjandi lófataki. Skýrari skilaboð við ræðu forsetans 5 dögum áður verða varla send. Charle Krauthammer kemur inn á þetta í næsta myndbandi.

Ameríska-ísraelska samskiptanefndin (AÍS) sú sem Obama flutti útskýringarnar á sunnudag sat hins vegar á höndum sér líkt og bresku þingmennirnir sem Obama messaði yfir í opinberu heimsókn sinni  í síðustu viku. Má helst útskýra þetta áhugaleysi áheyrenda með því að the thrill is gone. Ping pong og bbq með léttvigtar drengnum Cameron er ekki að skila þeirri ímynd sem seldi svo vel fyrir þremur árum. Áhugaleysi bresku þingmannanna má kannski rekja til þess að Obama hefur ekki beilínis verið umhugað að viðhalda sambandinu við Breta, svo ekki sé minnst á höggmynd af Winston Churchill sem Breta gáfu bandarísku þjóðinni en forsetinn endursendi.  

Það voru hins vegar innantóm loforð Obama um stuðning við ísraelsku þjóðina sem tók glansinn af orðum hans á sunnudagsfundi með AÍS. Margir spyrja sig núna hvort kannski hafi væntingarnar til Obama verið of miklar. Á hinn bóginn má einnig spyrja hvort þokan sem umlykur orðræðu Obama sé að þykkna svo að ræðuskörungurinn og sjarmatröllið sé við það að hverfa sjónum manna. En þá hefði kannki verið betra að spara stóru orðin. Líkt og höfuðpaurar "norrænu velferðarstjórnarinnar" datt Obama í það að lofa meiru en hann gat staðið við eða ætlaði sér að standa við.

Árið 2008 þegar kosningabaráttan um forsetaembættið stóð sem hæst leitaði Obama eftir stuðningi AÍS. Þar lýsti hann því yfir að "öryggi Ísraelsríkis væri heilagt og yrði ekki á samningsborðinu. Ávalt yrði þess gætt að landamæri ríkisins væru verjanleg". Fyrrverandi sendiherra Írael, Abba Eban kallar þessa 1967 samningslínu sem Obama leggur nú til "Auschwitz línuna", því hún merkir dauðadóm fyrir Ísraelsbúa, þar sem engum vörnum er lengur komið við. Eins lofaði Obama því 2008 "að Jerúsalem yrði höfuðborg Ísraelsríkis og hún yrði óskipt". Þetta loforð sveik hann strax árið eftir þegar hann krafðist þessa að látið væri af byggingarframkvæmdum í austurhluta borgarinnar - og viðurkenndi þar með yfirráðarétt Palestínuaraba yfir þeim hluta borgarinnar. Þessi afstaða er jafnframt studd af ákvörðun hans að fresta ákvörðunum um flutning sendiráðs BNA til Jerúsalem þar til 2019 í það minnsta. 

Og einhvern veginn hvarf líka allt loft úr loforði Obama um að "einangra Hamas þar til samtökin viðurkenni tilverurétt Ísraelríkis ....Það sé ekkert pláss við samningaborðið fyrir hryðjuverkasamtök". Nú hafa Fatah-hreyfingin og Hamas samið frið sín á milli og munu þá ef að líkum lætur standa saman við samningaborðið. En ekkert bólar á afstöðubreytingu Hamas til Ísrael. Enn er efst á dagskrá Hamas alger útrýming Ísraelríkis og skulu þeir vera reknir af landi og út í hafið sem fyrst. Það fer ekki á milli mála að það væri til mikilla bóta ef Obama gæti komið fram af heilindum við þá sem hann á í samskiptum við. Ég trúi ekki öðru en kjósendur kunna að meta það.

Í ræðubútnum hér að ofan segir Bejamin Netanyahu að á meðan Palestínumenn lýsa ekki yfir að þeir "viðurkenni tilverurétt Ísraelríkis" þá muni enginn friður ríkja fyrir botni Miðjarðarhafs. Á þessum einföldu orðum strandi allt samningaferlið.

Líklega er nokkuð til í því.


Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband