Leita í fréttum mbl.is

Bóluefni, sá á kvölina sem á völina.

Ég fór í jarðarför síðastliðið haust. Kvödd var gömul kona sem orðin var södd lífdaga og þráði orðið Sumarlandið. Að fyrirskipan þríeykisins var lítið um kveðjur, hvað þá samræður en þó hinkruðum við nokkur á tröppunum að athöfn lokinni til að spjalla. Engin erfidrykkja sem gerir svona kveðjustund að persónulegum viðburði.  Ég muldraði eitthvað um að fá okkur kaffi en var snarlega kveðin í kútinn. Þó var ég eina löggilta gamalmennið í hópnum. Allir hinir biðu eftir bóluefninu.

Screenshot (107)

Mánuðum saman hefur bóluefninu verið veifað framan í fólk svo það fáist til að halda sér á mottunni. Fyrst alið á óttanum og síðan vonininni veifað í fjarskanum. Þetta er gamla trikkið að veifa ýmist gulrót eða svipu til að stjórna viðbrögðum fólks. Það vekur furðu margra hve vel Íslendingar láta að stjórn. Hver hefði trúað því að Íslendingar myndu þegjandi og hljóðalaust standa í biðröð til að fá afgreiðslu á hinni ýmsustu vöru. Látum vera að fólk standi í biðröð eftir áfengi. Sú einokunarstofnun sem um það höndlar hefur alla tíð haft aðgangsstjórn á guðaveigunum. En þegar langar biðraðir myndast við tuskubúðir og ýmisskonar skransölur verður að segjast að andlitið detti af manni.

En, loksins, loksins. Bóluefnið er komið eða er það ekki? Það fer eftir við hvern er talað. Heilbrigðis veit ekkert í sinn haus. Sagði pöntun komna í höfn en gleymdi víst að ganga frá afhendingartíma svo hugsanlega fáum við það ekki á þessu ári. Forsætis og Bjargvætturinn skárust þá í leikinn og gripu til símans. Enginn svaraði á hinum endanum. Okkur er nú sagt að von sé á 30 þúsund skömmtum til viðbótar fljótlega. Þrjátíu þúsund skammtar duga fyrir 14-15 þúsund manns með heppni eða eftir því hver aðferðarfræðin er við bólusetninguna. Í fyrstu umferð fengu heilbrigðisstarfsmenn og dvalargestir á hjúkrunarstofnunum sinn skammt, en þar sem við síðustu áramót tæplega 35.500 einstaklingar 70 ára+ voru skráðir á Íslandi, vantar nokkuð upp á að þessir yfir 70 nái að klárast með viðbótinni. Hin 35 þúsundin 60-70 mega þá bíða enn lengur.

Það eru plúsar og mínusar við það. Helsti mínusinn er eflaust að einhverjir gætu tekið pestina og ekki lifað hana af. Þetta er möguleiki sem Sótti minnir okkur reglulega á og kallast öðru nafni Svipan. Það er þó ekki sjálfgefið að allir vilji þiggja sinn skammt, því kannski eru ekki allir eins áfjáðir í bóluefnið og fólkið á kirkjutröppunum. Stórir hópar fólks hafa hafnað bólusetningu þrátt fyrir að vinna daglega með Covid sjúka. Kemur þar margt til. Sögur af dauðsföllum, ofnæmisviðbrögðum og öðrum kvillum eru líklegar til að draga úr tilhlökkuninni. En plúsarnir eru þarna líka, því að því lengur sem degst að bólusetja því meiri vitnesja fæst um virkni efnisins og endingu. Með og á móti. Það er því í mörg horn að líta meðan beðið er. 

Hingað til hefur helst verið talað um 3 bóluefni; Pfizer/BioNTech, Moderna og AstraZeneca. Reyndar er nú nefnt til sögunnar Jansen sem ég veit ekkert um. Um rússneska bóluefnið ríkir einhvers konar kaldastríðs hugarfar og enginn vill snerta kínverska bóluefnið. Fyrstu tvö bóluefnin (P/B og M) eru svokölluð mRNA bóluefni. mRNA er smíðað á rannsóknastofum um leið og erfðaefni vírusins er þekkt. Það má fjölfalda eftir þörfum. Því er síðan komið fyrir í örsmáum fitukúlum (nano particles) sem auðvelda því leið yfir fitulag sýnifrumanna. Þar kemst það í snertingu við próteinmaskínu frumunnar (milljónir slíkra maskína eru til staðar í hverri frumu) sem framleiðir gaddapróteinið sem einkenndi vírusinn. Þaðan liggur leiðin í niðurbrotsbelgina sem brjóta það niður í smáeindir sem fruman sýnir á yfirborði sínu. Hver einstaklingur hefur sitt ákveðna yfirborðsmynstur (samanber höfnun líffæra) og þegar framandi mynstur birtist kallar það á skörp viðbrögð ónæmiskerfisins. B frumur og T frumur mæta á staðinn og ónæmisferlið fer að rúlla. Það tekur nokkra daga til að ná þeirri fjölbreytni og styrk sem þarf til að verja einstaklinginn. Oftast þarf að gefa annan skammt til að styrkja varnarhæfni bóluefnisins. Þaðan í frá liggja leiðir þess saman við AZ bóluefnið sem er hefðbundið bóluefni að því leiti að það notar simpansa vírus sem ferju og skeytir DNA-bút gaddapróteins SARS-2 veirunnar inn í DNA apaveirunna. Sýkt frum tekur það upp og flytur inn í kjarna sem framleiðir mRNA sem fer sömu leið og áður sagði yfir á yfirborð frumunnar, þ.s. þar sem það æpir og kallara á ónæmiskerfið að taka eftir sér. Vörn myndast gegn veirunni og allir ánægðir.

Eða er það? Það hefur mikið verið rætt um varnarmátt bóluefnanna sem samþykkt hafa verið. Allir vilja fá það besta og því hefur P/B og M þótt fysilegur kostur, þ.s. þau eru sögð veita 94.5% og 95% vörn á meðan AZ þykir lakari kostur með aðeins 72% vörn.En ekki er allt sem sýnist. Nýlega lýsti Dr. Fauci því yfir að allir þyrftu að nota grímurnar sínar áfram því bólusetningin tryggir ekki 100% vörn gegn sýkingu. Og þá fer maður að spá hvað sé í gangi. Í hverju felst þá vörnin? Hvernig meta fyrirtækin varnarmátt bóluefnisins? Jú þau telja þá sem sýna Covid einkenni þrátt fyrir bólusetningu á móti þeim óbólusettu sem sýkjast. Svo og svo margir bólusettir urðu veikir þótt þeir hafi ekki orðið alvarlega veikir. Gerði AZ þessa úttekt á sama hátt? Nei, AZ gerði PCR mælingar á öllum þáttakendum í lok prufutímans og fann það út að svo og svo margir urðu jákvæðir í PCR prófinu án þess að verða alvarlega veikir. Sumir líka alveg einkennalausir. Þremur vikum eftir fyrstu sprautu varð enginn það veikur að leggja þyrfti inn á sjúkrahús. Þannig að þegar upp er staðið getur allt eins verið að AZ veiti sambærilega eða betri vörn gegn veirunni en P/B og M, því PCR-prófið er jú margfalt næmara en sjúkdómseinkennin.  Að auki er það auðvelt í meðförum, því það kallar ekki á dýran frystigeymslubúnað og er líka 4-7 sinnum ódýrara en P/B sem kemur næst á eftir í kostnaði.

Nú er bara að gera upp við sig hvað skal gera næst.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband