Færsluflokkur: Bloggar
24.1.2010 | 18:43
Á gömlum pallbíl til Washington
Það hefur verið áhugavert að fylgjast með viðbrögðum demókrata eftir hinn sögulega ósigur þeirra í Massachusett í vikunni. Nina Totenberger, álitsgjafi á Inside Washington, segir að það hafi verið reiði kjósenda í garð bankamanna sem réði úrslitum. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins tekur undir þetta. Í tilfelli Nínu má flokka þessa afstöðu undir meðvirkni og skort á sjálfstæðri hugsun innvígðra demókrata. Leiðarahöfundurinn er enn ekki kominn af því rósbleika skýi sem Obama sveipaði umheiminn árið 2008. En forsetinn er ekki beinlínis að leiða hjörð sína inná grænni haga. Kjósendur eru að átta sig á því. Hann bregst við áfallinu vegna aukakosninganna í Mass, með hótunum í garð bankamanna með Volker gamla sér við hlið og veruleikafirringu sína kórónar hann með því að segja sigur Browns vera sambærilegan við þá bylgju sem fleytti honum inn í Hvíta húsið, þ.e. reiði í garð ráðandi afla síðastliðin átta ár.
Halló! Var repúblikaninn Brown kosinn með 31% viðsnúningi frá því í forsetakosningunum fyrir rúmu ári vegna þess að íbúar Mass eru enn reiðið út í Bush? Er ekki ástæða til að skoða þetta aðeins nánar.
Í Mass eru aðeins 12.5% kjósenda skráðir fylgjendur Repúblikanaflokksins. Þrisvar sinnum færri en skráðir demókratar. Er það þess vegna sem demókratar koma allir bláir og marðir út úr þessum kosningum sem að mati Obama snerust um reiði kjósenda í garð Bush? Eftir ár á forsetastóli er tímabært að Obama fari að gangast við afleiðingum eigin verka.
Brúnn vs bláir og marðir
The Drudge Report heldur því fram að Obama "Hrifningin sé uppgufuð" (Thrill is gone) og Drudge er ekki einn um að halda þessu fram. Rasmussen Report hefur vinsældastuðul Obama í -19 í gær og stuðullinn hefur ekki verið jákvæður síðan um miðjan júlí. Í Þýskalandi, þar sem fyrir aðeins einu og hálfu ári síðan hundruð þúsundir hylltu Messías við Sigursúluna, birtir Der Spiegel umfjöllun um málið undir fyrirsögninni "Heimurinn kveður Obama" (The World bids Farewell to Obama). Hvernig var hægt að glutra þessum gífurlega meðbyr niður á aðeins einu ári? Var kannski aldrei innistæða á reikningnum? Var aldrei nein von í Voninni?
Var það kannski vegna þess að Obama sökkti sér í að ná fram pólitískum markmiðum sínum og gleymdi að tala til fólksins, eins og hann heldur nú fram. Það hljómar ekki sem trúverðug afsökun. Samkvæmt samantekt CBS fréttastofunnar hefur Obama veitt 158 viðtöl og haldið 411 ræður síðan hann tók við sem forseti . Fleiri en nokkur annar forseti á undan honum og að sumra mati fleiri en þeir allir til samans. Það vantar sem sé ekkert uppá orðgnóttina og því síður skrúðmælgina.
En Brown í Massachusetts er ekki boðberi fyrstu ótíðindanna fyrir Obama. Á undan honum komu ósigrar í ríkisstjórakosningum í Virginíu og New Jersey. Tvær fýluferðir til Kaupmannahafnar, fyrirburður í Osló og höfnun bandamanna hans í NATO á liðsauka til Afganistan. Og þeir sem dýrast seldu sig til að koma umbótafrumvarpi Obama í heilbrigðismálum (Obamacare) í gegn eru nú í frjálsu falli í vinsældakönnunum í fylkjum sínum. Nei, allt þetta getur ekki verið Bush að kenna.
Staðreyndin er að samkvæmt könnun sem Fabrizio, McLaughlin & Associates gerði sögðu 78%kjósenda Brown að þeir hefðu kosið hann til að hindra Obamacare og aðeins 25% allra kjósenda nefndu efnahagsmálin. Splunkuný könnun í Maryland greinir 53% andstöðu við Obamacare og aðeins 11% nefna efnahagsmálin sem áhyggjuefni.
Brown hafði þrjú mála á sinni dagskrá: hindra að Obamacare kæmist í gegn, afnema rétt hryðjuverkamanna til lögfræðilegrar aðstoðar á frumstigi rannsóknar og stöðva skattahækkanir og til vara; lækka skatta. Tiltölulega einföld kosningabarátta sem fólk átti ekki neinum erfiðleikum með að taka afstöðu til.
Það er nefnilega að kom betur og betur í ljós að þrátt fyrir alla fljúgandi ræðusnilldina (sem aðrir sjá um að skrifa) og mjúkmælgina, þá á Obama enga samleið með fólkinu í landinu. Fólkinu sem trúði því að nýir tímar færu í hönd, tími flokkadrátta myndi líða undir lok og eilíf sæla umvefja þjóðina. Í staðinn horfa menn upp á að öll þessi fantafína oratoría opinberar gjána sem liggur milli hans og hins almenna borgara. Hvað fékk hann til að tala niður til Brown og væna hann um lýðskrum með því að keyrir um á gömlum pallbíl. Um hvað var hann að hugsa? Er hann þarna að dæma útfrá eigin reynslu af samflokksmönnum sínum? Eða var hann kannski ekkert að hugsa? Var hann bara lokaður í sínum upphafna heimi þar sem hann situr ásamt þessum 10-12% sem hefur talað sig út úr veruleika hins almenna vinnandi manns og inní draumaveröld útópíunnar. Veruleikinn sem lætur 92% byrðarinnar af framlögðu heilbrigðisfrumvarpi á herðar vinnandi fólks á frjálsum markaði. Díllinn sem gerður var við Stéttarfélögin til að fá stuðning þeirra við frumvarpið skilur eftir óbragð í munni og sýnir hvert baktjaldamakkið leiðir.
Ritstjóri Newsweek, Fineman, sem greinilega er á sömu bylgjulengd og Obama, segir "sumstaðar" beri svona pallabíla með sér ákveðið stigma, það megi jafnvel segja að pallbílar stand fyrir ákveðna tegund rasisma. Mark Steyn sér fyrir sér að Brown hafi náð að keyra upp dágóðan slatta af rasisma á þessum 200.000 mílum sem hann hefur náð út úr trukknum, en varla sé við öðru að búast í þessu fúafeni Klu klux klan-hreyfingarinnar sem Massachusetts ríki er.
Demókratar geta látið sem Te-partýin hafi aldrei átt sér stað eða almennu fundirnir þar sem hróp voru gerð að þingmönnum demókrata síðsumars, ósigrarnir í Virginíu og New Jersey og nú Brown í Massachusetts, en ef þeir gera það þá eru þeir eins lánlausir og ríkisstjórnin sem nú situr á Íslandi og grefur sér sífellt dýpri gröf.
Á endanum áttar fólk sig á að það er ekki orðsnilld sem fyllir grautarskálina heldur verkkunnátta. Það var mikið fjallað um reynsluleysi varaforsetaefnisins Söru Palin í kosningabaráttunni í BND 2008. Þótti ótækt að kona sem hefði enga reynslu af utanríkispólitík ætti erindi inní þá baráttu. Einhvern veginn áttu menn ótrúlega auðvelt með að líta framhjá þeirri staðreynd að sá sem sóttist eftir æðsta embætti landsins hafði heldur enga reynslu á því svið og hafði í raun aldrei verið nógu lengi í neinu starfi til að skilja eftir sig spor.
Nú er þessi staðreynd að verða mönnum ljós.
Allar myndir af: www.townhall.com
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
12.1.2010 | 21:48
Út yfir gröf og dauða
Lýðræðið vefst fyrir sumum.
Stóra spurningin er "hver á Massachusetts þingsætið" sem Edward Kennedy yfirgaf (óviljugur) í sumar?
Rétt eins og kratarnir "eiga" Hafnarfjörð hafa Kennedýarnir slegið eign sinni á þingsæti Massachusetts. Ef svo ólíklega vildi til að enginn Kennedy vitjaði fæðingarréttar síns og tæki sæti sitt í öldungadeild Bandaríkjaþings, þá er trú manna að sjálfkrafa gangi það til Demókrataflokksins. Eða þannig.
Ef svo ólíklega vildi til að demókrati tapaði sætinu til repúblikana í kosningum þá gengur plan B í gildi. Nokkurra vikna eða mánaða endurtalning atkvæða. Sú gæti orðið staðan ef demókratar þurfa að tryggja meirihluta fyrir frumvarpi Obama um "heilbrigðisumbætur" með "bráðabirgða" þingmanninum. Þá kemur sér líka vel að bæði fylkisstjóri og dómsmálaráðherra Mass eru demókratar. Þeir sem fylgdust með manipúleringum ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms Joð með seðlabankastólinn átta sig á aðferðafræðinni.
En einstaka sinnum eru menn minntir á að þingsæti er ekki þinglesin eign eins né neins. Lýðræðið er eign fólksins. Jóhanna og Steingrímur Joð fengu sína áminningu þann 5. janúar.
Skyldi röðin einhvern tíma koma að íbúum Massachusetts?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.1.2010 | 17:41
Tæpitungulaust
Ingvi Hrafn talar tæpitungulaust
Ef ekki tilfallandi höfuðhögg þá í það minnsta genetískt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.1.2010 | 13:53
Rythym´n´Blues
Það er ekki hjá því komist að minnast Kóngsins.
Take it from the top, boys.
Elvis og Jórdanirnir 1956
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2010 | 15:47
Líkt og reykurinn leitar útsvarið upp
Hvar nema í Morgunblaðinu gæti slík fyrirsögn komist á miðopnu fréttablaðs? Hér ræður ferð listræn hugsun og næm málvitund góðs blaðamanns og þá skiptir máli hver ritstjórinn er. Davíð Oddsson er listrænn arftaki Matthíasar Johannessen á ritstjórastóli Morgunblaðsins en jafnframt pólitískur skylmingameistari. Þetta er hinn nýi raunveruleiki sem andstæðingar Sjálfstæðisflokksins standa andspænis. Ekki að furða þótt um þá fari.
Það er mikill þungi í herkvaðningunni sem send hefur verið til andstæðinga Sjálfstæðisflokksins þessar dagana. Rykið hefur verið dustað af gömlu Albaníu-aðferðinn. Mogginn er hin nýja Albanía og Davíð Oddson er hið illa sem "heiðarlegir" menn skulu ekki leggj lag sitt við: Segið upp Mogganum! Mogginn er pólitískur! Vei, vei. Fjölmiðlar eiga að vera ópólitískir (eða hallir undir ESB ella)! Davíð er skúrkur! Vei, vei. Hann er hönnuður Hrunsins! Vei, vei. Davíð á ekki að hafa skoðun á endurreisninni! Vei, vei. Davíð er á móti Samfylkingunni, Steingrími Joð og Þráni Bertelssyni! Hann er á móti ESB! Vei, vei þeim illa manni!
Það verður að segjast eins og er að blessaður Ólafur Stephensen er ekki öfundverður af hlutverki fórnarlambsins sem hann hefur verið holdgerður í. Vandamál Ólafs, sem ritstjóra, var að engin leið var að greina hann frá Kaldal á Fréttablaðinu eða Páli á RÚV (DV telst ekki með því það er aðeins einsmanns rógsherferð). Þrír menn með sömu heimssýn: ESB hvað sem það kostar og karlar takið þátt í þrifunum. Hvergi í heiminum, utan hugsanlega Norður Kóreu, er litið á það sem kost að allir fréttamiðlar lands hljómi sem einn samhæfður kór. Íslenskir fjölmiðlungar, í sjálfumgleði síðustu ára, virtust ekki gera sér grein fyrir að enn finnast á Íslendi einstaklingar sem gera tilkall til sjálfstæðrar tilvistar.
En þannig var landslagið á blaðamarkaði á Íslandi áður en Davíð tók við ritstjórn Morgunblaðsins. Nú kveður við nýjan tón. Það hefur kviknað líf þar sem ekkert líf var fyrir. Nú er samanburðurinn við aðra miðla áþreifanlegur. Skoðið bara þessa mynd hér að neðan. Hefði hún getað birtst í Fréttablaðinu? Nei, en hún lýsir þeim veruleika sem við stöndum nú frammi fyrir með "norrænu velferðarstjórnina" hennar Jóhönnu og Steingríms Joð. Tuttugu og fimm til þrjátíu ár aftur í tímann er loforð sem þau ætla sér að standa við. Hvað sem tautar og samþykkt ríkisábyrgðarinnar á Icesave þann 30. desember á að tryggja að þau geti staðið við orð sín.
Götumynd: Austurstræti á níunda áratugnum birt (endurbirt?) í Morgunblaðinu 24. des. 2009.
En gerðust einhver stórmerki þegar Davíð settist í ritstjórastólinn? Eru þetta ekki sömu blaðamennirnir sem eru að skrifa í blaðið? Eru þeir eitthvað verri skríbentar nú en þegar Ólafur stýrði ferð? Ekki verð ég vör við það. Andri Karl,Rúnar Pálmason, sem á setninguna sem prýðir þessa færslu, Kristján Jónsson, Karl Blöndal, Egill Ólafsson, Önundur Páll, amasónan Agnes og snilldarpennarnir Pétur Blöndal og Kolbrún Bergþórsdóttir eru öll enn til staðar. Um viðskiptavitið sjá svo Bjarni, Ívar, þórður og Örn. Vill einhver í alvöru halda því fram að þetta fólk hafi glatað verkkunnáttu við það eitt að ritstjóraskipti urðu á blaðinu. Vissulega er áferðin á blaðinu önnur. Það er meiri léttleiki yfir skrifunum, dálítið eins og þegar kálfum er hleypt út á vorin. Um það ræður ritstjórn. Styrmir Gunnarsson hafði á orði að þessa dagana sé skemmtun í lestri blaðsins.
Jú, blaðið er orðið pólitískara. En það er ekki til vansa. Þeir sem lesa Staksteina átta sig á muninum. Og stjórnmálamenn finna fyrir bitinu. Hvernig stendur "skjaldborg" ríkisstjórnarinnar fyrir fjöldkyldur og heimili samanburð við skjaldborg Hjálpræðishersins fyrir þá sem minnst mega sín? Hvernig standa vígorð Þráins Bertelssonar í Fréttablaðinu gagnvart afstöðu hans til Icesave? Össur og sannleikurinn? Steingrímur Joð og loforðin? Það undrar engan að fylgjendur þessarar duglausu ríkisstjórnar leggi nú allt kapp á að níða Morgunblaðið og ritstjórn þess í svaðið, því getuleysið ríkisstjórnarinnar er nú afhjúpað á hverjum einasta degi á síðum blaðsins. Aðeins valdafíkn, kúgun og ofbeldi heldur ríkisstjórninni saman.
En það er ekki bara beinhörð pólitík sem gerir Morgunblaðið þess virði að lesa það þessa dagana. Fréttaskýringarnar eru opnari, greinarbetri og víðsýnni. Hörmungar heimsins eru enn til staðar en lesendum er ekki lengur gert að taka á sig þjáningar heimsins, misskiptingu ábyrgðar í heimilisrekstri eða eyðingu ozonlagsins. Það þarf heldur ekki alltaf að taka marga dálksentimetra til að koma kímninni til skila, en þeir sem lásu umfjöllun Önundar Páls Ragnarssonar um "En kæmpe dansk christmas-fest" og horfðu á "showið" vita um hvað ég er að tala. Skapti Hallgrímsson sér svo um léttleikann fyrir Norðandeildina.
Styrkur blaðsins felst ekki hvað síst í frábærri grafíkdeild og yfirburða samsafni ljósmyndara sem fá að njóta afraksturs erfiðis síns dag hvern. Alþjóð þekkir verk RAX, en Ómar, Golli, Kristinn og Einar Falur láta sitt ekki eftir liggja. En fjölmargir aðrir, sem ekki eru nefndir hér, eiga sinn þátt í að gera Morgunblaðið að blaði allra landsmanna. Menningartengt efni blaðsins byggir ekki lengur á úreltum bókmenntakenningum afbyggingar og grótesku. Í dag er það tilhlökkunarefni þegar Sunnudags-Mogginn kemur inn um lúguna. Og tilhlökkunina má treina sér frameftir vikunni, því svo fjölbreytt og fróðlegt er efni blaðsins.
Þegar ég hóf þessa færslu ætlaði ég aðeins að skrifa mig frá þeim illa gjörning sem framinn var á Alþingi Íslendinga að kvöldi hins 30. desember. Vildi einfaldlega líta til þess sem jákvætt hefur gerst á því dæmalausa ári sem nú er liðið. Þetta átti ekki að veraða nein lofrolla, en þegar litið er yfir þessa liðlega tvo mánuði sem ég hef aftur verið áskrifandi að Morgunblaðinu fann ég ekkert nema gleði yfir þeim umskiptum sem átt hafa sér stað á blaðamarkaði á Íslandi. Megi frjáls hugsun og fjölbreytt mannlíf blómstra hér sem aldrei fyrr í krafti öflugrar blaðamennsku.
Bloggvinum mínum sendi ég mínar bestu nýjárs óskir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.12.2009 | 18:55
Er Bólivía nýja Sádi Arabía?
Nú í jólaönninni datt mér í hug að athuga með batterí fyrir myndavélina mína. Hleðslan var farin að gef sig og varabatteríið sem keypt var á sama tíma var ekki að standa sig mikið betur. Ég hringdi því í nokkrar ljósmyndaverslanir og spurðist fyrir um gripinn en þessi 5 ára myndavél var ekki lengur "sidste skrig" og batteríið greinilega ekki heldur. Á Amazonvefnum má fá batteríið fyrir $70 en gallinn er að Amazon sendir aðeins bækur, CDs og DVDs út fyrir landsteinanna. En jólin eru tími ljóss og friðar og góðvinur minn benti mér á verslun í Skipholti, sem höndlaði með slíka gripi, og viti menn þarna fékk ég batteríið. Fyrir litlar 7000 krónur get ég nú fest Santa á filmu láti hann svo lítið sem að líta inn til mín um jólin.
Reyndar hef ég lengi haft áhuga á þessari tegund battería og hann hefur frekar aukist undanfarið en hitt, þ.e. ég hef, alveg frá því að umræðan um rafmagnsbíl fór af stað velt því fyrir mér hvort litíum sé óþrjótandi auðlind. Það virðist sem helsta fyrirstaðan við að rafvæða bílaflotann (fyrir utan beinharðan kostnað)sé að framleiða nægilega öflug batterí svo maður komi bílnum í það minnsta út úr innkeyrslunni áður en kallað er eftir næstu hleðslu. Það dugar skammt að eiga rafknúinn bíl ef ekkert rafmagn er til að knýja hann áfram.
En nú er lausnin fundin og maður sem mús getur fljótlega lagt leið sína í kaupfélagið hans Steingríms Joð og keypt hina langþráður framlengingarsnúru. Líklega er vissara að fara með skömmtunarseðlana sína fyrst til uppáskriftar í ráðuneyti Svandísar Svavars svo ekki verði skrúfað fyrir rafmagn á heimtaug þeirra sem flokka ekki ruslið sitt samkvæmt stöðlum.
En svo fremi sem Svandísir heimsins bregða ekki fæti fyrir framtakið, þá virðist sem vandi rafbílaframleiðenda sé nú leystur. Á hásléttu Bólivíu, svokallaðri Salar de Uyuni, er að finna allt það litíum karbónat sem þarf til að fullnægja batterísþörfum heimsins næstu árin. Hvað gerist síðar er ekki gott að segja, en umhverfisverndarsinnar munu eflaust að endingu lýsa litíumnám skaðlegt umhverfinu. En það verður líklega ekki fyrr en mestöllum bílaflota heimsins hefur verið breytt, svo áhrifanna gæti sem víðast og sem þyngst. Þannig linntu umhverfisverndarsinnar í Bandaríkjunum ekki látum fyrr en lög voru sett sem bönnuðu olíuvinnslu á víðáttumiklum svæðum innan lögsögunnar. Lög sem gerðu BNA háð olíu frá Sádi Arabíu og Venesúela.
Nú er krafa uppi um endurnýtanlega orkugjafa, en undir þá flokkast kjarnorka (sem er sögð of hættuleg), sólarorka (sem er of dýr, of fyrirferðarmikil og spillir þar að auki útsýninu) og vindorka (sem nýtist best þar sem vindstraumar farfuglanna liggja). Sjávarorkan er að verða síðasta hálmstráið, en það mun eflaust visna þegar upp kemst að þar sem straumarnir eru sterkastir þar liggi jafnframt helstu uppeldisstöðvar svifsins sem hvalirnir nærast á. Guð forði okkur frá að skerða lífsafkomu hvalanna.
Hið hvíta gull sem leysir hið svarta af hólmi.
Er það þá ekki hinn knái Eva Morales sem kemur eins og riddari á hvítum fáki saltsins. Á Salar de Uyuni mun Morales nú drottna á meðan sendinefndir allra helstu ríkja heims gera sig til fyrir hann. Hver skyldi nú hljóta hnossið.
Salt jarðar hefur nú fengið nýja merkingu í huga mannanna og miðað við verðið sem ég mátti gefa fyrir Li-batteríið í myndavélina mína má ætla að haldi Morales rétt á spöðunum verður Bólivía brátt eitt af stórveldum heimsins.
Grein um Salar de Uyuni: http://www.technologyreview.com/energy/24058/?a=f
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2009 | 00:17
Þegar fallið er hátt
Nobelsnefndin gerði Gulldrengnum engan greiða þegar hún ákvað að veita friðarverðlaunin í ár uppá krít. Gestir í hátíðarsalnum við verðlaunaathöfnina í Osló virtust ekki hafa meðtekið fagnaðarboðskapinn sem þarna var borinn á borð. Helst var á þeim að sjá að af illri nauðsyn hefðu þeir mætt í jarðarför gamla grútfúla nískupúkans sem alla tíð hafði verið til ama í ættinni. Ekki bar á gleðibrosi í salnum. Það munu líða nokkur ár áður en Noregur varpar skugga sínum aftur á dyrastaf Hvíta hússins.
En hafi verðlaunaafhendingin vakið litla hrifningu í Noregi, var hún algert faux pas í Bandaríkjunum. Aldrei hefur viðhorfið til Gulldrengsins sokkið jafn djúpt og dagana sem norsarar voru að "heiðra" friðargjafann. Rasmussen Report tekur daglega púlsinn á vinsældum forsetans og birtir á hverjum degi vinsældastuðul samantektar þriggja daga. Í gær kom niðurstaðan fyrir Húllumhæ dagana í Norge í kringum frelsaraverðlaunaafhendinguna. Sjá hér að neðan:
Mínus 19 er ekki vinsældartala sem maður kærir sig um að útvarpa. Það merkilega við tölurnar er að það er stuðningurinn sem minnkar. Það eru hinir óflokksbundnum sem eru að yfirgefa hann. Óánægjan með störf Obama hefur haft yfirhöndina í þessum könnunum síðan um miðjan júlí. Og nú eru áhangendurnir, sem fyrir ári heldu ekki vatni af tilhugsuninni einni að standa undir sama þaki og messías, að vakna til meðvitundar. Jafnvel Bogi Ágústsson er að átta sig á að kannski var ekki allt sem sýndist. Á morgunvakt rásar2 lýsti hann því yfir að "það hefði ekki verið við því að búast að Obama stæði undir öllum væntingum". Fréttaflutningur RÚV af Gulldrengnum hefur þó ekkert breyst. Enn flytur RÚV fréttir af gleðigöngu Obama á vatninu.
Hluti af vandamáli Obama er oflætið sem birtist í því að ætla að umbylta þjóðfélaginu án samráðs við þegnana. Þá er það ekki síður sú staðreynda að hann er ekki lengur að ná í gegn til þeirra. Hann er farinn að endurtaka sig og ræðurnar sem eitt sinn þóttu svo innblásnar og upphafnar eru nú farnar að vera dálítið hlægilegar. Ef þær eru ekki bara orðnar drepleiðinlegar.
Dálkahöfundurinn Mark Steyn segir glansinn svo gersamlega horfin af Obama að einna helst megi líkja honum við hinn litlausa forseta Evrópusambandsins. Sá hafði það eitt sér til ágætis í embættið að þykja ekki líklegur til að varpa skugga á valdhafa ríkisins, þau Merkel og Sarkozy.
Ekki þykir heldur útilokað að fléttusafnarinn frá Flandri skilji eftir sig stærra spor á heimskortinu en rásmaðurinn í Hvíta húsinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2009 | 21:04
Hvað eiga loftslagsvísindin, Jónína Ben og Indrið H. sameinginlegt?
MEÐ ALLT NIÐRUM SIG
From: Phil Jones
To: Michael E. Mann
Subject: IPCC & FOI
Date: Thu May 29 11:04:11 2008
Mike,
Can you delete any emails you may have had with Keith re AR4?
Keith will do likewise. Hes not in at the moment minor family crisis.
Can you also email Gene and get him to do the same? I dont
have his new email address.
We will be getting Caspar to do likewise.
I see that CA claim they discovered the 1945 problem in the Nature paper!!
Cheers
Phil
Kannast einhver við manninn, Phil Jones? Þetta er náunginn sem á stóran þátt i því að í dag sitja þjóðir heims á ráðstefnu í Kaupmannahöfn til að skipuleggja hvernig flytja má milljarða á milljarða ofan inn í einhverja framtíð sem enginn veit hver verður. En Phil er stoð og stytta æðstuprestanna í loftslagshofinu sem um þessar mundir predika endalok mannkyns. Loftslagstrúin er nýjasta útgáfan af heimsendatrú þótt nú sé hún kölluð umhverfisvernd. Enda á hugtakið TRÚ ekki uppá pallborðið hjá umhverfissinnum. En loftslagstrúin á það sameiginlegt með öðrum trúarbrögðum að ala á sjálfsásökuninni. Æðstuprestarnir, sem aldir voru upp á fimbulvetrarkenningu kaldastríðsáranna sem aldrei rættist, vissu að söfnuðurinn beið enn eftir sínum messíasi. Allur auður heimsins félli þeim í skaut sem vakið gæti trúareldinn á ný. Neistinn kviknaði og varð að báli. Véfréttin (Goracle) talaði og söfnuðurinn féll fram, jafnvel í Háskólabíó. Engra frekari sannana þurfti við, málið var útrætt. Milljarðar í vasa æðstuprestanna.
En í hverri Paradís leynist snákur og Phil var bitinn. Phil sem áður var bjargvættur heimsins varð uppvís að því að falsa gögn og greip þá til þess að eyða þeim. Delete takkinn leysti vandann. En efinn hélt innreið sína í hið helga musteri og nú þarf söfnuðurinn að stoppa uppí öll vit til að þurfa ekki að móttaka sannleikann.
Þrýst er nú á samstarfsmenn Jones á Veðurfræðistofnuninni bresku að skrifa undir yfirlýsingu um traust þeirra og trúnað við ríkisstjórnina. Um 1700 vísindamenn hafa nú skrifað undir en sitja þá uppi með glæpinn, því þegar vísindamaður snýr baki við vísindunum til að gangast undir klafa pólitískra hagsmuna, þá hefur hann glatað trúverðugleikanum. Al Gore, sem er líklega fyrstur æðstuprestanna til að verða miljarðamæringur, reynir að hrista af sér slímið sem nú er farið að þekja fræðin. Gore segir þetta 10 ára gömul gögn en staðreyndin er sú að nýjustu póstarnir eru aðeins tveggja mánaða gamlir. Gore mætti snemma til leiks á trúarhátiðina í Kaupmannahöfn svo ljómi hans mætti leika um allan þingheim, en nú fer minna fyrir honum. Auglýstri samkomu þar sem hann ætlaði að bjóða almenningi að snerta pilsfald sinn fyrir litla $1200 hefur nú verið aflýst. 3000 heittrúaðir Danir mega nú hírast án blessunar og ástæðan er sögð tölvupóstar bresku Veðurfræðistofnunarinnar.
Samkvæmt viðteknum leikreglum reyna nú prestarnir að koma sökinni á hakkarana. En eins og Jónína Ben og Indriði H. komust að við illan leik, þá eru hakkararnir sleipir. Þeir stunda iðju sína nótt og dag og það heyrist stöðugt dripp, dripp, dripp. Í þetta sinn innan úr musterinu sjálfu. Niðurstaða ráðstefnunnar lá nefnilega fyrir áður en límúsínurnar og einkaþoturnar komu til Köben. Fulltrúar þróunarríkjanna eru æfareiðir vegna lekans sem leitt hefur í ljós að Kaupmannahafnarráðstefnan er ekkert annað en leiktjöld fyrir sýndarvísindi, loforðaglamur pólitíkusa og trúarbragðaiðnaðinn sem ætlar sér að drottna yfir okkur eins og kaþólska kirkjan forðum. Hagkerfi skulu lögð í rúst, því öllu fé skal nú veitt í farveg ofurstofnana eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og til vara undirstofnana Sameinuðu þjóðanna. Til að byrja með á að ryksuga ríkiskassa Vesturlanda uppá $200 til 210 milljarða. Það er bara upphafið. En hvernig urðu þessar stofnanir fyrir valinu til að deila og drottna? Hafa þær sýnt hæfni til að meta ástand heimsins? Sáu þær fyrir HRUNIÐ, ef svo, því komu þær ekki í veg fyrir það? Og ef þær sáu það ekki fyrir, hverjar eru þá líkurnar á að þær geti séð fyrir efnahagsástand heimsins eftir 20, 30 eða 40 ár? Til að ná þessu fram hafa vísindamenn, eins og Jones, beitt sjónhverfingum, kúgun og ritskoðun til að soga til sín fé og þjónusta stjórnmálamanna sem þrá að koma á sovésku skipulagi með annarra fé. Tölvupóstarnir, sem í síðasta mánuði komu fyrir sjónir almennings, bera vitni um að (minnsta kosti sumum) vísindamönnum er ekkert heilagt.
Það sem þarna fór forgörðum var sannleikurinn sjálfur.
Á öðrum degi ráðstefnunnar, þar sem 15,000 ráðstefnugestir, 5,000 fréttamenn og fylgihnettir mættu til leiks, kom í ljós að það var alsendis ótarfi að losa þessi 41,000 tonn af koltvísýringi sem ráðstefnan skilar útí andrúmsloftið. Lokaniðurstaðan lá jú, fyrir.
Þróunarríkin segja að það eigi að láta þau borga brúsann. Upphaflega samningnum, sem gerður var undir verndarvæng Sþ, hafi verið kippt úr sambandi. Þau telja að samstöðu þróunarríkja verði sundrað með því að stiggreina þau í lífvænleg eða "viðkvæm" ríki. Þau halda því ennfremur fram að fátækar þjóðir muni aðeins fá að losa 1.44 tonn af kolvetni á mann á meðan ríkari þjóðir fái að losa 2.67 tonn. Þetta síðasta er athyglisvert m.t.t. að manntonnin sem losuð eru núna liggja á bilinu 0.58-29. Var einhver að tala um að setjast að samningaborði?
En í þessu ljósi þarf kannski að skoða loforð Baracks Obama um að Bandaríkjamenn muni árið 2050 losa 83% minna en þeir gerðu 2005. Er það trúverðugt? Georg Will hjá Washington Post segir að þetta loforð setji Bandaríkjamenn á par við losun árið 1910 þegar Ameríkanar töldu 92 milljónir. Árið 2050 verða þeir u.þ.b. 420 milljónir og loforð Obama hljóðar því upp á losun nálægt því sem var árið 1875. Er Obama ekki bara að segja okkur að svín geti flogið? Með öðrum orðum er sá væni maður ekki bara að ljúga? Og hver er trúverðugleiki Evrópuríkjanna sem setja þjóðum sínum sífellt strangari reglur um hvað megi og hvað megi ekki. Sparperur að viðlögðum refsingum, fretpoka á beljur og vistvæna bíla sem enginn hefur efni á að kaupa. En hefur neysla eitthvað minnkað? Hafa þessar reglur minnkað kolvetnisspor ESB? Já, reyndar, en það er bara partur af sjónhverfingunni, því ekki hefur ástand heimsins batnað eina agnarögn. Framleiðsla neysluvarningsins hefur bara verið flutt um set; hinu megin á hnöttinn til Indlands og Kína sem að öllum líkindum verða orðnar herraþjóðir okkar eftir 20-30 ár.
Og Kínverjar sýna nú snilld sína. Þeir eru að verða búnir að ná tökum á orðfærinu sem best gengur í æðstuprestana. Þeir mæta með sína delegasjón til Köben og segjast ætla að draga úr "kolvetnisþéttleika" sínum, þ.e. þeir ætla að minnka kolvetnislosun per framleiðslu einingu. Þetta hljómar vel, en hvað merkir það? Þeir ætla ekkert að minnka framleiðsluna, frekar að auka hana, því einhver verður að framleiða svo hamingjudraumar okkar rætist. Ódýra skó, ódýr leikföng, ódýrt líf. Já allt skal kaupa ódýrt frá Kína. Allt nema ódýrar virkjanir. Hræsni Íslendinga ríður nefnilega ekki við einteyming frekar en hjá öðrum. Starfskraftar Kínverja voru ekki vel þegnir þegar Impreglio ætlaði að spara sér nokkrar krónur með því að flytja ódýra Kínverja inn til að virkja á Íslandi. Þá vildu Íslendingar allt í einu að fullt verð skyldi gilda. Og til að tryggja að við förum ekki að álpast til að gleyma því ætlar umhverfisráðherra Íslands að leggja virkjanakosti okkar á altari Al Gore í Kaupmannahöfn.
Sumir hætta aldrei að tilbiðja sinn guð. Sovétríkið á nú að raungerast í dreifingu auðs í nafni umhverfisverndar. Á meðan önnur þróunarríki* búa yfir nægri lífslöngun til að klóra í bakkann þegar illa árar, er Svandísarheftarinn, rétt eins og faðir hennar, að tryggja að við sem þjóð fáum að hírast á hnjánum meðal þjóða heims. Aldrei nóg eftirgefið. Líklega er Ísland eina þróunarlandið sem sjálfviljugt gefur frá sér réttinn til að standa stolt meðal þjóða. Ekki einu sinni heldur tvisvar og koma þar feðginin við sögu í bæði skiptin .*Icesave gerir okkur að þróunarríki
Mynd 1: www.townhall.com
Mynd 2: co2realist.com
Mynd 3:www.townhall.com
Mynd 4: www.baltimoresun.com
Viðauki við fyrri færslu:
Upplýsandi myndband um meðferð óþægilegra mála í Kaupmannahöfn
Bloggar | Breytt 12.12.2009 kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
17.11.2009 | 21:11
Hlutleysi RÚV!
Annað slagið rís upp umræða um meint hlutleysi RÚV. Undantekningalaust birtist þá Páll Magnússon eða Óðinn fréttastjóri Jónsson kokhraustir og kannast ekki við halla á fréttaflutningi stofnunarinnar. Stofnun þeirra. Og svo sannarlega telja þeir að stofnunin sé þeirra, enda fara þeir með hana sem sína einkaeign. Enginn vafi leikur lengur á pólitískum yfirráðum á RÚV. Ekki eftir "fréttaskúbb" dagsins. Ekki eftir pistil Rásar2 í dægurmálaútvarpinu nú í eftirmiðdag. Stöllurnar Linda Blöndal og Erla S. Ragnarsdóttir fóu þar á kostum þegar þær spiluðu langt mónólog Ólafs F. Magnússonar, þar sem hann bar ýmsar
ávirðingar á borgarstjóra og borgarfulltrúann Gísla Martein. Efa ég að þessir fulltrúar Reykvíkinga hafi setið hljóðir á eftir, en áheyrendum var ekki gefinn kostur á að heyra andsvör. Þeir sem sátu undir ávirðingunum fengu ekki sekúndubrot af útsendingartíma dægurmálaútvarpsins til andsvara. Dillandi músík og síðan umræða frá Alþingi, þar sem tekist var á um forkastanlega afgreiðslu fjárlaganefndar á Icesave. Þrír sjálfstæðismenn fengu þar að koma skoðun sinni á framfæri. Lítur nú helst útfyrir að umræðan frá Alþingi hafi gengið svo nærri þáttastjórnendum að þeir hafi ekki treyst sér til að hlusta á borgarstjóra og Gísla Martein bera af sér ásakanirnar. En hlustendur, sem greiða nauðugir afnotagjöldin, eiga rétt á að fá að hlýða á allar hliðar máls jafnvel þótt það þreyti dagskrárgerðarmenn. Ávirðingar Ólafs þóttu þó það fréttnæmar að þær voru endurfluttar í kvöldfréttatíma og til að tryggja að enginn hafi farið á mis við boðskapinn var valinn kafli sendur út í lok Spegilsins. Sjónvarpið sá svo um að endurflytja hugvekju Ólafs, sem þegar betur er að gáð snéri frekar að "Trio con mezzo" en Sjálfstæðisflokknum. En "sannleiksleitandi áróðursmeistarar RÚV" sáu ekki ástæðu til að leiðrétta það.
Morgunútvarp Rásar 2, sem mér hugnast að mörgu leyti ágætleg, lætur ekki sitt eftir liggja hvað þetta varðar. Enginn sjálfstæðismaður hefur fengið þar inni til að tjá pólitíska skoðun öðruvísi en að Samfylkingin fái umsvifalaust að veita andsvar. Maður á mann eins og það er kallað. Og ég minnist þess ekki að framsóknarmaður eða fulltrúi Hreyfingarinnar hafi fengið að viðra skoðun, jafnvel ekki í debat við Samfylkinguna. Fyrrverandi þingmenn þessara tveggja utangarðsflokka, Bjarni Harðarson og séra Hjálmar Jónsson fengu þó nýlega að koma í þáttinn til að ræða bækur sínar sem báðar eru á ævisögulegum nótum. Hins vegar fá ráðherrar ríkisstjórnarinnar og málpípur þeirra ómælt rými til að bera pólitískan boðskap sinn á þjóðarborðið.
Það fer að læðast að manni grunur að RÚV sé komið í startholurnar vegna sveitastjórnarkosninga næsta vor. Baráttan um borgina er hafin. Línan hefur verið lögð og skal séð til þess að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn ruggi ekki hinni strönduðu ríkisskútu. Í þeirri baráttu hefur einkastöð ríkisstjórnarinnar hlutverki að gegna. Hún á að sjá um þöggun óæskilegra radda í samfélaginu. Dægurmálaútvarpið hefur sýnt sitt andlit, en í þessum efnum lætur sjónvarpið ekki sitt eftir liggja, eins og sjá mátti í kvöld varðandi fréttina af Ólafi F. sem í eina tíð þótti ekki brúklegt fréttaefni nema hann sé að flækjast fyrir sjálfum sér.
Fyrir utan Ólaf F. hefur RÚV ekkert fréttnæmt séð á vettvangi borgarmála síðan Björk Vilhjálmsdóttir hnaut um sinn eigin bjálka þegar hún reyndi að benda á flísina í Framsóknarflokknum. Í samanburði við Dag B. var Sigmundur Davíð þó ekki nema hálfdrættingur og umræðan þagnaði því jafnskjótt.
Ætli RÚV, útvarp eða sjónvarp, hafi hugmynd um að borgarstjóri Reykjavíkur heitir Hanna Birna Kristjánsdóttir? Ef dæma má af áhugaleysi stofnunarinnar á málefnum borgarinnar hafa fréttirnar ekki enn borist þar inn á borð. Það er breyting frá þeim tíma, þegar R-listinn réði þar ríkjum og fréttamenn RÚV mættu með tannburstann svo þjóðin færi ekki á mis við gullkornin sem þá hrutu af hvers manns vörum.
Fyrir þessa "þjónustu" fáum við að greiða hvort sem okkur líkar betur eða ver.
Mynd 1 og 2: www.ruv.is
Mynd 3: www.dailytelegraph.co.uk
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.11.2009 | 20:59
Misjafnt hafast mennirnir að
Á meðan hér situr stjórn sem berst gegn vilja þorra þjóðarinnar fyrir inngöngu í Evrópusambandið, nú Evrópuríkið, Þá eru þeir til sem berjast fyrir útgöngu úr þessu kolkrabbbabandalagi.
Daniel Hannan talar fyrir munn margra.
"It cannot be repeated too often that recovering our independence from Brussels ought to be a means to an end the end being a freer, more democratic, more decentralised Britain."
Þetta segir Daniel Hannan og hefur orðið ágætan hljómgrunn meðal þjóðar sinnar. En hér heima berst Samfylkingin fyrir því að við köstum frá okkur sjálfstæðinu, einöngrum okkur frá umheiminum og skríðum undir pilsfald valds sem engum lýtur. Rennum saman við þjóðir sem við eigum ekkert sameiginlegt með annað en að ganga á tveimur fótum.
EB hefur kverkatak á aðildarþjóðum. DH bendir á að Ísland, Noregur, Lichtenstein og Sviss sem öll standa utan Evrópuríkisins eigi meiri viðskipti við EB per haus, en Bretar. Þeir þurfa að bæta sér þessa "sérmeðferð" sambandsins upp með því að hafa þeim mun meira upp úr viðskiptum þjóðir utan sambandsins. Er þetta ekki bara munstrið? Fengjum við ekki viðlíka meðhöndlun ef við höldum okkur ekki á mottunni eftir inngöngu? En þrátt fyrir að meginlandsþjóðirnar sendi Bretum langt nef í viðskiptum, þá þykir þeim sjálfsagt að láta Breta standa undir hlutfallslega hæstum kosnaði (Bretar og Þjóðverjar greiða mest) við rekstur þessa klíkuklúbbs sem Brusselvaldið er.
Það er athyglisvert að Samfylkingin sem hæst galar um lýðræði og lýðræðisást, rekur nú fyrir þinginu frumvarp um "valdið til fólksins" í formi persónukjörs. Þetta er gert á sama tíma og Samfylkingin vill gera sem minnst úr áhrifum íslensku þjóðarinnar á líf sitt og umhverfi. Samfylkingin vill flytja nánast alla lagasetningu og stjórnvaldsákvarðanir til Brussel þar sem hún er í höndum fólks sem enginn hefur kosið.
Er nokkuð undarlegt að maður skilji ekki þá orðræðu sem Samfylkingin býður þjóðinni uppá.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Janúar 2021
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Desember 2014
- Júlí 2014
- Desember 2012
- Maí 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
Bloggvinir
-
baldher
-
gattin
-
tilveran-i-esb
-
gun
-
gustaf
-
haddi9001
-
heimssyn
-
aglow
-
jonvalurjensson
-
ksh
-
altice
-
skrafarinn
-
sigurgeirorri
-
blauturdropi
-
postdoc
-
olijoe
-
hugsun
-
iceberg
-
annabjorghjartardottir
-
borgfirska-birnan
-
eeelle
-
gessi
-
elnino
-
muggi69
-
gustafskulason
-
bassinn
-
krist
-
samstada-thjodar
-
fullveldi
-
valdimarjohannesson
-
thjodarheidur
Bækur
Valið er mitt
Á, við og undir náttborðinu
-
: The Tyranny of Guilt; An Essay on Western Masochism (ISBN: 978-0-691-14376-7)
Góð greining á vandamálum Vesturlanda
-
: Þjóðmál_sumar 2010
Skyldulesning ársins
-
: Vísnafýsn (ISBN: 978-9979-2-2115-9)
Léttleiki í fyrirrúmi með djúpum undirtón
-
: Margherita Dolce Vita (ISBN: 1-933372-20-6)
Ádeila á neysluhyggju sögð með of mörgum orðum.
-
: Stolen without a Gun; confessions from inside history´s biggest accounting fraud (ISBN: 978-0-9797558-0-4)
Kennsla í aðferðafræði. -
: The Curious Incident of the Dog in the Night-Time (ISBN: 0 099 47043 8)
Sérstök bók; fyndin og döpur í senn.
-
: 79 af stöðinni (ISBN: 978-9979-53-523-2)
Sunnlenska bókakaffið blífur
-
: The Big Sort (ISBN: 978-0-618-68935-4)
Pólarísering í velmegunar samfélagi.
-
: Slander (ISBN: 1-4000-4952-0)
Fróðleg og fyndin
-
: Fjölmiðlar 2007 (ISBN: 978-9979-651-36-9)
Góð upprifjun
-
: The Nanny State (ISBN: 978-0-7679-2432-0)
Forsjárhyggja framar öllu
-
: Shakespeare (ISBN: 13-978-0-00-719790-3)
Það sem við vitum ekki um skáldið frá Stratford. Í senn fyndin og fróðleg.
-
: Shoot the Puppy (ISBN: 978-0-141-02706-7)
Útlistun á orðræðu viðskipta-og fjármálageirans, þar sem stríðsleikir samtímans fara fram.
-
: Lost in Translation (ISBN: 978-1-84317-272-7)
Góð í ferðalagið
-
: Surrender Is Not an Option (ISBN: 978-1-4165-5284-0)
Segir allt sem segja þarf um erindisleysu okkar í Öryggisráð SÞ
-
: House of Meetings (ISBN: 978-0-676-97787-5)
Bók sem vert er að eyða tíma í að lesa.