Færsluflokkur: Bloggar
19.4.2010 | 23:07
After the Ball is over ....
Hrundrottningin greinir sjúkdóminn
Loksins þegar skýrsla rannsóknarnefndarinnar kom út og Samfylkingin gat ekki lengur vikist undan ábyrgð þá leitaði hún skjóls í fórnarlambshlutverkinu. Heiðskírir sakleysingjarnir í Samfylkingunni höfðu ekki uggt að sér. Hinir ógurlegu vírusar, nýfrjálshyggjan og Blairisminn, sem leikið hafa lausum hala í heimi viðskipta síðan Sóvétríkin féllu, náðu taki á trúgirni samfylkingarmanna og höfðu þá undir. Samfylkingin trúir þessu sjálf enda varla til önnur skýring á afturhvarfi flokksins til hugmyndafræði gömlu kommanna. Enginn skyldi vanmeta pólitíska yfirbót. Allra síst þegar hún er böðuð tárum. Flott show.
En söguskýringar Samfylkingarinnar eiga sér sjaldnast styrkar stoðir. Hér þarf samfylkingarfólk að velja milli ræðu Jóhönnu á laugardag og Borgarnesræðu Ingibjargar Sólrúnar. Var það ekki í Borgarnesræðu sem Ingibjörg Sólrún vændi Blair um að hafa stolið hugmyndum Kvennalistans og gert að sínum? Það verður því að teljast ómaklegt af Samfylkingunni að gera Blair að blóraböggli í þessari tilraun flokksins til hvítþvottar. Þvert á móti, sé málið skoðað gerir Borgarnesræðan Blair að fórnarlambi framsækinna (sic) mussukellinga og því ótrúverðugt að koma með svona eftirá skýringu. Nema, náttúrlega, við séum hér áhorfendur að uppgjöri þeirra Jóhönnu og Ingibjargar.
Og Jóhanna heldur áfram að velta sér uppúr vitleysunni, þegar hún segir nýfrjálshyggju vera smitið sem orsakaði sjúklegt ástands flokksins. Veit Jóhanna yfir höfuð hvað hún er að tala um? Hvar kemur nýfrjálshyggja inn í sjúkdómsmynd Samfylkingarinnar?
Nýfrjálshyggja er týpískur orðaleppur sem samfylkingarfólk slær um sig með, án þess að gera minnstu tilraun til að útskýra merkingu hans. Fyrir utan þá staðreynd að grundvallarforsendur NÝFRJÁLSHYGGJU (neoconsevatism) eru ekki fysískt til staðar á Íslandi, þá fellur ímynd orðins engan veginn að stjórnarháttum Sjálfstæðisflokksins. Betur að svo hefði verið. Eða hvernig útskýrir Samfylkingin 37% fjölgun opinberra starfsmanna á síðustu 8 árum stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins sem óbeislaða "nýfrjálshyggju"? Eða 43 nýjar ríkisstofnanir á 14 árum, flestar sem við gætum hæglega komist af án? Var það kannski nýfrjálshyggja Sjálfstæðisflokksins sem neyddi Samfylkinguna til að samþykkja 20% hækkun á fjárlögum milli áranna 2007-2008, hækkun sem að mestu leyti fór til að blása út ráðuneyti Samfylkingar? Tuttugu prósent hækkun sem enn stefndi þráðbeint upp í loftið þegar Hrunið varð.
Samfylkingin þarf að horfast í augu við að hún getur ekki skellt skuldinni á aðra. Blairismi og nýfrjálshyggja útskýra ekki meinið sem nagar flokkinn. Óheilindi, ráðleysi og dáðleysi eru höfuðeinkenni Samfylkingarinnar. Í þeim efnum eru hún enginn eftirbátur Steingríms Joð og félaga í einbeittum brotavilja gegn íslenskri þjóð.
Mynd1: www.vb.is
Mynd2: www.unicef.org
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2010 | 09:08
Listin að leika á lagabókstafinn
Vilhjálmur Bjarnason er hetja helgarinnar. Hingað til hefur krafa almennings verið á hendur stjórnmálamanna, viðskiptalífsins og fjármálageirans að taka til í sínum ranni. Það sem höfnun Vilhjálms á gjöfum gangsteranna sýndi umfram allt var að ábyrgð siðbótar liggur hjá hverjum og einum. Vilhjálmur er maðurinn úti í bæ sem gerði okkur ljóst að þegar við þiggjum mútur þá erum við samsek. Hver og einn getur nú litið í eigin barm og spurt sig -hvað gerði ég og hvað get ég gert til að bæta fyrir brot mín?
En þótt við eigum öll einhvern þátt í því hvernig fór erum við þó ekki öll jafn sek. Hafi Vilhjálmur verið hetja helgarinnar, þá voru skúrkarnir þó fleiri. Lekinn úr tölvupóstum stjórnenda Glitnis opinberar hina kaldrifjuðu aðför sem þeir gerðu að viðskiptamönnum og smærri hluthöfum bankans. Lekinn sýnir, svo ekki verður um villst, þá spillingu sem viðgekkst í bankakerfinu undir það síðasta. Ekki bara hvernig stjórnendur bankans ráðskuðust með fjármuni fólks sem lagt hafði sparnað sinn í hendur þeirra heldur sýnir hann líka hvernig mörk góðra starfshátta voru afmáð og brotin þvers og kruss. Græðgi, hroki, barnalegur sjálfbirgingsháttur og siðblinda réðu ferð. Það voru mér því gríðarleg vonbrigði í morgun þegar ég heyrði talað um að samkvæmt einhverjum niðurstöðum í meistararitgerðar laganema við HÍ væru slíkar gloppur í lagasetningu um ábyrgð eigenda, (sérstaklega varðandi skuggastjórnendur) sem gerðu að verkum að þeir yrðu ekki sakfeldir. Þar var átt við skuggabaldurinn sjálfan, Jón Ásgeir, nema fleiri stjórnarmenn hafi tekið þátt í leiknum. En svona rúlla teningarnir í réttarríkinu og Jón Ásgeir vissi nákvæmlega hvar hnífsegg lagabókstafsins lá.
Þrátt fyrir vonbrigðin kemur mér það ekki sérstaklega á óvart að topparnir eigi kannski eftir að sleppa óskaddaðir frá þessum hrunadansi. Frístundir mínar hafa verið fáar undanfarin ár, en Páskafríið núna gaf mér tækifæri til að hvílast frá amstri hversdagsins og lesa nokkrar bækur mér til skemmtunar. Tvær þeirra eru mér eftirminnilegastar og má segja að þær fleigi á undarlegan hátt fréttir þessarar viku. Önnur fjallar um dreng með Asperger´s heilkenni, The Curious Incident of the Dog in the Night-Time og hin fjallar um bókhaldsbrellur. Stolen without a Gun; Confessions from inside history´s biggest accounting fraud er hrein opinberun á hvernig fjarskiptafyrirtækið MCI í Bandaríkjunum beitti ótrúlegum brellum til að halda verðgildi hlutabréfa uppi meðan stjórnendur þess unnu að því að koma fyrirtækinu í sölu. Allt stemmdi að því að hámarka arð eigendanna. Goldsmith-æfingarnar hjá Glitni gefa þeim loftfimleikum ekkert eftir.
Stjórnendur MCI höfðu erindi sem erfiði, losuðu sig við fyrirtækið í faðm WorldCom sem uppgötvaði ekki fyrr en eftir á að það hafði keypt köttinn í sekknum. Kaupverðið, $37 milljarðar reyndist 50% hærra en eignir félagsins, sem var þó snöktum skárra en verðmiði WorldCom eftir að FBI hafði farið höndum um það. Vinnubrögðin hjá WorldCom voru ekki svo ýkja frábrugðin því sem átti sér stað hjá MCI, enda byggði FBI rannsókn sína á MCI vinnunni þegar þeir tókust á við risann WorldCom; stærsta fjársvikamál sem flett hafði verið ofan af þar til Enron og undirmálslánin sprungu í andlit eigenda sinna.
WorldCom varð svo að segja gjaldþrota þegar virði þess á markaði fór úr $153 milljörðum í 6.8 en hluthafar og æðstu stjórnendur MCI gengu hins vegar frá sínu flaki með fullar hendur fjár. Starfsmenn á plani sem séð höfðu um skítverkin fengu svo nýtt hlutverk við að telja sprungurnar á innveggjum ríkisfangelsanna. Hver örlög Jóns Ásgeirs og kumpána verða er ekki gott að segja en einhvern veginn læðist að manni sá grunur að þeir komist frá þessu án verulegra áverka og bókhaldið dæmist á ábyrgð skúringakonunnar.
Samkvæmið var á heimsvísu alstaðar eins; ungir hungraðir menn án samvisku:
En þá komum við að þessum skemmtilegu tilviljunum sem lífið er alltaf að skenkja okkur. Í vikunni las ég grein í DailyTelegraph sem tengdi Páskalesninguna mína svo undarlega saman, þ.e. bókhaldsbrellurnar og Asperges heilkennið. Í greininni var fjallað um náungann sem varð milljóner á undirmálslána-brellunum sem urðu fjárglæframönnum í íslensku bönkunum að falli. Það er með ólíkindum að heimurinn skuli riða til falls vegna bólu sem var hönnuð af manni sem hafði ekki grundvallarkunnáttu í viðskiptafræði og aðeins tekið einn kúrs í tölvunarfræði og það skuli vera til í þessu sama sólkerfi læknir, haldinn þeirri undarlegu hegðun sem kallast Asperger´s sem gerði honum kleift að lesa í gegnum textann á þessum banvænu skuldabréfavafningum og græða á því fúlgur fjár.
Til að skilja hvað keyrði hina djöfullegu atburðarás áfram þarf hinn almenni borgari, sem í mesta lagi hefur verið þátttakandi í þeim bókhaldsbrellum sem felast í kaupum á svartri vinnu, að lesa sig til. Óþarfi að einskorða sig við "gulldrengina" okkar því hér erum við að tala um atburði og hegðun á heimsvísu og nóg er af bókum á markaði þótt misgóðar séu. Einn fyrrverandi verðbréfasali, Michael Lewis, hefur gert það gott í bókabransanum. Hann lýsti atburðarásinni á Wall Street fyrst í bók sinni Liar´s Poker og hefur nú skrifað nýja bók um það sem leiddi til þeirra vandamála sem þjóðir heims eru nú að berjast við. Nýja bókin heitir The Big Short: Inside the Doomsday Machine og gefur, samkvæmt greinarhöfundi DT, þeirri fyrri ekkert eftir. "dómsdags maskínan" ætti því að vera bitastæðari lesning en hvítþvottabækurnar sem þátttakendurnir í íslenska samkvæminu hafa lagt á náttborð landsmanna, það er að segja ef menn vilja skilja atburðarásina.
Þeir sem vilja feta í fótspor Vilhjálms geta svo t.d. lagt sitt af mörkum til betra samfélags næst þegar þeim er boðin svört vinna.
Allt telur.
Mynd1: www.photoshelter.com
Mynd2: www.dv.is
Mynd3: www.nymag.com
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2010 | 23:40
Sármóðgaðir fréttamenn
Morgunhanarnir Sigmar og Margrét
Það var kátt á hjalla í Morgunútvarpi Rásar2 í morgun. Bogi kom í sína vikulegu heimsókn fullur af "sönnum og réttum" fréttaskýringum (sic). Það sem vakti mesta kátínu hjá morgunhönunum og kom af stað endalausu flissi og hneykslunarhnussi voru leiðbeiningar Boga um hvernig menn ættu að hlusta á Fox sjónvarpsstöðina. Varast skal að taka hana alvarlega, Fox er ekki í þeim business að flytja sannar og réttar fréttir - hún hefur pólitíska dagskrá (veivei) og er mjög hægrisinnuð.
Lægra getur sjónvarpsstöð ekki lotið að mati Boga og morgunhananna.
Tilefni kátínunnar var frétt á Fox þar sem gert var nokkuð mikið úr gosinu sem tröllriðið hefur öllum fréttaflutningi hér heima síðastliðna 5 daga og sér ekki fyrir endann á: Ætlar Katla að gjósa, ætlar Katla ekki að gjósa? Hvað höfum við heyrt þessa spurningu oft síðan á sunnudag. Fréttakona Fox taldi víst að gosið boðaði heimsendi en, so watt, getum við láð henni það? Hefur fréttaflutningur hér ekki miðast við að hver frétt gæti orðið hin síðasta? Hverjum fréttamanni hefur verið úthlutað sinni þúfu þar sem sömu mennirnir eru spurðir sömu spurninganna og gengur spekin svo hring eftir hring. Góð afsökun til að þurfa ekki að spyrja ráðamenn þjóðarinnar óþægilegra spurninga þegar verkstjórnin er við það að springa framan í andlitin á þeim.
En aftur að Fox. Reyndar lýsti Bogi því yfir að stöðin væri beinlínis óheiðarleg og hlutdræg og "fyrir okkur aðra fréttamenn sem, hmmm, höfum það að leiðarljósi að skýra satt og rétt frá, þá er það nánast móðgun að þeir skuli kalla sig fréttamenn". Ekki skrítið þótt Bogi hafi hikað við að taka svona stórt uppí sig, en "sannleiksást" Boga hafði yfirhöndina og nú veit alþjóð hvað óheiðarleiki og hlutdrægni annarra er fréttamönnum sársaukafull.
Fyrrverandi fréttastjórinn sá líka ástæðu til að nefna tóninn hjá spyrjandanum. Bogi er slíkum leikrænni tjáningu óvanur enda líklega aldrei hlustaði á tóninn hjá fyrrverandi undirmanni sínum, Ingimar Karli eða kollega sinna í Speglinum þeim Friðriki Páli og Gunnari Gunnarssyni leggja upp með ísmeygilegar spurningar í tóntegund sem segir allt sem hugur þeirra vill koma á framfæri.
En hvernig getur þessi áróðurskór sem söng svo dátt í morgunútvarpinu í morgun hnussað af fyrirlitningu yfir heimsendafrétt í Bandaríkjunum? Fyrir aðeins tveimur árum síðan stóð hér á sviðið í Háskóabíó maður sem boðaði heimsendir. Fyrir fótum hans lá söfnuðurinn: menningarelíta Íslands, fréttamenn, bankageirinn, útrásarvíkingarnir og umhverfissinnarnir og kyrjuðu, Hallelúja, lof þér frelsari mikli.
Þá var heimsendir ekki hlægilegur og söfnuðurinn stóð trúr með sínum manni allar götur þar til í desember á síðasta ári, þegar heimsendir var afboðaður í skyndi á fundi Samtaka trúboða um heimsendi í kjölfar hlýnunar jarðar. Í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmál er fjallar um einstætt framlag Íslands til heimsendavísindanna og hefði sú umfjöllun átt meira erindi í morgunþátt Rásar2 en þessi no-news frétt Fox. Kannski Bogi taki það fyrir næst.
Hér fylgir svo framlag páfans Gore (æææ, heitir hann kannski Bore) til heimsbókmenntanna. Framlag sem menningarvitarnir á Huffington Post segja jafnast á við það besta sem Yeats lét frá sér fara. Þeir ættu að vita það, því HuffPo er bandaríska útgáfan af söfnuðinum sem kraup við fótskör meistara síns í Háskólabío.
One thin September soon
A floating continent disappears
In midnight sun
Vapors rise as
Fever settles on an acid sea
Neptune's bones dissolve
Snow glides from the mountain
Ice fathers floods for a season
A hard rain comes quickly
Then dirt is parched
Kindling is placed in the forest
For the lightning's celebration
Unknown creatures
Take their leave, unmourned
Horsemen ready their stirrups
Passion seeks heroes and friends
The bell of the city
On the hill is rung
The shepherd cries
The hour of choosing has arrived
Here are your tools
Our Choice: A Plan to Solve the Climate Crisis by Al Gore
Mynd1: www.3.bp.blogspot.com
Mynd2: www.myanimalblog.worldpress.com
Mynd3: www.telegraph.co.uk
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2010 | 23:40
Veit blaðamaðurinn ekki hvað skáldið í höfði hans er að aðhafast
Er það kóngulóarvefurinn í kolli fréttaritara Pressunnar á Akureyri, Björns Þorlákssonar, sem flækist um heilafrumurnar svo hann greinir ekki lengur milli ímyndunarafls og veruleika? Hafa störf hans við fréttamennsku í 20 ár einkennst af þjónkun við skáldskapargyðjuna frekar en staðreyndir eða skyldi kennsla í þjóðfélagsfræðum hafa ruglað hann tímabundið í ríminu? Þessar hugleiðingar vöknuðu með mér þegar ég las sérkennilegan pistil sem "fréttaritarinn" setti á Pressusíðuna í dag.
Samkvæmt frásögn Björns viðist Birgir Guðmundsson, dósent við háskólann á Akureyri, gera sitt besta til að miðla til nemenda sinna grundvallarskilningi þess hvað telst góð blaðamennska og hvað ekki. Það er því ekki við Birgir að sakast ef nemendur hans hafa ekki einbeitingarhæfileika til að fylgja honum eftir, enda varla við því að búast að nemendur í blaðamennsku árið 2010 láti bjóða sér uppá annað eins rugl og að hlutverk blaðamanna sé að "miðli því aðeins sem varðar almannaheill". Fordæmin sem þeir hafa fyrir sér gefa varla tilefni til þess.
Björn er engin undantekning í þeim efnum og lét því hugann reika á meðan Birgir lét móðan mása. Spurningar úr heimi veruleikans (sic) flugu í gegnum hugskot Björns og fyrr en varði var hann farinn að velta fyrir sér mórölskum flækjum sem blaðamenn á Mogganum undir stjórn Davíðs stæðu frammi fyrir dag hvern. Blaðamenn Moggans eru, samkvæmt Birni, þeir einu sem standa frammi fyrir siðferðilegum álitamálum í heimi fjölmiðla á Íslandi í dag. Gott er að heyra að blaða og fréttamenn annarra miðla geta gengið til verka sinna án allra efasemda og geta þá látið, eins og Björn, gamminn geysa með góðri samvisku.
Því verður ekki á móti mælt að gammur Björns fór hratt yfir. Frá því að spyrja móralskra spurninga eins og "Hvernig skyldu .. blaðamenn Moggans .. með Davíð (gat skeð) framan í sér .. feta þröngan stíg fagmennsku .. getur verið að siðlegt eða ekki siðlegt .. sé látið þar lönd og leið", kemst fákur huga hans á fullt flug og fyrr en varir hefur Björn komist að niðurstöðu:
"Það er vont að blaðamenn Morgunblaðsins hafi svona litla trú á sér, því í hópi moggablaðamanna býr mikið atgervi. Ef ekki væri búið að hræða þá svo mjög til fylgispektar (ég trúi ekki að nokkur frjáls blaðamaður kjósi sjálfviljugur að vinna undir höfuðpaurum þjóðfélagssögu hvers tíma)"
Nákvæmlega hvar blaðamenn Moggans glötuðu trúnni á sjálfan sig lætur Björn hjá líða að útskýra, en leggur til að verkfallsaðgerðir gætu fært þeim hana aftur. Þá, skyndilega, virðist fréttaritarinn vakna aftur til meðvitundar í norðlenska firðinum og uppgötva tilgang blaðamennsku í þágu almennings "og það sem er meir um vert: Blaðamenn Moggans myndu uppskera virðingu. Virðingu hins sama almennings og blaðamönnum ber skylda að þjóna. Annars eru þeir ekki blaðamenn".
Maður spyr sig, getur verið að þessi rugludallur hafi getað haft ofan af fyrir sér með blaðamennsku í tuttugu ár? Já, því miður. Því þrátt fyrir góðan vilja Birgis Guðmundssonar að upplýsa, þá er þetta planið sem drjúgur hluti blaðamanna á Íslandi hefur verið á síðastliðin 20 ár.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.3.2010 | 22:46
De urinoirs de Sodoma bar
politics makes strange bedfellows var haft eftir bandarískum ritstjóra fyrir margt löngu. Íslendingar, með allar sínar samsteypustjórnir kannast við það. En háðfuglinn Groucho Marx fullkomnaði setninguna þegar hann benti á að "politics don´t make strange bedfellows, marriage does". Þetta kallast að kryfja málið til mergjar.
Í síðustu viku rakst ég á sérkennilega sængurfélaga í anddyri hins fræga Concertgebouw tónlistarhúss í Amsterdam. Í Cultureel Supplement NRC Handelsblad komst ég í kynni við næturlíf Reykjavíkurborgar á nokkuð nýstárlegan og nærgöngulan hátt. Horfðist ég þar í augu við helstu gerendur bankahrunsins á Íslandi óvægið og kalt á kamrinum. Sjálfskipaðir sálfræðingar höfðu komið fyrir andlitsmyndum af Jóni Ásgeiri, Hannesi Smárasyni, Bjarna Ármannssyni og Finni Ingólfssyni í hlandskálum veitingastaðarins Sódóma og var ungur maður að losa sig við drykkjarföng kvöldsins í enn eina skálina og byrgði þannig sýn á fimmta þrjótinn. Bráðsnjöll hugmynd sem sparað getur óhemju fé í heilbrigðiskerfinu ef nýtt sem terapía gegn áfallastreitu fórnarlamba bankakrísunnar.
Menningarlegt viðtal við 4 íslenska rithöfunda fylgdi myndinni. Með smá fyrirhöfn og frelsi hins vankunnandi tókst mér að púsla saman orðræðu hinna miklu manna. Gat ég ekki betur séð en Sjón og Hallgrímur Helga ættu enn eitthvað óuppgert við Davíð Oddsson og hefðu haft gott af því að heimsækja sálfræðisetur af þeirri gerð sem getið er um hér að ofan. Halldór Guðmundsson hélt sínum menningarlega kúl, en skáldið Guðbergur Bergsson var samur við sig og hélt sig við jörðina. Hann sagði blaðamanninum frá uppruna sínum í "einangruðu þorpi við Grindavík, þar sem aðeins hraunflákar, sandhólar og jökull (smá skáldaleyfi) fönguðu augað. Faðir hans sjómaður, móðir hans húsfreyja og fjölskylda sem lifði við þröngan kost. Hann segir hrunið ekki hafa haft áhrif á sig og það valdi heldur ekki Íslandi áhyggjum". Guðbergur er eins og landið, hann mælir í öldum.
Það kemur ekki á óvart að Guðbergur er klassa ofar en skáldbræður hans.
Ljósmynd: Olivier Morin, sem einnig átti myndina sem prýddi bókakálfNRC Handelsblad.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.3.2010 | 21:50
Hefur allt verið sagt?
Ekki aldeilis. Hver er enn að tala? Hver nema Óratorinn mikli? Enn einu sinni er Obama að hnýta endann á frumvarpið sem sagt var á lokaspretti í júlí, ágúst og október á síðasta ári. Og nú er nýr lokasprettur hafinn. Eftir 36 opinberar ræður er Obama nú í "kosningaham að mæla fyrir Heilbrigðisfrumvarpinu" eins og Sveinn Helgason segir með aðdáun í röddinni í pistli sínum á RÚV.
Til að afla málstaðnum fylgi eru tryggingarfélögin rægð þótt sýnt hafi verið fram á að þau eru ekki að taka arð út úr rekstrinum. Atkvæði þingmanna eru keypt: 100 milljón dollara hér, 300 þar og nú er götustrákurinn í Hvítahúsinu, Rahm, að beita slímtækninni á þingmenn demókrata sem treysta sér ekki til að styðja frumvarpið. Rahm Emmanuel eltir þá upp í sturtunni ef ekki vill betur til eins og þessi fyrirsögn úr RealClearPolitics ber með sér:
Nude Rahm Emanuel Told Massa He "Better Vote With The President"
En þrátt fyrir allar þessa ræður er BO ekki að ná til fólksins. Fólksins sem veit að það kostar að koma slíku kerfi á, þ.e. minnst $500 milljarða í auka sköttum. Veit að klipið verður af tryggingakerfi eldri borgara, Medicare prógramminu aðrir $500 milljarðar. Því venjulegt fólk gerir sér grein fyrir að þessir þúsund milljarðar verða sóttir í þeirra vasa.
Andstætt vonum Sveins er Obama ekki að gera það svo gott. Nýjasta könnun Rasmussen er nú í þriðja sinn á innan við þremur mánuðum að sýna vinsældarstuðul forsetans í -21. Aðeins 22% líklegra kjósenda segjast mjög ánægðir með frammistöðu hans, 43% eru afspyrnu óánægðir.
Töfraljóminn sem hvíldi á Obama hefur glatað lit sínum. Gamli fréttasnápurinn Dan Rather er ekki eins ginkeyptur fyrir glansmyndinni og Sveinn, Rather sagði í viðtali á MSNBC um aðfarir Obama við að keyra heilbrigðisfrumvarpið ofan í þjóðina að hann "gæti ekki selt vatnsmelónur í vegkantinum þótt vegalöggan stoppaði alla umferð fyrir hann". Rather þurfti reyndar að bakka svolítið með myndlíkinguna, því einhverjum þótti sem rasískt bragð væri af vatnsmelónunni, en hann var alveg til í að leita á náðir annarra myndlíkinga ef þess væri krafist.
Eins og könnun Rasmussen sýnir er Kananum ekki skemmt? Ekki aldeilis. Ræður Obama eru ekki lengur að skila áhangendum og það á ekki bara við um BNA, Chris Ayres á blaðinu hennar Hildar Helgu lýsir lamandilúnum maraþonfundi um frumvarpið með fyrirsögninni "Try to stay awake: the President has a healthcare Bill to pass". Og var þó Ayres frekar jákvæður í umsögn sinni um þennan sjö tíma píslarbekk sem forsetinn lagði þjóð sína á.
Spurningin í dag er: hve mikið fækkar hinum MJÖG ÁNÆGÐU áður en forsetinn áttar sig á það er ekki lengur hægt að keyra málið í gegn með hótunum eða mútum? Margir þingmenn demókrata sjá sína sæng útbreidda og hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér í kosningunum í haust. Mörgum verður eflaust slátrað, en Obama heldur ótrauður áfram, rétt eins og bíllinn hans Ómars Ragnarssonar sem rúllaði á einu hjóli "en áfram skröltir hann þó".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2010 | 12:01
The Case of the Missing Choir
Í gær urðu ákveðin þáttaskil í ævi minni, þegar ég útskrifaðist með meistaragráðu í líf og læknavísindum frá Háskóla Íslands. Ég var þarna í fríðum flokki "framtíðar" Íslands og ekki ein úr bloggheimum, því bloggvinur minn og Húnvetningurinn Hjörtur Jónas Guðmundsson var þarna í sömu erindagerðum, þ.e. að taka við prófskírteini og er hann nú "legit" sagnfræðingur. Barátta hans fyrir sjálfstæði íslenskrar þjóðar hafði borið hann nokkuð af leið bóknámsins. Ég óska honum til hamingju með áfangann.
Mikil breyting hefur orðið á framkvæmd athafnarinnir síðan ég stóð þar síðast á sviði (2003) og má eflaust rekja þessa breytingu til aukinnar áherslu skólans á fjölþjóðleg samskipti. Frá því að vera hátíðleg en nokkuð þunglamaleg athöfn, hefur nú verið skipt um gír og er nú öllu snaggaralegri svo ekki sé minnst á lita-showið sem nú ræður ríkjum. Minnti það helst á kjötkveðjuhátíð í Rio þegar forsetar fræðasviða og deilda gengu uppá sviðið sveipaðir litskrúðugum treflum, sem með réttu hefðu átt að kalla á heimsókn á sólbaðsstofu og nokkrar stélfjaðrir. Rektor einn hélt sínum hátíðleika.
En það var fleira óhefðbundið við þessa athöfn. Undir lok ræðu rektors varð vart við ókyrrð á sviðinu, sendiboði válegra tíðinda bar stallara rektors einhver boð sem leiddi til skyndifundar hirðmanna við útgöngudyrnar. Að lokinni ræðu rektors kom svo stallarinn í pontu og upplýsti salinn að sá voveiflegi atburður hefði gerst að Háskólakórinn hefði ekki skilað sér í hús. Virtist sem hann hefði gufað upp, því engin útskýring kom á hvarfinu. Helst dettur mér í hug að kórinn hafi lent í sömu uppákomu og ég við að komast á staðinn án þess að hafa haft sömu fyrirhyggju. Í mínu besta pússi þurfti ég nefnilega að moka bílinn minn út úr skafli og gerði það með nokkrum tilþrifum. En að fenginni reynslu ferðast ég alltaf með kúst og skóflu á vetrum. Það hjálpar heilmikið þegar sumardekkin halda að þau séu heilsársdekk.
En nú voru góð ráð dýr. Enginn kór og virtist því vera um snautlegan endir á herlegheitunum að ræða. En háskólamönnum er ýmislegt til listar lagt og var brugðið á það þjóðlega ráð að láta gesti bara skemmta sér sjálfum. Forsöngvari var fenginn úr hópi deildarstjóra og söng allur salurinn Ísland ögrum skorið, ekki einu sinni heldur tvisvar, svo undir tók. Mér sýndist flestir bara ánægðir með þau endalok. En hafi einhver fregnir af kórnum væri gaman ef viðkomandi léti vita. Ég skal koma með skófluna.
Svona leit kórinn út síðast þegar sást til hans.
Myndin er fengin að láni frá Arnbirni Eiríkssyni á Stafnesi og er frá útskrift dóttur hans sumarið 2009.
Mynd1: HÍ
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
14.2.2010 | 00:28
Styttur bæjarins
Þessi teikning hefur ekkert að gera með þessa færslu. Ég vildi bara gleðja bloggvini mína sem eru tilbúnir að berjast fyrir krónuna og gegn evru og ESB aðild til síðasta blóðdropa. Það eru fleiri farnir að gera sér grein fyrir að ekki er allt sem sýnist í evrulandi. Eldar loga víða.
Og nú eru jólin búin.
Næst á dagsskrá er kvenleg framtakssemi.
Í vikunni voru allir fjölmiðlar landsins uppljómaðir af samningi SA, sem snýr að því að tryggja konum sæti í stjórnum fyrirtækja ekki síðar enn sautjánhundruð og súrkál. Þá vitum við að eftir útrásarfylliríið hefur SA gefið upp vonina um að reka fyrirtæki á grundvelli hagnaðar, svo ekki sé minnst á að velja hæfasta einstaklinginn til verksins. Nú skal pólitísk rétthugsun ráða og látið er undan háværum kröfum um "jafnrétti" með því að raða á stólana samkvæmt líffræðilegum breytileika.
Og hvenær skyldi svo röðin koma að samkynhneigðum, lituðum, fötluðum og rétttrúuðum?
En þetta er útúrdúr og hefur heldur ekkert með efni færslunnar að gera. Færslan snýst um þrjár greinar sem birtust í Mogganum, Fréttablaðinu og á Pressunni, í þessari röð og sú nýjast birtist í dag, þegar knattspyrnusambandið kynnti afhjúpun styttu til heiðurs Alberti Guðmundssyni, sem fyrstur Íslendinga lagðist í víking á svið fótfimi og gerðist atvinnumaður í grein sinni.
Kudos fyrir knattspyrnusambandið og Albert.
Í lok janúar var tilkynnt um úrslit samkeppni á vegum Reykjavíkurborgar um styttu af Tómasi Guðmundssyni, betur þekkur sem borgarskálið okkar. Styttunni er ætlaður staður í Hljómskálagarði þar sem skáldið hvílir lúin bein og horfir innávið, hugsanlega í leit að skáldagyðjunni sem fyrst kvaddi dyra hjá honum í skólanum handan Tjarnarinnar.
Það hefur tekið langan tíma fyrir Reykjavíkurborg að koma sér niður á verk sem gæti túlkað afstöðu borgarbúa til þessa ástkæra skálds. Þetta verk vekur sömu notalegu tilfinninguna sem ljóð skáldsins vöktu og vekja enn í brjóstum þeirra sem gefa sér tíma til að staldra við ljóð Tómasar.
En ekki hafði tilkynning um niðurstöðu samkeppninnar fyrr verið kynnt en Fréttablaðið birti grein frá sköruglegum skáldkonum, sem telja sig sviknar af því borgin hefur ekki heiðrað minningu skáldkonunnar Svövu Jakobsdóttur, eins og þær höfðu óskað efir. Svo sannarlega á Svava skilið að stytta verði gerð til að heiðra minningu hennar, en framtaksemi þessara ágætu kvenna sem allar kunna að koma fyrir sig orði er ekki upp á marga fiska. Kvörtun skáldkvennanna byggir á því að þær hafi óskað eftir við borgina árið 2006 að slíkri styttu yrði komið fyrir í borgarlandinu, en borgin síðan ákveðið í einhverjum "blossheitum" bríma að reisa styttu af Tómasi Guðmundssyni í staðinn.
Það merkilega við þessa grein skáldkvennanna er að hinn frjói andi skáldagyðjunnar skyldi ekki hafa blásið þeim í brjóst hugmynd um að bretta bara upp ermar; hefja söfnun, halda ljóðakvöld, lesa úr bókum sínum á kaffihúsum með viðeigandi betliskál (engin móðgun í því) eða bara slá í púkk og greiða fyrir minnisvarðann sjálfar. Ég myndi fús leggja mitt af mörkum til að heiðra Svöfu enda á hún það margfalt skilið, þó ekki væri fyrir annað en halda uppi vörnum fyrir Jónas Hallgrímsson og Grasaferð hans, þegar femínisminn ætlaði að leggja hann á klofbragði. En þar fyrir utan var Svava eitt af okkar allra bestu skáldum og fyrir það á hún allan heiður skilið
Þessar bréfaskriftir kvenlegra skálda sýna að aðferðafræði skapandi hugsunar nær aðeins að buddu annarra. Eigið framlag er ekkert. Svekktar og sárar senda þær borginni tóninn af því að fjögur ár, eitt bréf og tvær greinar hafa ekki borið þann árangur sem þær ætluðu. Síðastliðið haust skráði ég mig á lista hjá framtaksömu fólki sem vildi reisa styttu til minningar Icesave-ánauðinni svo menn gætu um ókomna tíð vitað hverjir stóðu að því að hneppa æsku þessa lands í ánauð. Þar var ekkert bænaskjal til borgarinnar, ekkert víl og volæði, aðeins vilji til að framkvæma.
SA ætti frekar að leita eftir stjórnarmönnum í fyrirtæki sín í þessum hópi, sé þeim á annað borð í mun að reka þau á arðbæran hátt. Fólk sem er tilbúið að taka á sig erfiðið í stað þess að ætla öðrum að kosta óskir sínar.
Það er eitthvað svo ótrúlega 2007.
Mynd1: www.tounhall.com
Mynd2: http://myndasafn.ksi.is
Mynd3: www.silfuregils.eyjan.is
Mynd4: www.dr.dk/Kultur/Forfatteratlas/Atlas/Forfatt...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2010 | 23:35
Enginn veit hvað átt hefur fyrr en......
Að eiga og tapa
Þetta glaðbeitta skilti birtist á mánudaginn var við þjóðveg í útjaðri smábæjarins Wyoming í Minnesota. Mikil leynd virtist hvíla á uppsetningu þess og vildi í fyrstu enginn kannaðist við hver hefði komið því fyrir. Það var ekki fyrr en skiltið hafði birst á öllum sjónvarpsstöðvum og fjölmiðlum Bandaríkjanna sem snápar komust að því að samtök smáfyrirtækja í grenndinni hefðu borgað fyrir uppsetninguna. Eigendur þessara fyrirtækja voru að mótmæla aðgerðaleysi Obama í atvinnumálum.
Ekki leið sólarhringurinn áður en fyrirtæki um gervöll BNA höfðu gert sér grein fyrir auglýsingagildinu sem þetta skilti á sléttunni bar í sér og nú má kaupa T-boli, tölvutöskur, tóbaksdósir og innkaupatuðrur með mynd af Bush og áminningunni sem smájöfrarnir í MN sendu forseta sínum. Húmorinn sem í skiltinu felst fer þó framhjá þessum 10-12% landsmanna sem enn trúa á frelsarann Barack Obama sem á að færa þeim frið og alsælu, enda bjargföst trú þeirra að hann geti leikið listir forvera síns og gengið á vatni. En smáviðskiptin þola ekki bið, þeir sem þau stunda kæra sig ekki um trillekunster. Þeir þurfa að borga laun og reikninga og sjá fjölskyldum sínum farborða. Félagsmálafulltrúinn í Hvíta húsinu gefur lítið fyrir það enda líkt og Jóhanna og Steingrímur Joð heldur hann að ríkið standi undir velferðinni .
Joe the Plummer reyndi að rétta þann kúrs, en var úthrópaður fyrir að trúa á ameríska drauminn. Að eignast sitt eigið fyrirtæki, skapa störf og afurð sem aðrir vildu kaupa. Þessi smellna auglýsing varpar nú ljósi á stöðu almennra borgara sem taka á sig sífellt auknar byrðar skatta svo félagsmálafulltrúinn geti fjölgað opinberum störfum og lagt á ráðinn um enn fleiri.
Húmorinn sem þarna birtist er banvænn. Hann er sama eðlis og rússneski almúginn beitti fyrir sig gegn kommúnískum kúgurum sínum og sem slíkur hættulegur hinni húmorslausu sjálfumgleði sem telur sig alltaf vita hvað öðrum er fyrir bestu.
Smáfirmarekendur ættu þó að vera varir um sig. Þessa dagana er hið ameríska geðlæknafélag að sammælast um endurbætur á sjúkdómsgreininga handbók sinni. Meðal tillagna sem nú liggja fyrir varðandi börn og unglinga er "vanstilling með eirðarleysi" áður þekkt sem uppvöðslusemi eða frekja, "geðrofsáhættu heilkenni" áður kallað einþykkni eða unglingaveiki, en fullvaxta glæsibringur geta fengið á sig stimpil fyrir að vera of kært til kvenna og teljast þá haldnir "ofvirkri æxlunarfýsn". Þetta flokkaðist áður undir heilbrigða kynhvöt og stuðlaði þá að viðhaldi mannkynsins.
Hver veit nema spaugsemi sú sem birtist á skiltinu gæti jafnvel endað í handbók-til-greiningar-geðrænna-kvilla undir heitinu "hvatvís skopskynstruflun".
Mynd1: www.newsmax.com
Mynd2: www.cafepress.com
Mynd3: www.pegasusnews.com
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.2.2010 | 22:28
Mönnum bátana; alla sótrafta á flot
Það gengur mikið á hjá Samfylkingunni þessa dagana. Mætti halda að þeir eigi ekki von á góðu frá hinni tárvotu rannsókarnefnd sem vonast til að skila skýrslu sinn einhvern tímann fyrir næstu aldamót.
En gerir nokkuð til þótt einn og einn Björgvin falli fyrir borð? Það má alltaf finna annan bassa til að fylla upp í hamingjukórinn. Verra væri ef skýrslan sýndi að Jóhanna hafi haft hönd í bagga með ríkisútgjöldunum í ríkisstjórn Geirs H. Reyndar er útilokað að svo hafi ekki verið þegar tekið er tillit til þessarar 20% hækkunar sem varð á fyrstu fjárlögunum sem sú ríkisstjórn afgreiddi. Slík er gæska Jóhönnu. En Samfylkingin getur verið án Bjögga bassa og Jóhönnu. Samfylkingin á hins vegar við "hér og nú" ímyndarvanda að stríða. Hún hefur veðjað öllu sínu á að Steingrímur tæki skellinn fyrir Iceslave samninginn, sem átti að tryggja að Íslendingar skriðu á hnjánum inní Evrópusambandið. Nú er komin upp ný staða og allar líkur á að Samfylkingin fylgi Vg niður klósettrörið. Það er nefnilega engan bilbug að finn á vilja þjóðarinnar.
VIÐ VILJUM EKKI BORGA ICESLAVE.
Kennslustund í stjórnmálafræði.
Ólafur Ragnar sá möguleika í stöðunni að rétta sinn hlut með þjóðinni. Samfylkingin er nú að upplifa það sem Framsókn upplifði einu sinni með þeim háæruverðuga og Alþýðubandalagið einhverjum árum síðar. Ólafur Ragnar er enn sami ólafurragnarsistinn sem lætur ekki hugsjónir eða pólitík annarra koma milli sín og ímyndarinnar. Sogist Jóhanna og Samfylking hennar niður rörið þá verður bara svo að vera. Ólafur blómstrar sem aldrei fyrr; heggur til heimspressuna á báða bóga og bregður sér svo á boltann við mikinn fögnuð lýðsins.
Nýja Ísland
Við svo búið mátti Samfylkingin ekki lengur sitja með hendur í skauti. Hagfræðingarnir Þórólfur Matt og Friðril Már mála nú skrattann á veggin ófögrum litum. Eiríkur Bergmann er sendur út af örkinni til að minna þjóðina á stjórnskipun landsins og Ingólfur Bjarni skellir Seðlabankanum í ábúðarfullri "frétt" um lygamerðina sem þar höfðu hreiðrað um sig. Steinunn Valdís flytur frumvarp um Íraksstríðið, sem reyndar var flutt fyrir fáeinum vikum síðan. Svo mikið liggur Samfylkingunni nú á að draga athyglina frá þeirri staðreynd að maður og mús Samfylkingarinnar á þingi greiddi atkvæði með samningnum sem þjóðin ætlar að fella í sinni fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslu síðan 1944.
Nú er um að gera að sverja af sér glæpinn. Svavari var fórnað í Kastljósinu í kvöld og þegar Svavari er fórnað þá er Steingrími Joð fórnað í leiðinni. Aðstoðarmennirnir á RÚV tóku að sér að kynna hið frumlega frumvarð Steinunnar Valdísar með því að grilla Halldór Ásgrímsson vegna fornra glæpa. Þegar Halldór vildi ekki gangast við að hafa lagt annað til stríðsrekstursins en afnot að flugbraut og smávegis aðstoð við uppbyggingarstarf stökk Margrét Marteinsdóttir á hann og spurði "En hvað ef við hefðum haft her?"
Er nema von að maður spyrji "En hvað ef fréttamenn ríkisútvarpsins hefðu heila í stað kvarna?"
Þegar svo er komið má segja að smjörklípan sé óðum að verða að fjalli.
Bloggar | Breytt 3.2.2010 kl. 07:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Janúar 2021
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Desember 2014
- Júlí 2014
- Desember 2012
- Maí 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
Bloggvinir
-
baldher
-
gattin
-
tilveran-i-esb
-
gun
-
gustaf
-
haddi9001
-
heimssyn
-
aglow
-
jonvalurjensson
-
ksh
-
altice
-
skrafarinn
-
sigurgeirorri
-
blauturdropi
-
postdoc
-
olijoe
-
hugsun
-
iceberg
-
annabjorghjartardottir
-
borgfirska-birnan
-
eeelle
-
gessi
-
elnino
-
muggi69
-
gustafskulason
-
bassinn
-
krist
-
samstada-thjodar
-
fullveldi
-
valdimarjohannesson
-
thjodarheidur
Bækur
Valið er mitt
Á, við og undir náttborðinu
-
: The Tyranny of Guilt; An Essay on Western Masochism (ISBN: 978-0-691-14376-7)
Góð greining á vandamálum Vesturlanda
-
: Þjóðmál_sumar 2010
Skyldulesning ársins
-
: Vísnafýsn (ISBN: 978-9979-2-2115-9)
Léttleiki í fyrirrúmi með djúpum undirtón
-
: Margherita Dolce Vita (ISBN: 1-933372-20-6)
Ádeila á neysluhyggju sögð með of mörgum orðum.
-
: Stolen without a Gun; confessions from inside history´s biggest accounting fraud (ISBN: 978-0-9797558-0-4)
Kennsla í aðferðafræði. -
: The Curious Incident of the Dog in the Night-Time (ISBN: 0 099 47043 8)
Sérstök bók; fyndin og döpur í senn.
-
: 79 af stöðinni (ISBN: 978-9979-53-523-2)
Sunnlenska bókakaffið blífur
-
: The Big Sort (ISBN: 978-0-618-68935-4)
Pólarísering í velmegunar samfélagi.
-
: Slander (ISBN: 1-4000-4952-0)
Fróðleg og fyndin
-
: Fjölmiðlar 2007 (ISBN: 978-9979-651-36-9)
Góð upprifjun
-
: The Nanny State (ISBN: 978-0-7679-2432-0)
Forsjárhyggja framar öllu
-
: Shakespeare (ISBN: 13-978-0-00-719790-3)
Það sem við vitum ekki um skáldið frá Stratford. Í senn fyndin og fróðleg.
-
: Shoot the Puppy (ISBN: 978-0-141-02706-7)
Útlistun á orðræðu viðskipta-og fjármálageirans, þar sem stríðsleikir samtímans fara fram.
-
: Lost in Translation (ISBN: 978-1-84317-272-7)
Góð í ferðalagið
-
: Surrender Is Not an Option (ISBN: 978-1-4165-5284-0)
Segir allt sem segja þarf um erindisleysu okkar í Öryggisráð SÞ
-
: House of Meetings (ISBN: 978-0-676-97787-5)
Bók sem vert er að eyða tíma í að lesa.