Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Eru infi-delarnir að ná vopnum sínum?

Svona hefst vegferðin?

Loksins er sjálfsbjargarviðleitnin að vakna hjá vestrænum undirlægjum. Og eins og í öðrum kúguðum samfélögum er það húmorinn sem ber broddinn. Morðið á Theo van Gogh olli afturkipp í baráttunni gegn hörðum íslamisma, en tíminn læknar öll sár og kjarkurinn er að banka uppá aftur. Og ekki ólíklegt að viðbrögðin við Múhameðsteikningunum hafi sýnt mönnum að undanlátsemi við öfgum bætir ekki stöðuna. Bretar ríða fyrstir á vaðið. Kvikmynd um vandamál "trúvillinga" í vestrænu samfélagi er komin í kvikmyndahús í UK og hún hlaut góðar viðtökur á Tribeca hátíðinni í NY.

Pólitískri rétthugsun er gefið langt nef í sögu sem fjallar um gyðing sem í æsku var ættleiddur af múslimum sem ólu hann upp í íslamskri trú. Þegar hann uppgötvar sannleikann fer atburðarásinn á flug eins og "trailerinn" hér að ofan sýnir. Römm er sú taug og allt það......

The Infidel

Aðalleikarinn, Omid Jalili, er sjálfur múslimi sem vekur von um að múslimskt samfélag sé að hefja göngu til innri íhugunar. Að horfa í eigin barm er jú upphafið.

Vonandi kemur myndin fljótlega í kvikmyndahús hér á landi, en þeir sem ekki geta beðið geta keypt hana á Amazon og kostar hún ₤9.99

 

 


Frjálslyndi, var einhver að tala um frjálslyndi?

Frjálslyndi, spyrjið "frjálslynda" hvernig best er að stjórna.  

Spænska dagblaðið La Vanguardia átti viðtal við leikstjórann Woody Allen í tilefni heimsóknar hans á uppskeruhátíð kvikmyndagerðarmanna í Cannes. Reyndar tókst öðru blaði að ná skúbbinu, þegar Allen tók til varna fyrir barnaníðinginn Roman Polanski. Allen hefur líklega talið sér skeggið skylt. Engu að síður náði Framvörðurinn ágætri fyrirsögn þegar hinn frjálslyndi Woody lýsti því yfir að hann teldi það væri bara gott mál að Obama fengi einræðisvald, hann gæti komið svo mörgum góðum hlutum í gegn ef þessir republikanar væru ekki alltaf að þvælast fyrir honum.

Líklega er Woody Allen of upptekin við að leysa út róandi pillur í apótekinu til að fylgjast með þjóðmálum og því að demókratar eru nú þegar með rífandi meirihluta í báðum deildum þingsins. Svona ekki ólíkt þeim meirihluta sem Samfylking og Vg státa af. Republikanar eru einfaldlega ekkert að þvælast fyrir þeim. Demókratar geta komið hverju því máli í gegnum þingið, sem þeir hafa kjark til að bera upp og reka áfram. Þessi meirihluti er nánast ígildi einræðisvalds. Vandamálið er að það dugir þeim skammt, því almenningur er bara ekki að kaupa allt þetta frjálslyndi sem demókratar telja sig þurfa að þröngva upp á hann. Ekki að undra þótt þeir sjái að miklu einfaldara væri að geta beitt hervaldi en þurfa að bera mál sín undir hvikula kjósenda.

Svo Woody Allen hefur tekið af þeim ómakið. Sagt beint út það sem allir demókratar, sem þurfa að bera þingsæti sitt undir vanþakkláta kjósendur í haust, eru að hugsa.

The Liberal

Pólitískt vit fer Woody ekki vel.  Ætli hann finni sig ekki betur í því sem hann kann best; kvikmyndastjórn, smástelpukáf og töflutökur. 

Woody segir aðeins það sem allir vita, að frjálslyndi er svo óþægilega þungt í vöfum fyrir hina "frjálslyndu".

 

Mynd: www.townhall.com

 


Er þetta eins kjörtímabilsmaður?

Þeirri spurningu er aðeins svarað af kjósendum. Vilja kjósendur trúa því sem stjórnmálamenn lofa í kosningabaráttunni eða eru kjósendur aðeins að sefa samviskuna þegar þeir KJÓSA að trúa því sem sleipir og slímugir frambjóðendur lofa í hita leiksins? Skyldi nokkur íslenskur atvinnupólitíkus hafa hugrekki til að standa og falla með sínum skoðunum eins og þessi nýkjörni fylkisstjóri í NJ. Hann segist hafa verið kosinn til að framkvæma það sem hann lofaði kjósendum að gera. Hann er ekki að leita að útgönguleið og því talar hann skýrt og dregur ekkert undan. Og er, að því leyti, ólíkur atvinnupólitíkusum sem frá kjördegi hugsa um það eitt að ná aftur kosningu. Hér svarar hann blaðamanni fullum hálsi.
Gov Christie calls S-L columnist thin-skinned for inquiring about his 'confrontational tone'

Pundið í lóðréttu falli

Á meðan hlutabréfamarkaðir í Evrópu slá hástökksmet eftir að Þjóðverjar opnuðu buddu sína upp á gátt er Nick Clegg að taka tappann úr breska pundinu. Þegar upp komst um lauslæti Libbu og augngotur til Labba tók pundið stökkið fram af bjargbrúninni. Markaðurinn virðist ekki sérlega spenntur fyrir tilhugalífi Libbu og Labba.

Allt byrjaði þetta þegar Brown tilkynnti að Labbi væri formlega farinn að gera hosur sínar grænar fyrir Libbu. Libba lét ekki á sér standa, brosti sínu blíðasta og blikkaði löngu augnhárunum sínum. Pundið stráféll því strákarnir í verslunarráðinu trúa ekki á að sambandið endist og spáin litur ekki björgulega út.  

Tilhugalíf Libbu og Labba

Nú komast Bretar að því hvað "hangandi þinghald" merkir. 

Skilar ástarbrími turtildúfnanna kannski nýjum kosningum í haust?


Meistari Kjarval, hvað er list?

Sú saga hefur verið sögð að Jóhannes Kjarval hafi eitt sinn verið spurður "meistari, hvað er list". Ekki stóð á svarinu:

"Að borða á hverjum degi í mötuneyti Kaupfélags Reyðarfjarðar, það er lyst".

 

Má ekki segja það bæði vera list og lyst að snæða þennan málsverð.


Vökult auga hvirfilbylsins

Eftir margra mánaða samningaumleitanir er loksins kominn botn í björgunarleiðangur ESB og AGS fyrir Grikki. Samanlagt ætla þessi göfugmenni að hósta upp litlum 120 milljörðum svo ESB þurfi ekki að horfast í augu við eigin mistök varðandi peningastefnu sína. Almenningur á Grikklandi þarf bara að herða sultarólina. Það ætlar hann, hins vegar ekki að gera ótilneyddur eins og helgarfréttirnar bera með sér. 

Hvirfilbylur í Evrulandi
 

Angela Merkel stendur frammi fyrir stórágjöf pólitískt í næstu kosningum ef henni tekst ekki að kveða niður reiði almennings í Þýskalandi vegna svikinna loforða stjórnmálamanna. Þjóðverjar voru aldrei áhugasamir um myntbandalagið, en voru keyrðir inn í það af valdasjúkum búrokrötum vopnuðum innantómum loforðum að Þjóðverjar þyrftu aldrei að axla ábyrgð á skuldum annarra þjóða. Nú, aðeins 10 árum eftir hátíðahöldin í kringum fæðingu króans standa pólitíkusarnir berrassaðir.

Reyndar var þýskur almenningur aldrei spurður hvort hann kærði sig um að deila mynt með slúbbertunum í suðri og má rekja það til þess að ESB hefur ekki góða reynslu af lýðræðisbrölti almúgans. Enn er almúginn að ybba gogg og nýjustu kannanir sýna að 57% Þjóðverja er mótfallin björgunaraðgerðunum á meðan aðeins 33% er þeim fylgjandi. En slíkur er ótti Merkel við brotlendingu Evrulands að hún er tilbúin að taka á sig ágjöfina. Hugsanlega vegna þess að næstu kosningar eru í Norður Rhine-Westphalen þar sem flokkur hennar hefur haft ágætt forskot. Hvort það forskot helst mun koma í ljós 9. maí, en þá gæti Merkel líka tapað meirihlutanum á Sambandsþinginu.

Ótti Merkel er ekki ástæðulaus, því margt hangir á spýtunni. Þýskir bankar hafa lánað háar upphæðir til Grikklands og hún veðjar á að eftirgjöf á kröfum upp á einhverja tugi prósenta sé betri kostur en gjaldþrot stóru bankanna. Hún veðjar því á að löndin sem verst eru stödd og ógna enn sæluríkinu nái að hysja upp um sig; koma hjólum atvinnulífs í gang og skera niður í ríkisútgjöld. Þetta kallast að skjóta af löngu færi, því Miðjarðarhafsklúbbunum er margt betur lagið en gæta aðhalds.

Líklegast er að ECB og Merkel neyðist nú til að klæðast leðurstígvélum og smella svipum svo suðri taki þau alvarlega og sogi ekki  Evrulandið oní sívökult auga hvirfilbylsins.

 

Mynd: www.townhall.com

 


Já, nú er það svart .......

..... og þá á ég ekki við öskufallið undir Eyjafjöllum eða nýjustu skoðanakönnun Gallup um fylgi flokkanna. Myrkrið sem yfir heimsbyggðina hvolfist nú er svartara en myrkur miðaldanna. Í það minnsta vissu miðaldamenn ekki betur. En hafi menn einhvern tímann efast um að Sameinuðu þjóðirnar væru heillum horfnar þá ættu þeir að líta nánar á stöðuna.

Í vikunni var skipað (án atkvæðagreiðslu) í nefnd um kvenréttindi innan Efnahags og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna. Ellefu sæti þurfti að fylla til 4 ára og sannaðist það sem áður hefur verið dagljóst að Sþ lúta nú í einu og öllu forsjá og fyrirmælum Samtaka íslamskra ríkja (OIC).

Til að tryggja velferð kvenna í heiminum taldi ráðið að fulltrúi Íran kæmi að bestum notum, en hingað til hafa þeir ekki dregið af sér að því að sýna konum hvernig virða beri yfirvaldið. 

iran_hanging_woman_3Íran nægir ekki að sveipa konur svörtum kuflum frá hvirfli til ilja. Sjáist sólbrúnka á kvenholdi kallar það á hýðingu, meint lauslæti kostar lífið. Íran hengir karla, konur, börn og gamalmenni. Að auki getur kona átt von á að vera grafin í jörð og grýtt til bana. Sitji hún nógu lengi í steininum sjá verðir laganna um raðnauðganirnar. Þá getur jafnvel dauðinn orðið tilhlökkunarefni. 

Það verður fróðlegt að fylgjast með hvort þessi frétt ratar inn í fréttatíma RÚV eða hvort mannréttindasamtök gera athugasemdir við þessa skipun. Íran hefur yfirleitt ekki náð að vekja mannréttindasamtök til dáða. Öll starfsorka mannréttindasamtaka Sþ (HRW) hefur hingað til farið í að skrifa skýrslur um og samþykkja ályktanir gegn Ísrael.

Þar sem Sþ gefa fordæmið er ekki við að búast að fólkið sem á svo greiðan aðgang að Kastljósinu og Rás2 og lýsir þar í smáatriðum mannvonsku Ísraelmanna, hafi hugmynd um að mannréttindabrot séu framin annars staðar í heiminum. Það verður þó að segjast að þessi glórulausa einsýni vekur mann óneitanlega til umhugsunar um að eitthvað annað búi að baki umhyggjunni en barátta fyrir mannréttindum.

En stendur það þá ekki upp á femínista að láta til sín taka í málinu? GrýtingGetum við t.d. búist við að íslenskir femínistar láti sig þessa nefndarskipun varða. Því miður eru litlar líkur til þess. Þetta byggi ég á viðhorfi aðstoðarkonu fyrrverandi heilbrigðisráðherra sem kynnti sér hlutskipti kvenna í Austurlöndum nær og skrifaði um það lærða bók. Taldi aðstoðarkonan ekkert skorta upp á sjálfstæði þessara múslímsku kvenna sem hún hitti og fannst það bara dálítið sætt hvernig menn tóku að sér að lýsa "skoðunum" eiginkvenna sinna, enda líklega aldrei hvarflað að henni að taka orðið af sínum manni.

Í raun eru íslenskir femínistar ekki ósvipaðir múllunum. Komi eitthvað við kviku þeirra er það léttúð og eggjandi ásýnd. Femínistar eru því líklegir til að grípa til boða og banna rétt eins og múllarnir. Bann við lostafullum magadansi mun fyrr hreyfa við þeim en kúgun og kvalræði kvenna. En áður en það getur orði má allt eins ímynda sér að múllarnir verði fyrr til. Sveipi þær svörtum kuflum og sendi á hlýðni námskeið svo þær læri að bera virðingu fyrir sér æðri verum.  

Það mun ekki nást samstaða um nein mótmæli vegna þessa nýjasta skandals hjá Sþ. Hvorki á Íslandi né annars staðar vegna þess að hið margrómaða lýðræði á í vök að verjast. Miðaldaöfl sækja að því. Það er í alvarlegri kreppu og þessi nefndarskipun er birtingarmynd hennar.

5. maí

NRO bendir á að Susan Rice, sendiherra BNA hjá Sþ. hafi ekki einu sinni verið viðstödd þegar Íran var skipað til sætis í nefnd um réttindamál kvenna. Bendir þetta til að kvennréttindamál séu hátt á lista ríkisstjórnar BNA?

 


Kynning á skuldabagga þjóðarinnar fyrir einfaldar sálir

Daniel Hannan setti þetta athygli verða myndband inn á síðuna sína með þessum orðum: "Hverning er hægt að útskýra tölur sem eru svo stórar að mannsheilinn, sem hannaður var fyrir lífið á gresjum Afríku jökultímans (2.588 - 12000 milljón árum Fyrir Nútímann (1950)), hefur ekki grænan grun um hvernig eigi að byrjað að ímynda sér?"

Þetta myndbanda svarar spurningu Daniels. 

 

Eflaust er þjóðarskuld Íslendinga ekkert í líkingu við þennan hrylling og því síður þann breska, en gæti eitthvert talnaglöggt ofurmenni sett skuldabagga þjóðarinnar með Icesave-sökkunni (ásamt vöxtum) upp á álíka einfaldan hátt svo einfaldar sálir skilji hvað verið er að hengja á þær.

Við þyrftum þá ekki að deila um þetta LÍTILRÆÐI sem Jóhanna og Steingrímur Joð segja það vera.


Ein með öllu; Ísland í dag

Fjármálahrunið, ÓRG og Eyjafjallajökull; er á ástandið bætandi? 

Ísland í hnotskurn

Hvað skyldu þessar drunur merkja? Er íslenskur almenningur að láta vita að þolinmæði hans sé þrotinn eða er annað hrun í vændum? Eftir það sem á undan er gengið eru Fannie og Freddie ekki beinlínis það sem mamma og pabbi vilja sjá Baby koma heim með.

 Þarf ekki einhver að láta Fjallkonuna vita að AEJAFJEILAJÓGUL er lentur í slæmum félagsskap? 

Mynd: www.townhall.com

 


Nýtt Ísland eða Gamalt

Endalaust þvaður um afsökunarbeiðnir og tuð um styrki, sem alla (líka fjölmiðlamenn) dreymdi um fyrir ekki svo löngu, tröllríður umræðunni á ljósvakanum. Jafnvel háskólamenn sem þrá ekkert heitar en að komast í styrkjakerfi ESB láta nú sem þeir séu hafnir yfir stjórnmálamennina sem glötuðu dómgreind sinni til Mammons.

Eitt gott kom þó fram á RÚV í dag. Svanur Kristjánsson "hótaði" að segja sig frá stjórmálaþátttöku ef flokkarnir tækju ekki til í styrkjamálum sínum og stjórnlagaþingi verði ekki komið á.

Gerum okkar besta til að láta Svan standa við loforð sín. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband