Leita í fréttum mbl.is

Heyr, heyr Geir

geirhaarde 

Hlustaði  á viðtalið við Geir Haarde á BBC. Hann var spurður hvort hann ætlaði ekki að biðjast afsökunar. Geir sagðist mundi bíða niðurstöðu úr rannsókninni sem nú er hafinn á því hvað fór úrskeiðis og hverjum var um að kenna og síst mundi hann fara að biðjast afsökunar í útsendingu á BBC.

Heyr, heyr segi ég bara. Flott hjá Geir. Þessi krafa um sjálfshýðingar á opinberum götuhornum er í ætt við nornaveiðar. Menn eiga bara að játa allt á sig, burt séð hvað gerðist og hver átti í hlut. Hverju skila þessar fáránlegu játningar bankastjóranna í Bretlandi nú í vikunni? Var einhver bættari af því að horfa á gamla karla niðurlægja sjálfa sig án þess að nokkuð kæmi fram um glæp þeirra? Þeir höfðu bara gert það sem allir hinir bankastjórarnir í heiminum höfðu gert; fylgt hjarðeðli sínu fram af bjargbrúninni. Hafi þeir framið glæpsamlegt athæfi þá eiga þeir að svara fyrir það á þann hátt sem lög segja til um. Það er leið siðmenningar. Að grýta fólk í fjölmiðlum, eða brenna á báli án sannaðrar sektar er forkastanleg forneskja.

BankamennAfsökunarbeiðnir þessara manna þjóna aðeins lægstu hvötum kröfuhafanna, enda var þeim tekið hæfilega trúanlega. Bloggheimar Bretlands loguðu af vandlætingu; ýmist töldu menn þá ekki hafa gengið nógu langt í játningum sínum eða að þeir hafi ekki meint orð af því sem þeir sögðu. Að dekra við svona skrílshugsun þjónar engum tilgangi. Aðeins dómskerfið getur tekið á sekt manna. Ekkert er auðveldara fyrir siðlausa menn en að biðjast afsökunar - það geta þeir án þess að blikka auga. Með þessu er ég ekki að dæma bankastjórana siðlausa, aðeins að segja að við erum engu nær um sekt þeirra en við vorum áður.

Við getum heldur ekki sett samasemmerki milli afglapa í bresku bönkunum og því sem átti sér stað hér. En bágt á ég með að sjá að íslenskur almenningur láti sér nægja að bankastjórar horfi bara í gaupnir sér og tuldri eitthvað um fyrirgefningu. Ég sætti mig ekki við neitt slíkt, því ég vil að réttlætið nái fram að ganga og menn séu látnir svara til saka séu þeir sekir.

Eflaust má álasa Geir, stjórnvöldum, alþingi og embættismönnum allra þeirra eftirlitskerfa sem létu hjá líða að koma böndum á ótemjuna. En getur íslenskur almenningur litið í eigin barm og sagt að hann hafi ekki tekið þátt í veislunni. Hve margir fylgdu fordæmi Davíðs Oddssonar og mótmæltu ofurlaunum og bónusum með því að taka peninga sína út úr bönkunum? Voru ekki allir sáttir við að hirða háa vexti, kaupa fleiri flatskjái, glæsikerrur og stærri hús? Ekki bar á öðru meðan aldan hélt áfram að rísa.

Getum við ætlast til að aðrir biðjist afsökunar á einhverju sem við vorum fullsátt við að taka þátt í sjálf. Höfum við efni á því að grýta aðra?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband