Leita í fréttum mbl.is

Kratinn kemur úr kafi

Hingað til hefur Þorgerður Katrín falið skoðanir sínar á bak við setninga, eins og "þetta hefur verið slitið úr samhengi" En hvernig skyldi hún útskýra þessa yfirlýsingu fyrir flokksfélögum sínu nú þegar hún er komin út úr krataskápnum "Íslendingar verða að fara að ræða alvarlega Evrópusambandið, hvort sem þeim líkar betur eða verr". Hafa þeir ekki tekið þátt í þeirri umræðu. Varla hefur um meira verið fjallað en þetta ESB mál, en nú er Þorgerður greinilega kominn í hóp þeirra sem telja að umræða eigi sér ekki stað nema allir séu henni sammála. ESB-kórinn kærir sig ekkert um blæbrigði, skítt með alt og bassa nú skulu allir syngja millirödd og hafiðið það.

Það er ekki skrítið þótt Samfylkingin upp til hópa hylli Þorgerði Katrínu; "hún hafði kjark til að takast á við Davíð". Það er varla til svo aumur Samfó-bloggari að hann láti hjá líða að leggja henni eitthvað gott til. En hvaða mál er það að hjóla í Davíð? Hefur hann eitthvað verið að gera henni? Gerði hann hana ekki að ráðherra, jafnvel þegar hún mátti ekkert vera að því að sinna slíkum málum. Hefur hann verið að svara þeim ónotum sem hún hefur verið að hreyta í hann? Satt, hann hefur stundum þurft að leiðrétta vitleysisganginn í krataparinu, þeim Þorgerði og Össuri, þegar þau eiga í erfiðleikum með að skilja hvaða ákvarðanir þau hafa tekið. En hvernig á annað að vera. Þau bulla út í loftið, fjölmiðlar vilja útskýringar og heimspressan sér til þess að umheimurinn viti af því að á Íslandi er óstjórnhæf ríkisstjórn. Síðan kemur hin mikla móðir, Ingibjörg og bætir um betur. Með þessu áframhaldi er mér til efs að nokkurt land sé til í að lána okkur svo mikið sem tíeyring með gati.

Það hallar á ráðherrastóla Sjálfstæðisflokksins eftir að Þorgerður Katrín gekk til liðs við Samfylkinguna. Krataeðlið kallaði og hún fylgdi kallinu.


mbl.is Tilbúin að endurskoða afstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Fyndin færsla. Hefur þú ekki áhyggjur að það eru bara 10% kjósenda yngri en 25 ára með hið sanna og rétta íhaldseðli samkvæmt könnunum? Þetta er flokkur í tilvistarkreppu. Þorgerður ein virðist skynja þörfina á endurmati innan flokksins. En innmúraðir munu reyna að telja hana ganga fram með svikum og óhollustu á meðan atvinnulíf og þorri flokksmanna fagnar ummælum hennar. Mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 2.11.2008 kl. 23:53

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Ja hérna, Gunnlaugur. Ég sem hélt að þú legðir þig ekki niður við pólitískt argaþras, eða var það ekki einhvern vegin þannig sem þú skildir við mig síðast?

Ég hef lifað nógu lengi til að vita að skoðanakannanir fara upp og niður; flokkar eru í ríkisstjórn og þeir sitja utan stjórna, fylgi er mikið eða lítið eftir atvikum. Samfylkingin hefur verið utan stjórna síðan hún var mynduð ´99. Allan þann tíma hefur hún haft tvö mál á dagskrá; skipulega rógsherferð gegn Davíð Oddsyni og boðun fagnaðarerindis Evrópusambandsins. Það hvarflar að manni að ef ekki væri fyrir ESB og Davíð Oddson þá hefði Samfylkingin ekkert lím til að halda sér saman.

Þorgerður Katrín ákvað að gagna í lið með Samfylkingunni og berjast fyrir sömu málefnum og nota sama lýðskrum. Ekki að undra að samfylkingarfólk taki henni opnum örmum. Valið er hennar en ég áskil mér rétt til að hafa aðra skoðun og koma henni á framfæri. Og það er gott að þú minntist á áhyggjur atvinnulífsins, þú hlýtur þá að hafa á reiðum höndum síðustu atvinnuleysistölur úr himnasælunni þarna í ESB.

Ragnhildur Kolka, 3.11.2008 kl. 00:23

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ragnheiður Kolka:

Ég er hægri maður, en ekki mikill frjálshyggjumaður. Ég sá þó vissa kosti við frjálshyggjuna á árunum 1991-2004, því á árunum 1956-58, 1958-1959 hafði landinu verið reynt að breyta landinu í hálfgert sósílistaríki. Þótt viðreisnarstjórninni hafi tekist að lagfæra ýmislegt var verkinu ekki lokið. Á árunum 1971-1991 var algert stjórnleysi í landinu og mátti vart á milli sjá hverjir stóðu sig verr við eða kommarnir. Það þurfti því að aflúsa landið hvað þetta varðaði og það gerði Davíð Oddsson á árunum 1991-2004.

Á árunum 2003-2004 vildu ég og fleiri síðan hægja á frjálshyggjunni og Sjálfstæðisflokknum og draga hann aðeins meira í íhaldsátt. Á þessum tíma fór ég að skoða möguleikann á ESB aðild. Í byrjun fannst mér þetta ekki góður valkostur, en á undanförnum 1-2 árum hefur mér þótt ESB alltaf meira og meira aðlaðandi. 

Í mörg ár þurftum við sem vildum fara hægar í sakirnar að lúta í lægra haldi fyrir vilja meirihlutans í flokknum, sem hefur aðhyllst nær óhefta frjálshyggju. Þetta hafði m.a. í för með sér að auka átti frelsi á kostnað alls eftirlits. Nú höfum við fengið reikninginn fyrir því.

Á sama hátt hef ég þurft að kyngja því að enginn nema ég og nokkrir aðrir "hægri kratar" - eins og þú uppnefnir okkur - hafa haft áhuga á og viljað skoða ESB aðild, sem valkost.

Á sama hátt og ég samþykkti vilja meirihlutans hefur minnihluti sjálfstæðismanna aðeins þann kost að samþykkja að flokkurinn vill skoða kosti og galla ESB aðildar með það í huga að sækja um aðild.

Ég sé að þú og þínir líkir viljið að ég og mínir líkar víkjum burt úr flokknum. Það sem þið áttið ykkur ekki á er að við erum orðin mjög mörg og kannski fleiri en þið, andstæðingar aðildar. Það er því spurning, hver rekur hvern úr flokknum!

Flokkurinn er ekki aðeins flokksmaskínan: stjórnir, fulltrúaráð, kjördæmaráð, miðstjórn og flokksráð o.s.frv.

Nei, flokkurinn eru einnig þeir sem kjósa flokkinn. Þeir hafa yfirgefið okkur að stóru leyti.

Í dag eru aðeins um 60% kjósenda, sem taka afstöðu og af þeim kjósa aðeins um 22% Sjálfstæðisflokkinn.  Stór hluti af þeim 30%, sem munu kjósa í næstu kosningum eru fólk sem hefur yfirgefið Sjálfstæðisflokkinn.

Lögmál markaðsfræðinnar segja okkur að maður á alltaf að halda í kúnnana sína og að það er alltaf erfitt að ná í kúnna, sem hafa yfirgefið eitthvað vörumerki óánægðir. Enn erfiðara er að ná í kúnna, sem eru tryggir neytendur einhverrar annarrar vöru.

Ragnheiður opnaðu augum og stöndum saman!

Ef vilji meirihluta kjósenda flokksins er að við göngum til liðs við ESB verður minnihlutinn að samþykkja það!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 3.11.2008 kl. 21:25

4 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Sæll Guðbjörn, þetta er athyglisverður pistill sem þú skrifar hér á síðuna. Verð þó að viðurkenna að mér hefði þótt betra að þú beindir orðum þínum til mín en ekki þessarar Ragnheiðar sem ég kann engin deili á.

Ég ætla ekki að fara í neinn meting við þig um hvort okkar er betri sjálfstæðismaður, en tel óþarfa af þér að gera mér upp skoðanir og setja á mig stimpla. Minn réttur til tjáningar er sá sami og þinn. Málið snýst ekki um mig, málið snýst um varaformann Sjálfstæðisflokksins og baráttuaðferðir hans.  

Þorgerður Katrín, sem varaformaður, hefur haft fjölmörg tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri. Hún kaus hins vegar að fara í opið stríð; taka upp baráttuaðferðir kratanna sem öskra á torgum, brenna fána og telja allt illt koma frá Davíð Oddssyni. Hún hóf þessa herferð gegn Davíð síðastliðið sumar við opnun gestaskálans við höfnina. Að tilefnislausu kastaði hún glósum að Davíð yfir Kalkofnsveginn. Undirtektirnar hafa greinilega verið góðar við þessum vígalegu tilburðum, en háværustu húrrahrópin fékk hún frá rógsherdeild Samfylkingarinnar. Þar er hennar sterkasta bakland. Hún hefur kosið að stilla sér upp við hlið Ingibjargar Sólrúnar, Jóns Baldvins og Kolfinnu. Ef flokkurinn klofnar þá geta menn þakkað Þorgerði það.

Þorgerður er metnaðarfull og kappsöm og hún telur sig foringjaefni, en hún er ekki sérlega djúpvitur. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki íþróttahreyfing; innan flokksins er líka fólk sem sækir ekki leikinn til þess eins að æpa á bekknum. Fólk sem gerir aðrar og meiri kröfur til formanns en þær að hann  beri sig bara mannalega. Hæfari menn eru til innan flokksins og ég vona að sjálfstæðismenn beri gæfu til að velja sér foringja, þegar þar að kemur,  sem hefur meiri hæfileika á sviði sameiningar en sundrungar. 

Ég hafna ekki aðild að Evrópusambandinu á grundvelli einhverrar hugmyndafræði. Andstaða mín helgast af því að þrátt fyrir öll árin sem á baki mínu hvíla, þá brennur enn lífslöngun í æðum mínum. ESB er dauðinn. ESB er tannlaust mölétið skrifstofubákn, sem getur ekki einu sinn viðhaldið sjálfu sér; þegnar þess nenna ekki einu sinni að fjölga sér. Og þeir gætu ekki varið sig ef á þá væri ráðist, hopa við hverja ögrun. Í slíku andrúmslofti býr engin framtíð, hvorki lýðræðisleg né efnahagsleg. Gengjumst við þeim á hönd værum við ekki að hugsa um börnin okkar, við værum einungis að redda sjálfum okkur fyrir horn augnabliksins.

Ég hef ekki verið neinn sérlegur aðdáandi útrásarvíkinganna og hef ekki legið á skoðunum mínum varðandi auvirðilega trú þeirra á peninga. Fjárausturinn sýndi aðeins fátækt hugans. En það sem dreif þá áfram var lífskraftur. Sami lífskrafturinn og áræðið sem maður sér enn á bryggjusporðum sjávarþorpanna, en er löngu horfinn úr ofvernduðu umhverfi borgarbarnanna. Þessi kraftur kom uppþornuðu viðskiptalífi Evrópu í opna skjöldu.

Ég vil sjá lifandi fólk í mínu landi, fólk sem er óragt við að takast á við tilveruna og því kýs ég að standa utan við dauðastríð Evrópusambandsins. Þeir sem vilja fylgja Þorgerði Katrínu í hennar helför hafa nú þegar gefist upp.

Ragnhildur Kolka, 4.11.2008 kl. 08:14

5 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ragnhildur Kolka:

Fyrirgefðu mér innilega, að ég skildi kalla þig Ragnheiði en ekki Ragnhildi!

Ég virði skoðanir þínar og finnst þær í sjálfu sér ágætlega rökstuddar. Hvað varðar frjósemi innan ESB, þá held ég að hún hafi minna að gera með sambandið sem slíkt, heldur frekar yfirgengilega skattlagningu og lítinn stuðning við fjölskyldur í Evrópu. Reyndar eiga fleiri vestræn ríki við svipuð vandamál að stríða, s.s. Japan og Bandaríkin.

Ég bjó í ESB í 12 ár (1986-1998) og verð að segja að ég upplifði það ekki, sem það skrímsli sem þú lýsir því. Þetta er auðvitað stórt samband og því kemur það mörgum þannig fyrir sjónir að skriffinnskan sé mikil.

Stjórnsýslan er hins vegar gagnsæ og mikið samráð hafti við hagsmunaaðila og aðildarlöndin þegar löggjöfin er samin. Flest þau lög, sem kom frá sambandinu eru eru mjög vel samin. Auk þess gleyma margir að aðeins er um rammalöggjöf að ræða og síðan er það aðildarríkjanna að fylla löggjöfina út með eigin löggjöf og útfærslu laganna. Þannig eru völd aðildarríkjanna mikið meiri en hún virðist við fyrstu sýn.

Það eru nú varla til stærri aðdáendur Davíðs Oddssonar en ég og ég er sannfærður um að hann sé einn stærsti - ef ekki stærsti - stjórnmálamaður, sem þjóðin hefur nokkurn tíma átt.

Hans tími er hins vegar útrunninn og honum ber að axla ábyrgð af því ástandi, sem við búum við. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að fleiri enn hann ættu að axla ábyrgð, s.s. stjórn Fjármálaeftirlitsins.

Þeir sem pólitíska ábyrgð bera munu síðan axla sína ábyrgð í næst þingkosningum, sem eru að mínu mati ekki langt undan.

Ég tel að við þurfum að flýta Landsfundi og halda hann helst í janúar og komast þá að niðurstöðu varðandi ESB aðildina og framtíðarleiðtoga flokksins.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 4.11.2008 kl. 19:50

6 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Við verðum seint sammála um ESB, Guðbjörn, og þá er ég ekki að draga í efa að þú hafi verið sáttur við líf þitt þar. Ég finn fyrir skyldleikanum þegar ég fer um Evrópu. Menningarlegar rætur okkar liggja þar. En ég hef ekki heyrt nein rök enn, sem knýja mig til að skipta um skoðun. Tel hvorki að ódýr matvæli eða evrufótur nægi til að við látum sjálfstæði okkar og auðlindir af hendi. Í dag eru auðlindirnar eina lifibrauð landsmanna.

Og hugsaðu þér bara hvað við erum heppin að eiga möguleikann á að láta menn axla ábyrgð. Hér er þó eitthvað hönd á festandi. 

Ragnhildur Kolka, 5.11.2008 kl. 22:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband