Leita í fréttum mbl.is

Hvað segja kannanir

Því verður seint haldið fram að afstaða Íslendinga sé ófyrirsjáanleg. Í kvöldfréttum kom það fram að 97% Íslendinga væru því fylgjandi að næsti forseti Bandaríkanna yrði demókrati. Aðeins 3% studdu John McCain. Verður að segjast að fjölmiðlum hafi orðið nokkuð ágengt að koma áróðursstefnu sinni á framfæri. 'Islenskir fjölmiðlar skera sig þannig ekki frá bandarískum fjölmiðlum, en talið var að þegar Clinton (l'homme) bauð sig fram til forseta, hafi 85% blaða-og fjölmiðlamanna í Washington D.C. stutt framboð hans. Bar kosningabaráttan merki þess.  Nú sýpur spúsan seiðið af vonbrigðum þessara fyrrum stuðningsmanna og sagt er að hún sé nú meðhöndluð af fjölmiðlum sem væri hún repúblikani. Enda stendur hún nú í ströngu. Barak er nýja goðið.

                                      Ohio primary

Íslendingar hafa ekki alveg fylgt þessu eftir. Hér fer afstaðan nefnilega eftir kyni eða kynþætti, eða því sem hver heldur að sé í mestri andstöðu við "kananna, kommúnista banann". Þeir sem styðja konu í hvaða embætti sem er, gera sér ekki grillur yfir smámunum eins og því hvað Hillary hafi unnið sér til ágætis. Þeir sem styðja kynþátt eru þeir sem vilja sýna "sjálfstæða skoðun" og þá skiptir afrekaskrá heldur engu máli. Þau andlegu afbrigðilegheit sem lagst hafa á sálir vestrænna manna vegna Íraksstríðsins, vega þyngst.

Ekki kom fram í könnuninni hvar í flokki þetta fólk stóð, en eitt er víst að enginn virðist hafa lesið ágætan pistil Andrésar Magnússonar í Viðskiptablaðinu um miðjan febrúar, sem fjallaði um málefnaskrá Hillary Clinton. Málefnaskrá Baraks Obama er copía af henni.  Eða hafi pistillinn verið lesinn hefur enginn talið sig þurfa að taka afstöðu til þeirra mála. Aðeins er hlustað á orð þessara pólitíkusa um að þeir ætli að draga herliðið út úr Írak. Skiptir þá engu hvað af hlýst. Jafnað skal um Georg W. hvað sem það kostar. Reyndar er rennt blint í sjóinn hvað varðar Barak Obama, en Hillary Clinton er það vel sjóuð í pólitík að hún veit að brottkvaðning hersins frá Írak setur Mið-Austurlönd í algert uppnám. Svör hennar við slíkum spurningum hafa líka verið nokkuð loðin.

Kannanir sem þessar segja akkúrat ekkert annað en að fjölmiðlar hafa staðið sig í stykkinu.  Stimplað sínar hugmyndir inn í heilabú Íslendinga, með beinum útsendingum af húsþökum heimsborgarinnar og með illkvittnislegum athugasemdum um þá sem ekki eru þóknanlegir - við erum í hringiðunni - við höfum eitthvað að segja.  Niðurstaðan fyrirsjáanleg. En hvernig sem málinu er snúið hafa íslenskir kjósendur ekkert um málið að segja, frekar en aðrir Evrópubúar.

Nýverið gerði Fréttablaðið könnun fyrir eiganda sinn, svo hann mætti vita hver áhrif orða hans um gjaldþrot bankanna hefðu verið. Ekki brást hin síkvika íslandshjörð. Allt í einu vildi meirihluti þjóðarinnar halla sér að breiðum barmi Evrópusambandsins. Skítt með þorskinn og auðlindirnar. Afstaðan túlkuð sem viðsnúningur viðhorfa án þess að nokkuð nýtt hafði komið fram um Evrópuaðild. Engin ný meðrök og því síður gagnrök. En þau hafa oft verið nýtt þegar harðnar á dalnum. Aðeins orð auðjöfursins, sem hingað til hefur ekki verið að spyrja þjóðina álits hvernig hann vill verja fjármunum sínum.  

Er einhver nær um niðurstöður þessara kannana, skipta þær einhvern, annan en fréttastofurnar, máli?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Væntanlega er Hannes Hólmsteinn einn af þessum 3 prósentum. Hann var ólatur að predika þá skoðun sína hve Bush væri betri kostur en Gore, fyrir 8 árum.

Það að geta átt þess kost að stofna sinn týpíska launaleikning í hvaða banka sem er á evrusvæðinu, finnast mér rök fyrir að aðhyllast aðild að evrópusambandinu. að losna undan einokun og áþján íslensku okrarannna. geta tekið lán á eðlilegum vöxtum, án þess að þurfa að greiða einhverjum umba vexti sem eru jafnvel hærri en LIBOR vextirnir og smyrjast ofan á allt saman. þurfa svo að búa við gengisóvissuna. með þessa jójómynt sem krónan er.

Brjánn Guðjónsson, 2.3.2008 kl. 00:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband