Leita í fréttum mbl.is

Niðurgreiðslustjórnun fiskveiða í ESB

Þarfir samfylkingarfólks eru ekki sérlega flóknar þegar kemur að ESB aðildarmálum. Lengi var kviðfylli aðildarsinna þeirra helsta baráttumál. Voru flestir þeirra tilbúnir að leggja frakka sína í svaðið fyrir kjúklingabringur á spottprís svo kommissararnir í Brussel gætu gengið þurrum fótum yfir fullveldi okkar. Má líkja þeirri afstöðu til þess þegar fátæklingar fyrr á öldum lögðu sér fornbókmenntirnar til munns, en þó án þess að hungrið sé Samfylkingunni til afsökunar. Þegar þessi röksemd þótti ekki lengur hrífa voru sölumennirnir sendir út á völlinn og landsala reynd. Fólki var talin trú um að Evrópusambandið myndi ausa hér yfir okkur fé í formi styrkja, en styrkir hafa álíka mikið aðdráttarafl fyrir samfylkingarfólk og kjúklingabringur.

En öllum að óvörum kom Jón Bjarnason þá til sögunnar. Enginn hafði reiknað með honum. Skyndilega voru varnir reistar gegn afhendingaráformum Samfylkingarinnar innan ríkistjórnarinnar. Stjórnin hafði þá enn ekki sett sér samningsmarkmið í viðræðum um aðildarumsóknina frekar en nú. Frá upphafi hefur utanríkisráðherra verið staðráðinn í að kasta frá sér fjöreggi þjóðarinnar og lagst á bakið gagnvart viðsemjendum. "Roll over" gæti verð veganestið sem íslenska samninganefndin tók með sér til Brussel. En Bjarnason lét ekki fallerast í stóli landbúnaðarráðherra og situr við sinn keip. Hann flækist fyrir á öllum vígstöðvum og ver niðurgreiðslur til landbúnaðar á þeirri forsendu að þær tryggi fæðuöryggi okkar. Stórskotaliðið úr háskólanum var þá kallað út til að hrekja bábiljur Jóns. Ekki tókst betur til en svo að uppvöknuðu efasemdir um gildi prófessora í velferð lands og þjóðar. Mun hafa verið spurt hve margra sauða virði hver prófessor væri. 

Í gær birtu náttúruverndarsamtökin Oceana útdrátt úr skýrslu sinni um niðurgreiðslur ESB vegna sjávarútvegs. Þessi skýrsla rifjaði upp fyrir mér bloggfærsla sem ég rakst á eftir Marinó G. Njálsson síðsumars og fjallaði um niðurgreiðslur og hin hagfræðilegu rök fyrir þeim sem svo augljóslega hafa farið framhjá háskólaprófessorunum. Eins og Marinó bendir á eru niðurgreiðslur stjórntæki ríkisstjórna um allan heim sem nota þær til að auðvelda neytendum aðgang að vöru sem þeir annars færu á mis við. Samningar um kaup og kjör eru einnig byggðir á niðurgreiðslum á varningi eins og mjólk, korni, menntun, menningu og heilbrigði þegnanna svo eitthvað sé nefnt.

En niðurgreiðslur geta líka verið skiptimynt til annarra nota. Nú hefur Oceana sem sagt birt upplýsingar um niðurgreiðslur ESB sem sýna að sambandið er eitt af þremur stærstu niðurgreiðendum í heimi ásamt Kína og Japan. Árið 2009 fóru litlir 3.3 milljarðar evra (€) til að niðurgreiða rányrkju evrópska fiskiflotans á heimshöfunum. Samkvæmt skýrslunni eru styrkirnir til nærri helmings Evrópusambandsþjóða hærri en sem nemur veiðinni sjálfri og leifir fiskiskipaflota þess að vera þrisvar sinnum stærri en þörf er á til sjálfbærra veiða. Þessum gráðugu styrkjaveiðimönnum er ríkisstjórn Íslands tilbúin að afhenda fiskimið Ísland. Í öðru orðinu er talað fjálglega um verndun auðlinda og fiskinn sem eign þjóðarinnar, en í hinu er verið að semja um afhendingu auðlindarinnar til ESB til frambúðar. Að halda því fram að samið verði um eitthvað annað er í besta falli sjálfsblekking en í því versta glæpsamlegt. 

Staðreyndir varðandi €3.3 milljarða niðurgreiðslurnar úr skýrslunni:

* Niðurgreiðslur til fiskiflotans eru teknar af skattgreiðendum. * Þrátt fyrir skelfilegt ástand fiskistofna er niðurgreiðslum fram haldið. * Þeir €3.3 milljarðar sem greiddir eru jafngilda 50% verðgildis heildarafla sambandsin. * Helmingur niðurgreiðslna fer í að greiða niður eldsneytiskostnað fyrir þennan útþanda flota (falla þá eflaust undir umhverfisvernd). * Spánn, Frakkland, Danmörk, Bretland og Ítalía fá bróðurpart niðurgreiðslnanna. * 13 ESB þjóðir tóku við hærri niðurgreiðslum en verð þess afla sem landað var hjá þeim. * Eftirspurn eftir fiski er helsta ástæða fyrir stærð fiskiflotans og ofveiðinni og 2/3 niðurgreiðslna fer í að styrkja þá stöðu. * Nýleg hagfræðiúttekt Evrópuráðsins upplýsir að þrátt fyrir niðurgreiðslur sé 30-40% undirballans á útgerðinni. (???) * Um það bil 150 milljón voru greiddar til 14 landa utan sambandsins fyrir veiðirétt sambandsskipa.

Þessu batteríi vill ríkisstjórn Íslands afhenda fiskveiðiauðlind þjóðarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband