Leita í fréttum mbl.is

Fyrirgefning syndanna

Leitin að Jaycee Lee Dugard 1991

Leitin að Jaycee Lee-1991 

Árið 1991 var 11 ára stúlku rænt í námunda við heimili sitt í Kaliforníu. Ekkert spurðist til hennar í 18 ár, þar til í sumar þegar hún gekk inn á lögreglustöð, sagðist heita Jaycee Lee Dugard og sér hafi verið rænt. Náungi að nafni Phillip Garrido ásamt eiginkonu sinni hafði rænt stúlkunni til að peppa upp kynlíf sitt. Girnd sína geymdi hann svo í skúr í bakgarðinum, enda dæmdur nauðgari sem vildi síður hafa yfirvöld snuðrandi í sínum málum. Kæra á hendur honum liggur nú frammi í 29 liðum. Enginn hefur boðist til að safna undirskriftum svo forða megi manninum  undan réttvísinni. Svo virðist sem prentarar sitja þar ekki við sama borð og leikstjórar.

Það hefur verið undarlegt að fylgjast með umræðunni um 30 ára gamlan nauðgunardóm  leikstjórans Polanski í fjölmiðlum undanfarið; tvískinnungurinn lekur af fólki. Önnur lögmál gilda fyrir fræga fólkið sem þarf ekki annað en skipta um skó til að komast í fréttir. Jafnvel nú þegar heimurinn er að rísa úr öskustó hrunsins og allt skal verða ferskt og nýtt, er nauðgun 13 ára stúlku réttlætt með trámatísku lífshlaupi nauðgarans og ódauðlegu (sic) höfundarverki hans. Skilaboðin eru að í nafni listarinnar eru níðingsverk viðurkennd sem reynslubrunnur listamannsins sem hann getur sótt ódauðleika sinn í. Skiptir þá engu þótt ódauðleikinn hvíli aðeins á þremur sæmilega bitastæðum kvikmyndum.

                Turin 2008 Polanski hylltur á kvikmyndahátíðinni í Turin, 2008.

Menningarelítan rís upp til varnar. Franskur menningarmálaráðherra telur illa brotið á þessum syni Frakklands, en lendir í klandri vegna eigin hneigða enda pedophilia almennt talin de trop á betri bæjum þar í landi, þ.e. vilji svo illa til að fréttinni sé lekið í heimspressuna. Pólverjar, sem vilja líka eigna sér kauða, tjúllast yfir handtöku Polanskis daginn eftir að þeir samþykkja lög um vönun kynferðisofbeldismanna. Lögin eru að vísu bara til heimabrúks og engan vegin ætluð til að hefta tjáningafrelsi nauðgandi leikstjóra með sérstakar þrár til óþroskaðra stúlkubarna. Agli Helgasyni fannst Polanski flottur, þegar hann heimsótti landið af því að hann var ekkert að smjaðra fyrir Íslendingum, eins og Egill orðar það. Minnimáttarkennd Egils gerir hann alltaf dálítið veikan fyrir erlendum hrokagikkjum. En daginn sem handtaka Polanskis var á allra vörum minnist Egill hans aðeins sem heimsborgara sem getur ekki hugsað sér að búa í "svona litlu samfélagi, en ef maður er fæddur hérna og þekkir ekki annað, þá er það kannski ágætt." Yfirmáta hrokafull yfirlýsing sem hugsanlega stafar af því að Polanski mat aðstöðu barnanauðgara í svona litlu samfélagi óþægilega þrönga. Kynhneigð Polanskis er ekki til umræðu hjá sjálfskipuðum "siðameistara"  íslensku þjóðarinnar. Samtök franskra leikstjóra telja tjáningarfrelsinu um gervalla heimsbyggðina ógnað með handtöku Polanskis. 

 

Vinirnir í Hollywood láta ekki sitt eftir liggja. Stjörnuljóminn flykkist um að skrifa nafn sitt á bænaskjal til að fá goðið leyst úr haldi. Helst má skilja á þessu fólki að glæpurinn liggi hjá saksóknara Los Angeles-borgar fyrir óbilgirni í garð þessa útlaga sem neyðst hefur til að þreyja þorrann á vatni og brauði í menningarlegri eyðimörk Evrópu, fjarri uppsprettu sköpunargáfunnar í borg englanna. Það vekur undrun að fólk sem lagt hefur sig fram um að fjalla um ofbeldi, ekki síst kynferðislegt ofbeldi í myndum sínum, skuli hafa svona bjagaða sýn á veruleikann. Leikstjórar eins og Costa-Gavras, Martin Scorsese, David Lynch svo ekki sé minnst La Mala Educacioná Pedro Almodóvar sem hefur gert kynhvötinni einna hæst undir höfði. Það er ekki víst að fólk horfi á myndina La Mala Educacion með sömu augum nú eftir að hann hefur lagt nafn sitt við listann. Í einfeldni hreifst fólk af meðferð hans á svo viðkvæmu efni, en myndin er ekki bara ádeila á kaþólsku kirkjuna, hún fjallar um afleiðingar þess sem gerist þegar girnd og hvatir leita útrásar í kynferðislegri misnotkun, misbjóða sakleysi barna og skilja eftir sig óbætanleg sálarmein. Ádeila á barnaníðinga sem leynst hafa innan kaþólsku kirkjunnar, en hafa nú verið svældir út og opinberaðir fyrir níðingsverk sín. Enginn mælir þessum mönnum bót. Það er ekki síst fyrir mátt þessara kvikmynda og þau áhrifa sem myndmál þeirra miðlar að augu fólks hafa opnast fyrir leyndum glæpum kaþólsku kirkjunnar. 

Með undirskriftalistanum hefur áhrifamætti þessa miskunnarlausa samtímaspegils verið kippt í burt og hann sýnt sig að vera aðeins leikvöllur siðblindra manna, sem klæðast sömu hempu og prestarnir sem þeir höfðu áður steypt af stalli. 

Vinir Polanskis

Stuðningshópurinn

En það eru líka ljós í myrkrinu. Leikstjóranum Luc Besson var boðið að vera með á listanum, en hafnaði því að setja nafn sitt við framtaka vina sinna. Aðspurður gaf Besson þá skýringu "að þótt hann vilji ekki gerast dómari í málinu, þá eigi hann 13 ára dóttur og yrði hún fyrir slíkri misnotkun myndu 30 ár ekki duga til að afmá það úr huga hans". Gott væri að fleiri áttuðu sig á því.

Morgunblaðið hefur gert máli Polanskis góð skil og nú í Sunnudagsblaðinu er skrefið tekið lengra og fjallað um nauðgun sem "skemmtiefni" í kvikmyndum. Sérstaklega er getið um mynd Gaspars Noé, Irreversible, en í henni er að finna einhverja hrikalegustu nauðgunarsenu sem um getur á hinu hvíta tjaldi. Það má ætla að þeir sem leggja í vinnu af þessu tagi geri sér grein fyrir þeim skelfilegu afleiðingum sem slíkur verkanaður hefur á fórnarlambið. Því hlýtur sú spurning að vakna: hvað vakti fyrir leikkonunni, Monicu Bellucci og leikstjóranum þegar þau settu nafn sitt á bænaskjal Polanskis? Voru vit þeirra lokuð meðan á tökum stóð og lærðu þau ekkert af viðfangsefninu? 

Fyrir einhverjum árum varð Japanskur kvikmyndaleikstjóri uppvís að því að skipuleggja raunverulegt morð til að fullkomna listaverk (sic) sitt. Þetta kvikmyndaform hefur öðlast sjálfstætt heiti; "snuff films". Almodóvar hefur gert kynlíf í öllum sínum myndum að umfjöllunarefni, oft á gamansaman hátt en þó með undirtón sem áhorfandinn situr uppi með. Gaspar Noé hefur fært óhugnaðinn fram á bjargbrúnina, þar sem enginn getur lengur vikist undan því að taka afstöðu. Leikkonur sem túlka varnarleysi fórnarlambsins og kalla þannig fram viðbrögð áhorfenda sem þeir vissu ekki að þeir byggju yfir. Hafi boðskapur fylgt verkum þessa fólks var hann endanlega lagður í rúst með samþykki þessara einstaklinga á ofbeldisverki Polanskis. Polanski framdi svívirðilegan glæp sem kallar á refsingu. Í þeim efnum hefur hann enga sérstöðu. Hann stillti sér í flokk með mönnum eins og Phillip Garrido og hinum belgíska Marc Dutroux sem vegna hvata sinna og siðblindu vekja viðbjóð meðal venjulegs fólks. 

 

 

Mynd 1: www.nydailynews.com

Mynd 2: Á teppinu í Turin á Ítalíu

Mynd 3:  www.judexfanzine.net/v3/estrenos.php?id=94

Mynd 4: www.townhall.com


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Baldursson

Ég tek hjartanlega undir með þér Ragnhildur. Polanski er gríðarlega hæfileikaríkur leikstjóri. Það á hins vegar á ekki að virka sem betri regnhlíf gegn réttlætinu frekar en hæfileikaskortur. Maðurinn framdi þennan gjörning og verður að mæta í réttarsal eins og hver annar. Vestræn samfélög gera þegar nóg af því að leiða ungar stúlkur fram á sviðið sem kynverur og ekkert annað. SKilaboðin sem þessum stúlkum eru gefin eru svo öflug og alls-umlykjandi að það hlýtur að vera þeim erfitt að einbeita sér fullkomnlega að ræktun andans. Aukið svigrúm vændis er kannski einkenni þess...hreinlega veit það ekki.

Haraldur Baldursson, 17.10.2009 kl. 09:35

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Þakka þér innlitið, Haraldur.  Það er rétt hjá þér það á ekki að rugla saman hæfileikum einstaklinga við siðvitund þeirra. Engu að síður er blekking kvikmyndanna slík að maður hefur tilhneigingu til að setja samasemmerki milli mannsins og verka hans. Viðbrögð kvikmyndaelítunnar við handtöku Polanskis sviptir blekkingarhulunni af tómleikanum sem býr á bakvið.

Ragnhildur Kolka, 17.10.2009 kl. 23:28

3 Smámynd: Haraldur Baldursson

Stuðningur leikstjórana er álíka fyndin (reyndar ekki) og Árni Johnsen að styðja Gunnar prest.... siðgæðið er farið að líða fyrir lítil gæði.

Haraldur Baldursson, 18.10.2009 kl. 15:37

4 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Já, svo sannarlega, Haraldur. Veruleikinn býður víða upp á samlíkingar.

Ragnhildur Kolka, 18.10.2009 kl. 17:10

5 Smámynd: Kristin stjórnmálasamtök

Greinilega ertu vel lesin í kvikmyndafræðum og um þessi mál, Ragnhildur. Þökk sé þér fyrir góða grein um Polanski-málið í Mbl. í dag. Vitnað er í hana í stuttum pistli á vefsíðunni Krist.blog.is (smellið á slóðina hér fyrir neðan).

Kristin stjórnmálasamtök, 20.10.2009 kl. 17:12

6 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Ekki veit ég hvort blogg mitt á samleið með kristilegum samtökum, jafnvel þótt þau séu stjórnmálalegs eðlis. Ég er efasemdamanneskja á flest, þar á meðal trúmál, en ef þið viljið prófa að fylgjast með mér þá er það guðvelkomið.

Ég er ekki sérfræðingur á kvikmyndamál, en hef haft ódrepandi bíódellu frá því að ég var unglingur og horfi á þær m.t.t. þess sem þær geta sagt um hið síbreytilega í mannlegu eðli. Þegar það er tilgangurinn leiðist maður til að horfa á ýmislegt fleira en það sem veitir manni ánægju.

Ragnhildur Kolka, 20.10.2009 kl. 18:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband