Leita í fréttum mbl.is

Hin þögla þjáning

Tvennt átti sér stað í síðustu viku sem vakti athygli mína og sem vekur með mér hugsanatengsl. Í fyrsta lagi yfirlýsing Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, um nauðsyn þess að ganga til þjóðaratkvæðis um hugsanlega aðild að ESB. Þessi yfirlýsing vekur mann til umhugsunar um hvert ÞKG sé að fara og margir vilja túlka orð hennar sem svo að hún sé gengin í lið með vinkonum sínum í samstarfsflokknum. Enda sérkennilegt að hefja umræðuna um þjóðaratkvæðagreiðslu svona í skugga könnunar Fréttablaðsins. Hvort þetta er lýðskrum eða sjálfstæðisyfirlýsing er ekki gott að segja, en varaformaður Sjálfstæðisflokksins tapar trúverðugleika fari hann gegn stefnu flokksins. Aðeins Framsókn og Samfylking komast upp með að hafa margar stefnur og vísa þeim út fyrir flokkana til úrlausnar.

Hitt sem vakti athygli mína var uppsagnir 88 starfsmanna Glitnis. Þarna er harmsaga á ferð sem fæstir gátu séð fyrir. Fyrir marga utan að komandi er þetta bara 2 daga frétt í fjölmiðlum, en þeir sem um ræðir eiga eftir að takast á við vandamál sem eru þeim í alla staði framandi ef ekki óskiljanleg. Þeir eiga samúð mína.

Í huga mínum tengi ég þessa tvo atburði, því innganga í ESB og atvinnuleysi eru náskyldir ættingjar. Nýlega var ég á ferð á Spáni. Ég hef lengi haft fyrir sið að kaupa tónlist og kvikmyndir þeirra menningarsvæða sem ég ferðast um, því þannig kemst maður best í snertingu við þjóðarsálina, ef aðeins er um skammtímadvöl að ræða. Ein af þeim myndum sem mér áskotnaðist í þessari ferð fjallaði um eitt mesta böl sem yfir manninn getur dunið. Atvinnuleysið. Og bara svo menn álíti ekki að ég sé að fabúlera svona út í bláinn, þá minnti Geir H. Haarde á það í morgun að hefði Ísland verið innanbúðar í ESB, þegar þessi fjármálakreppa skall á okkur, hefðum við ekki haft mörg önnur úrræði til að grípa en uppsagnir og atvinnuleysi.  

 

Myndin sem ég minntist á heitir Los Lunes al Sol eða Mánudagar í sólinni. Hún segir sögu nokkurra manna sem sagt hefur verið upp störfum í skipasmíðastöð. Titill myndarinnar vísar í þann tómleika sem við atvinnuleysingjum blasir þegar vinnandi menn snúa til starfa eftir hvíld helgarinnar. Það er nefnilega engin hvíld fyrir þá sem alltaf eru í hvíld. Hver dagur er öðrum líkur og ekkert annað í sjónmáli.  

 

Niðurlægingin fyrir fullfríska menn þegar þeir fá ekki að vinna fyrir mat sínum verður að endingu yfirþyrmandi; höfnunin sem smám saman grefur undan sjálfsvirðingunni, örvæntingin um að vera skilinn eftir einn og einsemdin sem að lokum verður allt um lykjandi, öllu þessu eru gerð skil í myndinni. Engin tekur upp málstað þessara manna og rödd þeirra sjálfra heyrist ekki. Því er þjáning þeirra þögul. En þótt sagan gerist á Spáni á hún sér skírskotun langt út fyrir landamæri Spánar.   

 

 

Atvinnuleysið, sem hrjáir fjölmarga í ríkjum ESB hefur verið kyrfilega sniðgengið í umræðu manna um ESB aðild á Íslandi. Ódýrar kjúklingabringur og veturseta í Brussel er beitan sem flestir gjóa augum til. Áttatíu og átta manns er kannski ekki mikill fjöldi á mælikvarða ESB, en þeir eru heldur ekki þeir einu sem misst hafa eða missa munu vinnuna á næstu mánuðum hér á landi. Þeir eiga hins vegar betri möguleika á að fá aftur vinnu við hæfi en atvinnulausir ESB borgarar og þar með að festast ekki í gildru sérstakrar atvinnuleysingjastéttar sem skilar arfi sínum til afkomenda. Geir Haarde á þakkir skilið fyrir að árétta afstöðu Sjálfstæðisflokksins til þessara mála.

Utan ESB eigum við möguleika til vaxtar sem ESB aðildarríkjum er meinað að nýta sér. Þarf ekki að taka tillit til þessa í umræðunni?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband