Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Nornaveiðar hinar nýju

Palin

Það tók ekki nema 20 mínútur frá því að John McCain kynnti Söru Palin sem varaforsetaefni sitt, þar til fyrstu aðdróttanir um vafasaman bakgrunn hennar og fjölskyldunnar tóku að hríslast inn á netið. Stuðningsmenn Obama sáu að þarna var hætta á ferð sem bregðast yrði við hið snarasta. Joe Biden gaf tóninn; sagði að hún væri sætari en hann. Síðan þá hafa gleraugu hennar, hárgreiðsla og háhæluðu skórnir verið dæmd og léttvæg fundin. Hinir "umburðalyndu" stuðningsmenn Obama velta sér upp úr karlrembunni eins og svín í stíu og fara létt með það.  

Tuttugu og tveggja ára gömul ölvunaraksturs kæra á eiginmanninn var tínd til, börnin ofsótt og öllu illu trúað upp á þau og foreldrana og síðan trylltist demókratahjörðin  þegar upp komst að 17 ára dóttir Palin átti von á barni. Halló, "ábyrgðarlausir foreldrar, óhæf móðir, hypjaðu þig aftur bak við eldavélina"  hrópuðu Obamaistarnir

Fréttamiðlar, sem flestir styðja Obama tóku undir sönginn. Hver hefði trúað því að stórblað, sem þekkt er á heimsvísu eins og NYT sæi slíka stórfrétt í þungun unglingsstúlku að það þyrfti að birta 3 fréttir á forsíðu um skandalinn. Af fréttamatinu að dæma má ætla að þungunin hafi verið ígildi Íraksinnrásarinnar.

Og nú tekur Spegillinn á RÚV upp þráðinn. Í kvöld flutti Friðrik Páll Jónsson áróðurspistil sinn. Friðrik kann til verk; ekkert áberandi, áróðrinum bara laumað inn í undirmeðvitund áheyrandans. Pistill kvöldsins var um ræðu Söru Palin, ósköp hefðbundinn pistill þar til í lokin þegar Friðrik Páll upplýsti áheyrendur um að "Sara Palin hefði slegið í gegn og flutt sköruglega ræðu sem einn af ræðuskrifurum George Bush tók þátt í að semja".

Í einni setningu tóks honum að tengja Söru Palin órjúfanlega í hugum áheyrenda við George W. Gert hana að virkum þátttakanda í málefnum Washingtonstjórnarinnar, sem í hugum sumra ígildir glæpsamlegu siðleysi. En hann tók líka upp fána karlrembunnar og benti sérstaklega á að ræða hennar hafi verið samin af einhverjum öðrum en henni. Hún gæti sem sagt ekki hugsað sig út úr skókassa og þyrfti aðstoð þegar kæmi að vitsmunaverkum.

Ekki minnist ég þess að hafa heyrt á það minnst í fréttaflutningi hér heima að aðrir þátttakendur í þessum forkosningaslag, sem dunið hafa á okkur nú í tæpt ár hafi þurft á slíkri aðstoð að halda. Ræður og ræðuflutningur Obama hefur verið rómaður í öllum fjölmiðlum. Menn eiga ekki til orð yfir snildinni, það er að segja þeir sem ekki pissa á sig af hlátri yfir sjálfshólinu og upphafningunni.

En situr þá Obama við skriftir um nætur? Ekki aldeilis, hann eins og allir hinir stjórnmálamennirnir í þessum langa kosningaslag hefur hóp manna sem sjá um þessi verk. Aðalskrifar Obama heitir Jon Favreau, er 26 ára og hefur stúderað ræður Martins Lúters King, Johns F kennedy og bróður hans Róberts. Þess vegna þekkja margir orðaval þessara manna í ræðum Obama. Favreau hefur líka stúderað hljómfall raddar Obama og orðaval hans til að stilla tekstann inn á rétt svið. Þetta er snilld útaf fyrir sig, en þetta er snilld Jons Favreau en ekki Obamas. Obama er bara eins og leikari á sviði sem fer vel með sína rullu. Enda hefur hann ekki staðið sig sérdeilis vel þegar hann hefur ekki haft skrifaða ræðu á "kjúspjaldinu".

Það er óþarfi fyrir íslenska fjölmiðla að taka þátt í þessu karlrembuskítkasti sem demókratar í Bandaríkjunum hafa hellt sér út í. Tilefnið er ekkert og tilraun Friðriks Páls gerir ekki annað en draga athygli að ótta manna við Söru Palin. Eða hvenær fóru vinstri menn á Íslandi að hafa áhyggjur af kynlífi 17 ára unglinga?  Já, og hvenær varð starfsframi kvenna að þessu líka ólýsanlega "tabúi"?


Hvað getur ISG lagt af mörkum

Mbl.is hefur eftir Ingibjörgu Sólrúnu "að það væri ekki skollið á efnahagslegt óveður enn á Íslandi þótt ýmsir váboðar sæjust". Skarplega athugað, en gæti ISG ekki lagt eitthvað af mörkum til að ýta þessum váboðum frá okkur? Eru ekki einhver gæluverkefni í hennar ráðuneyti sem mætti skera? Hvað með atkvæðaveiðarnar til Öryggisráðsins? Að leggja það til hliðar myndi spara okkur milljónir, jafnvel hundruð milljóna. 380 milljónir hafa nú þegar verið settar í verkefnið og Ólafur Ragnar á fullri ferð milli arabaríkja að snapa fylgi svo nú aðrir útsendarar séu ekki nefndir.

Kostnaðurinn nú er þó ekki nema brot af því sem ævintýrið mun kosta ef Ísland kemst inn. Flottræfilsháttur Íslendinga mun sjá fyrir því.

 


mbl.is Ekki meiri bankabónus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að kunna sig í konungsranni

Það hefði ekki síður verið ástæða fyrir forsetann að ræða um aukna aðstoð Jórdana við Palestínumenn. Jórdanir hafa haldið þessu fólki í flóttamannabúðum í 60 ár og meinað því að samlagast samfélagi sínu. Og það þótt stór hluti þessara "flóttamanna" sé upprunnin frá Jórdaníu. Kannski hefur kóngur gleymt því.

Nú, og svo hefði líka verið í lagi að taka upp samræðu við Abdullah um refsingar við heiðursmorðum. Það er ekki svo langt síðan að þingið í Jórdaníu hafnaði því að innleiða refsingar við heiðursmorðum. Daginn sem atkvæðagreiðslan fór fram voru tvær systur afhöfðaðar af bræðrum sínum fyrir þá sök að hafa gengið að eiga menn sem fjölskyldunni voru ekki þóknanlegir.

En jarðhiti er víst huggulegra umræðuefni í svona konunglegumkreðs en morð.


mbl.is Ólafur Ragnar heimsótti Abdullah konung
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Palin er ekki svo slæmur kostur

Ný könnun frá Zogby bendir til að McCain hafi gert rétt í að velja Söru Palin sem varaforsetaefni. Könnunin sýnir að McCain/Palin hafa fylgi 47% aðspurðra á meðan Obama/Biden hafa 45%. Könnunin er gerð frá föstudags eftirmiðdag til sama tíma laugardag og hún er á landsvísu.

Tölurnar segja reyndar bara hver staðan er núna, en það er athyglisvert að þrumuræða Obama á fimmtudagskvöldinu skuli ekki vega þyngra.


Plús fyrir McCain

Gott hjá McCain, hann er ekki aldeilis af baki dottinn. Þótt ég hefði heldur kosið að hann veldi Key Hutchinson, þá gerði hann vel að velja konu sem varaforsetaefni sitt, það er að segja ef þessi frétt er staðfest.

Með því að velja konu heggur hann þónokkuð skarð í nýjabrumsútnefningu demókrata, og hugsanlega nær hann í eitthvað af Hillary fylginu í leiðinni. Hann ætlar greinilega ekki að láta Barak Obama verma sig of lengi við eldinn.   


mbl.is Varaforsetaefni McCain
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breyting sem við megum trúa

 Biden

 Barak Obama lofar breytingum. Hann hefur rekið kosningabaráttu sína á kjörorðinu: Breyting sem við megum trúa. Ungur, svartur og framúrskarandi ræðumaður; efnasamsetning sem gaf tilefni til að trúa að nú væru breytingar í aðsigi. Og viðbrögðin stóðu ekki á sér. Lýðurinn féll að fótum hans og hyllti, og orð hans hafa hljómað heimshafanna á milli og stundum jafnvel skolast yfir álfur og lönd svo enginn sem á hlýddi verður nokkurn tíma aftur samur.

En nú er komið bakslag. Þrátt fyrir vaska sendinefnd stuðningsmanna frá Íslandi, þau Silju Báru og Dag B, er eins og Obama komist ekki í gírinn, jafnvel spurning hvort gírkassinn sé ekki bara ónýtur. Hvernig má vera að þessi skærasta stjarna stjórnmálahiminsins sem sést hefur í hart nær 50 ár, nái ekki einu sinni að skjóta gamlingjanum McCain aftur fyrir sig í þeirri viku sem öll athyglin beinist að útnefningu demókrataflokksins. Ekki vantar að athyglin hafi verið á hinum unga ræðusnilling. Síðustu 10 daga eða svo, hefur ekki liðið sá fréttatími þar sem ekki hefur verið boðað að Obama væri í þann mund að útnefna varaforseta efni sitt. Nú vitum við hver hlaut hnossið.

Það var ekki Hillary Clinton sem atti kappi við kauða af mikilli harðfylgni. Það var heldur ekki John Edwards sem barnaði samstarfskonu sína á meðan bandaríska þjóðin fylgdist með baráttu konu hans við krabbamein. Það var heldur ekki Kathleen Sebelius ríkisstjóri í Kansas sem hefði kannski tekið til sín eitthvað af nýjabrumsljómanum. Nei, heiðurinn hlaut gamall atvinnupólitíkus sem setið hefur í Washington nánast eins lengi og Obama hefur dregið andann hér á jörð. "So much for change".

Joe Biden er innsti koppur í búri lobbyistanna og lögfræðinganna í Washington DC. Sonur hans er skráður lobbyisti og Biden hefur tekið við > 5 milljón dollurum í framlög frá þessum hópum svo ekki sé minnst á framlögin frá fjármálageiranum og byggingaverktökunum. Það eru þessir hópar sem Obama var að lofa að takast á við þegar (ef, var ekki til í orðabók hans lengst framan af) hann tæki við forsetaembættinu.

Ef, hefur núna stimplað sig dyggilega á forsíðu orðabókar hans. Þetta ef, sem varð þess valdandi að hann valdi þennan gamla innanbúðarmann úr Washingtonklíkunni. Obama var að reyna að bregðast við ásökunum um reynsluleysi með því að taka inn mann sem hefur langan feril í utanríkismálanefndum þingsins. Mann sem greiddi atkvæði með stríðinu í Írak. Mann sem greitt hefur atkvæði á svipuðum nótum og Obama og tekur því ekki með sér neitt nýtt fylgi og er í þokkabót norðurríkjamaður rétt eins og Obama sjálfur. Mann sem fyrir 20 árum bauð sig fram til forseta en hrökklaðist frá þegar hann varð uppvís að ritstuldi. Mann sem keppti við Obama um útnefninguna nú í vetur og lýsti þá stuðningi við McCain og frati á Obama. Mann sem færi létt með að gleyma hver er aðal og hver er til vara.

Nei, það er ekki að undra að eftir þrjá mánuði af grúppíuæði og nær hálfan  mánuð af stanslausri upphitun fyrir Obama þá mælir Gallup fylgi hans aðeins einu prósentustigi yfir fylgi gamla fusksins (sic) og Rasmussen hefur McCain yfir með sama mun.  Obama má taka á honum stóra sínum ef hann ætlar að halda uppi stuðinu fyrir þessa 80,000 stuðningsmenn sem von er á að fylli leikvöllinn þar sem hann mun taka á móti útnefningunni. það er að segja ef Hillary stelur ekki senunni.

Breytingin mun hins vegar láta á sér standa og það er það sem skoðanakannanirnar eru að mæla þessa dagana.


Barnung brúður

child brideÞær eru ekki allar háar í loftinu hinar íslömsku brúðir. Átta ára gömul stúlka leitast nú við að fá skilnað frá eiginmanni sínum sem er á sextugs aldri. Málið verður tekið fyrir innan skamms samkvæmt frétt í sádiska dagblaðinu Al-Watan.

Móðir stúlkunnar styður hana til skilnaðarins, en faðirinn  hafði gefið hana eða selt án vitundar þeirra mæðgna. Vonir standa til að skilnaðurinn gangi eftir því vitað er um eitt slíkt dæmi í Yemen fyrr á þessu ári. Von sem ekki byggi á sérlega sterkum grunni. Mannréttindahópar hafa tekið sig saman um að skrifa sádísku konungsfjölskyldunni bænarbréf, sem segir líka nokkuð um sjálfstæði réttarkerfisins.

Ekki yrði ég hissa þótt Sádar styddu okkur frekar til setu í Öryggisráðinu en skilnað stúlkunnar.


Svandís frá Orleans

Hún Svandís Svavarsdóttir kann að koma orðunum að því. Kófsveitt og froðufellandi sendir hún dembuna yfir Óskar Bergsson í tíufréttum. "Einkavinavæðing" svo ekki sé minnst á að Framsókn kunni að "nota vinatengsl til að koma ár sinni fyrir borð". Það hlýtur að vera þægilegt líf þarna inni í sápukúlunni sem Svandís hefur hreiðrað um sig í. Þar truflar ekkert sem gæti komið henni illa.

Það er svo ótrúlega fyndið að hlusta á þessa vandlætingu Svandísar, eftir aðkomu hennar sjálfrar að málefnum Orkuveitunnar. Þegar allt fór í háaloft síðast liðið haust stóð Svandís efst á bálkestinum eins og mærin frá Orleans hrópandi áfrýjunar orð til lýðsins. Og viti menn, hún kveikti bál í brjósti margra. Vandinn var bara sá að ólíkt mærini frá Orleans skorti Svandísi kjark til að halda ótrauð áfram. Með völdin hjá sér fannst henni þó sjálfsagt að "nú þyrfti að róa umræðuna". Og þegar umræðan hafði róast hverja skipaði hún þá til að sópa ósómanum út úr Orkuveitunni? Einhverja óháða kunnáttumenn í orkumálum? Nei, ekki aldeilis.

Vinahópur Svandísar virðist ekki sérlega stór því annars gæti einhverjum dottið í hug að væna hana um einkavinavæðingu. En slíkan ósóma léti Svandís aldrei um sig spyrjast. Hún vílaði hins vegar ekki fyrir sér að skipa fyrrverandi eiginmannsinn til setu í stjórn OR. Og hún er bara svo heppin að eiga mágkonu sem er til í að taka að sér að létta undir með henni þegar lítið liggur við, eða hvernig er ættartengslum Svandísar og Láru V. Júlíusdóttur annars háttað? Þessi  ágæta Lára lét sér ekki muna um að gera mágkonu/svilkonusinni Svandísi þann greiða að skrifa skýrslu um REI ævintýrið. Verk sem tók lengri tíma en meirihlutaseta Svandísar sjálfrar. Það hefur ekki verið upplýst hvort umrædd Lára hafi sent reikning til Svandísar eða hvort borgarbúar fái að greiða hann með útsvarinu sínu. En kannski tók Lára ekkert fyrir greiðann, svona af því að þetta var bara, svona innan fjölskyldunnar.

Engin einkavinavæðing á ferðinni þar.


Hefði Ingibjörg ekki bara átt að sitja heima?

Brottförin

Aðalritari NATO, Jaap de Hoop Scheffer segir að "business as usual" verði ekki á dagskrá varðandi NATO-Rússlands samstarfið dragi Rússar sig ekki út úr Georgíu. Þetta er útkoman eftir utanríkisráðherrafundinn í dag. Ekki stór yfirlýsing þegar litið er til þess að bæði Frakkar og Þjóðverjar draga lappirnar hvað varðar aðgerðir. Margir stórir karlar (auk Ingibjargar og Condi auðvitað) en niðurstaða  er að það megi ekki styggja Rússa, því þá gætu þeir hætt við að draga herlið sitt til baka. Já, þær bera mikinn þunga þessar undirskriftir nú til dags.

Ingibjörg hefði gert betur með að spara sér ferðina enda ekki víst að nokkur maður hefði saknað hennar. Myndskeið Moggans ber það, í það minnsta, með sér.


Já, eru þeir á leiðinni út út Georgíu?

Rússar velja sér sérkennilega leið út ú hinu hernumda landi. Samkvæmt landakorti ætti leið þeirra að liggja austur eða norður. Hvernig stendur þá á því að herir þeirra snúa sér til vesturs? Í nótt lögðu þeir undir sig höfnina í Poti sem stendur við Svartahafið, hnepptu sveit landhelgisgæslunnar í varðhald og sprengdu hraðbát gæslunnar í loft upp. Ekki beinlínis fararsnið á strákunum, eða hvað?

Höfnin í Poti er stærsta höfnin á svæðinu og um hana fara ekki bara flutningar til og frá Georgíu heldur líka Armeníu, Azerbaijan og reyndar allra þjóða Mið-Asíulanda. Með því að leggja undir sig höfnina í Poti og sprengja önnur samgöngumannvirki hefur innrásarliðinu tekist að lama Georgíu.

NATO er líka lamað, fregnir berast af neyðarfundi utanríkisráðherra NATO ríkjanna, eins og við mátti búast eru skoðanir skiptar um hvað skuli gera. Ætli menn láti sér ekki bara nægja að benda á að vopnahléssamninginn beri að virða. Hver skyldu skilaboð Ingibjargar Sólrúnar vera inn á fundinn?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband