Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010

Wikileaks, fáum við meira að heyra?

Eru Wikileaks-skjölin hlutlaus í upplýsingavali? Wikileaks

Julian Assange segist vera annt um sannleikann og gegnsæi. Hann telur það í verkahring góðrar blaðamennsku að takast á við misnotkun valds. Taka má undir orð Julians og hvetja hann til dáða.  Níutíu þúsund leyniskjöl er ásættanleg byrjun. En endar sannleiksleitin þar? Endar leitin að sannleikanum í skjalaskápum Bandaríkjahers í Írak? Eða eigum við kannski von á að leitin að sannleikanum fari víðar?

Assange heldur spilum sínum þétt upp að brjósti sér og því bíða menn spenntir eftir að hann sýni alla höndina. Varla er Pentagon eina valdastofnunin sem misbeitir valdi sínu? Hvað með Íran? Er Íran áhrifalaust í Miðausturlöndum? Beita þeir ekki styrk sínum í Írak og Líbanon? Hvenær fáum við að sjá tölvupóstasamskipti varðliða írönsku byltingarsinnanna  við íraska shia-klerka, Hamas eða Hizbolla? Af nógu hlýtur að vera að taka. Skjalasafn írönsku kjarnorkuáætlunarinnar gæti líka verið áhugaverð lesning fyrir fréttaþyrsta vesturlandabúa. Eða er íranska stjórnin kannski "góðu gæjarnir" og því óráðlegt að birta misbeitingu hennar á valdi sínu.

Sannleiksnefnd Wiki, þau Julian, Birgitta og Kristinn hljóta að hafa lagt mat á það. 

Tengsl Íran við al Qaída, væri það ekki áhugaverð lesning?  Hvað með tengsl Talibana við Pakistan, eru þau til á tölvutæku formi eða berast þau á milli  með bréfdúfum sem síðan eru steiktar og étnar með skilaboðunum? Væri ekki verðugt verkefni fyrir "sannleiksleitendur" að jafna leikinn, núna þegar talibanar hafa með þeirra aðstoð gefið út veiðileyfi á nafngreinda samstarfsmenn NATO-hersins. Sjáum við bráðum sambærilegan lista yfir samstarfsmenn talibana í her Afganistan eða búðum alþjóðaliðsins?

Valdi er misbeitt víða. Eða telja stríðsmenn sannleikans að allt sé í góðu lagi í Norður-Kóreu, Kúbu, Venesúela eða Kína. Eða þá í Rússlandi þar sem menn eru að setja sig í stellingar um lagasetningu gegn óæskilegum skoðunum, þ.e. lög um hugsanaskorður. Blandast nokkrum hugur um að slík lagasetning fellur undir misbeitingu valds, í það minnsta samkvæmt vestrænni hugmyndafræði.

Sannleikurinn er margradda. Hann er sýnilegur einum í þessari mynd en öðrum í annarri mynd. Réttarkerfi lýðræðislanda eru alltaf að fást við sannleikann og þá ber að gæta þess að allar hliðar máls séu leiddar fram. Þess vegna höfum við sækjendur og verjendur. Ef Wikileaks lætur staðar numið í skjalaskápum herstjórnarinnar í Bagdad eru þeir sekir um að vera, á sama tíma, sækjendur og dómarar sem fella eintóna dóma.

Það gerir þá að samstarfsmönnum Íran, al Qaida og talibana. Eru það vinnubrögð sem líkleg eru til að leiða sannleikann í ljós?

Mynd: www.townhall.com

 


Er fréttanefið á RÚV ekki að virka?

Skerpan í lagi Sýn á fréttatíma RÚV

Veit einhver hvar RÚV setur mörkin varðandi fréttagildi ættartengsla? Ásthildur nokkur Sturludóttir var í dag ráðinn bæjarstjóri Vesturbyggðar. Í tilefni þess var fréttatilkynning á RÚV þar sem hún var tekin til kostanna. Aftan á fréttina þótti við hæfi að prjóna að Ásthildur væri dóttir Sturlu Böðvarssonar. Á sömu nótum flytur fréttastofan fréttir af syni Davíðs Oddssonar svo ekki sé minnst á dóttur Gunnars Birgissonar. Konu sem enginn núlifandi Íslendingur, utan fjölskyldu Gunnars, þekkir nafn á.

Miðað við það gegnsæi sem RÚV ástundar varðandi afkvæmi nafnkunnra sjálfstæðismanna undrast maður þögnina sem ríkir um ýmis önnur fjölskyldutengsl. Um helgina var kynntur nýr umboðsmaður skuldara. Hefði ekki verið gráupplagt að upplýsa þjóðina um náin tengsl hans við nýskipaðan Ferðamálastjóra Össurar Skarphéðinssonar? Sveinn Rúnar Hauksson, læknir, er gjarnan kallaður til vitnisburðar hjá RÚV um aðskiljanlegustu málefni. Væri ekki jafn sjálfsagt að geta um tengsl hans við  borgarfulltrúa Samfylkingarinnar í hvert sinn sem hann fer í berjamó eða tekur sér mótmælastöðu gegn Ísrael? Og því gat RÚV ekki upplýst skylduáskrifendur sína um fjölskyldutengsl umboðsmanns Alþingis inn í Kaupþingsbanka. Dyggilega hafa tengsl þingmanns Sjálfstæðisflokksins þangað inn verið tíunduð á báðum rásum auk sjónvarpsstofu hins opinbera. Var þingmanninum þó aldrei falið að leita hins "eina hreina sannleika" um ábyrgð og tengsl stjórnsýslunnar á bankahruninu. Sá fjórða valdið virkilega aldrei neina hættu á hagsmunatengslum hjá Umba?

Þessi sérstaka áhersla hinnar opinberu stofnunar á skyldleika manna innan Sjálfstæðisflokksins væri kannski í lagi ef sama áhuga gætti gagnvart öðrum sem í fréttirnar rata. En svo er ekki.

Innan veggja RÚV gilda nefnilega önnur lögmál en þau sem lúta að hlutleysisreglunni.  Fréttanef stofnunarinnar hefur fyrir löngu verið klesst út á hina pólitísku kinn, þaðan sem það má sig ekki reisa við.

Á meðan drýpur fjórða valdið höfði í skömm. 

Eins og glöggir lesendur hafa eflaust komið auga á þá var þessi pistill skrifaður áður en Umbi-Skuld upplýsti á opinskáan hátt um kúlulánastarfsemi sína.

Mynd: http://postdoc.blog.is

 

 


Vinstri grænt sprell

Öflugur VG fundur í ReykjanesbæÞessi skemmtilega mynd birtist í Víkurfréttum í fyrrahaust undir fyrirsögninni "Öflugur VG fundur í Reykjanesbæ" (þessi fyrirsögn kallar á rauðan lit). Auk frummælenda mættu á fundinn 20 karlar og þessi iðjusama kona. Mikill hugur var í mönnum; Ísland sjálfbært með orku, loforð upp á 1000-1500 störf frá Steingrími, sem lengdi þar með nef sitt um nokkra sentímetra, á næstu þremur árum (nú ári síðar næstu tveimur árum)  og svo auðvitað lífleg umræða um að rífandi gangur væri í hátækni og gagnavinnslumálum á svæðinu. Menn voru styrktir í andstöðu sinni við álver sem almennt voru talin af hinu illa og að sjálfsögðu var hið ómissandi sjálfsstyrkingarnámskeið til staðar, þ.s. reiði fundarmanna var beint í "farveg" gegn Sjálfstæðisflokknum. Fegurð og fjölbreytni Reykjanesskaga var rómuð og fundarmenn beðnir að minnast þess að þrátt fyrir að "Það sé dapurlegt að horfa upp á hve margir eru atvinnulausir, [þá sé] enginn þeirra .. þó atvinnulaus vegna ákvörðunar umhverfisráðherra". 

Fundurinn var haldinn um það leyti sem Magma energy var að lýsa áhuga á að kaupa upp það sem eftir stæði af orkufyrirtækinu HS orku. Vf minnist ekki i á að Magma hafi verið til umræðu á fundinum. 

Skyldu fundarmennirnir 20 á þessum öfluga (sic) fundi enn vera sammála þessum áherslum sem forustan hafði  á orku og atvinnumálum Suðurnesjamanna?

Það verður ekki annað sagt en að þeir hjá Vg eru alltaf jafn spaugsamir. Nú keppast þeir við að hóta stjórnarslitum hver í kapp við annan, Guðfríður Lilja, Þuríður B og Atli G komin á blað. Vitandi að komi þetta mál til kasta Alþingis þá munu allir ábyrgir þingmenn greiða atkvæði gegn riftunartillögu. Skera Vg þar með niður úr snörunni eins og sagt er.

Ef þeir meina eitthvað með hótunum sínum þá slíta þeir stjórnarsambandinu, en ef þeir eru bara í enn einum pólitíska hráskinnaleiknum láta þeir málið fara til Alþingis, þ.s. þeir verða dregnir að landi.

Það verður fróðlegt að sjá hvort kjósendur þeirra kaupa þessa sýndarhugsjón enn einu sinni. Margir þeirra átta sig nú þegar á að það er ekki aðeins í Icesave og ESB-málinu sem forustan hefur brugðist. Málin hrannast upp og Magma er bara enn eitt dæmið.

Árarnir sem Vg glímir við eru óteljandi. Nú eru það ekki álversskrattar sem eru á dagsskrá (þeir bíða handan hornsins) heldur Kanadadjöflar sem ætla að rýja okkur inn að skinninu. 

Vg þarf að átta sig á að hugsjónir tiltölulega fárra einstaklinga eru ekki heppilegt veganesti inn í ríkisstjórn sem þarf að hugsa um heildina og taka óþægilegar ákvarðanir.

 

Mynd:  www.vf.is/Adsent/42096/default.aspx

 

 


Er ESB Hotel California 21. aldar?

Þú getur tékkað þig út hvenær sem er, en þú getur aldrei yfirgefið pleisið. Hljómar kunnuglega, ekki satt?

 

Frábær tónlist. Gerist ekki mikið betri?

Eitt albesta lag áttunda áratugarins. Þegar maður hlustar á textann í dag kemst maður ekki hjá því að velta fyrir sér hvort Ernirnir hafi séð togstreitu Íslendinga gagnvart ESB fyrir? Textinn er eins og sniðinn að ástandinu hér í dag og nær að fanga allar þær tilfinningar sem bærast í brjósti fólks sem vill trúa því besta en grunar hið versta. Sannkallaður hamar á höfuð naglans.

"Villuljósið framundan, tælingin (stúlkan í dyragættinni), efasemdirnar (er þetta himnaríki eða helvíti), augnablik opinberunnar (við erum hér af okkar eigin völdum)  og blákaldur veruleikinn ( við getum tékkað okkur út en við komumst aldrei í burtu)."

Verður Hotel California hinn nýi þjóðsöngur Íslendinga, þegar öll sund lokast og stund sannleikans rennur upp ?


Last orders, please!

Bjórkollan í breska þinginuchart-guinness

Það er víðar en á Íslandi sem almenningur borgar fyrir lystisemdir þingmanna sinna. Í Bretlandi borgar breski þingmaðurinn 57% minna á þingbarnum fyrir krúsina en á kránum í kring.  Mismunurinn kemur úr vasa skattgreiðenda því ekki liggur hann í gæðunum. 

Enn er þó ekki svo illa komið að skattgreiðendur í Bretlandi séu skyldaðir til að standa straum af starfsemi stjórnmálaflokkanna eins og hér tíðkast.

 

 Mynd: www.order-order.com

 


Rökfræði andskotans

Ekki er öll vitleysan eins. Í gær hafnaði Sviss framsali á kvikmyndaleikstjóranum Roman Polanski til BNA á grundvelli svissneskra nákvæmni Army-hnifsins.Polanski

Til stuðnings höfnuninni taldi dómarinn að þrátt fyrir ítarlega athugun fannst enginn galli á málsmeðferð framsalskröfu, þ.a.l. væri ekki hægt að útiloka að galli væri einhvers staðar í framsalskröfunni og því yrði að hafna framsali.

Hefði ekki trúað því að óreyndu, en ef svissneski dómarinn, sem kvað upp þennan arfavitlausa úrskurð, er ekki innvígður í Samfylkinguna þá hlýtur hann að tilheyra Vinstri grænum.

Mynd: www.townhall.com

 

 


Laugardagur við Lækinn

Það viðraði ekki vel á Sunnu Gunnlaugs og félaga í portinu bakvið Jómfrúna í gær. En jazzinn var fínn, svona í  þjóðlegra lagi en það passaði bara vel við veðrið. Jazz in the open

Jómfrúin stendur fyrir jazztónleikum á laugardagseftirmiðdögum á sumrin. Eins og hér sést hefur áheyrendahópurinn þynnst nokkuð, en lengst af sátu harðsvíruðustu jazzgeggjararnir undir regnhlífunum sínum og nutu frábærra útsetninga Sunnu á íslenska þjóðlagaarfinum.

Aðrir leyfðu sér að skríða í hús og njóta steiktu rauðsprettunnar sem toppar allt annað fiskmeti á veitingahúsum borgarinnar.

 


Óþægilegur sannleikur

Hetjan úr Háskólabíó.Hetjan úr Háskólabíó

Ekki frá því að Jimmy Carter bauð sig fram til forseta í BNA hefur dapurlegra eintak verið boðið kjósendum til kaups. Enginn var spenntur fyrir Al Gore í forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2000. Jafnvel ekki hörðustu stuðningsmenn demókrata gátu með sanni sagt að Gore væri óskastjarnan. Þeir höfðu bara ekki upp á neitt betra að bjóða, því á þeim tíma var rétt staðsettur rennilás sá kostur sem allir demókratar gátu sameinast um.

Hamingjusamlega kvæntur, vænn og grænn var hann sá plástur sem Clinton, Lewinsky sárið kallaði á.

En nú er síðasta vígið fallið. Rennilásinn, konan og græna byltingin farin veg allrar veraldar. Fyrst voru það vísindamennirnir sem fitluðu við upplýsingarnar til að ná til sín hærri styrkjum. Síðan Tipper, en ekki hefur verið upplýst hvað hún hefur verið að fitla við og að endingu Gore að að flækja sig í rennilásnum; ákærður fyrir kynferðislega áreitni við nuddara á hóteli í Oregon. Konan kærði en löggan stakk skýrslunni undir stól. Hafði víst eitthvað að gera með orð Gore gegn orði nuddarans. Hver gat líka trúað því að þetta græna goð ætti í vandræðum með kynhvötina. Eða ef út í það er farið að Nobelsveðlaunahafinn hafi yfirleitt haft einhverja kynhvöt.

Ímynd Gore eins og ímynd vísindamannanna hefur orðið mengun að bráð. 

 

Mynd: www.townhall.com

 


Kreppir nú að snilld Steingríms Gosa?

Stöð 2 sagði frá því í gær að kröfuhafar Glitnis og eigendur Íslandsbanka íhugi nú skaðabótamál gegn íslenska ríkinu vegna forsendubrests í samningum. Já, forsendubrests.

Kemur þá upp í hugann sjálfshólið sem Steingrímur Gosi fjármálasnillingur (sic) hlóð á sig í fyrra þegar hann hafði gengið frá laumusamningnum um einkavæðingu bankanna. Þvílíkar dáðir höfðu ekki verið drýgðar síðan hetjur sögualdar riðu um héruð.

Steingr GosiFornkappinn Steingrímur er margra manna maki þegar kemur að fjármálagjörningum að eigin sögn og hann fer sínar ótroðnu slóðir. Í það minnsta fer Gosi sínar eigin slóðir þegar kemur að því að segja frá athöfnum sínum. Þjóðin varð vitni að því í fyrra þegar hann án sýnilegrar áreynslu laug að Alþingi Íslendinga um framgang Icesave samninganna. Daginn áður en þeir voru undirritaðir. Síðan þá hefur hann verið ítrekað gerður afturreka með þau þjóðarsvik, en engu að síður er hann aftur kominn á kreik og mun eflaust nú, eins og fyrr, ná glæsilegum samningi.

En nú vofir yfir skaðabótamál á hendur íslensku þjóðinni (ríkinu) vegna þess að Samningamaðurinn mikli lét undir höfuð leggjast í einkavæðingarferlinu að gera grein fyrir efasemdum sem vaknað höfðu varðandi lögmæti hinna svokölluðu myntkörfulána. Þær spurningar voru þegar komnar á kreik þegar bankarnir voru einkavæddir án þess að greint væri frá því hverjir hinu nýju eigendur væru.

Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og dómur Hæstaréttar tekið af allan vafa um lögmætið. Íþróttafréttamaðurinn í fjármálaráðuneytinu hefði betur hlustað á framsóknarmenn og aðra sem tóku undir tillögu þeirra um niðurfellingar 20% höfuðstóls lána. Háðsglósurnar frá stjórnarflokkunum í garð þeirra sem bentu á þessa lausn hefði mátt tempra. Þó var þetta raunhæf lausn sem vinna mátt með þannig að sett væri þak á niðurfellingar svo ribbaldar í peningamálum hefðu þurft að standa skil á óráðsíuhegðun sinni. Þetta hefði getað sparað venjulegu fólki mikið hugarangur og þjáningar.

Hefði Snilldarstjórnin horft á málin með tilliti til hinnar margboðuðu skjaldborgar um heimilin, þ.e. útfrá hagsmunum heimilanna en ekki með haturshug í garð Framsóknar hefði mátt koma í veg fyrir mikið tjón.  Um þetta eru bæði Samfylking og Vinstri græn sek. Vg vegna áróðursgildis í baráttunni við að hámarka öfundarhatur áhangenda sinna á Sjálfstæðisflokknum. Samfylkingin er þó enginn eftirbátur í að líta framhjá þjóðarhag þegar hún telur pólitískum markmiðum sínum ógnað. Hún hæddist að hugmynd um þjóðstjórn þegar þjóðarskútan logaði stafnanna á milli af því að það var Davíð Oddsson sem bar hugmyndina fram. Og allt er þetta til að tryggja að Samfylkingin komi sínu sérstaka hugðarefni áfram; inngangan í ESB über alles, þrátt fyrir að 70% þjóðarinnar séu því andsnúin. 

Það hafa verið uppi getgátur um að "Snilldarsamningur" Steingríms Gosa við kröfuhafana hafi borið í sér djúpsprengjur, enda hefur samningurinn ekki fengist birtur frekar en eigendalisti nýju bankanna. Fréttin á Stöð 2 ber í sér að þessar grunsemdir eigi við rök að styðjast. Hvort upplýsingum hafi vísvitandi verið haldið frá kröfuhöfunum eða að gefin hafi verið út vísvitandi ólögleg loforð um að ríkissjóður beri allan aukakostnað af samningnum er ekki gott að segja á þessu augnabliki.

En nú erum við að sjá hvaða afleiðingar heiftar- og haturspólitík vinstristjórnar hefur á þjóð sem við hana þarf að búa.

 

Mynd: www.vb.is

 


Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband