Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

The Case of the Missing Choir

HÍ útskrift 

Í gær urðu ákveðin þáttaskil í ævi minni, þegar ég útskrifaðist með meistaragráðu í líf og læknavísindum frá Háskóla Íslands. Ég var þarna í fríðum flokki "framtíðar" Íslands og ekki ein úr bloggheimum, því bloggvinur minn og Húnvetningurinn Hjörtur Jónas Guðmundsson var þarna í sömu erindagerðum, þ.e. að taka við prófskírteini og er hann nú "legit" sagnfræðingur. Barátta hans fyrir sjálfstæði íslenskrar þjóðar hafði borið hann nokkuð af leið bóknámsins. Ég óska honum til hamingju með áfangann.

Mikil breyting hefur orðið á framkvæmd athafnarinnir síðan ég stóð þar síðast á sviði (2003) og má eflaust rekja þessa breytingu til aukinnar áherslu skólans á fjölþjóðleg samskipti. Frá því að vera hátíðleg en nokkuð þunglamaleg athöfn, hefur nú verið skipt um gír og er nú öllu snaggaralegri svo ekki sé minnst á lita-showið sem nú ræður ríkjum. Minnti það helst á kjötkveðjuhátíð í Rio þegar forsetar fræðasviða og deilda gengu uppá sviðið sveipaðir litskrúðugum treflum, sem með réttu hefðu átt að kalla á heimsókn á sólbaðsstofu og nokkrar stélfjaðrir. Rektor einn hélt sínum hátíðleika.

En það var fleira óhefðbundið við þessa athöfn. Undir lok ræðu rektors varð vart við ókyrrð á sviðinu, sendiboði válegra tíðinda bar stallara rektors einhver boð sem leiddi til skyndifundar hirðmanna við útgöngudyrnar. Að lokinni ræðu rektors kom svo stallarinn í pontu og upplýsti salinn að sá voveiflegi atburður hefði gerst að Háskólakórinn hefði ekki skilað sér í hús. Virtist sem hann hefði gufað upp, því engin útskýring kom á hvarfinu. Helst dettur mér í hug að kórinn hafi lent í sömu uppákomu og ég við að komast á staðinn án þess að hafa haft sömu fyrirhyggju. Í mínu besta pússi þurfti ég nefnilega að moka bílinn minn út úr skafli og gerði það með nokkrum tilþrifum. En að fenginni reynslu ferðast ég alltaf með kúst og skóflu á vetrum. Það hjálpar heilmikið þegar sumardekkin halda að þau séu heilsársdekk. 

En nú voru góð ráð dýr. Enginn kór og virtist því vera um snautlegan endir á herlegheitunum að ræða. En háskólamönnum er ýmislegt til listar lagt og var brugðið á það þjóðlega ráð að láta gesti bara skemmta sér sjálfum. Forsöngvari var fenginn úr hópi deildarstjóra og söng allur salurinn Ísland ögrum skorið, ekki einu sinni heldur tvisvar, svo undir tók. Mér sýndist flestir bara ánægðir með þau endalok. En hafi einhver fregnir af kórnum væri gaman ef viðkomandi léti vita. Ég skal koma með skófluna.

Svona leit kórinn út síðast þegar sást til hans.

Háskólakórinn

Myndin er fengin að láni frá Arnbirni Eiríkssyni á Stafnesi og er frá útskrift dóttur hans sumarið 2009. 

Mynd1: HÍ


Styttur bæjarins

Þessi teikning hefur ekkert að gera með þessa færslu. Ég vildi bara gleðja bloggvini mína sem eru tilbúnir að berjast fyrir krónuna og gegn evru og ESB aðild til síðasta blóðdropa. Það eru fleiri farnir að gera sér grein fyrir að ekki er allt sem sýnist í evrulandi. Eldar loga víða.

 

Eu economy

Og nú eru jólin búin.

Næst á dagsskrá er kvenleg framtakssemi.

Í vikunni voru allir fjölmiðlar landsins uppljómaðir af samningi SA, sem snýr að því að tryggja konum sæti í stjórnum fyrirtækja ekki síðar enn sautjánhundruð og súrkál. Þá vitum við að eftir útrásarfylliríið hefur SA gefið upp vonina um að reka fyrirtæki á grundvelli hagnaðar, svo ekki sé minnst á að velja hæfasta einstaklinginn til verksins. Nú skal pólitísk rétthugsun ráða og látið er undan háværum kröfum um "jafnrétti" með því að  raða á stólana samkvæmt líffræðilegum breytileika.

Og hvenær skyldi svo röðin koma að samkynhneigðum, lituðum, fötluðum og rétttrúuðum?

En þetta er útúrdúr og hefur heldur ekkert með efni færslunnar að gera. Færslan snýst um þrjár greinar sem birtust í Mogganum, Fréttablaðinu og á AlbertPressunni, í þessari röð og sú nýjast birtist í dag, þegar knattspyrnusambandið kynnti afhjúpun styttu til heiðurs Alberti Guðmundssyni, sem fyrstur Íslendinga lagðist í víking á svið fótfimi og gerðist atvinnumaður í grein sinni.

Kudos fyrir knattspyrnusambandið og Albert.

Í lok janúar var tilkynnt um úrslit samkeppni á vegum Reykjavíkurborgar um styttu af Tómasi Guðmundssyni, betur þekkur sem borgarskálið okkar. Styttunni er ætlaður staður í Hljómskálagarði Tómas Höllu Gunnarsdótturþar sem skáldið hvílir lúin bein og horfir innávið, hugsanlega í leit að skáldagyðjunni sem fyrst kvaddi dyra hjá honum í skólanum handan Tjarnarinnar.

Það hefur tekið langan tíma fyrir Reykjavíkurborg að koma sér niður á verk sem gæti túlkað afstöðu borgarbúa til þessa ástkæra skálds. Þetta verk vekur sömu notalegu tilfinninguna sem ljóð skáldsins vöktu og vekja enn í brjóstum þeirra sem gefa sér tíma til að staldra við ljóð Tómasar.

En ekki hafði tilkynning um niðurstöðu samkeppninnar fyrr verið kynnt en Fréttablaðið birti grein frá sköruglegum skáldkonum, sem telja sig sviknar af því borgin hefur ekki heiðrað minningu skáldkonunnar Svövu Jakobsdóttur, eins og þær höfðu óskað efir. Svo sannarlega á Svava skilið að stytta verði gerð til að heiðra minningu hennar, en framtaksemi þessara ágætu kvenna sem allar kunna að koma fyrir sig orði er ekki upp á marga fiska. Kvörtun skáldkvennanna byggir á því að þær hafi óskað eftir við borgina árið 2006 að slíkri styttu yrði komið fyrir í borgarlandinu, en borgin síðan ákveðið í einhverjum "blossheitum" bríma að reisa styttu af Tómasi Guðmundssyni í staðinn.

Það merkilega við þessa grein skáldkvennanna er að hinn frjói andi skáldagyðjunnar skyldi ekki hafa blásið þeim í brjóst hugmynd um að bretta bara upp ermar; hefja söfnun, halda ljóðakvöld, lesa úr bókum sínum á kaffihúsum með viðeigandi betliskál (engin móðgun í því) eða bara slá í púkk og greiða fyrir minnisvarðann sjálfar. Ég myndi fús leggja mitt af mörkum til að heiðra Svöfu enda á hún það margfalt skilið, þó ekki væri fyrir annað en halda uppi vörnum fyrir Jónas Hallgrímsson og Grasaferð hans, þegar femínisminn ætlaði að leggja hann á klofbragði. En þar fyrir utan var Svava eitt af okkar allra bestu skáldum og fyrir það á hún allan heiður skilið

svava

Þessar bréfaskriftir kvenlegra skálda sýna að aðferðafræði skapandi hugsunar nær aðeins að buddu annarra. Eigið framlag er ekkert. Svekktar og sárar senda þær borginni tóninn af því að fjögur ár, eitt bréf og tvær greinar hafa ekki borið þann árangur sem þær ætluðu.  Síðastliðið haust skráði ég mig á lista hjá framtaksömu fólki sem vildi reisa styttu til minningar Icesave-ánauðinni svo menn gætu um ókomna tíð vitað hverjir stóðu að því að hneppa æsku þessa lands í ánauð. Þar var ekkert bænaskjal til borgarinnar, ekkert víl og volæði, aðeins vilji til að framkvæma.

SA ætti frekar að leita eftir stjórnarmönnum í fyrirtæki sín í þessum hópi, sé þeim á annað borð í mun að reka þau á arðbæran hátt. Fólk sem er tilbúið að taka á sig erfiðið í stað þess að ætla öðrum að kosta óskir sínar.

Það er eitthvað svo ótrúlega 2007.

 

Mynd1: www.tounhall.com

Mynd2: http://myndasafn.ksi.is

Mynd3: www.silfuregils.eyjan.is

Mynd4:  www.dr.dk/Kultur/Forfatteratlas/Atlas/Forfatt...


Enginn veit hvað átt hefur fyrr en......

Að eiga og tapa 

Bush saknað

Þetta glaðbeitta skilti birtist á mánudaginn var við þjóðveg í útjaðri smábæjarins Wyoming í Minnesota. Mikil leynd virtist hvíla á uppsetningu þess og vildi í fyrstu enginn kannaðist við hver hefði komið því fyrir. Það var ekki fyrr en skiltið hafði birst á öllum sjónvarpsstöðvum og fjölmiðlum Bandaríkjanna sem snápar komust að því að samtök smáfyrirtækja í grenndinni hefðu borgað fyrir uppsetninguna. Eigendur þessara fyrirtækja voru að mótmæla aðgerðaleysi Obama í atvinnumálum.

InnkaupapokiEkki leið sólarhringurinn áður en fyrirtæki um gervöll BNA höfðu gert sér grein fyrir auglýsingagildinu sem þetta skilti á sléttunni bar í sér og nú má kaupa T-boli, tölvutöskur, tóbaksdósir og innkaupatuðrur með mynd af Bush og áminningunni sem smájöfrarnir í MN sendu forseta sínum. Húmorinn sem í skiltinu felst fer þó framhjá þessum 10-12% landsmanna sem enn trúa á frelsarann Barack Obama sem á að færa þeim frið og alsælu, enda bjargföst trú þeirra að hann geti leikið listir forvera síns og gengið á vatni. En smáviðskiptin þola ekki bið, þeir sem þau stunda kæra sig ekki um trillekunster. Þeir þurfa að borga laun og reikninga og sjá fjölskyldum sínum farborða. Félagsmálafulltrúinn í Hvíta húsinu gefur lítið fyrir það enda líkt og Jóhanna og Steingrímur Joð heldur hann að ríkið standi undir velferðinni .

Joe the Plummer reyndi að rétta þann kúrs, en var úthrópaður fyrir að trúa á ameríska drauminn. Að eignast sitt eigið fyrirtæki, skapa störf og afurð sem aðrir vildu kaupa. Þessi smellna auglýsing varpar nú ljósi á stöðu almennra borgara sem taka á sig sífellt auknar byrðar skatta svo félagsmálafulltrúinn geti fjölgað opinberum störfum og lagt á ráðinn um enn fleiri.

Húmorinn sem þarna birtist er banvænn. Hann er sama eðlis og rússneski almúginn beitti fyrir sig gegn kommúnískum kúgurum sínum og sem slíkur hættulegur hinni húmorslausu sjálfumgleði sem telur sig alltaf vita hvað öðrum er fyrir bestu.

Smáfirmarekendur ættu þó að vera varir um sig. Þessa dagana er hið ameríska geðlæknafélag  að sammælast Don-Juan-Demarcoum endurbætur á sjúkdómsgreininga handbók sinni. Meðal tillagna sem nú liggja fyrir varðandi börn og unglinga er "vanstilling með eirðarleysi" áður þekkt sem uppvöðslusemi eða frekja, "geðrofsáhættu heilkenni" áður kallað einþykkni eða unglingaveiki, en fullvaxta glæsibringur geta fengið á sig stimpil fyrir að vera of kært til kvenna og teljast þá haldnir  "ofvirkri æxlunarfýsn". Þetta flokkaðist áður undir heilbrigða kynhvöt og stuðlaði þá að viðhaldi mannkynsins.

Hver  veit nema spaugsemi sú sem birtist á skiltinu gæti jafnvel endað í handbók-til-greiningar-geðrænna-kvilla undir heitinu "hvatvís skopskynstruflun".   

 

Mynd1: www.newsmax.com

Mynd2: www.cafepress.com

Mynd3: www.pegasusnews.com

 


Mönnum bátana; alla sótrafta á flot

Það gengur mikið á hjá Samfylkingunni  þessa dagana. Mætti halda að þeir eigi ekki von á góðu frá hinni tárvotu rannsókarnefnd sem vonast til að skila skýrslu sinn einhvern tímann fyrir næstu aldamót.

En gerir nokkuð til þótt einn og einn Björgvin falli fyrir borð? Það má alltaf finna annan bassa til að fylla upp í hamingjukórinn. Verra væri ef skýrslan sýndi að Jóhanna hafi haft hönd í bagga með ríkisútgjöldunum í ríkisstjórn Geirs H. Reyndar er útilokað að svo hafi ekki verið þegar tekið er tillit til þessarar 20% hækkunar sem varð á fyrstu fjárlögunum sem sú ríkisstjórn afgreiddi. Slík er gæska Jóhönnu. En Samfylkingin getur verið án Bjögga bassa og Jóhönnu. Samfylkingin á hins vegar við "hér og nú" ímyndarvanda að stríða. Hún hefur veðjað öllu sínu á að Steingrímur tæki skellinn fyrir Iceslave samninginn, sem átti að tryggja að Íslendingar skriðu á hnjánum inní Evrópusambandið. Nú er komin upp ný staða og allar líkur á að Samfylkingin fylgi Vg niður klósettrörið. Það er nefnilega engan bilbug að finn á vilja þjóðarinnar.

VIÐ VILJUM EKKI BORGA ICESLAVE. 

                                              Kennslustund í stjórnmálafræði. Forsetinn gefur pólitíska tilsögn

Ólafur Ragnar sá möguleika í stöðunni að rétta sinn hlut með þjóðinni. Samfylkingin er nú að upplifa það sem Framsókn upplifði einu sinni með þeim háæruverðuga og Alþýðubandalagið einhverjum árum síðar. Ólafur Ragnar er enn sami ólafurragnarsistinn sem lætur ekki hugsjónir eða pólitík annarra koma milli sín og ímyndarinnar. Sogist Jóhanna og Samfylking hennar niður rörið þá verður bara svo að vera. Ólafur blómstrar sem aldrei fyrr; heggur til heimspressuna á báða bóga og bregður sér svo á boltann við mikinn fögnuð lýðsins.

Nýja Ísland

Nýja ÍslandVið svo búið mátti Samfylkingin ekki lengur sitja með hendur í skauti. Hagfræðingarnir Þórólfur Matt og Friðril Már mála nú skrattann á veggin ófögrum litum. Eiríkur Bergmann er sendur út af örkinni til að minna þjóðina á stjórnskipun landsins og Ingólfur Bjarni skellir Seðlabankanum í ábúðarfullri "frétt" um lygamerðina sem þar höfðu hreiðrað um sig. Steinunn Valdís flytur frumvarp um Íraksstríðið, sem reyndar var flutt fyrir fáeinum vikum síðan. Svo mikið liggur Samfylkingunni nú á að draga athyglina frá þeirri staðreynd að maður og mús Samfylkingarinnar á þingi greiddi atkvæði með samningnum sem þjóðin ætlar að fella í sinni fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslu síðan 1944.

Nú er um að gera að sverja af sér glæpinn. Svavari var fórnað í Kastljósinu í kvöld og þegar Svavari er fórnað þá er Steingrími Joð fórnað í leiðinni. Aðstoðarmennirnir á RÚV tóku að sér að kynna hið frumlega frumvarð Steinunnar Valdísar með því að grilla Halldór Ásgrímsson vegna fornra glæpa. Þegar Halldór vildi ekki gangast við að hafa lagt annað til stríðsrekstursins en afnot að flugbraut og smávegis aðstoð við uppbyggingarstarf stökk Margrét Marteinsdóttir á hann og spurði "En hvað ef við hefðum haft her?"

Er nema von að maður spyrji "En hvað ef fréttamenn ríkisútvarpsins hefðu heila í stað kvarna?"

Þegar svo er komið má segja að smjörklípan sé óðum að verða að fjalli.


Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband