Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Málbeinið ofvirkt en hnéin að gefa sig

Einhver gæti haldið að hér sé boðið upp á gestaþraut fjölskyldunni til dægrastyttingar í sumarfríinu. En nei, það er ekkert flókið við þessa fyrirsögn, hún er reyndar óþarflega einföld. Hún gerir ekki annað en að undirstrika þau sannindi sem við höfum horft upp á síðan Samfylkingin var brædd saman úr restinni af Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi ásamt klofningsbroti Jóhönnu og leyfum af Kvennalistanum að þegar breiða þarf yfir vangetu hópsins til að takast á við vandamál þá er lausnin sú að beina athyglinni annað.

Við höfum séð það í stjórnun Reykjavíkurborgar og nú fáum við að sjá hvernig Samfylkingin skríður undan efnahagsvandanum með því að gefa yfirlýsingar í allar áttir. Allt er til umræðu annað en leiðir út úr efnahagsvandanum. Í reynd virðist sem Samfylkingin hafi tekið krísunni sem himnasendingu til að þrýsta á um aðild Íslands að ESB. Skítt með það, þótt húsnæðislán almennings hækki og fyrirtækin fari á hausinn. ESB er öllu ofar.

Ofursmurt málbein er einkennismerki þessa fólks. Það mætti halda að Samfylkingin sæti í öllum 12 ráðuneytunum. Engin ákvörðun er tekin í ráðuneytum Sjálfstæðisflokksins án þess að Samfylkingarráðherrar sendi frá sér yfirlýsingar um að þeir séu mótfallnir aðgerðum eða telji sig geta gert betur. Það er þó ekki reyndin. Umhverfisráðuneytið er orðið að athlægi um allan heim. Þaðan koma stórkallalegar yfirlýsingar og síðan þegar allt er komið í klúður þá er fjölmiðlabann sett á svo umheimurinn verði ekki vitni að hvernig staðið er þar að málum.

Það er kannski ekki skrítið að þessi vinnubrögð skuli viðhöfð. Fyrirmyndin, Ingibjörg Sólrún fylkingarbrjóst hefur nefnilega gert sér sérstak far um að vingast við einræðisherra og morðhunda í viðleitni sinni við að ná markmiði sínu um að fá að predika yfir því sem hún metur æðstu metorð, þ.e.  seta í Öryggisráði SÞ. Engu að síður hefur henni tekist á undraskömmum tíma að klúðra þessu máli. Og ekki stóð á því að finna sökudólginn. Sendiherraskipanir Davíðs Oddsonar eiga að hafa farið svo fyrir brjóstið á heimsbyggðinni að hinar vammlausu Sameinuðu þjóðir geta ekki hugsað sér að greiða Íslandi atkvæði. Hann er góður þessi. Til að draga athyglina frá klúðrinu er ISG nú á fullu að stýra dómsmálaráðuneytinu og verkefnum þess. Af langri reynslu hefur hún komið auga á að það er auðveldara að þyrla upp ryki en takast á við raunverulegan vanda. Fyrst hún vill endilega bjarga mannslífum, því snýr hún sér ekki að Súdan. Þar er fólk sannanrlega í neyð; ofsótt, hungrað, nauðgað og drepið og það sem meira er ráðuneytið sem sinnir flóttamannamálum er undir hennar flokksstjórn

Á meðan ISG rassakastast í öðrum ráðuneytum leggur Össur ofuráherslu á að koma öllum auðlindum landsins í opinbera eigu, en hugsar sig ekki tvisvar um að taka þátt í einkaframkvæmdum á auðlindum annarra landa. Jarðhiti og  virkjanir eru þar ofarlega á lista og nú eygir hann möguleika á að selja vatnið, sem hann barðist svo ötullega fyrir að koma í opinbera eigu, til auðmanna úti í heimi. Vatnssala hefur ekki verið sérlega arðbær atvinnugrein hingað til, en glýjan í augum Össurar kviknaði á fiskeldistímum og hefur ekki slokknað síðan.

Össuri til málsbóta er þó vilji hans til að byggja upp atvinnuvegi landsins. Þar á hann ekki félaga í Björgvin G sem sér enga leið úr vanda fyrirtækja en senda þau til Brussel. Hann gerir enga tilraun til að takast á við vandamál líðandi stundar, en hamrar sífellt á að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að ná niðurstöðu í Evrópu-umræðunni. Niðurstaðan liggur fyrir hafi hann ekki tekið eftir því.

Miðað við síðustu fréttir af Markaði má ætla að BGS liggji nú á bæn og biðji þess heitt og innilega að krónan veikist aftur. Björgvin G og öll samfylkingingarhersingin hefur nefnilega hvorki kjark né vilja til að takast á við efnahagsvandann og krýpur því í auðmýkt við dyr Evrópusambandsins.


« Fyrri síða

Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband