Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Þúsund þorskar á færibandinu

Fyrir nokkrum árum hóf ungur blaðamaður, Ólafur Teitur Guðnason, á Viðskiptablaðinu að halda skrá um mistúlkanir, rangfærslur, lygar, þöggun og pólitíska rétthugsun eins og hún birtist okkur í fjölmiðlum. Pistlar hans birtust í föstudagsútgáfu blaðsins og voru margir til í að leggja nokkuð á sig til að verða sér út um baðið. Fólk er oft ótrúlega grandalaust gagnvart því sem verið er að framleiða ofan í það á fjölmiðlunum. Pistlar Ólafs komu síðar út á bók og eru þær eigulegir gripir. Ólafur er nú hættur á Vb, en kollegi hans Andrés Magnússon tekinn við á fjölmiðlavaktinni. Ekki er síður fengur að skrifum Andrésar en Ólafs.

Því tek ég þetta upp að í föstudagsblaði Vb fjallar Andrés um frétt sem rataði bæði inn í Morgunblaðið og Fréttablaðið. Tilefnið var skyndiverkföll flugumsjónamanna. Þetta væri ekki í frásögu færandi ef ekki væri það fyrir annað en að bæði blöðin taka viðtal við sömu konuna. Einhver kynni að spyrja; svo hvað með það? Já, hvað með það? Konan hlýtur að hafa unnið sér eitthvað til frægðar. Nei, hún ól ekki barn í biðsal Leifsstöðvar og hún var ekki að missa af teboði hjá Englandsdrottningu. Það eina sem hún gerði var að opna gemsann og hringja í stærstu dagblöðin (og kannski líka þau minni) og kvarta undan því fjárhagstjóni sem töf á flugi var líkleg til að valda henni.

Varla er þetta svo stór glæpur að það þurfi að gera veður út af því. En þegar þeir safnast upp versnar útlitið. Eins og Andrés bendir á, þá er það skortur á frumkvæði blaðamanna (og fréttamanna) við að afla sér upplýsinga. Þeir bara sitja og bíða eftir að fréttin komi til þeirra. Það er engin tilviljun að af hundruðum manna sem yfirvofandi verkfall var líklegt til að bitna á, þá var aðeins talað við eina tiltekna konu, ljósmyndarar sendir á staðinn og málið afgreitt. Þetta er ekki fréttamennska heldur færibandavinna; þorskurinn kemur á bandinu og þú gerir ekkert annað en að ýta honum í rétt hólf. Annað dæmi sem Andrés hefur nefnt er fréttatilkynning frá utanríkisráðuneytinu sem ýmist birtist nánast orðrétt eða lítillega photo-shoppuð í þessum sömu blöðum.

Þessi færibandavinna er ekki bara vandamál íslenskra fjölmiðla hún leggst, eins og andrúmsloftið, yfir allan heiminn. Borin áfram af stóru fréttaveitunum inn í alla króka og kima. Gagnrýnislaust er "fréttum" veitt áfram án þess að nokkur kanni hvort fótur sé fyrir þeim eða ekki. Stundum er þetta bara eitthvað PR stunt, stundu stjórnmálamenn að fleyta spuna, stundum er sannleikskorn að finna í frétt og stundum er hún hreinn uppspuni. Hvernig var ekki með aldamótaveiruna sem átti að leggja gjörvallt efnahagslíf heimsbyggðarinnar í rúst? Svo maður minnist nú ekki á þá sem væru svo óheppnir að liggja á skurðarborði þegar hátíðin gengi í garð. 

Nýlega féll dómur í Frakklandi í máli þar sem trúverðugleiki ríkisfjölmiðilins France2 er dreginn í efa. Frétt sjónvarpsstöðvarinnar um morðið á drengnum Al-Dura hrinti af stað annarri intifata uppreisninni í Palestínu og hafði áhrif um allan hinn múslimska heim. Kvöld eftir kvöld horfðum við á "dauðastund" drengsins hér heima í stofu á meðan illvirki Ísraela voru tíunduð. En var drengurinn drepinn? Gátu byssukúlur ísraelsku hermannanna beygt fyrir horn? Dómurinn í Frakklandi, nú átta árum síðar dregur það í efa. Áróðursfréttir úr Arabaheiminum hafa flætt yfir okkur án þess að "sannleiks elskandi fréttamenn" spyrni við fæti.

Undanfarið hef ég verið að glugga í bókina Flat Earth Newseftir breska blaðamanninn Nick Davies. Nick þessi er ólíkt Ólafi Teiti og Andrési vel til vinstri og ber bókin nokkur merki þess. En þegar pólitískum skoðunum er ýtt til hliðar þá eru þeir allir 3 að skoða sama hlutinn. Subbuskap í fréttamennsku. Og líkt og félagarnir á Vb þá er Nick að fjalla um rjómann í breskri blaðamennsku, ekki botnfallið. Hann fékk rannsóknateymi frá háskólanum í Cardiff til að skoða innlendar fréttir sem birtust í eftirtöldum blöðum í The Times, Guardian,Independent og Daily Telegraph og að auki Daily Mail til að nálgast millimarkaðinn. Innsendar fréttir sem síðar nutu birtingar voru líka skoðaðar (2,207) og rætt var við viðkomandi blaðamenn ef einhverjar efasemdir vöknuðu um efnið.

Í skemmstu máli er það að segja að endurvinnsla á aðsendu efni er stærsti hluti þess sem tekið er til birtingar, annars vegar frá fréttaveitum eins og Press Associate og hins vegar frá PR fyrirtækjum sem ýmist eru að koma á framfæri viðskiptatengdu eða pólitísku efni. Um það bil 60% frétta í þessum virtu blöðum var endurvinnsla slíks efnis og að auki bar um 20% efnis þess sem merki að vera þannig upprunnið. Átta prósent gátu þeir ekki alveg staðsett en eftir stóð þá aðeins 12% frétta þar sem rannsóknaraðilarnir gátu fullyrt að fréttin hafi frá grunni orðið til á fréttastofunum sjálfum.

Frásaga Nick Davies af þessari könnun tekur aðeins ríflega eina blaðsíðu í bók sem annars er tæpar 400 síður. Það gefur því auga leið að margt annað bitastætt er að finna í bókinni. Fleira ætla ég ekki að tína til núna, en læt þess þó getið að Nick Davies er ekki alveg gallalaus sjálfur. Hlutleysi er nefnilega vandrataður vegur allir geta dottið í pitti.


Að grípa gæsina

Er þetta ekki tækifærið sem Ingibjörg Sólrún hefur beðið eftir til að koma sinni sérstöku utanríkisstefnu á framfæri? Ef ekki nú þá hvenær? Afstaða hennar vegna gagneldflaugakerfis NATO var svo hefðbundin að hún hefði getað komið frá Hvíta húsinu. Sérstaða hennar hefur helst falist í að vingast við hina og þessa einræðisherra og hefur henni orðið vel til vina við suma þeirra. Hvers ætti þá Mugabe að gjalda.

Og sem aukabónus, þarf hún ekki einu sinni að sitja í Öryggisráðinu til að gefa George W. langt nef.


mbl.is Undirbúa refsiaðgerðir gegn Zimbabwe
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert er svo með öllu illt

Það er ekki nóg að vera ábúðarfullur í pólitík, menn þurfa líka að vera slikk. Stór hluti af kjósendum vill láta hagræða sannleikanum sér í vil og þar var Blair sérfræðingur.
mbl.is Bretar sakna Blair
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barátta við boðsflennur í bleytunni

 

HAY-FESTIVAL-arrest

Þeir sem telja sig þess umkomna að eigna sér stofnanir og skóla svo ekki sé minnst á fyrirbæri eins og menningu og menntun finnast víða. Þessi hugprúða hetja sem rennur hér fótskriðu í leðjunni og kemur boðskap sínum svo snyrtilega á framfæri er fótgönguliði í þessum elítu-her. Það eru nefnilega fleiri en Svanur Kristjánsson prófessor við HÍ sem láta ekki deigan síga. Komast aldrei framhjá þeirri staðreynd að heimurinn er margslunginn og fer ekki í einu og öllu að þeirra vilja.

Nýlega var hin árlega bókmenntahátíð haldin í smábænum Hay-on-Wye á Englandi. Bærinn er þekktur um heim allan fyrir þær liðlega fjörutíu bókabúðir sem þar eru reknar. Unaðslegri reit er vart að finna á þessari jörð. Í ár var þó að nokkru leiti skipt um gír eða svo var boðað. Sjálfskipaður varðmaður menningarinnar hugnaðist ekki boðslisti skipuleggjanda og ákvað að taka til sinna ráða. Á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig til tókst.

Varðhundurinn heitir George Monbiot og er blaðamaður á hinu víðlesna dagblaði The Guardian. Eins og allir aðrir blaðamenn er hann hlutlaus um málefni. Það var bara eitt atriði í dagskránni í Hay sem fór eitthvað fyrir brjóstið á honum (og situr þar líklega  fast enn) og það var fyrirlestur Johns nokkurs Bolton sem að mati Monbiots er ekki bara boðsflenna heldur líka stríðsglæpamaður (Hannes Hólmsteinn getur varla toppað þennan).

Hann ætlaði ekki að leyfa Bolton að saurga samkomuna með nærveru sinni, eða eins og hann orðaði það: "swim through the politest of polite soirees - which is of course Hay". Elítu-hugsun í toppklassa. Monbiot ákvað því að nýta sér rétt sinn til að framkvæma borgaralega handtöku á staðnum og afhenda "stríðsglæpamanninn" yfirvöldum svo draga mætti hann fyrir dómstóla.

Svo virðist sem yfirvöld í Bretlandi hafi ekki verið sammála Monbiot frekar en skipuleggjendur hátíðarinnar og var honum meinaður aðgangur að boðsflennunni. Engu að síður fékk hann tækifæri til að koma skoðun sinni á framfæri þegar Bolton ók á brott úr bænum.

Óþarfi að taka fram að The Guardian sór af sér aðild að málinu og sagði Monbiot hafa verið í einkaerindum.


Eilíflega ósáttur

 hannessvanur

 

Flestir eiga því láni að fagna að geta haldið upp á gleðidaga lífsins og gera það gjarnan í góðra vina hópi. Aðrir velja að halda upp á sín stærstu hugarvíl og þá er ókunnugum og utanaðkomandi ósjaldan blandað í málið. Prófessor við Háskóla Íslands sem eitt sinn sat í dómnefnd sem ekki tókst að hindra ráðningu umsækjandi í  lektorstöðu við skólann, er einn af þeim. Svanur Kristjánsson er enn að dragast með þennan draug í farteskinu. Nú á 20 ára afmæli ráðningar Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar heldur Svanur sína hátíðarræðu, enn einu sinni og aftur í Fréttablaðinu.

Það er ekkert nýtt að dómnefndir við HÍ taki sér vald til að útiloka umsækjendur frá stöðum við HÍ; gerist reyndar víðar í hinu opinbera kerfi. Og Hannes er ekki einn um að falla ekki í hópinn vegna skoðana, nú síðasta sumar var doktor í sagnfræði frá Bandaríkjunum talinn vanhæfur til að öðlast doktorsgráðu frá HÍ vegna þess að hans sýn á sagnfræðina var önnur en dómnefndarinnar. Má þá alltaf tína eitthvað til því til stuðnings, því enginn er svo fullkominn að ekki megi finna einhvern veikan blett ef vel er leitað.

Svanur er fulltrúi elítunnar sem telur sig eiga HÍ. Svo virðist sem að hans mati varpi  tilvist HHG, innan hinna fyrrum óspjölluðu veggja, skugga á hin helgu vé. Helgin var rofin og ekkert fær hana endurheimt nema brotvikning hins óhreina. Haft var eftir Svani á Pravda að þegar hann hóf kennslu við HÍ hafi þar aðeins verið "tveir kennarar í stjórnmálafræði, ég og Ólafur Ragnar" hann bætir reyndar við að Þorbjörn Broddason og Haraldur Ólafsson hafi verið þarna líka, en þeir voru greinilega að gera eitthvað allt annað en að kenna.

Þetta var lítill sætur klúbbur með aðsetur að Sóleyjargötu 1 og um "samkennara" sinn segir Svanur "að mínu mati var Ólafur Ragnar afburðagóður stjórnmálafræðingur sem hafði áhuga á því sama og ég". Úr þessum tveimur sjálfhverfu setningum  má lesa að hefðu skoðanir Ólafs Ragnars ekki fallið eins og flís við rass við skoðanir Svans er vafasamt að Ólafur hefði fengið þessa líka fínu umsögn. Hannes var eins og hver önnur boðflenna í þennan fína og fornem einkaklúbb.

Svanur velur það sem hann vill að komi fram úr umsögn menntamálaráðherra við skipun HHG í lektorsstöðuna, en sleppir öðru. Hann minnist ekki á að HHG hafi verið eini umsækjandinn sem hafði á þessum tíma doktorspróf í stjórnmálafræði, en það var kennslugreinin sem auglýst hafði verið í. Sá umsækjandi sem fékk nær öll atkvæði deildarfundar (15/17) lauk ekki doktorsprófi fyrr en 6 árum síðar og Svanur lætur líka ósagt að vegna flýtiafgreiðslunnar sem dómnefndarálitið fékk á deildarfundi (lagt fram og samþykkt í einni viðstöðulausri kokgleypingu) leitaði ráðherra til viðurkenndra fræðimanna bæði hér heima og erlendis til umsagnar um hæfi HHG.

Öfgamenn eins og Svanur Kristjánsson eru eins og hundar með bein, á meðan beinið er til staðar skal á því hangið. Ósóminn skal upprættur og ekki bætir úr skák að HHG framdi það voðaverk fyrir nokkrum árum að skrifa bók um ævi "Skáldsins". Hafi ráðning HHG verið helgispjöll þá var bókin ekkert minna en guðlast. En engum sem las bókina duldist að fyrstu kaflar hennar voru teknir upp úr ævisögum skáldsins, enda kom það fram í aftanmálsgreinum. Hins vegar fylgdu ekki aftanmálsgrein hverri setningu. Á þetta bitu hundarnir sig og eru enn, eins og grein Svans sem á tvöfaldra harma að hefna sýnir, að togast á um bitann. Þeir virðast ekki hafa tekið eftir því að enginn er að toga á móti.

HHG hélt upp á stórafmæli sitt og bauð þangað vinum og óvinum til að gleðjast með sér. Þeim sem ekki vildu þiggja var frjálst að halda sig fjarri. Svanur velur hins vegar að láta bera harm sinn og hugarvíl inn á hvert heimili svo engin leið er að víkjast undan. Megi tyllidagar Svans í framtíðinni einskorða sig við árnaðaróskadálkinn.


Ber er hver að baki .....

Nú hafa tryggir og trúfastir vinir utanríkisráðherra innan RÚV ákveðið að leggja baráttu hennar fyrir setu í Öryggisráðinu lið hér innanlands. Skortur hefur verið á stuðningi við þessu montframboði meðal almennings. Áróðursherferðinni var hrundið af stað í gær, þegar Spegillinn sendi út viðtal  við einhvern nýsjálenskan ex-öryggisráðsfulltrúa, sem vitnaði um ágæti og árangur þess að smáríki ættu þarna sæti.

Ekkert sem hönd var á festandi kom fram í orðum mannsins - smáríki geta haft áhrif (ekkert dæmi tekið); þau geta aflað sér vinsælda (m.þ.a. taka undir allt kvabb sem utanráðsmönnum dettur í hug að bera upp, sem sagt vera vinsamleg) og þau geta sýnt "frumkvæði". Frumkvæði um hvað??? Þetta var kurteislegt spjall sem skilaði engu, en fékk gott rými í umfjöllun "útvarps allra landsmanna".

Öryggisráðið fjallar um stríðsátök og hvort hlutast eigi um þau. Stóru þjóðirnar með neitunarvaldið véla um það samkvæmt sínum eigin hagsmunum og smáríki fá að setja stimpil sinn á niðurstöðuna. Kjósi þau að gera það ekki þá er þeim það líka frjálst, því  afstaða þeirra skiptir engu máli umfram fegrunaraðgerðina sem felst í að allir syngi í kór. 

Öryggisráðið fjallar líka um friðargæslu. Þar getum við tekið þátt án þess að sitja í ráðinu. En vandamálið sem Öryggisráðið stendur frammi fyrir tengist  ekki hvað síst illvirkjum sem gæsluliðar á þeirra vegum fremja á saklausum borgurum, einkum konum og börnum. Það vandamál verður ekki leyst með pilsaþyt frá Íslandi. Vandamálið er orðið að gefinni stærð innan stofnunar Sþ, sem hefur nú sætt sig við að fella niður ákvörðunina um "zero tollerance" og hefur tekið upp stefnuna "þetta er ekki ásættanlegt". Hvað sem það nú merkir.

Önnur nálgun til áhrifa, sem hugnast mér betur, var viðtal við Hrafn Jökulsson á Morgunvaktinni í morgun. Hrafn, sem hefur um stund dregið sig frá skarkala heimsins, sinnir nú mannlífi í afskektustu byggð landsins. Hann hefur líka staðið fyrir útrás til annarra landa. Ekki með fullar hendur fjár heldur með því að gefa af eigin tíma og styrkja félagslíf ungmenna í fátækasta ríki Evrópu. Hrafn hefur með þessu sýnt hvar og hvernig smáríki, með takmarkaða fjármuni og völd, getur haft áhrif og látið gott af sér leiða.

Í stað þess að kosta rándýrar sendinefndir til NY sem gagnast engum nema uppblásnu egói stjórnmálamanna eigum við að leggja áherslu á að láta fjármuni okkar ávaxta sig í góðum verkum. Hvar betra en í bakgarðinum heima hjá okkur þar sem þörfin er svona gríðarleg?

 


Hvaða 495 milljónir samþykktu Lissabon-sáttmálann?

EU-Írland

Það þarf ekki alltaf að hafa mörg orð um hlutina til að koma merkingu til skila. Stundum dugir eitt orð eins og hér og stundum má jafnvel komast hjá því að segja nokkuð. Þetta fer auðvita eftir því  hvað sagt er og hvaða augum menn líta heiminn í kringum sig.

Stjórnarskrársinnana ESB urðu fyrir miklum skell í síðustu viku eftir að hafa beitt Íra hótunum til að kjósa með sameiningu sambandsins. Svo gersneiddir tengingu við almenning í löndum sínum eru þeir að þeir hafa jafnvel látið sér detta í hug að halda sameiningaráformum sínum til streitu þrátt fyrir að lög sambandsins leyfa ekki slíkt. Heimur þeirra er báknið í Brussel og almenningur í löndum ESB er lítið annað en tölfræði á teikniborði stórveldisdrauma þeirra.

Það sannast best þegar ESB-sinnar eins og t.d. Wolfgang Schauble innanríkisráðherra Þýskalands og  smásílið hér heima Baldur Þórhallsson reyna að bera það á borð fyrir venjulega hugsandi fólk að það bara gangi ekki að örfáir Íradurgar geti stöðvað framrás Evrópumassans. Ákvörðunarréttur Íra er tryggður í þeim sambandslögum sem nú gilda, en verður ekki til staðar ef Lissabon-sáttmálinn verður staðfestur. Því var það síðasti sjens fyrir Íra að spyrna við fótum og allt tal um að "fáeinar milljónir Íra geti ekki tekið ákvörðun fyrir hönd 495 milljónir Evrópumanna" er út í hött.

Það voru nefnilega engar 495 milljónir Evrópubúa sem samþykktu Lissabon-sáttmálann. Vilji almennings var hvarvetna hunsaður. Þingmanna-elítan í þeim löndum sem samþykkt hafa sáttmálann sá um það. Það hefði líka gerst á Írlandi ef elítan á þingi hefði komið vilja sínum fram. En Írar voru eina þjóðin sem ekki gat framselt vald sitt til yfirþjóðlegrar stofnunar án þess að bera það undir landsmenn. Jafnvel Bretar, sem fengu loforð  frá forsætisráðherra sínum um að kosið yrði um málið voru sviknir. Gordon Brown sveik loforð fyrirrennar síns og laumaðist með skottið á milli lappanna til Lissabon eftir að forsvarsmenn hinna þjóðanna höfðu staðfest sáttmálann. Þótt svik hans hafi verið lúaleg sýnir þessi laumuferð hans að hann kunni að skammast sín. Enda eins gott því hann á eftir að þurfa að lifa við þau um ókomna tíð.

Írar tala fyrir sig og þannig á það að vera meðal fullvalda þjóða. Hér heima er harðsnúinn hópur sem gengur hart fram í því að koma fullveldi Íslands í hendur skriffinnanna í Brussel. Megi þeir upplifa skömm Gordons Brown takist þeim ætlunarverkið.


Það kom að því!

Það var tímabært að sjálfstæðismenn sýndu samstarfsflokknum að það eru takmörk fyrir öllu. Samfylkingunni hefur verið gefinn nægur tími til að aðlagast stjórnarsetunni. Eilíft nöldur og nuð er þreytandi til lengdar, ekki bara fyrir samstarfsflokk heldur líka fyrir fólkið í landinu sem skilur ekkert i öllum þessum misvísandi skilaboðum.

Það dugar einfaldlega ekki að bera það á borð að flokkarnir hafi ekki runnið saman þótt þeir taki þátt í ríkisstjórnarsamstarfi. Sífellt gjamm grefur undan trausti. Vilji menn koma einhverju í verk þá gerist það helst með því að menn vinni að málum en eyði ekki tímanum í tilgangslausar yfirlýsingar.

 

 


mbl.is Harðari tónn í garð samstarfsflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarfundur í Svíþjóð

Lá að!  Norðurlöndin hlaupa undir bagga með utanríkisráðherra fyrir milligöngu Geirs Haarde og skrifa bréf til stuðnings framboði Íslands til Öryggisráðsins. Samfylkingunni hefur tekist með undraskjótum hætti að klúðra framboðinu og því er gripið til þessa ráðs.

Eins og venjulega kannast Samfylkingin ekkert við klúðrið, en kennir nú Davíð Oddsyni um allt. Nýlega var ég upplýst um af einum stuðningsmanna Samfylkingar (IG) að vegna tíðra skipana Davíðs í utanríkistíð sinni á sendiherrum hafi heimsbyggðin orðið afhuga framboði okkar.

Nú veit ég ekki alveg hvernig sendiherraskipanir á Íslandi eiga að vekja slíka eftirtekt meðal hinna 197 þjóða sem sitja á þingi SÞ að okkar frábæru kraftar séu afþakkaðir til setu í Öryggisráðinu, en það er önnur saga. Samfylkingin á greinilega ekki í neinum vandræðum með að skilja það.


mbl.is Samnorrænt framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar skortir helst samráð?

Væri ekki nær að Björgvin gerðist samstarfsráðherra við samstarfsflokkinn í ríkisstjórn. Yfirlýsingagleði samfylkingarráðherranna er slík að ekki þarf að undra þótt sú spurning vakni.

Sú var tíðin að samfylkingarfólk hæddist að drotningaviðtölum ráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Nú treysta ráðherrar Samfylkingarinnar sér ekki einu sinni í viðtöl heldur gefa þeir út drotningayfirlýsingar og senda svo lögmannahjörðina út á akurinn til að verja yfirlýsingarnar.


mbl.is Björgvin nýr samstarfsráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband