Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Hverju er verið að mótmæla?

Hverju eru bílstjórar að mótmæla? Evrópu tilskipunum eða bensínverði? Miðað við áhuga þjóðarinnar á ESB aðild þessa dagana má draga í efa að það sé tilskipunin. Þá hlýtur það að vera bensínverðið. Var á Spáni fyrir helgi og sá að þar var bensínverð milli 135 og 140 kr á líter fyrir 95octan. Hve mikið það vegur í buddunni veit ég ekki.

En nú er olíuverðið að komast í $120 fyrir tunnuna, þá lækkar líka hlutfall ríkisins í bensínverðinu. Ef spáin frá í haust að olían fari í $140 gengur eftir, þá nær ríkið aðeins í nokkrar krónur per líter.  

Ætti menn ekki frekar að íhuga hvers vegna bílstjórarnir spara ekki dýrmætu dropana frekar en að flakka um bæinn og trufla þá sem enn hafa efni á að aka sínum bílum.


mbl.is Lögregla beitir táragasi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er hljótt yfir stuðningsliði Hillary hér á landi

Lokaslagur

 

Það ræðst kannski í kvöld hvort leðjuslagur demókrata heldur áfram eða tekur sér hvíld næstu 4 til 8 árin. En fái Hillary góða kosningu í dag mun slagurinn standa fram að flokksþinginu í sumar og þá geta allir séð hvað lýðræðið vegur létt hjá demókrötum.

Eftir allt það blóð og allan þann svita sem runnið hefur munu það vera ofurkjörmennirnir sem taka hina endanlegu ákvörðun um hver hlýtur hnossið. Það þarf nenilega að hafa svolítið vit fyrir kjósendunum.  Það verður ekki bara frambjóðandinn sem tapar heldur ekki síður kjósendurnir sem töldu sig hafa eitthvað með val á frambjóðandanum að gera sem munu telja sig svikna, þegar 40% vægi ofurkjörmannana valtar yfir hinn lýðræðislega vilja.

Svo maður minnist nú ekki á þann möguleika að fyrir valinu verði einhver sem hefur bara verið að reka sitt trúboð og sóla sig, t.d. í aðdáun Íslendinga, í rólegheitum. Þessi möguleiki er alveg inni í myndinni.

Hvað sem um Hillary Clinton má segja, og það er eitt og annað, þá verður því ekki neitað að hún er hörkutól. Baráttumanneskja fram í fingurgóma. Vissulega hefur henni orðið á í messunni, en þegar horft er til þess hvernig eiginmaður hennar hefur aftur og aftur klúðrað viðtölum og ræðuhöldum, sem áttu að vera henni til stuðnings, læðist að manni sá grunur að annað hvort sé hann meðvitað að bregða fyrir hana fæti eða að hún hafi komið honum þangað sem hann náði. Hún hafi vitið en hann sjarmann. Í þetta sinn hefur Obama sjarmann og aftur situr þá Hillary uppi með vitið.

Líkt og Bill Clinton fær Obama líka strokur fjölmiðlanna. Hillary er hins vegar meðhöndluð af pressunni eins og hver annar sakamaður eða eins og einhver góður maður sagði, eins og repúblikani. Það er nýjung fyrir hana. Stemmningin hér heima, fyrir Hillary, hefur líka fjarað út. Varla á hana minnst þessa dagana, nema til að segja að nú gæti farið að sjá fyrir endann á þessu basli. Þetta er fallvölt veröld.

Á meðan bíður John McCain álengdar og gerir hosur sínar grænar í rólegheitunum fyrir kjósendum.


Fagra Ísland - in memorium

Al Gore fékk höfðinglegar móttökur hér á landi um daginn. "Sannleikur" hans var keyptur og gestir stóðu upp og fögnuðu með lófataki.

En í allri orðræðunni vill gleymast að Gore var varaforseti Bandaríkjanna í meira en þrjú ár eftir að Kyoto samkomulagið var gert. Hann var þá í kjöraðstöðu til að hafa áhrif á stefnu þjóðar sinnar í loftslagsmálum. Áhrifamáttur hans þá var ekki meiri en svo að Bill Clinton skrifaði aldrei undir Kyoto bókunina.

En þrátt fyrir að Gore hafi nú innleitt ný trúarbrögð um áhugamál sitt og fjöldinn falli að fótum hans hafa demókratar á Bandaríkjaþingi ekki enn mannað sig upp í að leggja fram frumvarp sem kveður á um takmörkun losunar koltvísýrings, þrátt fyrir meirihluta á þinginu. Þeir leggja meira upp úr að úthúða Bush fyrir að beita sér ekki í þessum málum.

Tvískinnungurinn minnir óneitanlega á orð og gerðir íslenskra umhverfisverndunarsinna. Hástemdar ræður - fögur fyrirheit, en þegar upp er staðið er ekki sjónarmunur á Al Gore og umhverfisráðherra okkar.

Fagra Ísland var jarðsett um daginn og helsti talsmaður þess, Dofri Hermannsson, hafði ekkert Samfylkingunni til málsbóta annað en einhverjar beyglur á staðfestu Steingríms J. Ekki beinlínis reisn yfir loforðapakkanum.


Staðfesta hinna tvístígandi

 

Samkvæmni

 

Hvað minnir þessi mynd ykkur helst á? "Staðfestu" Famsóknar eða Samfylkingar? Reyndar sýnir hún, svo ekki verður um villst, að það er víðar en á Íslandi sem menn eiga erfitt með að hald trúnað við stefnumálin.

Hallast þó að því að hún nálgist helst afstöðu utanríkisráðherra til NATO, svona til lengri tíma litið, en held spurningunni áfram opinn


Þarf Framsókn að fara í afvötnun?

Veruleikaflótti hrjáir íslensku þjóðina. Hún er eins og alkohólisti sem neitar að viðurkenna vandamál sín, en leitar sífellt eitthvert annað að afsökun fyrir aumingjaskap sínum. Vandamálin eru alltaf einhverjum öðrum að kenna. En nú geta landsmenn andað rólegar, þar er nefnilega búið að finna sökudólginn. Hann heitir Davíð Oddsson. Hann er ekki bara upphafsmaður efnahagsvandans hann er eina aflið sem knúið hefur hann fram og er nú í þeirri einstöku stöðu að vera einráður um að viðhalda honum. Skál fyrir því.

Ótrúlegasta fólk keppist nú um að koma sökinni á Davíð. Samtök atvinnulífsins fara þar fremst í flokki, þótt þeir viti mætavel hvernig ástandið er til komið. Pólitíkusar fylgja fast á eftir dyggilega studdir af gasprörum.

Í dag las ég athyglysvert blogg eftir mæta framsóknarkonu, Helgu Sigrúnu Harðardóttir skrifstofustjóra þingflokksins. Hún hefur það hlutverk að koma framsóknarskoðunum á framfæri.

Það var ótrúlega upplýsandi að sjá hamskiptin sem Framsóknarflokkurinn hefur farið í gegnum síðan hann nánast hvarf af yfirborði jarðar. Eyðslufylliríið sem flokkurinn var á veturinn fyrir síðustu kosningar er algerlega þurrkað út úr minninu, dauðahryglan gleymd.  Allt er nú Davíð að kenna. Einn og óstuddur samdi Davíð við sjálfan sig um eftirlaun. Framsókn kom þar hvergi nærri. Þótt Helga Sigrún minnist ekki á Íbúðalánasjóð og 100% lánin, þá hljóta menn að vita að þar kom Framsókn hvergi nærri. Allt Davíð að kenna. Kárahnjúkavirkjun- Davíð að kenna. Heilbrigðiskerfið í stöðugri útþennslu- Davíð að kenna. Milljarður þar og tveir þangað- Davíð að kenna. Allt böl jarðar- Davíð að kenna. 

Staðreyndin er að Framsókn hefur róið lífróður um langan tíma, og því var keyrt á fullu í gegnum ríkiskassann veturinn 2006 og 2007 í von um að framlengja mætti líf flokksins. Þá þegar komu aðvaranir úr Seðlabankanum að ríkisskjóður þyrfti að rifa seglin. Davíð var ekki lengur í ríkisstjórn ef rétt er munað hjá mér. Helga Sigrún veit kannski betur. Nú er röðin komin að Samfylkingunni og ráðherrar hennar moka úr kassanum í von um að telja kjósendum sínum trú um að þeir standi við kosningaloforð sín, til að breiða yfir hrinu kosnigasvika sem þeir ástunda nú hver í kapp við annan.

 Það eru þessi eyðslufyllerí sem Helgu Sigrúnu tekst svo bráðvel að líta framhjá sem hafa komið okkur í þá stöðu sem við erum núna. Reyndar með smá hjálp útrásarbankanna. Og Helga Sigrún veit það, því hún kemur einmitt inn á þetta sjálf. Eftir að hafa hvítþvegið Framsókn af afskiptum peningamála bendir hún á 13. gr. laga um Seðlabankann, þar sem segir "Meginmarkmið Seðlabanka Íslands er að stuðla að stöðugu verðlagi." og í framhaldi "Seðlabankinn skal stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum." Hér stendur hnífurinn í kúnni og íronían verður augljós. Hver var stefna ríkisstjórnarinnar sem Framsókn átti síðast aðild að? Eins og ég hef rakið að ofan, þá gekk hún aðallega út á að bjarga líftóru Framsóknarflokksins. Ekki hefur betur tekist til með nýja samstarfsflokkinn. Nú þarf að tjasla upp á trúverðugleika Samfylkingarinnar og í báðum þessum málum ber Sjálfstæðisflokkurinn mikla ábyrgð.

Krafa Helgu Sigrúnar um fagmennsku og að farið sé að lögum gengur ekki upp ef sífellt þarf að vera að bjarga samstarfsflokkum út úr eigin ógöngum. Kaupa atkvæði, kaupa velvild.

Það alfyndnasta við þessi skrif Helgu Sigrúnar er þegar algleymishegrinn nær fullu flugi og Helga Sigrún fer að fjalla um stöðuveitingar í Seðlabankanum. Þar segir hún ekki "vera gerðar til starfsins sérstakar kröfur, ekkert mat fer fram á þeim sem ætlað er að gegna starfinu og ekki þarf að rökstyðja ráðninguna". Ég hefði nú haldið slíkt ráðningaform sem þetta hafi komið Framsóknarflokknum alveg ágætlega, þegar "úrelda" þurfti Steingrím Hermannsson. Og Framsókn hefur átt fleiri menn þarna inn, svo maður nefni bara Tómas Árnason sem eftir ráðherradóm gengdi stöðu Seðlabankastjóra um árabil.

Hvernig ætlar Framsóknarflokkurinn að kveikja lífsneista sinn að nýju ef hann velur sífellt útgönguleið alkohólistans.


Kínverjar í klandri

Ólympíuleikar
  Var það þetta sem þeir veðjuðu á?

Hannes í Kastljósinu

Horfði á athyglisvert viðtal við Hannes Hólmstein Gissurarson í Kastljósi í kvöld, þar sem hann bauð öllum gagnrýnendum sínum að ljá sér lið við að bæta fyrir brot sitt - og aðstoða við endurútgáfu 1. heftis rits hans um Halldór Kiljan Laxness.

Eftir að hafa lesið ummæli ýmissa kollega hans á vefritinu Kistan.is, get ég ekki annað en beðið spennt eftir viðbrögðum þeirra. Það hlýtur að vera áhugamál þeirra allra að endurútgáfa bitbeinsins, fari nú "kórrétt" fram.

Í raun geta þeir ekki skorast undan, því þá væru þeir að viðurkenna opinberlega að gæsalappirnar voru ekki annað en yfirskyn og aftökuskipunin sé óafturkræf.

En Hannes minntist þarna líka á lögsókn Jóns Ólafssonar á hendur honum í London. Hannes er ekki einn um að vera sóttur til saka á grundvelli þessarar lauslátu bresku meiðyrðalöggjafar. Þessi lög teygja arma sína víða. Þau hafa kallað yfir sig nafngiftina "libel tourism" eða meiðyrðaflakk og eru að valda óskunda víða um heim. Lögin beinast gegn málfrelsi og hafa múslimskir auðmenn verið iðnir við að  nýta þau til að þagga niður gagnrýnisraddir á útbreiðslu íslamskrar Wahhabi trúarstefnu og aðferðum sem beitt er til að koma henni á (terrorisma).

Bandaríski fræðimaðurinn og rithöfundurinn Rachel Ehrenfeld fékk á sig slíkan dóm fyrir bókina Funding Evil sem hún ritaði árið 2003 og fjallaði um fjármögnun hryðjuverkahópa. Cambridge University Press sem gaf bókina út var gert að greiða kvart milljón punda og er ekki líklegt til að gefa út fleiri slíkar bækur í bráð. Ehrenfeld áfrýjaði sínum dómi fyrir dómstól í New York fylki en tapaði málinu vegna gloppu í löggjöf fylkisins, sem ekki gerði ráð fyrir málshöfðun af þessum toga.

Nú hefur fylkisþingið sett fyrir þennan leka með því að lögfesta ákvæð sem verndar blaðamenn og rithöfunda fyrir erlendum lögum sem hefta lögbundin réttindi þeirra til tjáningar skv. 1. viðauka stjórnarskárinnar. 

Það væri athugandi fyrir Alþingi Íslendinga að sjá sóma sinn í að verja sitt fólk á sama hátt og setja lög sem kveða á um að ekki sé hægt að lögsækja fólk á Íslandi fyrir erlendum dómstólum nema brot þeirra séu framin á erlendri grund.

Vonandi nær sá illvilji sem fram kom í viðhorfum kollega Hannesar ekki alla leið inn á Alþingi. Eða eins og Gísli Gunnarsson sagði "hættum að hugsa um persónuna Hannes". Hver sem er getur orðið fyrir þessum vágesti.


Könnun Kistunnar

Vefritið Kistan.is er um margt upplýsandi. Um þessar mundir hefur vefritið milligöngu um að upplýsa almenning um innviði “menntaljóma” þjóðarinnar og hvað í honum býr. Leitað var til yfir tuttugu háskólaborgara sem flestir hafa atvinnu af því að auka menntun og skilning æskunnar á sögu okkar og umheimsins. Óbein leið var valin með því að nýta nýfallinn dóm Hæstaréttar Ísland yfir Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni til að upplýsa um viðhorf þessara einstaklinga til Hannesar. Hafi ekki verið um handahófs val að ræða eru niðurstöður könnunarinnar þeim mun áhugaverðari, því flestir stíga álitsgjafarnir fram og opinbera sínar lægstu hvatir-þ.e. hatur, öfund og illvilja.

Undir yfiskyni umhyggju fyrir fræðimennsku er persóna Hannesar felld í duftið. Einstaka er varkár en aðeins einn, Gísli Gunnarsson frv. prófessor, treystir sér til að fjalla um efnisatriði málsins. Hann ýtir hinsvegar út af borðinu 40% spurninganna sem óviðkomandi málinu. Hann bendir á að hann hafi fengið, þegar mál Hannesar kom fyrst fram, skömm í hattinn fyrir að upplýsa um vinnubrögð kollega sinna og bætir við að þetta mál hafi orðið til að bæta vinnubrögð í fræðasamfélaginu og leggur fram þá frómu ósk að svo megi vera áfram, en eins og hann segir “slíkt gerist aðeins ef við hættum að hugsa um persónuna Hannes og lítum á málið frá almennum sjónarhóli um rétt og rangt við meðferð heimilda”. Gísli hittir þarna naglann á höfuðið, því í fræðasamfélaginu er það ekki hvað er gert heldur hver gerir það. Smáar eru sálir syndaranna.  

   Orð Gísla eru þau síðustu sem birst hafa um málið á vefritinu og væri fróðlegt að vita hvort þau hafi orðið til þess að einhverjir sem enn áttu eftir að skila inn svörum hafi ákveðið að líta í eigin barm. Í það minnsta vanntar enn nokkuð upp á 100% svörun. Ef tekið er mark á skoðanakönnunum almennt og litið til þess að 75% svörun þykir nokkuð góð þátttaka, má álíta svo að skoðanakönnunin gefi marktæka mynd af skoðunum akademískrar elítu á Íslandi á Hannesi Hólmsteini en enga hugmynd um álit þeirra á dómi Hæstaréttar. Þá er ógnvænlegt til þess að vita að jafn vanstillt fólk og þarna tjáir sig (þá undanskil ég ekki ritstjórn vefritsins) skuli hafa óheftan aðgang að skoðanamyndun ungs fólks á Íslandi.


Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband