Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Hafa vinsældamælingar áhrif á hugsjónamenn

VinsældastikanÞetta eru ekki fréttir fréttamiðlanna. "Ekki fréttir" eru hins vegar sífellt stagl fréttamiðla um óvinsældir Bush Bandaríkjaforseta. Á þeirri tuggu má staglast endalaust. Og ef það skyldi nú vera farið að hljóma hálf þreytulega, þá skal því samt haldið áfram ef vera kynni að enn sé einhver þarna úti sem ekki hefur verið með viðtökutækið rétt stillt.

En kannast einhver við að umræðan snúist um óvinsældir Bandaríkjaþings undir stjórn demókrata. Nei, getur það verið. Voru ekki svo miklar vonir bundnar við fyrsta kvenforseta þingsins. þessa þarna  sem mætti með öll barnabörnin við setningu þingsins svo ekki færi framhjá neinum að hún væri KONA. Það tók þessa nýju þingmenn átta mánuði að fatta að meirihluti þeirra dugði ekki til annars en að fá samþykkt frumvörp sem voru andvana fædd. Ef þau strönduðu ekki í öldungadeildinni þá beitti forsetinn einfaldlega neitunarvaldi sínu á þau.

Stóru loforðin um að nú skyldi herinn kvaddur heim frá Írak hafa smásaman gufað upp. Forsetaframbjóðendur demókrataflokksins fara nú í kringum allar spurningar um heimkvaðningu hersins, eins og kettir í kringum heitan graut. Jafnvel spurningin um hvort þeir muni kalla herinn heim fyrir 2013, já-segi og skrifa 2013, kallar ekki á önnur viðbrögð en klór í hnakka eða ypptar axlir "ómögulegt að sjá framtíðina fyrir sér" segir Hillary Clinton og er opinskáust þeirra allra í svari sínu.

Og nú, níu mánuðum eftir sigurmarseringuna inn á þingið hefur hinn gallharði friðarkjarni þingheims samþykkt frumvarp sem kallar á harðar refsiaðgerðir gegn Íran (bíddu, voru það ekki góðu gæjarnir) og hvetja nú stjórnina til að lýsa Byltingarvarðlið Íraks sem hryðjuverkasamtök. Þó fyrr hefði verið Guðmundur minn. Öldungadeildin tekur undir þessi orð og hefur nú uppgötvað hættuna sem Íraksstjórn stafar af stuðningi þessa "friðarríkis". Og allt þetta gerist á meðan friðardúfan sjálf, Ahmadinejad lék á alls oddi og sýndi sínar bestu hliðar í sölum Þameinuðu þjóðanna.

Ætli vinsældamælingarnar hafi verið farnar að kveikja á einhverjum perum?

Hverju getur maður átt von á næst?


Úreltur hugsunarháttur, hvað?

Rakst á smá pistil í nýlegu Viðskiptablaði eftir gamlan skólabróður, Börk Gunnarsson, sem vakti undrun mína og  umhugsun. Börkur hefur starfað um hríð hjá blaðinu og skilað þar áhugaverðum viðtölum og greinum. En þann 14. september hugsar hann upphátt og opinberar þar sjálfhverfu borgarbarnsins.  Með allt á hornum sér „fussar hann og sveiar“ yfir sjálfhverfu annarra. Telur að í landi sem hýsir aðeins 300.000 og þar af 200.000 á höfuðborgarsvæðinu, þá eigi fólk á Austurlandi enga kröfu á að Veðurstofa Íslands sinni þörfum þeirra til upplýstra veðurfrétta.  Það virðist gersamlega fara framhjá honum að veður tekur ekki tillit til fólksfjölda. Tvær milljónir manna voru í þessari viku flutt af heimilum sínum í Sjanghæ vegna fellibyls. Það er dágóður fjöldi, en þó mannslíf séu talin í milljónum í Kína þá hefur það verið siður okkar hér að hver Íslendingur skipti máli.  Fólk á landsbyggðinni á sama rétt til upplýsinga um veðurfar og höfuðborgarbúar, þótt það uppfylli aðeins þriðjung kvótans. Kannski meiri rétt. Ef hægt er að réttlæta tilvist ríkisrekinnar veðurstofu þá felst sú réttlæting í verndun mannslífa. Lífi allra. Hafi Börkur gleymt því, þá minni ég á að þessi 100.000 manns utan höfuðborgarsvæðisins á gjarnan lífsafkomu sína, líf og limi undir veðurspánni.  Jarðargróður er háður veðráttu; kvikfénaður, sláttur og ferðaiðnaður eru einnig undir veðráttu komin. Sjósókn til gagns eða gamans, fiskveiðar og hvalaskoðanir eru ekki stundaðar í hvaða veðri sem er. Borgarbarnið sem telur það „dæmalausa frekju“ af sveitavarginum að gera kröfu um þessa lágmarksþjónustu fyrir minnihlutahóp er þá eflaust með hugann við að höfuðborgarbúinn þurfi að komast í sumarbústaðinn sinn. Spurningin sem höfuðborgarbúinn stendur þá frammi fyrir gæti falist í því hvort regngallinn fylgi með í farteskinu eða GPS tækið í jeppaleiðangurinn. Auðvita, á fólk á höfuðborgarsvæðinu rétt á upplýsingum sem gagnast því í lífi og leik. En réttur þeirra er hvorki ríkari eða sjálfsagðari en réttur þeirra sem halda þessu landi í byggð. Veðurstofan hefur skyldur gagnvart öllum Íslendingum, hvar sem þeir eru búsettir. Vonandi áttar Börkur sig á þessu fyrr en síðar og hættir að blanda saman eplum og appelsínum. Byggðastofnun og bjargráðasjóðir hafa ekkert með skyldur Veðurstofunnar að gera.

Þá setur maður NYT aftur á Uppáhald

Það var dálítill miskilningur að loka á þessar sérstöku greinar, því allt annað efni blaðsins gat maður séð á öðrum miðlum.


mbl.is New York Times opnar fréttavef sinn að nýju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband