Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Orði skotið á ská

TilhugalífGuði sé lof fyrir tilhugalífið. Í stjórnmálum gefur það kjósendum frí frá argaþrasinu svona fyrst eftir kosningar. Grátkórinn um "rýran hlut kvenna á alþingi" hefur að mestu verið hljóður undanfarna daga, en mun brátt taka við sér aftur. Um það mál vil ég skjóta inn orði meðan færi gefst, því rétt eins og krían kemur á vorin þá mun hringekjan um "hlut kvenna" bráðlega fara af stað. Skiptir þá engu hver vilji kjósenda er.

Konum fjölgaði ekki á þingi í þessum kosningum, þrátt fyrir háværar kröfur sumra flokka síðastliðið haust og fléttulista. VG voru með fléttulista og konur í efstu sætum á 2 af 6 listum, og uppskáru að auki jöfnunarþingmann og náðu þannig hlut kvenna í 44%. Hvort heimurinn verði eitthvað betri fyrir bragðið skal ósagt látið.

Framsókn bauð betur. hafði konur í efsta sæti í 3 kjördæmum, en uppskar aðeins tvær konur á þing. Jónína og lagsmeyjar hennar fengu fingurinn, þrátt fyrir að bjóða fram í Reykjavík, þar sem, samkvæmt kenningunni, krafan um konur á þing er hvað kröftugust. Hvað skyldi hafa farið úrskeiðis þar?

Samfylkingin, "brjóstvörn jafnréttisins", bauð einungis einni konu fyrsta sæti á lista og rétt marði Sjálfstæðisflokkinn hvað varðar prósentutölu kvenna á þingi, þ.e. 33 á móti 32%. Nýliðun í þingflokki sjálfstæðismanna er líka áberandi mest. Kjósendur treystu stökum körlum hjá VG bærilega á meðan karlar sem studdu sig við aðra karla komu skárst út hjá Samfylkingunni.

Það sem má lesa út úr þessu er að kjósendur merkja við það sem þeir hafa trú á að skili árangri. Ef það er kona þá merkja þeir við það, sbr. Þorgerður Katrín og Valgerður. Sé það karl, fer stimpillinn þangað. Heilaþvottur og þvínganir breyta engu þar um, en gæti dregið úr áhuga kjósenda til að  láta vilja sinn í ljós. Hugmyndafræði dugir skammt þegar draumur og veruleiki stangast á. Kjósendur vilja sjá árangur, vilji er ekki nóg, því getan þarf líka að vera til staðar.

En hvíldin var kærkomin.


Já, ráðherra

ÞAÐ er bara ekki að gera sig, þetta þarna hjá Framsókn. Eftir upphlaupið í tengslum við auðlindaákvæðið hélt maður, satt best að segja, að þeir myndu staldra aðeins við og íhuga næstu skref. Nú berast fréttir úr utanríkisráðuneytinu að óhóflega hafi verið staðið að pólitískum ráðningum á undanförnum árum á meðan sjálfstæðismenn fóru þar með völd. Frú Valgerður á að hafa gefið farandverkamönnunum í ráðuneytinu von um að röðin sé nú komin að þeim; tími pólitískra ráðninga sé nú liðinn. Líklega hafa þeir verið of uppteknir við amstrið á flugvöllum heimsins til að fylgjast með hvernig ráðningamálum var háttað hjá henni meðan hún fór með iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið. Þau kostuðu þjóðina tugi, ef ekki hundruð milljóna. En kannski eru pólitískar ráðningar í lagi, ef það eru bara réttir aðilar sem njóta þeirra.

En fyrst búið er að vekja athygli á málinu má spyrja sig hver staðan hafi verið í utanríkisráðuneytinu þegar Davíð Oddsson (eða Davííð Ooooddsson eins og fréttamaður RÚV nefndi hann) og síðan Geir Haarde tóku þar við lyklum. Eftir meira en níu ára setu í ráðuneytinu höfðu framsóknarmenn haft góðan tíma til að skipa þar í stöður og þar á undan höfðu kratar ráðið þar ríkjum annan eins tíma. Þótt ég eigi ekki trúnað Davíðs, þá má ímynda sér að honum hafi verið um og ó þegar hann steig inn í þetta framsóknarhreiður með kratakransinn. Áherslur Halldórs Ásgrímssonar á Evrópusambandsaðild í ráðherratíð sinni eru líklegar til að hafa sett svip á ráðningamál ráðuneytisins.

Utanríkisráðherrar hafa það hlutverk að kynna stefnu stjórnarinnar í utanríkismálum. Þeir hafa þó tiltölulega frjálsar hendur með hvernig þeir gera það og því gat Halldór otað sínum málum áfram að því marki sem stjórnarsáttmálinn leyfði. Það er nefnilega þannig að hver og einn hafa utanríkisráðherrar sína sýn á málefni dagsins. Sýn Davíðs og Geirs hefur verið önnur en sýn Halldórs og Jóns Baldvins. Valgerður er lítið annað en bergmál af Halldóri og því eru þessi mál aftur komin á byrjunarreit, þ.e. framsóknarreitinn.

Án þess að reyna að kasta rýrð á þessa starfsmenn, þá er það einu sinni svo að það er ráðherrann sem setur línuna. Hann hefur verið kosinn til verka og hann ákveður hverjum hann treystir til að framkvæma stefnu sína. Þegar Davíð kom inn var hann sjúkur maður; að eyða kröftum í að hafa hemil á embættismönnum með önnur markmið og aðra sýn getur ekki hafa verið aðlaðandi tilhugsun fyrir mann sem veit hvert hann vill stefna. Við þurfum ekkert að efast um að svona hafi staðan verið. Þjóðin er vel upplýst eða er nokkur hér sem ekki hefur séð þættina "Já, ráðherra". Þótt þeir hafi verið hin besta skemmtun, þá opnuðu þeir almenningi líka sýn inn í líf sem aðeins ráðherrar hafa hingað til fengið að kynnast.

Það hlýtur að vera huggun harmi gegn að Valgerður getur treyst sínum mönnum.

Höfundur er lífeindafræðingur.


Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband