Leita í fréttum mbl.is

Höktir nú ESB vélin?

Gleðipinnarnir í Brussel fengu góðan stuðning frá klappliðinu í Efstaleiti á mánudag þegar tilkynnt var um að stjórnlagadómstóll Þýskalands hafi komist að þeirri niðurstöðu að Lissabonsáttmálinn bryti ekki í bága við stjórnarskrá landsins. Má ætla að fagnaðarlæti hafi staðið fram eftir nóttu ef þau eru þá ekki enn á fullu.

RÚV skartaði sínu besta og lék á alls oddi. Kannski hljómuðu tíðindin svo yfirgengilega unaðslega að ekki hafi þótt viðeigandi að geta þess að stjórnlagadómstóllinn setti þá kvöð á þingið (Bundestag) að styrkja stöðu þjóðþingsins varðandi ESB ákvarðanatökur er varða fjárlagagerð, refsirétt og hernaðarþátttöku. Einhver laumaði því að dómurunum að lýðræðishalla gætti í ESB og því þurfa Þjóðverjar að hinkra með gildistöku sáttmálans þar til í september þegar þetta smáræði er frágengið. Þessi dagsetning kemur ekki öllum jafnvel, því þingkosningar eiga að fara fram í Þýskalandi 27. september og aldrei að vita nema ESB-þreyta borgaranna geri vart við sig ef þingið stendur ekki í lappirnar.

Þreytan er nú þegar farin að segja til sín, því nýleg könnun sýnir að 77.3% þýskra kjósenda vilja fá að segja álit sitt á Lissabonsáttmálanum. Aðeins 20.7% segja það óþarfa og innan við 2% segjast ekki hafa skoðun. Aulagangurinn í kringum írsku kosningarnar hefur vakið þessa annars hlýðnu þjóð af Þyrnirósarsvefni. En eins og allir, sem vilja, vita er Írum nú stillt upp við vegg, hótað annars flokks aðild að sambandinu ef þeir samþykkja ekki óbreyttan sáttmála sem þeir eru nú þegar búnir að hafna einu sinni. Hótanirnar eru í anda hótana Steingríms og Jóhönnu um vítisdvöl Íslendinga ef þeir borga ekki Icesave reikninginn möglunarlaust. 

En hótanir geta verið tvíeggjað sverð. Aldrei að vita nema þær vekji gagnstæðar tilfinningar í brjóstum hinna hælbitnu. Samningurinn hefur enn ekki tekið gildi í Póllandi og forseti landsins segist ætla að bíða með það þar til Þjóðverjar og Írar hafa komist að sinni niðurstöðu. Þetta segist hann gera til að verja fullveldisrétt Íra til ákvarðanatöku.

Það er með öllu óskiljanlegt hvaða erindi Samfylkingin, sem hleypur í felur þegar hún sér sinn eigin skugga, telur sig eiga inn í samband, þar sem þjóðir þurfa að reiða sig á hreðjatök til að lifa af.

Ef öflugasta þjóð ESB, Þjóðverjar, er farin að hafa áhyggjur af lýðræðishallanum innan sambandsins, hvernig skyldi þá 300.000 manna þjóð reiða af meðal risanna?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband