Leita í fréttum mbl.is

"Gerum eitthvað annað" fréttamennskan

Í sjö daga hafa fréttastofur landsins ekki fjallað um annað en styrkina frá FL-Group og Landsbanka. Styrkir sem óneitanlega eru nokkuð háir á mælikvarða dagsins í dag en voru lítið meira en klink þegar þeir voru veittir, þ.e. á tímum sem menn voru keyptir til starfa fyrir 10 sinnum hærri upphæðir (fyrir utan launagreiðslur og starfsloka samninga) og öðrum þökkuð vel unnin störf með milljarða greiðslum. Að fjalla um þessa styrki sem fyrstu og stundum einu innlendu frétt dögum saman er út úr korti, því jafnvel "tsunami" fyrirbærið í Suður-Asíu fékk ekki þessa athygli. Þó fórust þar þúsundir manna og allar heimsins fréttastofur sendu þangað fréttamenn. Það er því eitthvað annað en fréttagildi þessara styrkja sem rekur "fjórða" valdið til að halda lífinu í "fréttinni."

Hvað skyldi svo vaka fyrir hinum "hlutlausu" fréttastofum þessa lands? Það er smá saman að koma í ljós. Í fyrsta lagi er það pólitík og í öðru lagi er það pólitík. Á yfirborðinu er verið að gera pólitíska atlögu að Sjálfstæðisflokknum. Spuninn gengur út á að búa til fleiri og flóknari vinkla á styrkjamóttökuna. Fyrst voru styrkirnir kynntir sem innanhúss hneyksli Sjálfstæðisflokksins, síðan hófust nornaveiðarnar, nú er "hlutlaus" prófessor fengnir til að dylgja um mútur og samflokksmenn hans, sem tilbúnir voru í startholunum ,taka við  prikinu. REI-málið er komið á dagskrá.

Allt í einu telur Samfylkingin það sér til tekna að hafa komið í veg fyrir að Orkuveita Reykjavíkur afhenti REI, og þar með fjöregg borgarbúa FL-Group með húð og hári. Dagur B Eggertsson stígur nú fram og vitnar. Að sögn Dags átti Samfylkingin veg og vanda að því að bjarga REI-OR frá því að lenda í klóm FL.

Hvílík endemis bull er þetta. Fulltrúi Samfylkingarinnar greiddi atkvæði með því að samruninn ætti sér stað. Dagur B og Sigrún Elsa Smáradóttir skrifuðu grein í Morgunblaðið nokkrum dögum síðar en áður en til stjórnarslitanna kom og dásömuðu þann ávinning sem borgarbúar mundu hafa af þessum FRÁBÆRA samruna. Hér er smá klippa úr þeirri grein:

"samruni REI og GGE getur þrátt fyrir allt verið skref í rétta átt í útrás íslenskra orkufyrirtækja. Ekki leikur vafi á því að sameinað fyrirtæki stendur sterkar að vígi í verkefnum sínum erlendis en fyrirtækin sitt í hvoru lagi. Annað sem er ánægjulegt við þennan samrunasamning er að viðskiptavild og orðspor Orkuveitu Reykjavíkur er metið í samningnum á 10 milljarða. Þessir 10 milljarðar eru þannig metnir til viðbótar við framlag OR í peningum og efnislegum eignum, meðan aðrir eignast sinn eignarhlut í félaginu með því að leggja eignir og peninga inn í félagið. Í samningnum um samrunann er Orkuveita Reykjavíkur því að njóta þeirrar þekkingar og reynslu sem orðið hefur til í fyrirtækinu og íslenska orkuútrásin byggist á.“ (feitletrun mín)

Þetta eru orð Dags og fulltrúa Samfylkingarinnar í OR 7. október 2007, fjórum dögum áður en meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar féll. Mér er fyrirmunað að lesa inn í þessi orð nokkuð sem heitir andstaða við umræddan samruna. Í raun sýnist mér þetta vera einhvers konar tilbeiðsla eða trúarjátning til útrásarinnar og allra þeirra dásemda sem hún átti að færa okkur. Og þessi orð eru í fullkomnum samhljómi við útrásarráðherrann, Össur Skarphéðinsson, sem ferðaðist á þessum tíma til framandi landa ásamt forseta Íslands, tilbúnir að selja gersemar þessarar þjóðar hverjum sem hafa vildi. Dollaramerkin glitruðu í augum þeirra eins og ljósin í Las Vegas.

Dagur B og Sigrún Elsa gengu svo til liðs við Björn Inga Hrafnsson í þeim tilgangi að innsigla þennan gjörning. Það sem kom í veg fyrir að þetta gengi eftir var að í aðdraganda uppgjörsins vegna REI - FL samrunans hafði Svandís Svavarsdóttir tekið sér stöðu með sexmenningunum í Sjálfstæðisflokknum sem gerðu uppreisn gegn Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni og samrunaferlinu. Í þessum aðdraganda hafði Svandís þanið raddböndin full mikið og var ekki stætt á að snúa til baka. Um þessa atburðarás má lesa í grein eftir Björn Bjarnason í vetrarhefti Þjóðmála 2007 og vitnar hann þar meðal annarra í Hörð Bergmann sem sagði í Morgunblaðinu 17. nóvember: "Uppreisn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins vitnar um einlæga hneykslun og vilja til að bera siðferðilega ábyrgð gagnvart almenningi".

 Vilji og ábyrgð Dags B Eggertssonar og Samfylkingarinnar lá  hjá hæst bjóðandi, í þessu tilviki FL-Group. 

En þá erum við komin að kjarna málsins. Hvers vegna þessi atlaga er gerð að Sjálfstæðisflokknum og hvers vegna engin önnur mál eru til umræðu nú, 12. dögum fyrir einhverjar mikilvægustu kosningar sem fram hafa farið hér á landi í marga áratugi. Þetta er gamla góða bragðið "að gera eitthvað annað" þegar ræða þarf mikilvæg mál. Ekki endilega séríslenskt fyrirbæri en á Íslandi hafa  menn hafið það upp í n-ta veldi.   Á ensku er þetta kallað "deflection" eða frávarp. Leikriti er sett á svið til að draga athygli manna frá því sem ekki er æskilegt að ræða. Í þessu tilviki það sem í öllum lýðræðislöndum mundi flokkast sem eðlileg upplýsingagjöf til landsmanna sem eru í þann mund að gagna að kjörborði. Pistill á bloggi Andra Geirs Arinbjarnarsonar vakti mig til umhugsunar um þennan tilgang. Þar vekur hann máls á þeim gríðarlega vanda sem Íslendingar standa nú frammi fyrir, þ.e. hvernig eigi að loka fjárlagagatinu sem öll lánafyrirgreiðsla AGS gengur út á. Við erum að tala um að minnka fjárlagahalla upp á meira en 150 milljarða niður í núll á þremur árum og ekki einn einasti fjölmiðill svo mikið sem ýjar að málinu. 

Andri Geir vekur áthygli á því að Írar sem eru í svipaðri stöðu og við en hafa lengri tíma til að ráða fram úr sínum málum og þurfa ekki að ganga jafnhart að sér eru nú þegar búnir að setja fram áætlun um hvernig þeir ætla að gera þetta. Áætlunin liggur frammi á vef írska fjármálaráðuneytisins þar sem allir landsmenn hafa aðgang. Áætlun Íra felur í sér að fjárlagahallinn verði kominn í 3% af landsframleiðslu árið 2013. Við eigum að ná okkar fjárlagahalla niður í núll árið 2012 og erum þó með ívið meiri halla en Írar (13% á móti 12.75% af landsframleiðslu).

Hvernig ætla Írar að gera þetta, jú með sköttum að 1/3 og niðurskurði ríkisútgjalda að 2/3. Nýir skattar lagðir á hvert heimili skipta tugum þúsunda á mánuði og allt bótakerfið tekið til endurskoðunar. Laun ríkisstarfsmanna lækka um 10% og allir sérsamningar afnumdir. Öll þjónusta endurmetin og skorið niður nema hjá þeim sem allra verst eru settir.

Það er ekki furða þótt Steingrímur J. með sinn nýja landsföðursvip vilji komast hjá því að ræða þessi mál í smáatriðum. Það sem vekur furðu er að fjölmiðlar sem annars vilja líta á sig sem brjóstvörn almennings skuli taka þátt í leikriti ríkisstjórnarinnar. Og ekki síður vekur það furðu að fólkið í landinu skuli ekki gera kröfu um að vera upplýst um hvað í vændum sé. Það má kannski rekja þetta áhugaleysi til þess að forsprakkar mótmælahópa hvort sem þeir heita Raddir fólksins eða Borgarahreyfing eða hvað það nú er, eru bara hnappskot stjórnarflokkanna. Þeim er eins mikilvægt að halda lokinu á umræðunni um stjórnvaldsaðgerðir í fjármálum og stjórnarflokkunum sjálfum. Hagsmunir mótmælahópanna renna nefnilega á sömu teinum og hagsmunir stjórnarinnar.

Er einhver svo vitlaus að halda að allt verði bara eins og áður? Við erum nú þegar komin inn í ferli sem á aðeins eftir að versna. Var ég ein um að taka eftir að skömmtunarkerfið er farið að taka á sig mynd. Rjómi uppseldur í búðum fyrir páska. Hvenær gerðist það síðast? Ég man þá tíð þegar maður þurfti að vera innundir hjá kaupmanninum til að fá egg fyrir stórhátíðir. Skömmtun var stýrt af ríkinu. Nú á að knésetja Mjólku. Það auðveldar ríkisforsjánni að koma á einokunarkerfi í mjólkuriðnaði. Fleiri fyrirtæki verða send í þrot.

En rjómaskorturinn er aðeins toppurinn á ísjakanum. AGS hefur enn varla opnað munninn. Það mun þó gerast í maí að loknum kosningum. Ríkisstjórn sem hefur ekkert  annað plan en að koma hér á sóvétbúskap og skattleggja allt og alla til fjandans mun aðeins leiða enn meiri hörmungar yfir þjóðina. Fjármálaráðherra sem hugsar í fléttum og skófum hefur sér til ráðgjafar örlagakomma sem telur skatta leysa allan vanda hér á jörðu. Það er ekki að undra að AGS dragi að senda næstu greiðslu af láninu til landsins. Þeir eru nú þegar búnir að ná tangarhaldi á Steingrími J. og co og þeir geta farið með okkur að vild héðan í frá. Tvíeykið Steingrímur J. og Indriði munu sjá til þess að fyrr leiti fjárfestar upp nýjan Madoff en leggja peninga í þann fúla pitt sem hér er að myndast. Jóhanna kærir sig kollótta. Hún veit hvað er að gerast en hún er að komast á aldur og bara sátt við að skilja landið eftir í sömu stöðu og það var þegar hún fyrst hóf áfskipti af stjórnmálum. Ef einhver man svo langt aftur.

Þáttur varðhunda almennings (fréttamiðla)í "gerum eitthvað annað"  ferli þessa máls mun þó ekki gleymast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband