Leita í fréttum mbl.is

Breyting sem við megum trúa

 Biden

 Barak Obama lofar breytingum. Hann hefur rekið kosningabaráttu sína á kjörorðinu: Breyting sem við megum trúa. Ungur, svartur og framúrskarandi ræðumaður; efnasamsetning sem gaf tilefni til að trúa að nú væru breytingar í aðsigi. Og viðbrögðin stóðu ekki á sér. Lýðurinn féll að fótum hans og hyllti, og orð hans hafa hljómað heimshafanna á milli og stundum jafnvel skolast yfir álfur og lönd svo enginn sem á hlýddi verður nokkurn tíma aftur samur.

En nú er komið bakslag. Þrátt fyrir vaska sendinefnd stuðningsmanna frá Íslandi, þau Silju Báru og Dag B, er eins og Obama komist ekki í gírinn, jafnvel spurning hvort gírkassinn sé ekki bara ónýtur. Hvernig má vera að þessi skærasta stjarna stjórnmálahiminsins sem sést hefur í hart nær 50 ár, nái ekki einu sinni að skjóta gamlingjanum McCain aftur fyrir sig í þeirri viku sem öll athyglin beinist að útnefningu demókrataflokksins. Ekki vantar að athyglin hafi verið á hinum unga ræðusnilling. Síðustu 10 daga eða svo, hefur ekki liðið sá fréttatími þar sem ekki hefur verið boðað að Obama væri í þann mund að útnefna varaforseta efni sitt. Nú vitum við hver hlaut hnossið.

Það var ekki Hillary Clinton sem atti kappi við kauða af mikilli harðfylgni. Það var heldur ekki John Edwards sem barnaði samstarfskonu sína á meðan bandaríska þjóðin fylgdist með baráttu konu hans við krabbamein. Það var heldur ekki Kathleen Sebelius ríkisstjóri í Kansas sem hefði kannski tekið til sín eitthvað af nýjabrumsljómanum. Nei, heiðurinn hlaut gamall atvinnupólitíkus sem setið hefur í Washington nánast eins lengi og Obama hefur dregið andann hér á jörð. "So much for change".

Joe Biden er innsti koppur í búri lobbyistanna og lögfræðinganna í Washington DC. Sonur hans er skráður lobbyisti og Biden hefur tekið við > 5 milljón dollurum í framlög frá þessum hópum svo ekki sé minnst á framlögin frá fjármálageiranum og byggingaverktökunum. Það eru þessir hópar sem Obama var að lofa að takast á við þegar (ef, var ekki til í orðabók hans lengst framan af) hann tæki við forsetaembættinu.

Ef, hefur núna stimplað sig dyggilega á forsíðu orðabókar hans. Þetta ef, sem varð þess valdandi að hann valdi þennan gamla innanbúðarmann úr Washingtonklíkunni. Obama var að reyna að bregðast við ásökunum um reynsluleysi með því að taka inn mann sem hefur langan feril í utanríkismálanefndum þingsins. Mann sem greiddi atkvæði með stríðinu í Írak. Mann sem greitt hefur atkvæði á svipuðum nótum og Obama og tekur því ekki með sér neitt nýtt fylgi og er í þokkabót norðurríkjamaður rétt eins og Obama sjálfur. Mann sem fyrir 20 árum bauð sig fram til forseta en hrökklaðist frá þegar hann varð uppvís að ritstuldi. Mann sem keppti við Obama um útnefninguna nú í vetur og lýsti þá stuðningi við McCain og frati á Obama. Mann sem færi létt með að gleyma hver er aðal og hver er til vara.

Nei, það er ekki að undra að eftir þrjá mánuði af grúppíuæði og nær hálfan  mánuð af stanslausri upphitun fyrir Obama þá mælir Gallup fylgi hans aðeins einu prósentustigi yfir fylgi gamla fusksins (sic) og Rasmussen hefur McCain yfir með sama mun.  Obama má taka á honum stóra sínum ef hann ætlar að halda uppi stuðinu fyrir þessa 80,000 stuðningsmenn sem von er á að fylli leikvöllinn þar sem hann mun taka á móti útnefningunni. það er að segja ef Hillary stelur ekki senunni.

Breytingin mun hins vegar láta á sér standa og það er það sem skoðanakannanirnar eru að mæla þessa dagana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband