Leita í fréttum mbl.is

Durban í baksýnisspeglinum

Þá er Durban ráðstefnan að baki og RÚV talar við sigrihrósandi umhverfisriddarana sem segja að niðurstaðan hafi farið fram úr þeirra björtustu vonum. Ráðstefnan hafi skilað "sögulegri" niðurstöðu. Sögulegri! hvorki meira né minna. Ef RÚV hefði kynnt sér hina sögulegu niðurstöðu, nú eða leitað lengra hefði það kannski getað flutt frétt sem væri nær sannleikanum. Frá Þýskalandi koma aðrar og skuggalegri lýsingar á Durban ráðstefnunni. Spiegel telur niðurstöðuna lítið annað en "samkomulag um að sammælast um nýtt samkomulag". Menn urðu semsé sammála um að halda áfram að semja á næsta ári. Niðurstaða þarf ekki að liggja fyrir fyrr en 2015 og ef SAMKOMULAGIÐ VERÐUR ÞÁ SAMÞYKKT má bíða til 2020+ með að virkja það. Hið hárbeitta orðalag hljómar einhvern vegin svona: menn skulu "develop a new protocol, another legal instrument or agreed outcome with legal force". Svo kýrskýrt er orðalagið að það gæti verið brúklegt sem stefnuyfilýsing framboðs Guðmundar Steingríms og Co. Svo skýrt að ólátabelgirnir BNA, Kína og Indland áttu ekki í neinum vandræðum með að samþykkja það.  

Mengun í KínaKínverjar sem keyra nú á sístækkandi bílaflota með grímur fyrir vitunum, eru farnir að óttast afleiðingar velmegunar sinnar en vonast enn til að einhver annar borgi brúsann af lofthreinsuninni og sama á við um Indverja sem hætta lífi sínu í hvert sinn sem þeir baða sig í hinu heilaga en lífvana fljóti, Ganges. Einhver annar á alltaf að borga. Ríku hvítu mennirnir sem nú ganga um með hauspoka eiga ekki lengur fyrir þeim lúxus að standa straum af kostnaðinum við að bjarga heiminum. Þeir eiga ekki einu sinni fyrir sínum eigin skuldum. Evran sá um það.

Endapunktinn á Durban ráðstefnuna sló svo Kanada þegar það sagði sig formlega frá Kyoto samkomulaginu.

En í BNA kaus þjóðin sér forseta árið 2008 sem lofaði grænum heimi. Kannski ekki með eldi og brennisteini eins og Al Gore en með lipurri tungu og tryggum vinahópi ætlaði hann að koma því í kring. Þessi vinahópur hefu staðið svo þétt með sínum manni að ekkert hefur farið til spillis, því vasar þeirra eru djúpir og taka vel við. BrightSource sólarrafhlöðu fyrirtæki Robert Kennedy Jr. var svo heppið að fá $1.8 milljarð sér til bjargar. Og fyrir einskæra tilviljun gerðist það fyrir tilstilli eins eigandans sem jafnframt var einn af fjármálastjórum kosningabaráttu Obama. Þetta er í takt við annað í hinu hátimbraða stimulus prógrams Obama forseta. Sagt er að þar hafi kapp verið meira en forsjá eða með öðrum orðum maðkur leikið laus í mysunni. Forsetinn sem ætlaði að breyta heiminum hóf störf með því að moka fé í gæluverkefnið, Græna orku. Meira en $90 milljarðar fóru úr ríkissjóði til að örva hið græna hagkerfi. General Motors fengu $51 milljarð með skilyrði um að þróa draumabílínn, hinn ofurgræna Chevy Volt sem, eftir ár á markaði hefur selst í 5003 eintökum. Í augnablikinu lítur út fyrir að fyrirtækið þurfi að kaupa obbann af bílunum til baka þar sem hann á það til að kveikja í sjálfum sér án fyrirvara. Ekki er talið að ríkið muni endurheimta alla þá fjármuni sem GM fékk úr vösum skattborgaranna. Í dag er Ford, sem afþakkaði inngrip forsetans, farið að skila hagnaði og greiðir nú arð í fyrsta sinn í 5 ár.   

Erfiðast mun verða fyrir forsetann að réttlæta $535 milljón til sólar-panel fyrirtækisins Solyndra. Fyrirtækið fór í gjaldþrot í september. Vandræðin voru orðin augljós í fyrrahaust en fyrirtækið beið framyfir kosningar með að kunngera það, að undirlagi ríkisstjórnarinnar segir sagan. Solyndra var toppurinn á græna draumnum. Hlutverk þess var að standa undir væntingum sem græni herinn gerði til Obama. Það átti að "bjarga jörðinni okkar" og skapa óendanleg störf í grænum iðnaði. En þrátt fyrir nýja verksmiðju og höfuðstöðvar jókst ekki eftirspurn eftir framleiðslunni. Rándýri nýi hátæknibúnaðurinn sem keyptur var fyrir stimulus-peningana er enn í umbúðunum. 

Til að búa þjóðina undir grænu byltinguna var $490 milljónum dælt í kennsluprógram sem sótt var af tugum þúsunda bláeygum bjálfum sem sáu fyrir sér hálaunastörf "í þágu mannkyns" (sýnir trúartilhneiginguna sem að baki bjó). Aðeins 8000 störf hafa skapast í græna iðnaðinum fram til þessa. Peningum var þannig dælt út án þess að kanna þörfina eða rekstrargrundvöll fyrirtækjanna. En einkavinir létu sig ekki vanta í veisluna.  

Á meðan staðan er þessi verður að teljast nokkuð raunsætt af Kanada að kúpla sig frá þátttöku í Kyoto verkefninu. Ekki vegna þess að það sé ekki verðugt heldur vegna þess að það er útilokað að ná árangri þegar nálgun við verkefnið er á trúarlegum nótum.

Loftslagsbreytingar verða ekki lagfærðar fyrir tilstilli trúar. Þetta er vísindalegt verkefni sem er eða er ekki raunhæft en verður aðeins unnið á vísindalegum grunni eins og eldflaugavarnakerfi eða tunglferðir. En umfram allt þarf að nálgast það á heiðarlegan og vandvirkan hátt og mistök og blindgötur þarf að viðurkenna þegar það á við.

 Mynd: www.topnews.in


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband