Leita í fréttum mbl.is

Hreinskilin og opinská ESB umræða

Morgunblaðið birti grein eftir Atla Harðarson þann 11. september, þ.s. hann fer fram á heiðarlega og opinskáa umræðu um Evrópusambandið. Atli fer á greinargóðan hátt yfir umræðuna eins og hún hefur verið og sýnir að hún er hvorki heiðarleg né opinská. ESB-sinnar reka sinn áróður á að hér myndist efnahagslegur stöðugleiki við inngöngu. Þetta er þó ekki gefin stærð því, eins og Atli bendir á, samkvæmt tölum frá OECD er efnahagslegur ávinningur af inngöngu ekki eitthvað sem aðildarríkjum er færður á silfurfati. Flest löndin sem áður stóðu vestan járntjalds héldu sínum hagvexti nokkurn vegin óbreyttum eftir inngöngu í sambandið, þótt sum hafi dalað nokkuð. Finnland og Svíþjóð gera það þó gott betur eftir inngöngu 1995, en annað hefði verið illskiljanlegt því bæði ríkin komu inn eftir að hafa gengið í gegnum djúpa efnahagslægð ef ekki hreina efnahagskrísu. Og myntbandalagið hefur ekki fært löndunum aukin hagvöxt. Frá upptöku hefur hagvöxtur dalað í evrulöndum um 0.9%.

Ef Ísland færi inn núna má gera ráð fyrir að við gætum horft fram á bjartari framtíð eftir svona 7-10 ár. En bjartari framtíð fyrir Ísland er ekki bundin við inngöngu í ESB. Framtíð okkar getur verið enn bjartari utan ESB ef okkur lánaðist að kjósa yfir okkur ríkisstjórn sem leggur áherslu á uppbyggingu atvinnuvega svo atvinnulausum fækki og hagvöxtur taki við sér. Í stað þess höfum við ríkisstjórn sem getur ekki tekið augun af baksýnisspegli gamallar hugmyndafræði um alræði öreiganna. 

Á meðan lætur framtíðin á sér standa.

En, eins og Atli segir, þá er ESB umræðan hér í hjólförum "efnahagsmála"; lægra vöruverð og lægri vextir eru agnið sem auðlindir hafsins í kringum landið standa andspænis. Aðildarsinnar skauta yfir þá staðreynd að hvorki lægra vöruverð né vextir fást án styrkrar efnahagsstjórnar og draumurinn um aðgang að myntbandalaginu (telji menn það enn fýsilegan kost) er ekki í augsýn. Atli biður um heiðarleika í umræðunni; að við segjum hreint út hvað rekur okkur áfram á hvorn veginn sem er. Ég tek undir með Atla að við eigum að segja hreint út hvers vegna afstaða okkar er slík sem hún er. Við, þ.e. þeir sem eru í mínu liði, eigum að viðurkenna að við vantreystum stórveldunum ef það er málið. Við eigum að viðurkenna að við höfnum andlitslausu valdi sem sækist eftir að stjórna lífi okkar og sálum. Við eigum að gangast við ættjarðarást og ekki að láta landsölumenn komast upp með að hæðast að heiðarlegum tilfinningum, landsölumenn sem hafa gefist upp á lífsbaráttunni og vilja leggjast til hvíldar í náðarfaðm alríkisins, ESB.

Yfirráð yfir auðlindunum varðar ekki aðeins efnahagsmál, þau eru grunnurinn að sjálfstæði landsins og því óaðskiljanleg frá vitund okkar sem þjóðar. Við, sem viljum standa utan ESB, erum og viljum vera Íslendingar. Við eigum sögu og harðbýlt land og við viljum ekki láta minnast okkar sem einhverra óskilgreindra Evrópubúa. Við erum ekki Þjóðverjar sem vegna sögu sinnar á fyrri hluta síðustu aldar gerir þeim um megn að finna til stolts á þjóðerni sínu. Þegar Þjóðverji lýsir því yfir að hann finni sig ekki sem Þjóðverja heldur sem Evrópumann, telur rithöfundurinn Theodore Dalrymple að það sé jafn fáránlegt og hefði hann lýst því yfir að hann sæi sig ekki sem mann heldur sem spendýr. TD heldur því fram að þessi skömm sem Þjóðverjar standa frammi fyrir sé þeim óyfirstíganleg. Hún rekur þá áfram til endalausrar sameiningar við aðra í leit að "identity". Sameiningar sem að endingu mun má út öll þjóðareinkenni nái hún fram að ganga. Það er að segja þangað til undirþjóðirnar fá sig fullsaddar og rífa sig lausar frá sambandinu. Fjármálakreppan sem enn heldur heiminum í járngreipum gæti flýtt fyrir þeim "prosess". 

En það sem undrar mig mest eftir lestur greinar Atla er að ég finn hvergi að þeir sem sífellt eru að tala um að færa umræðuna um ESB aðild upp á málefnalegra plan skuli ekki hafa gripið boð Atla um heiðarlega og opinskáa umræðu. Hafi þeir rök sem afsanna upplýsingarnar sem Atli færir fyrir máli sínu ættu þeir að koma þeim á framfæri, enda útilokar Atli ekki að einhver tækifæri liggi í aðild.

Atli Harðarson setur umræðuna í nýtt ljós. Það er sagt að það taki tíma að snúa risaskipi og risaskipið í Brussel er kannski enn í snúning. Getur hugsast að línan frá Stóra-Bróður í Brussel hafi enn ekki náð landi ?  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband