Leita í fréttum mbl.is

Í boði skattborgaranna

Postularnir tólf

Viltu skoða þig um í Ástralíu án þess að borga fyrir það? Gista á 5 stjörnu hótelum, sækja sýningu á La Traviata í nafntoguðu óperuhúsinu í Sydney og njóta síðan veitinga á lúxus snekkju á siglingu um flóann á meðan geislar kvöldsólarinnar baða hafflötinn. Til endurgjalds þarftu aðeins að leggja á þig nokkrar heimsóknir á vínræktarbúgarða, svolgra dálítið af heimabrugginu, fræðast um framleiðsluna og eiga uppbyggilegar samræður um gildi skrúftappa á vínuppskeruna. 

Ferðina þarf ekki að gefa upp til skatts, engar kvittanir þarf að sýna og ekki þarf að greiða skatt af fríðindum. Skattborgararnir sjá um allt.

Nokkur hópur Íslendinga hefur komið auga á kostina sem búa í þessu einstæða tilboði. flestir tilheyra þeir Samfylkingunni, þótt einhverjir utanbúðarmenn hafi nú slæðst í hópinn. Allt sem þú þarft að gera er að ganga í Evrópusambandið og ná kosningu til Evrópuþingsins. Þegar þangað er komið bíða þín fríir farseðlar um allan heim. Muna bara að koma sér í réttu nefndina. 

Vegna takmarkaðs aðgangs að fréttum á vinnutíma fóru boðaðar yfirlýsingar norrænu forsætisráðherranna sem mættu á einkaþotum á Egilsstaðaflugvöll, um sameiginlega ályktun í umhverfismálum, gersamlega framhjá mér. Það hefði verið fróðlegt að heyra hvaða markmið þessir mætu menn leggja áherslu á núna. Áhyggjum af loftslagsmálum deila þeir víst með félögum sínum í ESB, sem ályktað hafa um að dregið skuli úr losun skaðlegra efna í Evrópulöndum um 20-30% frá því sem losað var 1990 og þetta skal vera komið til framkvæmda fyrir 2020. Þeir eru spaugsamir þarna í ESB.

Evrópuþingmennirnir (MEP) sem fjölmenna til Ástralíu annað hvert ár, svo ekki sé minnst á "delagasjónirnar" sem fara reglulega til Seychelleyja til að kynna sér "landrofsvandamálin" sem þarlendir standa frammi fyrir eða 67 manna nefndina sem fór til Barbados að kynna sér hvernig draga megi úr fátækt í heiminum, og þá ekki síður þingmannanefndirnar sem leggja á sig langflug til Nýja Sjálands, Malí, Kína, Perú eða Chile til að rækta vináttutengsl við kollega sína sem hvorki komast lönd né strönd, því skattborgararnir eru of blankir til að greiða fyrir lúxusinn. Þessir fórnfúsu þingmenn hafa svo miklar áhyggjur af loftslagsmálum að þeir mega ekki vatni halda.

Þótt ESB hafi ekki fyrir því að halda utan um kostnað þingmanna í þessum "vettvangsferðum" (sem birtist meðal annars í því að reikningar sambandsins hafa ekki fengist uppáskrifaðir í 14 ár), þá eru alltaf einhverjir nöldurpúkar sem leggjast svo lágt að snuðra í fundargerðum og skýrslum þingsins. Open Europeer félagsskapur sem tekur reglulega saman ýmsar gagnlegar upplýsingar fyrir almenning sem vill vera meðvitaður en hefur ekki aðgang að öðrum upplýsingum en þeim sem áróðursmaskínur ríkisstjórna og fjölmiðla bjóða uppá. Nýlega birti OE skýrslu um flugmílur þingmannanna sem hlýtur að vekja athygli þó ekki væri nema fyrir þrálátt hjakk þessara umhverfispostula um loftslagsógnina.

Ef þessi skýrsla er skoðuð má með góðu móti komast að þeirri niðurstöðu að MEP-liðið, og þar með taldir þessir ágætu einkaþoturáðherrar sem mættu á Egilsstaðaflugvöll, séu mesta ógnin sem steðjar að í þessum loftslagsmálum. Á árum 2004 - 2008 flaug MEP-gengið litlar 10 milljón flugmílur á kostnað skattgreiðenda sinna. Þetta jafngildir 20 ferðum til tunglsins og til baka. Dágóð dagleið það. En fyrir þá sem ekki eru kunnugir tunglferðalögum, en láta sér nægja að keyra í kaupstað eða verða sér út um vitneskju um heiminn í sjónvarpinu hans Davids Attenborough, þá jafngilda þessar flugferðir 400 hringjum umhverfis hnöttinn sem við búum á og skilja eftir kolvetnisfótspor sem metið er á 3.500 tonn af CO2. Þetta er náttúrlega bara brot af því CO2 sem losað var þegar hinn umhverfisvæni forseti BNA, Barack Obama, var svarinn ínn í embætti og enginn treystir sér til að giska á flugmílurnar hans Al Gore. En þegar guðirnir tala krjúpa átrúendurnirog fórnirnar færa skattgreiðendurnir. 

Það má vel spyrja hvaða erindi hjarðir "umhverfissinnaðra" MEPa eiga inn í frumbyggjabyggðir Ástralíu, Asíu og Suður Ameríku? Hvort umhverfisáhuginn þurfi endilega að vega svona þungt í buddum skattborgara og hvort loftslagsmálum væri ekki betur komið ef þeir sinntu bara vinnunni sinni heima?

Það má líka spyrja hvort skattborgararnir væru ekki betur settir ef þeir losuðu sig við þessar sjálftöku afætur og sæju um sín mál sjálfir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband