Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Hrokinn á RÚV

halliBrattur Hallgrímur. Var að hlusta á þáttinn Í vikulokin rétt í þessu. Þar var til umræðu gjaldþrot Morgunblaðsins og hvernig skilanefnd bankans hafi frekar kosið að ná tapi sínu að hluta til baka með sölu til þriðja aðila. Engu að síður þurfti bankinn að afskrifa dágóða upphæð.

Hallgrímur Thorsteinsson segir almenning eiga kröfu á að ráða málum á Morgunblaðinu í krafti þessara afskrifta. Afskriftirnar ættu að tryggja rétt almennings til að ráða ritstjórn blaðsins.

Það er með ólíkindum að hlusta á þennan vaðal úr fílabeinsturninum í Efstaleitinu. Maður bara spyr: kemur almenningur að ráðningu útvarpsstjóra? Væri ekki rétt að almenningur fengi að kjósa sér útvarpsstjóra á grundvelli þess að það er almenningu sem stendur straum af rekstri útvarpsins? Og stendur almenningur ekki undir umframkeyrslu stofnunarinnar sem í krafti auglýsingasölu og skylduáskrifta ræður því hver lifir á fjölmiðlamarkaði og hver deyr?

Getur þáttagerðarmaður hjá þessari ofdekruðu stofnun leyft sér að tala í nafni almennings sem ekkert fékk að segja um ráðningu hans né annarra starfsmanna sem bara dúkka upp án auglýsinga, sem þó hvu vera lögboðið hjá ríkisstofnunum?

Hvenær var almenningur spurður um ráðningu þína, Hallgrímur?

 

Mynd af: www.eyjan.is

 


Ný ritstjórn Moggans

Í fyrsta sinn í 28 mánuði lít ég með tilhlökkun til þess að vakna til nýs dags þar sem heitur kaffibolli  og prentútgáfa Morgunblaðsins leiðir mig inn í ævintýri dagsins. Það verður mikil tilbreyting frá hinum kalda skjá fartölvunnar að fletta blaðinu hægt, láta augun hvarfla yfir opnuna áður en þau staðnæmast við áhugaverðustu fréttina. Í þessari litlu athöfn fellst mikil nautn sem mér hefur verið meinað að njóta alltof lengi. 

Hvernig Morgunblaðið komst á það spor sem það hefur runnið eftir undanfarna mánuði vil ég ekki eyða tíma mínum í að greina, en ég geri meiri kröfu til blaðsins en að það fylgi pólitískri rétthugsun um hvers kyns boð og bönn, taki undir allar kröfur sem upp koma um kostnaðarþátttöku ríkisins í áhugamálum einstaklinga svo ekki sé talað um eintóna útgáfu ESB umræðunnar. Engum málstað er gerður greiði með því að kveða niður andstæðar raddir.

ESB-sinnum hefur ekki tekist að leiða fram málefnalega umræðu um sambandsaðild. Opinn faðmur Olla Rehn eða endalaust orðagjálfur utanríkisráðherra hinna aðskiljanlegustu Evrópusambandlanda sem fengið hafa ómælt rými á síðum blaðsins án þess að nokkur viðspyrna hafi verið veitt til að rétta hlut þeirra sem ekki hafa vígst til heilags ESB-smurnings hefur fyllt dygga stuðningsmenn blaðsins óhugnaði. Við lifum í heimi efnisgilda. Við höfnum trúarofstæki sem byggir á einföldum lausnum. Hver sem er má trúað á sinn guð en óheft trúboð alsælu ESB leiðir okkur ekki inn í himnaríki. Jafnvel þótt Jóhanna leiði hersinguna yfir þröskuldinn.

Botninum náði blaðið þegar norskur hundur var leiddur til öndvegis í frétt um brotthvarf fyrrverandi forsætisráðherra af þingi. Sú frétt var ekki einungis formanni blaðamannafélagsins, sem nú talar um "ómaklega gagnrýni á sig" til skammar. Hún var blaðinu og í reynd allri stéttinni sem varð það á að kjósa sér slíkan formann, til óbætanlegrar skammar.

Ég fagna því að Morgunblaðið hefur verið heimt úr helju og óska því alls velfarnaðar.


Framtíð íslenskra barna

Framtíð íslenskra barna

Og Icesave martröðin heldur áfram

í boði vanhæfrar ríkisstjórnar sem er tilbúin að leggja óbærilegan skuldaklafa á herðar barnanna okkar frekar en að viðurkenna eigin vankunnáttu.

Hélt einhver að kommúnisminn væri dauður?

 

Mynd: www.wsj.com

 

 


Þjóðerniskennd, my a..*

Ótrúleg bíræfni af Baldri Þórhallssyni að halda því fram að andstaða við ESB aðild sé tilkomin vegna hrunsins. Það hafi kallað fram einhverja misskilda þjóðerniskennd hjá landsmönnum.

Í öngþveitinu síðast liðin vetur missti fólk móðinn um stund og vildi þá halla sér að hinum "sterka". Samfylkingunni tókst með ótrúlegri hörku og þrautseigju að knýja fram samþykkt um aðildarumsóknarferli, sem leiddi í ljós að Samfylkingin gat ekki sýnt fram á hvernig ESB ætti að gagnast okkur. Eins og okkur standi til boða að leggjast til hvílu í hinn allt umvefjandi faðm ESB án þess að greiða gjald fyrir.

Icesave umræðan öll sýndi svo ekki var um villst að ESB er ekki neinn bjargvættur fyrir smáþjóðir; hvorki þær sem starfa innan eða utan sambandsins. Að "frændþjóðir okkar" skuli svo láta þetta spillta kúgunarbandalag sýna okkur fingurinn svo ekki sé talað um AGS réði svo úrslitum. Augu fólksins opnuðust.

Við erum ekki svo heimsk að við áttum okkur ekki á afarkostunum sem ESB telur við hæfi að bjóða okkur upp á.


Kjarni málsins

heilbrigðisreikningurinn 

"Umbóta" frumvarp Baracks Obama á heilbrigðislöggjöfinni liggur nú frammi í fulltrúadeild Bandaríkjaþings og það er engin smá doðrantur. Óskalistinn er upp á litlar 1100 blaðsíður og stórsér á skógum landsins eftir framtakið. Flýtimeðferðar var óskað og ætlast til að þingmenn afgreiddu frumvarpið á mettíma og ekki síðar en fyrir sumarfrí. Einhverjir þingmenn munu hafa gluggað aðeins í það, en flestir höfðu ekki fyrir því að fletta plagginu. Þingheimur  fór svo í frí og enn er deilt um frumvarpið.

En þrátt fyrir að stór hluti skóga Norður Ameríku hafi verið höggin til að koma þessum boðskap á blað tókst forsetanum og flokksmönnum hans ekki að komast að kjarna málsins. Af mikilli leikni tókst að sneiða gersamlega framhjá því sem mestu máli skiptir fyrir buddu almennings og þá þjóðarinnar í heild.  Ekki orð er þar að finna um helsta hrellir heilbrigðisþjónustuna. Það sem Kaninn kallar TORT löggjöfina (slysabótalöggjöf), sem er ástæða þess að heilbrigðisþjónusta Bandaríkjamanna er tvisvar sinnum dýrari en hún þarf að vera. Allir eru að reyna að baktryggja sig. Margfalt fleiri rannsóknir eru gerðar á sjúklingum en nauðsynlegt er, sjúkrahús, læknar og annað hjúkrunarfólk eyðir sífellt hærri fjárhæðum í "mistaka" tryggingar sem aftur kallar á enn hærri útgjöld tryggingarfélaganna, sem verja sig með svimandi háum og sífellt hækkandi tryggingaiðgjöldum.

Til að ráða bót á þessu þarf að taka slaginn við lobbyistana sem sitja á skrifstofum þingmanna og tala máli TORT-lögmannanna. Þessara sem hlusta eftir sírenuhljóðunum sem kveikja dollaramerkin í augum þeirra. Þetta er fólkið sem dyggilegast styður kosningasjóði bandarískra stjórnmálamanna, þ.m.t. Obama og þingheims alls. Við þeim má ekki stugga.  

En það þarf ekki að eyða skógum til að segja það sem segja þarf. Á ótrúlega Thatcherískan hátt kemst þessi litla teikning að kjarna málsins; vanda bandarísku heilbrigðisþjónustunnar í hnotskurn.

 

Mynd: www.townhall.com

 


Úlfur, úlfur / oflof, oflof!

 

Flogging a dead horse.

Floggin hope

Í kvöld ætlar Barack Obama að halda "einhverja mikilvægustu ræðu á ferli sínum" eins og fyrirsagnirnar hljóma í flestum fjölmiðlum heimsins. Satt, þessi ræða er mikilvæg fyrir Obama, en hún er nú þegar í skugganum af allri óratoríunni sem flætt hefur frá honum síðustu 5 árin. Eða eins og sagt hefur verið: Öllu má nú ofgera.

Obama hefur ofboðið heilbrigðri skynsemi Bandaríkjamanna og sýpur nú seyðið af því. Gagnrýnisleysið sem hann hefur mætt frá samflokksmönnum sínum, oflofið sem fjölmiðlar hafa baðað hann upp úr og ofurmeirihlutinn sem demókratar á þingi hafa misnotað svo gróflega hefur ekki búið hann undir þá gagnrýni sem nú beinist að honum úr öllum áttum. Oflofið skilur hann eftir berskjaldaðan, því í einfeldni sinni trúði hann sínum eigin orðum. Nú er hann eins og Íkarus sem flaug full nærri sólinni og fataðist flugið. Eftir stendur hann, dauðlegur maður; einn af oss.

Nú hefur Hvíta húsið gefið út forsmekk af ræðu hans til þingsins. Engu er líkara en hann hafi gengið í smiðju til Jóhönnu og Steingríms Joð þegar þau kyrja sönginn: ef þið greiðið ekki atkvæði með  okkar málum þá munu allir árar heimsins á ykkur leggjast . Þær eru orðnar nokkrar ræðurnar sem við höfum fengið í þessum dúr. ESB og Icesave til að nefna aðeins tvö mál sem áttu að færa okkur nær himnaríki um leið og við samþykktum landsöluna. Obama hótar því að "fleiri muni deyja" ef heilbrigðisfrumvarpið fær ekki snarlega afgreiðslu. "Fjárlagahallinn mun aukast, fleiri fjölskyldur verða gjaldþrota, fleiri fyrirtæki munu loka". Svartidauði handan við hornið og kýli og kaun. En frumvarpið mun auka kostnað í kerfinu um meira en milljón milljónir dollara, því ekkert í frumvarpinu, eins og það hljómar í dag, gerir ráð fyrir að tekið verði á þeim þáttum sem skapa mesta umframkostnaðinn. Frumvarpið sjálft mun því hafa allar þessar geigvænlegu afleiðingar sem Obama varar hér landa sína við.

En eftir er að sjá hvort Obama sé eftirbátur Steingríms og Jóhönnu þegar kemur að því að berja menn sína til hlýðni. Fjörutíu og fjórir þeirra hafa enn ekki látið sannfærast.

 

 Mynd: www.townhall.com

 


Hvar á að spara?

Hulda Gunnlaugsdóttir-LæknablaðiðForstjóri Landspítala gerði starfsfólki grein fyrir stöðunni síðsatliðinn föstudag. Gróft til tekið er hún ekki beisin. Eftir öll hagræðingarárin, ráðningastoppin og hungursólaranar á enn að skera niður. Áætlað; 400 milljónir til áramóta. Þetta er þó bara brot af því sem þarf að sparast svo vel sé. "Velferðarstjórnin", sem kosin var í vor, mun fylgja málum eftir.

Valkostirnir eru lægri laun eða minni lyf. Byrjað verður á að lækka launin og ef það dugar ekki þá uppsagnir og aspirín í stað morfíns. Samkvæmt yfirlýsingum formanns hjúkrunarfélagsins og formanns læknaráðs blasir landflótti við úr þessum stéttum. Það mun ganga eftir.

En allt er þetta spurning um forgangsröðun. Um hvað geta flestir Íslendingar verið sammála? Eru það ekki að heilbrigðis og menntamál sem eiga forgangi? Því er að minnsta kosti haldið fram í ræðum. Merkir það ekki að önnur málefni séu látin víkja þegar þessir stóru málaflokkar eru lagðir undir hnífinn? Með því að renna hratt í gegnum fjárlög 2009 sé ég ekki betur en að auðvelt hefði verið að ná þessum 400 milljónum sem vantar í rekstur Landspítalans á árinu. Það hefði t.d. mátt ná stærstum hluta þessa undirballans með því að skera niður framlög ríkisins til stjórnmálaflokka (371.5 m) og lokahnykkurinn hefði náðst með framlögunum til Feneyjatvíærings, Samtakanna 78 og frjálsra félagasamtaka, þá hefði 400 milljónunum verið reddað. Of seint í ár en má hafa í huga fyrir næstu fjárlög. Auk þess mætti sleppa silkihúfum eins og Heimssýningu í Shanghai 2010 (70m) og Óbyggðanefnd (99.4m); draga verulega saman hjá sendiráðum (2.500m), Þróunarsamvinnu og öllu Sameinuðu þjóða batteríinu og spara þar með ennnú fleiri milljarða. Og þá er ónefnt Norðurlandasamstarfið, sem ekki er að skila okkur öðru en hótunum og fyrirlitningu "frændþjóðanna", það fær 273.6m á fjárlögum ársins svo Íslendingar geti látið hrækja framan í sig í beinni. Þær 60 milljónir sem ráðherrar fá til gæluverkefna og atkvæðakaupa mætti hæglega veita til kaupa á skólagögnum fyrir fátækar fjölskyldur. 

Liðurinn Frjáls félagasamtök vakti sérstaka athygli mína. Hvers vegna fá Ff 9.9m af skattfé Íslendinga á fjárlögum? Er ekki öllum frjálst að stofna samtök og eru þau frjáls ef ríkið er með krumlurnar í þeim? Er upphæðinni dreift á alla sem stofna með sér samtök eða eru einhverjir verðugri en aðrir? Það skiptir í raun ekki megin máli, því þessi liður er langt út úr kortinu og ætti ekki að vera til. En hann minnti mig á grein sem ég las nýlega í Daily Telegraph um nýja borgarstjórann í Doncaster á Englandi. Hann heitir Peter Davis og hann veit hvernig á að taka á útgjöldum sem komin eru útfyrir öll mörk.

Davis lét það verða sitt fyrsta verk að lækka eigin laun úr 73 þúsund pundum á ári í 30 þúsund. Svo virðist sem Doncaster, sem er á stærð við Reykjavík, hafi lent á algeru eyðslufylleríi og líklega ekki eitt um það. Til aðkoma böndumWatford+Doncaster Rovers á sukkið hefur Davis lagt til að borgarfulltrúum verði fækkað úr 63 í 21 (á sínum tíma fækkaði DO borgarfulltrúum Rvk úr 21 í 15 ) og Davis ætlar að lækka skatta á borgarbúa um 3%.  Sem sagt, yfirbyggingin minnkuð og það sem sparast skilað til skattgreiðenda. Auk þess hefur Davis ákveðið að allt sem flokkast undir útgjöld vegna "fjölmenningar" verði lagt af. Styrkir til "gleðigangna" verða aflagðir  á grundveli þess að vilji fólk gangast upp í kynhneigð sinni þá geti það gert það á eiginn kostnað. Hann telur sömu rök gilda þegar ólíkir kynþættir vilja minnast uppruna síns og á það líka við um feminista og  hópa sem telja sig á einhvern hátt eiga að njóta sérstöðu umfram aðra.

Peter Davis á eflaust eftir að lenda í kröppum dansi við pólitíska rétttrúnaðinn og þá ekki síður við félaga í trúarsamtökum Hins Alvitra Ríkis sem útdeilir almúganum af visku sinni. En í dag er lag, því skattpíning almennings í Bretlandi er ekki að skila því sem Labor hafði lofað. Skólar, sjúkrahús, samgöngur eru í molum og félagsmálabatteríið veldur meiri skaða en það gerir gagn. Það eru eflaust margir Bretar sem eru tilbúnir að hleypa rödd skynseminnar aftur að og svo gæti farið að röddin fái að hljóma um allar Bretlandseyjar. Davis er ekki einn hann nýtur stuðnings frá Samtökum skattborgara og félagasamtaka sem vinna gegn pólitískri rétthugsun.

Hvort Íslendingar sem völdu "velferðarstjórn" í síðustu kosningum hafi enn áttað sig á í hverju velferð hennar felst á eftir að koma í ljós. Hljómar hinnar fágætu tónlistar skynseminnar berast, því miður, hægt yfir.

Mynd 1: Læknablaðið

Mynd 2: www.zimbio.com

 


Málefnaleg umræða, eða hvað?

Varúð! Ekki fyrir viðkvæmar sálir. 

Það verður ekki annað sagt en þessi fríða frú nýti tjáningarfrelsi sitt til fullnustu. Hún tvinnar þarna saman bölbænum yfir náunga sem heitir John Mackey og hvetur aðra til að sniðganga fyrirtæki hans. Mackey er stofnandi og forstjóri verslunarkeðjunnar Whole food sem við könnumst við frá þeim tíma þegar Guðni Ágústsson stefndi á stórkostlegan útflutning á lífrænum landbúnaðarvörum til BNA. Viðskiptavinir Whole food eru aðallega hálauna menntamenn sem hafa efni á að dekra við sig í mat, telja sig eiga að hafa vit fyrir öðrum og kjósa demókrataflokkinn í kosningum . Verði þessari konu að ósk sinni munu þessir "dýrmætu" viðskiptavinir nú snúa sér eitthvert annað. 

Hvað skyldi nú John Mackey hafa gert af sér til að kalla yfir sig alla þessa heift? Flestir myndu segja að hann hefði bara nýtt sér stjórnarskrárbundinn rétt sinn til að tjá sig. Og það meira að segja á penan og kurteislegan hátt. En ekki að mati frúarinnar. Glæpur hans var að andmæla gríðarlega fjárfrekri endurskipulagningu heilbrigðiskerfis BNA með frumvarpi sem forsetinn hefur nú lagt fyrir þingið. Frumvarp sem gengur almennt undir nafninu Obamacare en gæti á hverri stundu stökkbreyst yfir í Kennedycare þyki það hljóma betur. Hér er um trúarbrögð að ræða og frúnni þykir sem Mackey hafi svívirt guð sinn. 

Sjúkratrygginga-uninsured_J ReschMargir hafa sett fram gild rök gegn þessu milljarða dollara óskaverkefni Baracks Obama, sem segja að þjóðin hafi ekki efni á því, að það væri nær að sníða gallana af þeim kerfum sem nú þegar eru til staðar, að tugir milljóna manna séu án sjúkratrygginga sé rangt (sjá skífurit) og því ætti frekar að koma böndum á kostnaðaraukann í núverandi kerfi sem stafar, ekki hvað síst af slysabótalöggjöfinni sem tryggir að kostnaður heilbrigðisþjónustunnar sé minnst 25% hærri en hann þurfi að vera.

John Mackey, líkt og svo margir aðrir, nýtti rétt sinn til að tjá sig um málið. Þá brá svo við að allt varð vitlaust. Tunglgólararnir trylltust. JM var ekki að hafna umbótum í heilbrigðiskerfinu. Hann var aðeins að miðla af reynslu sinni sem atvinnurekandi sem greiðir sjúkratryggingar starfsmann sinna auk þess að leggja árlega $1.800 é einkasjóð hvers starfsmanns. Fé sem þeir geta nýtt til að bæta eigin heilsu. Tillögur hans miða að einföldun kerfisins, s.s. með jöfnun skattaafsláttar, aukinnar samkeppni, umbóta á slysabótalöggjöf og Medicare prógramminu.

Munurinn á viðhorfi Mackeys og annarra felst aðallega í því að viðskiptavinir Whole food, líkt og þessi ágæta kona sem tjáir hug sinn hér að ofan, líta á hann sem sinn. Meðlim í sértrúarsöfnuðinum sem þau tilheyra. Þetta eru umhverfisvænir- lífrænir- lífsstíls-menntamenn sem tilbiðja guð sinn, Barack Obama og leyfa ekki trúvillingum að saurga áform hans. Öfgafull viðbrögð þeirra minna á íslamistana sem standa vörð um guð sinn, Múhameð, með barsmíðum og brennum.

Grein JM var ekkert minna en helgispjöll í hugum sértrúarsafnaðarins. Hann leyfði sér að vera á öðru máli en guðinn, leyfði sér að benda á að fjárlagahalli upp á $1.800 milljarða fyrir árið 2009 og fimmföldun hans á næstu 10 árum leyfði ekki þetta bruðl sem frumvarpið ber með sér. Og til hvers? Til að koma á kerfi eins og í Kanada þar sem 830 þúsund manns sækja sér lækningu suður yfir landamærin vegna skorts á þjónustu heimafyrir eða efna til 1.8 milljón manna biðlasta eins og í Bretlandi?

En líklega var stærsti glæpur JM að velja inngangsorð að grein sinni úr safni ógnarskelfisins mikla Margretar Thatcher sem sagði: Vandamálið við sósíalisma er að á endanum rennur annarra manna fé til þurrðar.

Þessi orð höggva nærri grundvelli hugmyndafræði demókrata sem líkt og vinstrimenn í Evrópu eru örlátir á annarra fé. Innst inni vita þeir að þetta er rétt. Þeir horfa uppá að slík greiðasemi er að koma þeim í koll í fylkjum sem lengst hafa verið undir demókratískri stjórn, eins og t.d. New York og Kaliforníu. Fylki sem nú þurfa á gjörgæslu að halda. Skattheimta er að sliga þessi ríki og íbúarnir gera uppreisn því þeir vita að þeir hafa ekki efni á þessari botnlausu eyðslu. En þingmennirnir þeirra sofa enn værum svefni.

Um öll Bandaríkin eru menn að vakna til vitundar um að peningar annarra munu ekki duga til. Kostnaðaraukinn sem fylgir frumvarpi Obama mun að endingu koma úr þeirra eigin vasa og biðlistinn verða að þeirra veruleika. Kalifornía er fyrirmyndin og því hafna þeir áskorun dömunnar hér að ofan. Gera innkaup sín í Whole food, styrkja hið kapítalíska kerfi og kaupa hlutabréf i sinni eigin framtíð.

Á Íslandi hugsa valdhafarnir eins og í Kaliforníu að hægt sé að skattleggja sig út úr vandanum. Líkt og í Kaliforníu munu þeir vakna við að skattborgararnir greiða atkvæði með fótunum.


Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband