Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Davíð hélt ræðu og allir hafa skoðun

Menn hafa misjafnar aðferðir við að gera upp hlutina. Dómar um ræðu Davíðs eru nú felldir á hverju bloggi. Flestir sem þar tjá sig hafa aldrei greitt Sjálfstæðisflokknum atkvæði og má vera að dómarnir litist af þeirri staðreynd. Dómararnir hafa lítið haft út á ræður formanna sinna hjá SF og VG að setja. Minnis og meðvitundarleysi formanna þessara flokka þykir svo sjálfsagt. Siðvitund þeirra er ekki raskað fyrr en atvinnulaus öldungur hefur upp raust sína á vettvangi Sjálfstæðisflokksins. Þá vita allir hvað er rétt og hvað er rangt. En spyrja má: sagði Davíð ekki satt frá, fór hann ekki vítt yfir völlinn, gagnrýndi hann ekki sinn eigin flokk jafnt sem aðra flokka?  Undan hverju kvarta menn? Presturinn sem flutti mér sunnudagshugvekjuna í morgunn ræddi einmitt um að ekki dygði að gagnrýna aðeins annarra verk menn ættu líka að líta inn á við. Eru allir að gera það eða bara Sjálfstæðismenn?

Flestir sem tjá sig á blogginu hneykslast á því að Davíð skuli hæðast að alvarlegum sjúkdómi. Mér er næst að halda að aðeins stafrófið sé kennt hér í skólum og lestrarkunnátta sé enn metin með skeiðklukku, svo lítill skilningur virðist vera í þjóðfélaginu á merkingu orða. Önnur skynfæri, eins og heyrn virðast ekki geta bætt skaðanna. Merkingarauki orða er enginn og húmorískur skilningur á samlíkingum minni en það. Enginn sem hneykslast á Alzheimer-líkingunni sér neitt athugavert við að settur embættismaður ljúgi upp í opið geðið á fólkinu sem hann á að þjóna. Þeir tóku ekki einu sinni eftir því að hann laug.

Lestrarvandi þjóðarinnar eins og hann birtist á blogginu kemur einnig í ljós í samlíkingunni við krossfestingu Krists. Af stað fer hersingin og hrópar "Davíð heldur sig vera Jesú Krist". Gagn og gamanliðið er strax komið á kreik og tekur ekkert eftir því að Davíð snéri við formerkjunum. Ekki minnist ég þess að hneykslunaralda færi um bloggið, þegar "hinn smurði" Obama var til umfjöllunar. Öllum fannst sjálfsagt að hann gengi á vatni og ekkert rugl með formerki í þeim fréttaflutning. 

Flokksbrodda VG og SF hafa haldið þing sem RÚV hefur dyggilega reynt að vekja athygli á. Þó virðist enginn hafa áhuga á ræðum sem þar eru haldnar. Voru þessar ræður bara fluttar fyrir klappkór og sætafyllur. Hefur meðvitundarleysið sem Ingibjörg Sólrún lýsir hjá Samfylkinguna ekkert lagast? Meðvitundarleysi sem var svo algert að jafnvel krúnudjásn Ingibjargar á afrekaskránni, Borgarnesræðan, hvarf í orðagjálfri ræðunnar. Eða mundi hún ekki einu sinni eftir henni sjálf. Þyrnirósarsvefn SF liggur enn yfir bloggurunum og ræðan jafn lýgileg og lítilfjörleg og þegar hún var haldin. Ekki skrítið þótt samfylkingarfólk vilji gleyma.

En allir vilja tjá sig um orð Davíðs varðandi Vilhjálm Egilsson og það hyldýpisrof sem það á að hafa valdið milli fyrrverandi formanna. Einn bloggari kallaði þetta móðgun við flokkinn. Sá hinn sami styður VG og skilur því ekki að skoðanaskipti eru leyfð í Sjálfstæðisflokknum. Rétt eins og Davíð getur sett fram gagnrýni á verk Vilhjálms, þá getur Geir varið að hafa sett kauða til verksins. Það hefði þótt óeðlilegt á vettvangii flokksins hefði Geir ekki tekið upp hanskann fyrir Vilhjálm. Og hvað með hræbloggarana sem vomað hafa yfir fórnarlambinu Vilhjálmi. Ekki gat Geir skilið þá eftir verklausa?

Það eru ekki bara ræður foringja vinstriflokkanna sem liggja óbættar hjá garði. Enginn man lengur eftir baráttuljóninu Steingrími J. í orrahríðinni gegn hinu ógnvekjandi skrímsli Devil Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Enginn man lengur að ein helsta röksemd hans gegn fyrrverandi ríkisstjórn var þrælasamningurinn við AGS. Nú er ST.J helsti vörslumaður þess samnings og ekki bara raddir FÓLKSINS þagnaðar heldur líka allur bloggheimurinn sem nú eys úr skálum reiðinnar vegna þess að flokkur sem það ætlar ekki að kjósa heldur landsfund. Það veitir kannski ekki af þögninni svo Steingrímur geti heyrt skilaboðin frá sínum nýju yfirboðurum í Noregi.

Þetta er nefnilega allt svo LÝÐRÆÐISLEGT.

 

Nú eftir alvöru formannskjör og lokaræðu hins nýja formanns hefst ný hrina á blogginu. Cry your eyes out.

Ég óska hins vegar Bjarna Benediktssyni til hamingju og vona an vegur hans verði sem stærstur.


Skapaði brottrekstur Davíðs ekki traust?

Eyjan fjallar um dræmar heimtur í ríkisskuldabréfaútboði Seðlabankans fyrir helgi. Vitnað er í Vilhjálm Egilsson hjá SA og aldrei þessu vant kemur hann sér upp úr ESB hjólförunum og ræðir um að fjárfesta skorti traust á atvinnulífið. Nefnir Vilhjálmur kollhnísinn sem Hafnfirðingar tóku vegna stækkunar álversins þar í bæ.

Sú aðferðafræði sem þar var beitt mun ekki fljótt úr minni renna. Menn í bisniss vita nokk hverjum er treystandi fyrir peningunum sínum og hverjum ekki. Hrokatittirnir í Hafnafirði sem þoldu ekki tilhugsunina að lífsafkoma þeirra kæmi ekki af himnum ofan sitja nú uppi með mannauð blokkarhverfi svo langt sem augað eygir. Ólafur Teitur Guðnason gerir hins vegar grein fyrir þeim 19 milljörðum sem eftir verða í landinu af starfsemi Alcan í grein í nýjasta hefti Þjóðmála.

En Vilhjálmur nefnir líka að til að laða að fjárfesta þurfum við að vera opnari, sýna fagleg vinnubrögð, standa við það sem sagt er og breyta ekki leikreglum. Beinna er varla hægt að skjóta á gleðigjafana sem nú stýra landinu. Hvað vita menn meira um landsmálin nú en áður en Jóhanna verkstjóri tók að sér að leiða byltingarsinnana til vegs (virðing kemur víst ekki inn í dæmið).

"Faglegu" vinnubrögðin við brottrekstur Davíðs úr Seðlabankanum áttu víst að sanna umheiminum að við værum traustsins verð. Þau áttu að skapa traust á SÍ. Er nú líklegt að það hafi gerst? Voru menn ekki bara að fá útrás fyrir heift og hatur á einum manni. Hver treysti ekki Seðlabankanum undir stjórn Davíð Oddssonar? Seðlabankastjórar heimsins? Ábyrgðarlausir hagfræðingar með pólitískann málstað?Trommuslagararnir úr VG eða bílabanarnir úr SF? Var ástæða til að reka þrjá framúrskarandi fagmenn úr starfi til þess eins að fullnægja lægstu hvötum valdhafa og þörfum skrílsins sem kallaði sig því háðuglega nafni Raddir fólksins?

Það hefur nákvæmlega ekkert komið fram sem bendir til að traust erlendra fjárfesta hafi styrkst við brottrekstur Davíðs. Aðeins 13 milljarðar af þeim 20 sem þörf var á fengust út á nafn dularfulla hótelstjórans sem nú situr í hásæti Seðlabankans. Og þó er hann norskur og fenginn til verksins fyrir tilstilli vinatengsla Steingríms J. og núverandi valdhafa Íslands, NORSARANNA.

Við erum ekki að sjá að þessi nýi bankastjóri sé að gera neitt sem vekur traust fjárfesta. Hvorki fyrir heimilin, atvinnulífið eða umheiminn. Vextir lækkaðir um 1% þegar verðbólgan er komin á núll og ef litið er til gengis krónunnar sem átti umsvifalaust að styrkjast við það að fá svo tryggan mann í bankann þá má benda á að í dag stendur krónan í 114.18 miðað við dollar. Daginn sem Davíð kvaddi starfsmenn sína stóð krónan í 112.39 gagnvart dollar og síðan þá hefur dollarinn fallið.

Hvar er allt traustið?

Það er æ betur að koma í ljós að traust erlendra fjárfesta hafði aldrei neitt með veru Davíðs í Seðlabankanum að gera. Skorturinn á faglegum vinnubrögðum var nefnilega ekki hjá SÍ heldur hjá þessum sjálfumglöðu loddurum sem nú ráða yfir Ísland. Fólkið sem heldur að pólitískar hreinsanir í embættismannakerfinu í anda Sovétríkjanna séu líklegar til að vekja traust út á við. Fólkið sem segist ætla að byggja upp atvinnuvegina en kemur sér ekki saman um neitt annað en að banna strípstaði og afnema þannig atvinnufrelsi fólks.  Fólkið sem slær úr og í hvað orkufrekan iðnað varðar. Fólkið sem nú íhugar Lálandsleiðina á tíma þegar heimurinn er krunk. Hýrastýra og félagar hafa nefnilega ekki enn áttað sig á að kreppan var ekki Davíð að kenna. Við erum í miðri heimskreppu.

Hagalagða- og fjallagrasadraumar Steingrímur J. og Co sem helsta útflutningsafurð þjóðarbúsins munu ekki rætast í þessari umferð. Ef fer sem horfir mun okkur ekkert veita af að nýta þessar afurðir okkur sjálfum til viðhalds og viðurværis.

Jóhanna hefði sýnt meiri stjórnkænsku ef hún hefði haldi Davíð í Seðlabankanum. Hún hefði þá, að minnsta kosti getað kennt honum  um ófarirnar. Nú situr hún uppi með glæpinn.


Enn veldur Katrína usla

EfnahagsspáAnn Coulter skrifaði nýlega pistil þ.s. hún líkir gagnrýnislausri aðdáun fjölmiðla á goðinu Barack Obama við umfjöllun um hornaboltahetjuna Cal Rippen, sem lyfti ekki svo augnloki að met falli. Met Cal Rippens voru standa þó enn. En nú falla menn í stafi þegar fyrsti svarti forsettin fer niður í eldhús að næturlagi til að skella saman í samloku og gráu hárin á höfði Obama voru metin sem forsíðufrétt hjá NYT. WaPo sá ástæðu til að taka málið til gagngerrar skoðunar.

Nú hefur fyrsti (svarti) forsetinn komið fram í skemmtiþætti og allir fjölmiðlar, jafnvel á Íslandi, taka sér samstundis pásu frá kreppunni og greina ítarlega frá. Það hvarflar ekki að neinum að nú þurfi BO að bæta ásýndina - því kreppan er ekki aðdáandi Obama. Vinsældir hans dala og jafnvel tilraunir til að koma allri sökinni á forvera sinn eru bara ekki að slá í gegn. Um það vitna kannanir Rasmussen Report:

obama_index_march_20_2009

Farið er að tala um AIG klúðrið sem Katrina fellibylinn hans Obama. Í þetta sinn er engin leið að klína glæpnum á repúblikana, því þeir áttu enga aðkomu að löggjöfinni sem hleypti bónusgreiðslunum í gegn. Nú benda demókratar hver á annan. Chris Dodd er talinn líklegur til að missa öldungadeildar sætið í kosningunum 2010 fyrir aðkomu sína að málinu og Obama neyðist til að standa við bakið á Geithner, því hann hefur engan annan í ráðherraembætti hans. Obama hefur ekki einu sinni getað fyllt tugi lausra starfa í fjármálaráðuneytinu sem þurfa samþykki þingsins. Ekki ólíklegt að Geithner geti sjálfur farið fram á bónus fyrir alla yfirvinnuna sem hann hefur þurft að taka á sig.

Því situr BO á snakki með Leno og veitir Schwarzenegger óskipta athygli þessa dagana - þótt breska ljónið hafi verið snuprað og sent heim með Psycho sér til huggunar.

Hér heima hafa fjölmiðlar ekkert heyrt af sígandi stjörnu Obama, þótt jafn ólíkir fjölmiðlar og CNBC-Daily Telegraph-Newsweek og Salon.com hafi allir dregið úr upphafningarsnakkinu sem einkenndi þá langleiðina út janúar. Gagnrýnisraddir eru farnar að heyrast og hveitibrauðið gæti jafnvel verið farið að súrna áður en 100 dagarnir eru liðnir.

Helst dettur manni í hug að heyrnaleysi fjölmiðla hér stafi af óvarkárni togararallaranna, sem láta sig ekki muna um að toga yfir Cantat. Nema kafbátaleikir Rússa sé aftur komnir hér í fjöruborðið.


Velferðarleiðinn = Evrópuleiðinn

Rakst á ræðubút á WSJ sem mér sýnist eiga erindi inn á bloggið. Erindið flutti Charles nokkur Murray í síðustu viku hjá The American Enterprise Institute: Þessi kynning fær eflaust hárin til að rísa á einhverjum, en ég læt samt vaða.

Í ræðunni fjallar Murray um ökuferð um Svíþjóð. Í hverjum bænum á fætur öðrum sá hann yndislega fallegar kirkjur, ný málaðar og umkringdar vel hirtum görðum og allt niðurgreitt af sænska ríkinu. En kirkjurnar voru tómar og það jafnvel á sunnudögum.

Hann nefnir líka að Skandinavar og reyndar Vestur-Evrópubúar stæri sig af "barnvænni" stefnumótun, sem einkennast af vel útí látnum meðlögum, fríum leikskólum og löngu fæðingarorlof. Þó er fæðingartíðni langt undir því sem nauðsynlegt er til að viðhalda mannfjölda og hjónaböndum fer einnig fækkandi. 

Í þessum löndum er vinnumarkaðurinn einnig skilmerkilega verndaður af ríkinu með margvíslegu regluverki auk ríkulegra kaupauka í kjarasamningum.  Í flestum þessara landa lítur fólk á vinnuna sem illa nauðsyn, sjaldnast sem val. Hvergi er hlutfall þeirra sem eru ánægðir með vinnu sína lægra. Þetta kallar Murray - Evrópu heilkennið.

Er velferðin að drepa okkur úr leiðindum? 


Hið "vandfýsna" vinstri

Eitt má alltaf stóla á og það er hin mótsagnakenda nálgun vinstrimanna við öll viðfangsefni. Dagurinn í dag er engin undantekning. Nú þegar prófkjörin á höfuðborgarsvæðinu eru að baki vita þeir nákvæmlega hvernig þeir hefðu heldur viljað að sjálfstæðismenn veldu á sína lista, hinsvegar hafa þeir lítið um eigin prófkjör að segja. Það læðist að manni grunur að samkvæmt einhverjum freudískum duldum þrái hið vinstra hjarta að slá hinu megin. Aðeins óttinn við "jafningjaviðmótið" haldi þeim föngnum í villu hugans.

Silja Bára velur pistli sínum hinn tælandi titil "harmleikur bæjarstjóran", en nær ekki að koma sér að efninu fyrr en í fimmtu málsgrein, þar sem harmleikurinn er loks opinberaður. Sjálfstæðisflokkurinn á hug hennar allann. Einni málsgrein spanderar hún á sinn eigin flokk, en jafnvel þá er umfjöllunin skrifuð í skugga Sjálfstæðisflokksins. Harmleikurinn sem vissulega er að spila sig út í Hafnarfirði nær ekki að fanga nema ca. 10% af huga Silju Báru. Hennar eigin flokkur nær ekki meiri vigt en L-listinn á meðan Sjálfstæðisflokkurinn hirðir uþb. 85% færslunnar.

Aðrir bloggarar eru uppteknir af því sem þeir kalla "ættarveldið". Krafa vinstri er að menn séu ættlausir, hafi brotist til mennta (á kostnað skattborgara) og hreppt embætti hjá eingetnum R-lista. Sumir telja lista sjálfstæðismanna of litaða af jakkafötum. Það eru þeir sem á sinn lýðræðislega hátt telja kjósendur þurfa tilsögn í vali. Flokksforysta vinstrimanna veit hverjir eiga að erfa jörðina. Það skal vera ♀♂, ♀♂, ♀♂ eins og dýrin sem tóku sér far með Örkinni forðum nema svo óheppilega vilji til að röðin raskist og upp komi ♀♀♀♀♀, þá skal samkynhneigðin ráða og röðin á að vera ♀♀♀♀♀. Samkvæmnin skal alltaf höfð í fyrirrúmi.

Svo eru það þeir sem segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki endurnýjað sig nægilega, á meðan enn aðrir telja listana nú setna tómum grænjöxlum. Árni Johnsen dúkkar upp reglulega sem hinn óforbetranlegi glæpamaður. Glæpur Árna vara að vera sjálfstæðismaður. Vinsæll og vinmargur sjálfstæðismaður. Engin afsökunarbeiðni og engin iðrun mun hreinsa Árna í augum syndlausra. 

En þótt Árna fyrirgefist ekkert, fyrirgefst sjálfstæðismönnum greinilega að hafa ekki leikkonur og flugfreyjur á listanum, engin krafa er um slíkt og telja vinstrimenn sig líklega ráða við að manna þá deild án aðstoðar. Ætli það sé allt og sumt sem gáfumannaliðið stendur undir?

Ekki að undra að þeir horfi öfundaraugum til Sjálfstæðismanna og láti prófkjör þeirra heltaka hug sinn.  


Hver er að telja?

Í hinum diplomatiska heimi þykir það sýna mikinn skort á mannasiðum, svo maður segi ekki bara argasta dónaskap að gera verk forvera síns í embætti tortryggileg. Menn koma inn með sínar hugmyndir og taka til við að breyta eða bæta eftir því hvað verkast vill. Verkin eru látin tala. 

En nú hefur orðið breyting á.

Þegar Ögmundur Jónasson tók við heilbrigðisráðuneytinu lét hann það verða eitt sitt fyrsta verk að upplýsa fréttamenn um gríðarlega sóun á almannafé sem forveri hans í embætti átti að hafa staðið fyrir. Fréttamiðlar greindu skilmerkilega frá öllum verktakagreiðslum sem heilbrigðisráðherrann, Guðlaugur Þór hafði útsett ráðuneytið, ríkið og þjóðina alla fyrir. Þótti hann, með greiðslum til verktaka hafa opinberað hina mestu síðspillingu Íslandssögunna. Fréttamenn, sem í áraraðir hafa sofið á sínu græna, töldu sig nú hafa komist í feitt og kröfðust upplýsinga frá öðrum ráðuneytum. Og viti menn, haldiði ekki að öll ráðuneytin hafi stundað sömu siðspillinguna. Jafnvel hinir heilögu ráðherrar Samfylkingarinnar sem enga ábyrgð bera og þurfa því ekkert að axla, hafi ekki verið með krumlurnar á kafi ofan í krukkunni. Í samanburði  var Guðlaugur Þór bara að díla með smáaura þegar tekið er tillit til umsvifa ráðuneytisins. Fréttamenn hafa þó ekki séð ástæðu til að krefja aðra en hann útskýringa.

Í ljós hefur komið að iðnaðarráðuneytið eyddi 17.3 milljónum í verktakagreiðslur og er það þó bara smáráðuneyti sem lengi hefur verið spyrt við viðskiptaráðuneytið svo nagararnir þar fái ekki blýeitrun. Viðskiptaráðuneytið sem er lítið annað en skúffa, greiddi 12 milljónir til verktaka, eða helming þess sem heilbrigðisráðuneytið, með allar sjúkrastofnanirnar, heilsugæsluna og lyfjakosnað landsmanna hefur á sinni könnu. Og viðskiptaráðuneytið rumskaði þó ekki nema einu sinna og það til að sinna einu útkalli til ísbjarnarveiða. Umhverfisráðuneytið greiddi rúmar 17 milljónir til að drepa dýr í útrýmingarhættu og Utanríkisráðuneytið kastaði 29 milljónum út um gluggann í East River til að fullnægja hégómagirnd formanns Samfylkingarinnar. Samgönguráðuneytið fór með veggjum og spreðaði 9 milljónum á vinalega verktaka eða sömu upphæð og menntamálaráðherra sem ber ábyrgð á menntun landsmanna.

Enginn var þó eins rausnarlegur við verktakana og félagsmálaráðherra sem tókst að koma 56 milljónum í lóg af almannafé án þess að blása úr nös. Gengur reyndar undir hinu alþýðlega nafni Heilaga Jóhanna og er dýrkuð og dáð af trúlausum samflokksmönnum. Hún mun enn vera við sama heygarðshornið. Vantrúaðir kalla hana í laumi Eyðslukló.

Það mætti segja að Ögmundur hafi þarna opnað Pandóruboxið ef ekki væri fyrir að það hefur lengi verið frátekið fyrir formann samstarfsflokksins sem aldrei hefur látið neitt kyrrt liggja.

Gullin sem boxið geymdi heita Baugur og Samson og FL og Kaupþing etc, etc. Þau eru nú á "válista".


RÚV er enn í gamla gírnum

 Dhimi

Í dag hafa fréttastofur RÚV verið uppteknar af því að segja okkur frá and-fasískum óeirðum í Svíþjóð. Grímuklæddir óeirðaseggir hafa barist við lögreglulið og valdi spjöllum. Slíkar óeirðir eru að verða svo hversdagslegar að maður tekur varla eftir þeim, en þessi frétt sýnir hvað okkar ágæta ríkisútvarp leggur lítið á sig við upplýsingaöflun. Óeirðirnar voru nefnilega ekkert sérstaklega and-fasískar að öðru leyti en því að RÚV gat ekki nefnt þær sínu rétta nafni. Þetta voru rasista óeirðir öðru nafni gyðingahatur.

Það hefur lengi verið vitað að stefndi í þessar óeirðir og í raun má segja að Svíar hafi lagt sig fram sérstaklega fram við að bjóða upp á þær. Davis bikarkeppnin í tennis er einn stærsti viðburður í liðakeppni sem um getur. Þegar séð var að ein keppnin færi fram í Svíþjóð og að einn keppandinn yrði Ísraeli átti gestgjafinn kost á að velja hvar keppnin færi fram. Svíar völdu Malmö. Í Malmö eru 25% íbúa múslimar. Í Malmö hefur allt logað í óeirðum milli múslima og lögreglu síðustu ár og ekki lengra síðan en desember sem bílabrennur a la Paris lögðu Rosengaarden hverfið í rúst. Malmö var því einstaklega heppileg borg til að halda keppnina. Og vegna fyrirsjáanlegra óeirða var keppnin haldin fyrir lokuðum dyrum svo að segja. Aðeins 300 vel valdir áhorfendur fengu að njóta þessa stórviðburðar í tennis. Aðrir tennisunnendur fengu bara ánægjuna af því að fylgjast með grímuklæddum óeirðaseggjum kasta grjóti í lögregluna í sjónvarpinu.

Sameinaða Arabíska furstadæmið tók líka þátt í þessu móti og byrjaði á því að neita ísraelsku þátttakendunum um vegabréfsáritun. Ísraelska tenniskonan Shaha Peer varð af keppni en þá mannaði alþjóðlega tennissambandið sig upp og sektaði mótshaldarana um $300 þúsund og hótaði að bannsetja þá. Það hefði líklega ekki haft mikla þýðingu ef ekki hefði verið fyrir að allir helstu tenniskappar heims hótuðu að mæta ekki á mótið. Andy Ram (sá sem líka keppti í Svíþjóð) fékk því að koma til landsins undir strangri gæslu og almennt fáránlegum keppnisaðstæðum. Engin samstaða um "boycott" náðist meðal kvenkeppenda og því fékk Shaha ekki tækifæri til að spreyta sig.

Pólitísk rétthugsun liggur yfir ríkisútvarpinu eins og mara. Passað er upp á að nefna hlutina aldrei sínu rétta nafni og séð til að ekkert samhengi komi í ljós þegar fjallað er um óeirðir sem rekja má til kynþáttahaturs eða ofbeldis múslimskra í Evrópu. 

En hversu djúpt sem menn stinga hausnum í sandinn mun vandamálið ekki hverfa. Að trúa því er hreinn barnaskapur.

 

                                                                                                         (mynd: Chicagotribune.com)

 

Smá viðbót við fyrri færslu: 

http://online.wsj.com/article/SB123663456334076141.html

Þessi grein birtist í Wall Steet Journal þann 10. mars. Líkt og mér þykir þeim það hið undarlegasta mál að Svíar skuli nota þessa tenniskeppni í pólitískum tilgangi. Greinin ber nafnið Sænska furstadæmið, sem lýsir ótrúlega vel hvernig komið er fyrir Svíþjóð. Í raun eru öll Norðurlöndin seld undir þessa sök, þ.m.t. Ísland með RÚV í fararbroddi.


Hattinn ofan fyrir Magnúsi Geir

Milljarðamærin snýr aftur

Uppsetning Borgarleikhússins á Milljarðamærinni gæti ekki verið betur tímasett. Verkið smellur með látum inn í andrúmsloft hruns og kreppu. Það var sett á dagskrá snemma á síðasta ári á meðan dansinn dunaði sem hæst. Því má segja að verkefnavalsnefnd leikhússins hafi verið í hlutverki Sjáandans þegar ákvörðunin var tekin. Meðvitað eða ómeðvitað. Má ætla að græðgin, sem er eitt megin þema verksins, hafi ráðið nokkru um valið enda var græðgi í íslensku samfélag, þá þegar farin að valda mörgum óþægindatilfinningu. Það er þó ekki síður sjálfsblekkingin sem bæjarbúar hylja sig með, sem talar til okkar í dag. Tímasetningin toppar allt.

Þetta verk Durrenmatt er áminning um þá ógæfu sem allar ákvarðanir mannsins fela í sér. Að standa sífellt frammi fyrir ákvörðunum sem bera í sér siðferðilegan dóm og þurfa síðan að lifa við afleiðingarnar. Bæjarbúar velja að hjúpa sig blekkingunni, ganga jafnvel svo langt að afneita gerðum sínum með því að krefjast þess að fórnarlambið taki á sig glæpinn gagnvart sjálfum. Þessi þáttur hefur ekki síður verið sýnilegur í þeirri atburðarás sem við höfum upplifað þessa örlagaríku daga síðastliðinn vetur. Græðgin smaug inn í alla kima þess lífs sem við lifðum, allir fengu eitthvað þótt mismikið væri. Nú krefjast menn afsagna og afsökunarbeiðna, þótt nær útilokað sé að þeir sem nú hrópa hæst hafi viljað sleppa neinu því sem ávannst meðan góðærið stóð sem hæst. Vissulega verða ýmsir að borga meira en þeir uppskáru, en þeir áttu alltaf valið um að afneita viðskipta- og peningavaldinu. Tækifærin gáfust oft og voru engum dulin, en græðgi, pólitísk afstaða og almennur siðferðisbrestur í samfélaginu réði því hvernig fór.

Siðferðileg niðurstaða verksins er að þrátt fyrir allar freistingar sem á vegi mannsins verða þá ber hann ábyrgð á gerðum sínum. Illska er ekki bara eitthvað eitt, hún er lagskip. Eitt leiðir af öðru og ef enginn stendur upp og hafnar því illa þá heldur það bara áfram að gerast. Að hlutirnir séu líklegir til að endurtaka sig er táknað með; faðir, sonur og smánuð stúlka (Unnur Ösp Stefánsdóttir).

Kjartan Ragnarsson setti verkið upp og setur það í þann groteska búning sem hæfir. Sigrún Edda Björnsdóttir leikur milljarðamærina, sem er afskræmd af ást, hatri og hefndarþorsta. Og hún býr yfir mættinum til að kalla allt það versta fram í manninum; gnægð peninga. Í gamalli þýðingu hét verkið Sú gamla kemur í heimsókn. Sá tiltill vísar í hið djöfullega í manninum og í samanburði er nýi titillinn Milljarðamærin snýr afturfrekar sakleysislegur. Vísar í útrásargræðgina og ofurlaunin, en lætur aðrar illar hvatir ósnertar. Sigrún Edda gerir þessu hlutverki afspyrnu góð skil. Förðun og búningar leggja sitt á vogarskálarnar, því öll sú illska sem býr í þessari konu speglast í þessu tvennu. Jóhann Sigurðarson átti líka frábæran leik sem önnur hlið illskunnar. Hann er táknmynd mannleysunnar, sjálfselskan og þörfin fyrir að setja sig og sínar þarfir alltaf í fyrsta sætið verður honum að endingu að falli. Illi hratt hinu djöfullega af stað með því að ræna Camillu sakleysi sínu og trausti. Sekt bæjarbúanna er á einfaldan hátt táknuð með nýjum skófatnaði. Sál sína og siðvitund selja þeir fyrir gul stígvéli. Alls staðar smýgur illskan inn. 

Þetta er tímabært verk sem snýst um að á einhverjum punkti verður maðurinn að horfast í augu við öfgarnar sem í honum búa. Ákvarðanir snúast um að velja og hafna og veljirðu rangt þá situr þú uppi með það að eilífu.


Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband