Leita í fréttum mbl.is

Nætursorgir Össurar

Fróðlegt hefur verið að fylgjast með deilum sem risið hafa, vegna rætins blogg-pistils Össurar Skarphéðinssonar, um "pólitískt sjálfsmorð" Gísla Marteins. Eins og oftast áður taka slíkar deilur á sig sjálfstætt líf. Umræðuhefðin á Íslandi er nefnilega víðernisháð. Hún nær eins langt og sjóndeildarhringur hvers og eins. Efni umræðunnar fer þá út um víðan völl, svo að endingu eru allir orðnir "sekir" eða enginn. Í sekúlar samfélagi eins og hér ríkir, er siðferðiskenndin nefnilega afstæð - hver og einn setur sér sín mörk og getur síðan flutt þau til að vild. Þetta hefur komið berlega í ljós á síðustu dögum.

Þeir sem tekið hafa til varnar Gísla Marteini og fordæmt skrif Össurar eru nú sagðir upphafsmenn slíkra skrifa. Orð Sigurðar Kára Kristjánssonar um siðleysi Björns Inga, þegar hann skildi borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins eftir á tröppum Höfða í góðri trú á orðheldni hans, eru nú túlkuð sambærileg skrifum Össurar, sem komu eins og þruma úr heiðskíru lofti. Engu er líkara en Össur hafi verið að þumbast heima hjá sér og byggt upp öfundarhatur um nokkurt skeið, vegna málefna REI. Öfundarhatur sem leitaði sér farvegs í óvenjulega illkvittnislegri árás á Gísla Martein. Spuni Össurar kemur úr hans eigin hugarheimi.

Spuni þeirra sem borið hafa blak af skrifum Össurar er af öðrum toga. Þeim dugir ekki að halda því fram að Össur hafi leyfi umfram aðra til að rægja fólk, því hann sé svo lipur penni, búi yfir óvenjulegri málsnilld og myndmáli. Því eigi að fyrirgefa honum allt. Eru menn þá eflaust að hugsa til rætinna skrifa Halldórs Kiljans Laxness, sem komst upp með að ata menn aur, vegna þess að menn litu hann sem einhvers konar Messías íslenskra bókmennta. Ekkert slíkt á við Össur, hann er engin Messías. Hann er að eigin sögn aðeins "starfsmaður á plani". Og um það ber ferill hans líka vitni. Þótt öllum beri saman um að Össur geti verið mikið sjarmatröll, hef ég engan heyrt halda því fram að hann sé mikilmenni.

Spunameistararnir eru þó fyrist og frems að nýta sér "hávaðann" til að rétta hlut pólitískra samherja og koma höggi á andstæðingana. Spuninn er ekkert annað en frávarp eða defleksjón. Hann hefur þann tilgang að færa umræðuna frá efninu og út í mýrarfenin. Þar sekkur umræðan og heyrist ekki af henni aftur fyrr en einhverjum hentar að draga hana fram í þeirri vissu að staðreyndirnar séu gleymdar. Í yfirgnæfandi tilvika heppnast bragðið. Þannig er nú einu sinni hið sértæka minni mannanna.

Í þessari hrinu hafa þó ýmis ummæli manna verið rifjuð upp, sem einhverjum þætti kannski betra að hefðu kyrrt legið. Kannski var þetta gert til að sýna fram á að Össur væri ekki sá versti. Hver sem tilgangurinn var, hefur orðbragð Össurar nú verið borið saman við orðbragð annarra stjórnmálamanna, sem þótt hafa "missa sig" ótæpilega. Þar má benda á fleyg orð Ólafs Ragnars Grímssonar um "skítlegt eðli" og Steingríms J. Sigfússonar um "gungu og druslu." Þegar þessar samlíkingar eru skoðaðar, grípur það augað, að orðbragðið er ekki allt sem þessir menn eiga sameiginlegt - þeir hafa allir verið virkir í sama sjórnmálaafli og á helgidögum segjast þeir allir vilja stuðla að mannlegri reisn og boða virðingu fyrir öðrum. Manni dettur nú helst í hug að spyrja; Hvernig samrýmast þessar glæstu hugmyndir við orðfæri þeirra, þegar þeim býðst tækifæri til að láta á reyna?

Sagt er, að umræðan á árum áður hafi verið á þessum nótum. Ekki bætir það úr skák. Nú eru aðrir tímar og skoruð stig í sóðapólitík hafa tilhneigingu til að snúa upp á sig. Við sáum hvernig orðkyngi Steingrími J. sett ofan og glansinn fór af honum. Og við sáum hvernig Ólafur Ragnar gerðist þjónn auðmagnsins sem hann áður taldi til láglífs þjóðarinnar.

Ég trúi því að Össur viti nú þegar að nætursorgir hans eiga ekkert erindi til íslensku þóðarinnar, þótt hann eigi erfitt með að viðurkenna það..


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband