Leita í fréttum mbl.is

Þegar orð eru vegin og metin

Það fór mikill hvinur um tálknin á demókrötum fyrir þremur vikum síðan, þegar útvarpsmaðurinn Rush Limbaugh kallaði stúdínu frá Georgetown háskólanum dræsu (slut). Tilefnið var umræða um þátttöku tryggingafélaga í getnaðarvörnum undir Obamacare löggjöfinni. Þótti Limbaugh fulllangt gengið að skylda tryggingarfélögin til að niðurgreiða kynlíf ungs fólks. Að auki mun hann hafa bent á að laganeminn Fluke, sem allt húllaballúið snérist um, stundar rándýrt nám og ætti því að geta staðið straum af næturleikjum sín sjálf. Upphrópanirnar sem fylgdu ummælum Limbaugh urðu þess valdandi að hann baðst afsökunar á þeim. Viðurkenndi að hafa teygt sig fulllangt.

Um er að ræða tvöfaldan glæp í augum demókrata þar sem, í fyrsta lagi það að Obamacare kemur úr hugmyndasmiðju dýrðlingsins Obama og því heilög löggjöf, en jafnframt töldu demókratar ummælin gróflega vega að heiðri kvenna af þessum repúblikana rudda. Sjálfsagt sé að varpa fjárhagslegri ábyrgð af gerandanum yfir á hina jakkafataklæddu skuggabaldra sem stjórna tryggingarfélögunum. Var jafnvel talið réttlætanlegt að svipta Limbaugh starfsréttindum auk málfrelsisins.

Linti ekki látunum fyrr en einhver stuðningsmaður kallsins minntist ummæla eins helsta baráttuljóns í flokki Obama, Bill Mahers, sem hann hefur látið falla um nokkrar vel valdar konur sem honum þótti lítið til koma. Þá aðallega vegna þess að þær tilheyrðu utangarðspakki sem kallast repúblikanar. Voru ýmis ummæli Mahers rifjuð upp og þótti úr nógu að velja. Smá myndband var því sett saman til að skerpa á minni aðgerðasinnanna sem vildu helst Limbaugh feigan. Hér fyrir neðan má sjá smásamantekt af fjölskrúðugri orðanotkun kauða þegar honum tekst sem best upp. Þykir þá ekki öllum sem virðing kvenna sé höfð að leiðarljósi, en kvenfyrirlitning var einmitt helsta ásökunin í aðförinni að Limbaugh.

 

Eins og kemur fram á myndbandinu hafði Maher þá nýlega afhent fjáröflunarsjóði Obama milljón dollara eins og hann þreytist aldrei á að segja öllum frá. Þykir þetta frekar neyðarlegt og hafa spurningar vaknað um hvort ekki liti betur út að peningnum sé skilað áður en harðnar í kosningabaráttunni. Í stuðningsmannaliði Obama hefur líka farið af stað keppni í því hvað teljast geti verið meiðandi eða óviðeigandi í orðalagi þegar rætt er um konur. Eins og við var að búast frá þessu "heiðursmannakompaníi" fer orðanotkun frekar efti því hver segir og hver pólitík viðkomandi er. Bill Burton forvígismaður í SuperPAC nefnd Obamaframboðsins telur að ekki sé hægt að leggja að jöfnu orð grínista (BM er líka vel þekktur álitsgjafi) við orð þess sem Burton kallar de facto stjórnanda Repúblikanaflokksins. Mun þá líka skipta máli að umrædd kona mæli með ókeypis getnaðarvörn og sé baráttukona leiðandi í pólitískri umræðu. Soooo. David Axelrod, aðalstrategisti framboðs Obama tekur í sama streng. Sem sagt brandarakallinn má tala niðrandi um konur en útvarpsmaðurinn ekki. Þetta minnir dálítið á umræðuna hér heima, þar sem menn eru teknir á beinið og skráðir á lista ef þeir segja e-ð um konur sem ákveðinn hópur telur "niðrandi" í þeirra garð, þótt sami hópur steinþegi þegar lýsingarorðið "tussufínt"  er tekið inn í tungumálið með fagnaðarópum.  

Þeir sem telja sig þess umkomna að segja fólki hvernig það eigi að tala af virðingu um annað fólk ættu kannski að íhuga eigin orðnotkun og hvernig virðing fyrir öðrum birtist í umgengni þeirra við tungumálið.

ath. grófustu orðin á myndbandinu eru bleepuð út.


Líf mitt og yndi

Nei, þetta er kannski fulldjúpt í árina tekið, en það eru ekki allir þeirrar hamingju aðnjótandi að fá að eyða starfsdegi sínum í það sem þeim þykir skemmtilegast.  Og er hægt að ímyndað sér eitthvað skemmtilegra en að leika sér með kompliment? Það hefur verið hlutskipti mitt síðustu 15 ár og fyrir það er ég þakklát.

Kompliment eru líklega elsta varnarkerfi líkamans. Hlutar þess eru til staðar í frumstæðum verum eins og ígulkerjum og má því segja að saga þessa merkilega varnarmekkanisma spanni í það minnsta 650 milljón ár. Hugmyndin um að komplimentin séu aðeins varahjól í ónæmissvari réði lengi ferðinni en nú er vitað að kompliment komu langt á undan hinu svokallaða áunna ónæmiskerfi sem sá ekki dagsins ljós fyrr en með tilkomu brjóskfiska. Eins og sést á myndinni hér að neðan samanstendur komplimentkerfið af próteinu sem ýmist hafa bindi- eða tengivirkni eða hvatavirkni sem hrindir af stað ferli sem endar ýmist í frumudauða eða frumuáti. 

Ferlarnir sem komplimentin vinna eftir eru þrír og eru tveir þeirra nokkuð vel þekktir. Þeir eru kallaðir klassíski ferillinn og styttri ferillinn vegna skammhlaups sem hann tekur til að ná fram tilgangi sínum. Sá þriðji er kallaður lektinferill og er minna þekktur. Það er hann sem ég hef verið að vinna með síðustu 15 árin.  

Í dag var síðasti starfsdagur minn hjá hinu opinbera. Ég hef enn nokkra mánuði til að sópa úr hornunum og ganga frá lausum endum en geri það á mínum tíma. Að því loknu ætlar samfélagið mér að gerast grasbít í grænum haga ellinnar..... Ef ég nenni.

Complement pathway

Eru þau ekki ótrúlega sæt?


Byrjum á bensíninu

sagði Egill þegar hann hóf þáttinn sinn í dag. Tillaga Sjálfstæðismanna var þar til umræðu og þótti mönnum misjafnt um. Benti Jón Gunnarsson á nokkur dæmi þess hvaða áhrif lækkað bensínverð mundi hafa á líf fólks og hegðun. Mörður Árnason sá bara fyrir sér kostnað ríkissjóðs við það að leyfa landsmönnum að þjóta lengur og hraðar um vegi landsins. Blés hann á þær mótbárur að þessi lækkun gæti örvað atvinnulífið, hækkað kaupmátt og haldið vísitölunni niðri. Kommakratinn sá bara kostnað ríkissjóðs auk þess sem bensínverð myndi bara halda áfram að hækka.

Bensín

Hin kratíska sýn er alltaf sú að engum ráðum verði við komið til að sporna við vandamálinu og það sé hvort eð er öðrum að kenna. "Leggjum upp laupana og göngum í ESB" er hið sígilda svar kratans. Svipuð viðhorf ríkja hjá bandarískum krötum. Reyndar hafa þeir enn ekki lagt til að BNA gangi í ESB en þeir vinna að því leynt og ljóst að taka upp sömu stjórnarhætti; risastórt ríkisvald og afnám lýðræðis.

Þótt bensín verð í BNA sé hlægilega lágt miðað við hér, þá þykir landsmönnum þar það alltof hátt. Kratarnir komust upp með að kenna Bush þáverandi forseta um bensínverðið í forsetatíð hans, þótt nú sjái þeir kýrskýrt að þeirra forseti, Obama, hafi ekkert með bensínverð að gera og sé bara fórnarlamb aðstæðna og ömurlegra stjórnarhátta sem rekja má til repúblikana. Kanakratar kjósa fremur að kanadísk olía sé seld til Kína en að hún sé keypt yfir landamærin og geti þannig spornað við innflutningi um langan veg frá óvinveittum ríkjum. Enn eru þeir fastir í grænum fjötrum Gore-trúboðsins.

Gulldrengurinn Obama hafði lofað þeim "Green energy gold rush" og enn bíða þeir eftir að flóðgáttir opnist og gullið streymi inn. Það virðist ekkert bíta á þá að fé hafi verið ausið í björgunarpakka gjaldþrota fyrirtækja eins og Solyndra sem sporðrennti $530 milljónum áður en það dó. Eða $1.4 milljarðar sem fóru í fyrirtæki Roberts Kennedy Jr, BrightSource þar sem hvert starf sem til verður mun kosta á bilinu $1,4-2.8 milljónir. Rafmagnsbíll GM, Volta sem aðeins seldist í nokkur þúsund eintökum hefur nú verið innkallaður vegna sjálfsíkveikjuhættu sem reynst hefur umfangsmeiri en hægt er að þagga niður.  

 Græna byltingin

Þessi ofurtrú stjórnmálamanna á niðurgreidda græna orku er að koma í bakið á þeim. Ríkisrekinn iðnaður er í engu arðbærari í dag en þegar Sovétríkin settu sínar 5 ára áætlanir í forgang eða þegar bæjarútgerðir áttu að bjarga atvinnumálum á Íslandi. Milljarðar hafa sokkið í fúafen þessa sovéska hugsunarháttar. Augu almennings eru ekki bara að opnast vegna Solyndra heldur eru ríki um allan heim að uppgötva þá botnlausu hít sem grænn iðnaður er. Danmörk, Skotland og Frakkland eru í auknu mæli að leggja niður orkuöflun með vindmyllum vegna gífurlegs viðhaldskostnaðar og landmengunar. Spánn, sem átti að vera fyrirmynd annarra landa um sjálfbæra sólarorkunýtingu hefur ekki lengur efni á þessu pjatti. Og nú síðast er forustusauðurinn um vistvæna orkugjafa, Þýskaland, að koxa á ævintýrinu.

solar energyÍ þetta verkefni hafa Þjóðverjar mokað 100 milljörðum og þar með hækkað orkukostnað meðal heimilis um ca 30.000 krónur. Störf sem skapast við þessar niðurgreiðslur kosta 135.000 stykkið og drjúgur hluti þeirra verður til í Kína. Þrátt fyrir þennan gífurlega kostnað er sólarorka aðeins 0.3% af landsnotkun, en heildar notkun Þjóðverja af vatns, sólar og vindorku er samkvæmt Ráðuneyti Efnahags og tækni aðeins um 1.8% af heildarnotkun. Ráðherra þessa málaflokks, Philipp Rösler, telur síhækkandi kostnað við sólarorkuna vera farið að ógna efnahagslífi þjóðarinnar. (Hér er látið vera að minnast á björgunarpakkana sem eru póstaðir síendurtekið til Grikklands og sem Þjóðverjar standa undir að stærstum hluta).

Þjóðverjar öfunda okkur af orkuauðlindunum, þessum óheyrilega auði sem við eigum í formi vatns og jarðhita. Þeir sjá möguleika á því að eignast hlutdeild í honum ef Ísland gengur í ESB. Sumir eru jafnvel til í að aðstoða þá við það. Það hlýtur að vera blóðugt fyrir hina stoltu þýsku valdhafa að horfa á að þessi litla þjóð norður í ballarhafi sem hitað getur u.þ.b. 90% heimila með vistvænni orku og selt afgang til iðnaðar og eiga auk þess afgang.  

 En ríkidæmi Þjóðverja leyfði þeim að leika sér með auð sinn þegar trúboðið um hlýnun jarðar af mannavöldum fór af stað. Þeir fóru fremstir og fluttu fagnaðarerindið áfram til snauðari þjóða. Þeir höfðu efni á því að taka á sig þungann af útblásturskvótanum þegar ESB ríkin gerðu með sér viðskiptasamning um losun. Nú horfa þeir upp á að milljarða niðurgreiðslur eru ekki að gera þeim nokkuð gagn. Við lok þessarar aldar munu 100 milljarðarnir aðeins hafa tafið hlýnun jarðar um 23 klukkustundir.

Ofan á þetta bætist að nýjustu rannsóknir benda til að við stefnum inn í nýja ísöld og í því klíma getur hlýnun jarðar af völdum manna aðeins verið blessun.

Söfnuðirnir vestan hafs og austan ættu að fylgjast náið með því sem fram vindur í rannsóknum á þessu sviði.  


Ef það þjónar tilganginum

Hvenær skiptir framhjáhald máli og hvenær gerir það ekki. Hér er áhugavert viðtal fréttakonunnar Ann Curry hjá MSNBC við "kvennaflagarann" Newt Gingrich. Newt lætur hana reyndar ekki taka sig í "bólinu" og verst reyndar líka fimlega gegn tilgangi hennar við að klína kynþáttafordómum á sig. Trúverðugleiki Gingrich og traust til að gegna embætti forseta BNA er dreginn í efa í ljósi upplýsinga sem fyrrverandi eiginkona ætlar að koma á framfæri. Curry leggur mikinn þunga í spurningar sínar ekki ólíkt Kastljóss mönnum í baráttu við "illvirkja" stjórnarandstöðunnar og í seinni tíð Jón Bjarna og Ögmund grimma. 

 

 Nú er komin út bók eftir fyrrum lærling í Hvítahúsinu (Þessi heitir reyndar Mimi en ekki Monica) sem segir frá sambandi lærlingsins við ástsælasta forseta demókrata allra tíma, John F Kennedy, og þá kveður við annan tón í umræðunni. Samkvæmt Daily Mail var sambandinð undir styrkri stjórn stjórnmálamannsins og þjónusta lærlingsins ekki bundin við ástmanninn kæra. En nú bregður svo við að það er trúverðugleiki Mimiar sem þykir vafasamur og tilgangur með útgáfu bókarinnar klístraður af fégræðgi og öðrum annarlegum hvötum. Viðmót fréttakonunnar má sjá ef klikkað er á hlekkinn hér að neðan:

http://www.mrctv.org/embed/109857

Enginn þarf að velkjast í vafa hvar afstaða Curry liggur í þessu máli frekar en í því fyrra.

Ekki ætla ég að leggja dóm á hæfi Gingrich til að gegna embætti forseta BNA, en erfitt er að sjá að fara þurfi mýkri höndum um 50 ára framhjáhald og kynlífsleiki forseta BNA en 17 ára skilnaðarmál og eftirleik þess sem reyndar endaði í hjónabandi.    


Var Adolf Hitler þýskur fórboltaþjálfari?

Þennan dag, 27. janúar, minnast menn þess að árið 1945 frelsuðu rússneskar hersveitir fanga sem skildir höfðu verið eftir í Auschwitz útrýmingar-búðunum, þegar þýski herinn hörfaði undan rússneskum sveitum sem sóttu að úr austri. Áður en þeir yfirgáfu búðirnar höfðu SS-menn tekið af lífi alla vinnufæra menn, þeir sem enn höfðu krafta til að ganga yfirgáfu búðirnar og aðeins þeir veikustu og deyjandi voru skildir eftir. Í tíu daga biðu þeir þess að lífi þeirra lyki því frelsun var orðin þeim of fjarlæg til að geta orðið að veruleika. Þeir höfðu sæst við að veruleikinn væri aðeins þjáning og dauði því í "búðunum glatast vaninn að vona".

isurvived

Þessum degi lýsir Primo Levi, einn þeirra sem eftir lifði, í bók sinni Ef þetta er Maður. Hann segir frá því þegar fjórir ungir hermenn koma ríðandi á hestum sínum. Á sinn hófstillta hátt lýsir hann hvernig augu þeirra spegla skömmina sem þeir upplifa yfir hryllingnum sem fyrir augu þeirra ber; hrúgur af líkum sem aðeins eru skinnið og beinin og þeir sem eftir lifðu litlu betri. Þessa skömm þekktu fangarnir vel, því hún fannst í hverjum réttlátum manni sem verður vitni að annars manns glæp; í skömminni býr sektarkennd yfir því að slíkir glæpir skulu geta átt sér stað. 

Nasistar byggðu sex útrýmingarbúðir - Auschwitz, Chelmno, Belzec, Sobibor, Treblinka and Majdanek - allar staðsettar í Póllandi, en þrælkunarbúðir voru settar á fót víða í Þýskalandi og Austurríki. Vistin þar var litlu skárri, þar sem kaldrifjaðir útreikningar voru notaðir til að finna út hve lengi mætti nýta krafta hvers og eins fanga á sem minnstum matarskammti. Lyktina frá brennsluofnunum, sem notaðir voru til að losna við "úrganginn", lagði um nærliggjandi sveitir og þorp.  

En í dag er farið að fenna í sporin. Efasemdum um að Helförin hafi í raun átt sér stað er nú dreift. Sjálfsfyrirlitningin sem þessi afneitun hefur í för með sér brýst nú út í pólitískri afneitun vestrænna gilda og undirlægjuhætti við allt sem er annarrar gerðar og framandi. Sögukennslu hefur hrakað og ungt fólk í dag er ekki lengur meðvitað um þann hrylling sem rússnesku hermennirnir fjórir urðu vitni að. Í nýlegri könnun sem fjallað var um í The Daily Telegraph er fávisku breskra ungmenna lýst með þeirra eigin orðum: einn af hverjum 20 telja að Adolf Hitler hafi verið þýskur fótboltaþjálfari, sama hlutfall telur að Helförin hafi verði lokahátíð síðari heimstyrjaldarinnar og einn af hverjum 6 að Auschwitz hafi verið skemmtigarður. 

Auschwitz

En séu breskir unglingar illa upplýstir virðist litlu minni rækt vera við söguna í Þýskalandi, þar sem 21% ungs fólks á aldrinum 18-3o ára hafa aldrei heyrt um Auschwitz talað. Þetta er með ólíkindum því í þessum búðum einum saman var 1.2 milljón manna útrýmt á hryllilegan hátt og mörgum öðrum gert lífið svo óbærilegt að þeir gátu ekki lifað því lengur. 

Það er skylda allra réttsýnna manna að virða minningu þeirra sem létust í Helförinni og einnig þeirra sem lögðu sitt af mörkum til að binda endi á þá ógnarstjórn sem stýrði því voðaverki.

Mynd 1: www.isurvived.org

Mynd 2: www.art.com

 

 


Í garði meistarans

Rakst á þetta fallega skreytta tré á leið heim úr vinnu.

Í garði meistarans

Með Hollywood að fótum sér og íslenskan vetur út um gluggann. Getur lífið verið einum manni hagfeldara?


Leið okkar allra

Það er ekki hægt annað en að minnast þessarar fantafínu söngkonu sem lést í gær. Eins og margir í hennar bransa var líf hennar ekki allt dans á rósum.  

 

Textinn kannski ekki það sem hörðustu femínistar vildu halda á lofti, en ég tek hæfileikana fram yfir öfgafulla hugmyndafræði og læt vaða. 


Gleðileg jól

Óska öllum vinum mínum gleðilegra jóla og megi hátíðin færa ykkur gleði og góðar gjafir.

Jól 

 Dálítið yfirdrifið en meiningin er góð.


Jóla jóla

Hinn sanni aðfangajólaandi. 

Jólaandinn

Þorláksmessa býður upp á endalausa möguleika til að fara yfir um.

Mynd: www.telegraph.co.uk


Svikin loforð

Tómur sokkur

Hvar eru störfin?

Jóhanna og Steingrímur Joð lofuðu risi landsins. Obama lofaði himnaríki á jörð. Efndirnar eru 21 þúsund störf í vaskinn á Íslandi, 8 milljón í US. Fólk stendur í biðröðum eftir matarúthlutunum í báðum löndum.

Jólasveinarnir í stjórnarráðinu hafa leitað í sokknum jafnlengi að lausnum og Obama. Enginn fitnar nema jólakötturinn.  

mynd: www.townhall.com


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband