Leita í fréttum mbl.is

Þarf Framsókn að fara í afvötnun?

Veruleikaflótti hrjáir íslensku þjóðina. Hún er eins og alkohólisti sem neitar að viðurkenna vandamál sín, en leitar sífellt eitthvert annað að afsökun fyrir aumingjaskap sínum. Vandamálin eru alltaf einhverjum öðrum að kenna. En nú geta landsmenn andað rólegar, þar er nefnilega búið að finna sökudólginn. Hann heitir Davíð Oddsson. Hann er ekki bara upphafsmaður efnahagsvandans hann er eina aflið sem knúið hefur hann fram og er nú í þeirri einstöku stöðu að vera einráður um að viðhalda honum. Skál fyrir því.

Ótrúlegasta fólk keppist nú um að koma sökinni á Davíð. Samtök atvinnulífsins fara þar fremst í flokki, þótt þeir viti mætavel hvernig ástandið er til komið. Pólitíkusar fylgja fast á eftir dyggilega studdir af gasprörum.

Í dag las ég athyglysvert blogg eftir mæta framsóknarkonu, Helgu Sigrúnu Harðardóttir skrifstofustjóra þingflokksins. Hún hefur það hlutverk að koma framsóknarskoðunum á framfæri.

Það var ótrúlega upplýsandi að sjá hamskiptin sem Framsóknarflokkurinn hefur farið í gegnum síðan hann nánast hvarf af yfirborði jarðar. Eyðslufylliríið sem flokkurinn var á veturinn fyrir síðustu kosningar er algerlega þurrkað út úr minninu, dauðahryglan gleymd.  Allt er nú Davíð að kenna. Einn og óstuddur samdi Davíð við sjálfan sig um eftirlaun. Framsókn kom þar hvergi nærri. Þótt Helga Sigrún minnist ekki á Íbúðalánasjóð og 100% lánin, þá hljóta menn að vita að þar kom Framsókn hvergi nærri. Allt Davíð að kenna. Kárahnjúkavirkjun- Davíð að kenna. Heilbrigðiskerfið í stöðugri útþennslu- Davíð að kenna. Milljarður þar og tveir þangað- Davíð að kenna. Allt böl jarðar- Davíð að kenna. 

Staðreyndin er að Framsókn hefur róið lífróður um langan tíma, og því var keyrt á fullu í gegnum ríkiskassann veturinn 2006 og 2007 í von um að framlengja mætti líf flokksins. Þá þegar komu aðvaranir úr Seðlabankanum að ríkisskjóður þyrfti að rifa seglin. Davíð var ekki lengur í ríkisstjórn ef rétt er munað hjá mér. Helga Sigrún veit kannski betur. Nú er röðin komin að Samfylkingunni og ráðherrar hennar moka úr kassanum í von um að telja kjósendum sínum trú um að þeir standi við kosningaloforð sín, til að breiða yfir hrinu kosnigasvika sem þeir ástunda nú hver í kapp við annan.

 Það eru þessi eyðslufyllerí sem Helgu Sigrúnu tekst svo bráðvel að líta framhjá sem hafa komið okkur í þá stöðu sem við erum núna. Reyndar með smá hjálp útrásarbankanna. Og Helga Sigrún veit það, því hún kemur einmitt inn á þetta sjálf. Eftir að hafa hvítþvegið Framsókn af afskiptum peningamála bendir hún á 13. gr. laga um Seðlabankann, þar sem segir "Meginmarkmið Seðlabanka Íslands er að stuðla að stöðugu verðlagi." og í framhaldi "Seðlabankinn skal stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum." Hér stendur hnífurinn í kúnni og íronían verður augljós. Hver var stefna ríkisstjórnarinnar sem Framsókn átti síðast aðild að? Eins og ég hef rakið að ofan, þá gekk hún aðallega út á að bjarga líftóru Framsóknarflokksins. Ekki hefur betur tekist til með nýja samstarfsflokkinn. Nú þarf að tjasla upp á trúverðugleika Samfylkingarinnar og í báðum þessum málum ber Sjálfstæðisflokkurinn mikla ábyrgð.

Krafa Helgu Sigrúnar um fagmennsku og að farið sé að lögum gengur ekki upp ef sífellt þarf að vera að bjarga samstarfsflokkum út úr eigin ógöngum. Kaupa atkvæði, kaupa velvild.

Það alfyndnasta við þessi skrif Helgu Sigrúnar er þegar algleymishegrinn nær fullu flugi og Helga Sigrún fer að fjalla um stöðuveitingar í Seðlabankanum. Þar segir hún ekki "vera gerðar til starfsins sérstakar kröfur, ekkert mat fer fram á þeim sem ætlað er að gegna starfinu og ekki þarf að rökstyðja ráðninguna". Ég hefði nú haldið slíkt ráðningaform sem þetta hafi komið Framsóknarflokknum alveg ágætlega, þegar "úrelda" þurfti Steingrím Hermannsson. Og Framsókn hefur átt fleiri menn þarna inn, svo maður nefni bara Tómas Árnason sem eftir ráðherradóm gengdi stöðu Seðlabankastjóra um árabil.

Hvernig ætlar Framsóknarflokkurinn að kveikja lífsneista sinn að nýju ef hann velur sífellt útgönguleið alkohólistans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallur Magnússon

Ágæta Kolka!

Þú mátt mín vegna skamma Framsóknarflokkinn eins og þú vilt.

En hvað áttu við með:

" Þótt Helga Sigrún minnist ekki á Íbúðalánasjóð og 100% lánin, þá hljóta menn að vita að þar kom Framsókn hvergi nærri. "

Hvað ert þú að blanda Íbúðalánasjóði í þessa umræðu - og vissir þú ekki að Íbúðalánasjóður hefur aldrei boðið 100% lán.

Reyndar voru 100% lán til á tímabili í tíð gömlu húsnæðisstofnunar! Líklega lentu 30% þeirra sem slík lán tóku slík lán í þrot.

... og hvernir dettur þér í hug að draga gömul fjárlög fram - nú þegar Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur settu efnahagslífið í rúst með 20% aukningu ríkisútgjalda - þegar þurfti að draga saman?

Hallur Magnússon, 12.4.2008 kl. 15:13

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Góð ábending Hallur, Íbúðarlánasjóður á sér góðan málsvara í þér. Það breytir þó ekki því að 90% lánin í hinu nýja samkeppnisumhverfi hleyptu skriðunni af stað. 

Efnahagvandinn sem nú er glímt við varð einmitt til samkvæmt gömlu fjárlögunum sem þú nefndir. Þau voru í gildi þar til desember á síðasta ári. Vandamálið er því á ábyrgð síðustu ríkisstjórnar ekki síður en þeirrar sem nú situr. 

Ragnhildur Kolka, 12.4.2008 kl. 15:41

3 Smámynd: Hallur Magnússon

Þetta er rangt hjá þér - en mjögalgengur misskilingur - enda þessu haldið fram af ótrúlega mörgum. Lái þér ekki að falla í þessa gryfju.

Sannleikurinn er sá að á þessum tíma voru bankarnir einungis með 5% af íbúðalánamarkaðnum og vextir slíkra lána þeirra voru á bilin 8% - 9,5%! Verðtryggt!

Áætlanir um 90% lán voru alla tíð skilyrtar við það að taka tillit til efnahagsástandið - enda áttu 90% lán af hóflegi íbúðarhúsnæði - að taka gildi fyrst vorið 2007 þegar áhrif framkvæmda fyrir austan hætti að gæta - og yrðu þannig til þess að það yrði mjúk lending í efnahagslífinu.

Hins vegar varð snögg innkoma bankanna með óheft hámarkslán og allt að 100% lán haustið 2004 til þess að setja allt á hvolf.

Ekki gleyma því að þá var hámarkshlutfall lána Íbúðalánasjóðs 65%.

Bankarnir hörðu dælt úr 200 milljörðum í hagkerfið í lánumá lágum vöxtum þegar Íbúðalánasjóður fékk heimild Alþingis til að veita ALLT AÐ 90% lán.

Vegna þess að bankarnir voru komnir inn á markaðinn á þeim tíma með nýja 200 milljarðar á 5 mánuðum - þá hafði það ekkert efnahagwslegt gildi að bíða með 90% lánin til 10. maí 2007 eins og áætlanirnarnar gerðu ráð fyrir.

Hallur Magnússon, 12.4.2008 kl. 16:18

4 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Átta mig ekki alveg á í hverju misskilningur minn felst.

Framsókn stóð að sölu bankanna. Varla trú ég að framsóknarmenn hafi haldið að einkareknir bankar heldu sig áfram við ríkisstofnanarekstur.

Allt sem á eftir gekk byggði á loforðunum um 90% lánin.

Ragnhildur Kolka, 12.4.2008 kl. 18:02

5 Smámynd: Helga Sigrún Harðardóttir

Kæra Ragnhildur Kolka. Mér þykir nú leitt að hafa ekki séð þessi skrif þín fyrr en læt mig hafa það að svara þér þó 10 dagar séu liðnir.

Það er nefnilega svo magnað að rifja upp það sem Davíð sagði um ráðningar seðlabankastjóra þegar ný lög voru sett um hann 2001.

" Ég held að við eigum bara að viðurkenna að sumar stöður eru þess eðlis að í þær eigi ekki að ráða eftir auglýsingum."

"Ég veit að nokkrir hagfræðingar hafa viljað að slíkar stöður yrðu klæðskerasaumaðar utan um hagfræðinga."

Og svo er gaman að rifja upp flokksþingssamþykktir Framsóknarmanna hér í þessari lofgjörð til íhaldsins en þar segir:

"afnema pólitískar ráðningar seðlabankastjóra."

Þar hefurðu það mín kæra og ég býð þig velkomna í Framsóknarflokkinn.

Helga Sigrún Harðardóttir, 22.4.2008 kl. 14:14

6 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Seðlabankinn hefur aðeins eitt hlutverk og það er að reyna að hafa hemil á verðbólgu. Til þess hefur hann eitt tæki og það er beiting stýrivaxta. Það er Alþingis að ákveða hvaða tól og tæki Seðlabankinn hefur hverju sinni.

ÞAR Alþingi hefur ekki séð ástæðu til að afhenda bankanum önnur tæki. Þá er %2

Ragnhildur Kolka, 22.4.2008 kl. 22:44

7 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Eitthvað klúðraðist þarna, en það sem ég vildi sagt hafa er að ríkisstjórnin, þessi sem nú situr og sú síðast voru ekki að takast á við þá þennslu sem Kárahnjúkavikjun, útrás bankanna og einkaneyslan voru að skapa. Aðeins Seðlabankinn hefur staðið í því stappi.

Það er fín úttekt á vinnubrögðum Seðlabankans í Vb í síðustu viku. Þar koma margir að verki. Ekki fæ ég betur séð en að bankinn hafi verið byrjaður að hækka stýrivexti strax fyrri part árs 2004. Á þeim tíma hvarflaði ekki að Framsókn í ríkisstjórn að stíga á eyðslubremsuna.

Það er árátta hjá Íslendingum að leita alltaf að sökudólg. Fyrir bragðið gefst engin tími til að leita lausna. Vil þó segja foringja þínum til hróss að hann var ekki að leita að sökudólgi í viðtalinu á Morgunvaktinni í gær, sem er kannski ástæðan fyrir því að hann er foringi en ekki fótgönguliði.

Það á enginn að eiga rétt á neinni stöðu út á menntun. Aðeins geta á að ráða. Þótt hagfræðingar séu allra góðra gjalda verðir, þá eru klæðskerasaumaðar stöður fyrir þá jafn óaðlaðandi og val dómara inn í sína einkaklúbba.

Láttu vera að dusta "Welcome" mottuna, því þótt nóg sé af pólitískum undanvillingum í minni ætt, þá veit ég ekki til að neinn hafi ratað inn í Framsóknarflokkinn.

Ragnhildur Kolka, 22.4.2008 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband