Leita í fréttum mbl.is

Í trölla höndum

Árni Matthíasson, blaðamaður skrifaði athygli verða grein í Morgunblaðið í dag, þar sem hann fjallar um "mestu illmenni vorra tíma". Reyndar tekur hann sér það bessaleyfi að ferðast til í tíma og gerast fornleifafræðingur sem, einhvers staðar í blámóðu framtíðarinnar, grefur niður á skjalasafn Sameinuðu þjóðanna. Í því merka safni munu þeir finna vitnisburð um illskuverk ísraelsku þjóðarinnar gagnvart "sárþjáðri" palestínsku þjóðinni. Jú, sönnunargögnin liggja fyrir, mannréttindaráð Sþ hefur á síðustu 5 árum fordæmt framferði Ísrael gagnvart Palestínuaröbum í vel á fjórða tug samþykkta. Og samkvæmt Árna er Ísrael eina landið sem hefur verið fordæmt í samþykktum þessa merka ráðs, þótt vissulega hafi það skoðað aðstæður víðar. Ráðið tók sér t.d. tíma til að kíkja á þjóðarmorðið í Súdan, en komst að þeirri niðurstöðu að það útheimti ekki fordæmingu. Þar dugði ráðinu að lýsa yfir áhyggjum, enda bara um þjóðernishreinsanir, hungursneyð og fjöldanauðganir að ræða.

Nú bíða ráðsmenn spenntir eftir að senda frá sér enn eina yfirlýsinguna svo fornleifafræðingar framtíðarinnar getið fullvissað sig um illsku þessara Ísraelsku níðinga, þegar þeir enn einu sinni vígbúast gegn friðelskandi mannvinum sem bera hinum hersetnu Gazabúum vistir og mat. OK, svo Gaza er ekki lengur hersetin og reyndar ekki heldur í herkví. Landamærin við Egyptaland hafa verið opnuð, en slíka smámuni er óþarfi að tína til í virðulegri samþykkt fordæmingarplaggsins.

Menn spyrja sig gjarnan hvernig það megi gerast að ein þjóð komist upp með slík fólskuverk. En þá má benda á samsetninguna á þingi Sþ, hvað að baki samþykktanna liggur, hverjir þar ráða ferð og hvernig þeir fara með vald sitt. Það þarf ekki að leita langt, en þó er það þannig að ekki skal treyst á að útvarp allra landsmanna sendi upplýsingar þar um til okkar sem greiðum hið lögboðna árgjald.

Þótt allar fordæmingar mannréttindaráðsins séu samviskusamleg tíundaðar í öllum fréttatímum miðilsins minnst þrjá daga í röð þá mun ekki finnast eitt stakt orð þar um hverjir sitja í þessu ráði. En meðal hinna æruverðugu mannréttindaríkja er Kína, Kúba, Kongó, Rússland, Sádi Arabía og Kamerún. Reyndar var Líbýu sparkað í  mars en það hefur eflaust reynt á suma meðlimi að standa að slíku óhæfu verki. Því ekki er svo langt síðan Líbýa var í forsæti á allsherjarþinginu og átti að auki sæti í öryggisráðinu. Meiri menn en Íslendingar sem ekki nutu slíks trausts.

Og þeir kalla ekki allt ömmu sína mannvinirnir hjá Sþ. Íran er í náðinni og var því treyst til að leiða Þróunaraðstoðarstofnun Sþ. Nú um stundir situr Íran í nefnd um stöðu kvenna í heiminum og skemmir þá ekki fyrir þeim framganga þeirra sjálfra gagnvart konum. En í Íran eru konur  hengdar, hýddar eða grýttar fyrir minnstu sakir. 

Það er orðið nokkuð síðan maður hætti að kippa sér upp við mannganginn á skákborði Sþ. Þó fer ekki hjá því að lítil frétt hafi ýtt duglega við mér í dag. Hélt í einfeldni minni að ekki væri hægt að ganga lengra í vitleysunni hjá þessari stofnun sem svo margir bundu vonir við í árdaga en fjarað hefur undan síðan. En nei, í sömu viku tókst Sþ að kóróna siðleysið sem stofnunin hefur verið að fikra sig inn á. Fyrst með því að aðalritari samtakanna Ban Ki-Moon lét sig hafa það að senda heillaóskaskeyti til hryðjuverkamannanna í Íran sem  um síðustu helgi héldu svokallaða "counter-terrorista" ráðstefnu í Teheran. Eins og þetta væri ekki nóg létu Sþ kné fylgja kviði á þriðjudag, þegar Norður-Kóreu var afhent forsætið á afvopnunarráðstefnu sem haldin er í Genf. 

Hafi einhver vafi leikið á því að Sameinuðu þjóðirnar séu nú í tröllahöndum, ættu þessar fréttir að færa mönnum sanninn um að þessari stofnun er ekki viðbjargandi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Sameinuðu þjóðirnar eru lengi búnar að vera hryðjuverkasamtök.

Gleymum ekki Imbu, þegar hún fór í pílagrímsferð til illmenna eins og Assads jr. til að ná setu í Öryggisráðinu. Leynivopn eins og pönnukökur voru ekki nóg.

Enginn vill hana fyrir landsdóm. Kona sem leitaði til þjóðarmorðingja til að koma landi sínu í Öryggisráðið er væntanlega sek um eitthvað. Var það viðleitni til friðar? Manstu eftir bréfi hennar til Zipi Livni, sem hún skrifaði á gamlársdag, að því er virðist undir áhrifum, þar sem hún kallaði Livni Mr.

c_v_v_billeder_shake_assad

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 30.6.2011 kl. 06:27

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Gleymdi að þakka fyrir góða færslu. Gaman væri að sjá grein Árna.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 30.6.2011 kl. 06:29

3 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Nú veit ég ekki hvort þetta tekst hjá mér, Vilhjálmur, eða hvort það er leyfilegt, en þegar svona greinar birtast hér á landi þar sem ekki má draga hatursáróður Hamas í efa, þá tel ég að þær eigi fullt erindi til fólks og læt því gossa.

Grein Árna:

"Mestu illmenni vorra tíma
Ég sé í anda er flokkur manna er að róta í rústum New York-borgar eftir nokkur hundruð ár, og kemur niður á skjalasafn Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóð...
Ég sé í anda er flokkur manna er að róta í rústum New York-borgar eftir nokkur hundruð ár, og kemur niður á skjalasafn Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Sjáðu! kallar einn fornleifafræðingurinn til annars (hann kallar reyndar , en það er annað mál). Þegar menn svo fara að grafa sig í gegnum þessa merku heimild munu þeir örugglega hissa sig yfir því hve mikið af froðu flæddi um sali Sameinuðu þjóðanna, hve oft menn sögðu eitt en gerðu annað og því hve skýrt kom í ljós á hverjum degi að þjóðir eiga enga vini, þær eiga bara hagsmuna að gæta. Út úr öllum samþykktum mannréttindaráðsins munu menn svo lesa eina staðreynd óhrekjandi, það að ein þjóð var öðrum verri þegar mannrétindi og mannréttindabrot voru annars vegar, ein þjóð var verst af öllum - Ísrael. Málið er nefnilega að um enga þjóð hefur verið eins oft ályktað og eins harkalega í mannréttindaráðinu og Ísraelsmenn og framferði þeirra, síðast á síðasta fundi ráðsins 17. júní sl. Ísrael hefur verið fordæmt í á fjórða tug samþykkta mannréttindaráðsins, sem er víst ríflega helmingur samþykkta þess frá því það var stofnað 2006. Reyndar er Ísrael eina landið sem hefur verið fordæmt sérstaklega, meira að segja Súdan var ekki fordæmt þegar stjórnvöld þar stóðu að fjöldamorðum, fjöldanauðgunum og þjóðernishreinsunum í Darfur-héraði; menn létu nægja að lýsa áhyggjum sínum. Hamas-samtökin, sem hafa á stefnuskrá sinni að eyða Ísrael og þá helst með því að drepa alla sem eru gyðingatrúar, ráða ríkjum á Gaza-ströndinni, landskika við landamæri Egyptalands og Ísraels. Hamas ræður ríkjum á Gaza, hrifsaði til sín völdin í kjölfar þess að samtökin sigruðu í kosningum í janúar 2006. Í framhaldi af því settu Ísraelsmenn hafnbann á Gaza og Egyptar einnig, þótt enginn hafi veist að Egyptalandi fyrir vikið. Margir minnast þess eflaust að mikill floti sigldi frá Tyrklandi til Gaza í lok maí á síðasta ári og lyktaði með blóðsúthellingum þegar Ísraelsmenn stöðvuðu skipin. Tilgangur siglingarinnar þá var að koma hjálpargögnum til íbúa Gaza, matvælum, lyfjum, fatnaði og álíka, enda íbúarnir aðþrengdir eftir fimm ára hafnbann. Nú er annar slíkur floti að búa sig til siglingar til Gaza, heldur af stað frá Grikklandi á næstu dögum ef verkfallsaðgerðir koma ekki í veg fyrir það. Sá floti siglir þó að áhöld séu um hversu mikið vanti af hjálpargögnum á Gaza, enda má ekki gleyma því að afkastamiklir smyglarar hafa starfað á landamærum Gaza og Egyptalands á síðustu árum og flutt alls kyns varning um neðanjarðargöng. Þá má ekki heldur gleyma því að í lok maí sl. afléttu Egyptar ferðatakmörkunum yfir landamærin að Gaza-ströndinni og von að menn spyrji: Til hvers er siglt? Ég geri ráð fyrir að svarið verði: Til þess að klekkja á verstu þjóð allra tíma, mestu mannréttindaillmennum okkar tíma, Ísraelsmönnum. "

Ragnhildur Kolka, 30.6.2011 kl. 09:59

4 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Það fór óneitanlega vel á með þeim þessum hökulausa augnlækni og vonarstjörnu vinstrimanna á Íslandi.

Ragnhildur Kolka, 30.6.2011 kl. 10:12

5 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Frábær grein og líka þín, en ekki dæma fólk af útlitinu. Ingibjörg getur ekki gert að því þótt hún sé kulnuð stjarna.

Las einnig ferðasögu þína frá Árósum, gamla háskólanum mínum. Ég var með skrifstofu í doktorsnámi á Moesgård i mörg ár og hef gist á lofthæðinni þegar ég er í Árósum.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 30.6.2011 kl. 10:49

6 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Nei, satt segir þú, Vilhjámur maður á ekki að dæma eftir útliti. Hökuleysið virðist ekki há Assad við að berja af hörku á löndum sínum og ISG virðist nú frekar hafa grætt á því að liggja í frystinum.

Ragnhildur Kolka, 30.6.2011 kl. 11:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband