Leita í fréttum mbl.is

Með mótlæti slípar Almættið sín dýrustu djásn

xd-falkinn_0

Nú þegar rykið sest og menn horfa í kringum sig geta sjálfstæðismenn hafið þá endurnýjun sem er flokknum nauðsynleg eftir mikið tap í kosningum. Öll spjót hafa staðið á flokknum sem hefur orðið einskonar blóraböggull fyrir þjóð sem þorir ekki að horfast í augu við eigin veikleika og ótta.

Í sjö mánuði hafa vinstriflokkarnir fóðrað móðursýkina og ábyrgðarleysi landsmanna með ásökunum á hendur Sjálfstæðisflokknum um vanrækslu og vanstjórn. Aldrei á þeim 18 árum sem flokkurinn sat í ríkisstjórn var flokkurinn einráður. En þeir flokkar sem með honum sátu og bera jafna ábyrgð, sem þeir hafa aldrei viðurkennt, eru nú verðlaunaðir sem bjargvættir. Ef verðlaun skyldi kalla.

Kosningarnar mynda nefnilega vatnaskil í stjórnmálum þessa lands. Nú er ekki lengur hægt að kenna Sjálfstæðisflokknum um það sem miður fer. Nýir valdhafar hafa tekið við taumunum og allt það sem eftir kemur er á þeirra ábyrgð. Héðan í frá er ekki hægt að draga Davíð Oddsson, Geir H. Haarde eða Sjálfstæðisflokkinn upp úr hattinum þegar illa fer. Kosningarnar og útkoma þeirra kvitta fyrir allt sem áður mátti rekja í þann rann. 

bjarniben2Það viðurkennist hér að það var huggun harmi gegn að sjá hve karlmannlega (bannorð í dag en á engu að síður við) nýi formaðurinn tók ósigrinum í nótt. Var ég ekki ein um að fyllast stolti yfir þeim viðbrögðum sem hann sýndi. Engar afsakanir, ásakanir eða bituryrði hrutu af vörum hans eins og maður er orðin svo vanur að heyra frá þeim sem nú eiga völlinn.

Vissulega var við því búist að flokkurinn kæmi ekki vel út það höfðu allar kannanir sýnt. En vonin er lífseig og eflaust hefur hún bærst í brjósti formannsins eins og annarra flokksmanna sem hafa trú á stefnu Sjálfstæðisflokksins. Styrkur Bjarna Benediktssonar felst í hugrekki hans og trú á flokkinn og það góða sem hann getur áorkað. Trú á fólkið sem hann hefur valið að starfa með og vilja til að kveða niður vonleysi og víl. Bjarni boðaði von, vinnu og framtíð fyrir þá sem hafa áræði til að fylgja honum eftir.

 Mótlæti mótar manninn og Bjarni Benediktsson virðist hafa þau bein sem þarf til að mæta því. Eftir stendur hann sterkari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Hermannsson

Ég held að allir geti tekið undir ummæli þín um frammistöðu Bjarna. Hún lofar góðu fyrir flokkinn og framtíðina. Karlmannlegur, æðrulaus, broshýr og bjartsýnn.

Því miður er ég þér ekki sammála um að nú hætti vinstra liðið á fjölmiðlunum að kenna Sjálfstæðisflokknum um allt sem aflaga fer. Vinstri menn ríktu yfir Reykjavík í 3 kjörtímabil, lögðu allt í rúst og jafnvel eftir 10-12 ára setu voru þeir að afsaka sinn eigin ræfildóm með því að þeir hefðu tekið við svo erfiðu búi eftir Sjálfstæðisflokkinn. Það sama gerist nú í landsstjórninni.

Baldur Hermannsson, 26.4.2009 kl. 19:58

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Rétt hjá þér Baldur. Vinstraliðið mun ekki hætta að kenna Sjálfstæðisflokknum um allt sem miður fer, þetta fólk kann ekki, getur ekki og vill ekki horfast í augu við eigin gerðir. Hins vegar munu ásakanirnar skorta allan substans.

Lygi er lífsstíll vinstriaflanna.

Ragnhildur Kolka, 26.4.2009 kl. 21:15

3 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Ragnhildur; Fyrirsögnin á þessum pistli þínum er þvílík snilld, að þú ættir með réttu að verða næsti biskup.

Þetta er sagt án kaldhæðni.

Nenni svo ekki í pólitískt karp um það hvað allt sé öðrum að kenna en FLokknum, enda allt of langt liðið á kvöldið til þess.

Skilst reyndar á þeim sem voru í Valhöll í nótt, að Bjarni Ben. hafi höndlað tapið vel í ræðu sinni þar.   Það er vissulega honum til inntektar, enda læra menn það í íþróttum að tapa jafnt sem sigra.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 27.4.2009 kl. 01:58

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Flokkurinn þarf að endurnýjast siðferðislega, ... siðferðislega. Hann þarf að endurnýjast siðferðislega. Þá hjálpar að hann skoði sjálfan sig i ljósi kristins siðferðis og skoði verkin sín, – verk sín og hugsun, sem gerzt hefur efnishyggjuleg fram úr öllum máta – og meðvirk með undansláttar-siðferði sósíal-líberalisma ekkert síður en ofurfrjálshyggju. Þetta veiztu, Ragnhildur. Flokkur, sem tengist varðveizlu-(íhalds-)stefnu, en yfirgefur conservatíf og kristin gildi og gefur frat í bakland sitt að því leyti, á sér ekki uppreisnar von nema með iðrun og yfirbót. Megi svo verða. Hjálpum honum til þess, svo að hann verði sem fyrst á vetur setjandi.

Með góðri kveðju,

Jón Valur Jensson, 27.4.2009 kl. 03:30

5 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Mér er ánægja að fá þig í heimssókn Hildur Helga, kaldhæðna eður ei. Það er líka vinsamlegt af þér að ætla mig hæfa til að gegna slíkri stöðu, sem biskupsstaðan er. En glansinn hefur svona frekar máðst af embættinu hin síðari ár og þar þarf að taka til hendi ekki síður en í stjórnmálunum. Það verða mér hæfari að taka að sér. Eigi kristileg gildi að virka í samfélagi manna þá þurfa leiðandi öfl innan kirkjunnar að hafa trúverðugleika. Mikið hefur skort upp á það.

Jón Valur;  þakka þér líka fyrir innlitið. Ég held því ekki fram að Sjáfstæðisflokkurinn þurfi ekki að endurskoða og jafnvel endurnýja gildi sín og tilvist. En Sjálfstæðisflokkurinn er ekki kristilegur flokkur í þeirri merkingu sem mér virðist þú gera kröfu til. Hann er veraldlegur og sækir fylgi sitt til breiskra manna. Og þó hann byggi á siðferðilegum gildum, þá tel ég full langt gengið að ætla honum að ganga milli manna á hrosshárskyrtu og stunda sjálfshýðingar.

Það fór marg úrskeiðis á síðustu árum. Sjálfstæðisflokkurinn innleiddi frelsi til athafna. Það frelsi var misnotað af mörgum. Gæti best trúað að flestir hafi séð eitthvað í því frelsi sem hentaði þeim. Íslendingar hafa átt erfitt með að horfast í augu við þátttöku sína í veislunni og því hefur sökinni alfarið verið varpað á Sjálfstæðisflokkinn. Þannig er nú eðli mannskeppnunnar.

Bjarni Benediktsson hefur verk að vinna og ef þátttaka í íþróttum kennir mönnum að lífið býr yfir ósigrum jafnt sem sigrum þá hefur hann gott veganesti í farteskinu.

Ragnhildur Kolka, 27.4.2009 kl. 08:10

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Grínastu bara með nauðsyn iðrunar og yfirbótar, Ragnhildur, en það var enginn að tala hér um neinar Caonossa-ferðir stjórnmálastéttar Sjálfstæðisflokksins.

Samt verður það honum sjálfum fyrir verstu að taka ekki einarðlega á spillingarmálum sínum, en þar til heyrir að birta reikninga sína frá aldamótunum – og að bæta sig í lífsverndar- og siðferðismálum.

Þú segir flokkinn veraldlegan, ekki kristilegan, en það voru einmitt ein sjálfbirgingslegu mistökin hjá honum á landsfundi 2007 að fella niður ákvæðið um að hann styðji kristileg gildi og kristna arfleifð í landinu. Það var eins og hann væri að afbiðja sér blessunina. Og þetta var 2007, takið eftir því. Þetta gerðist eftir alla sögu flokksins hafandi slík heilræði á stefnuskrá sinni. Var þá flokkurinn áður fyrr ekki nógu veraldlegur, og var hann kannski ámælisverður að vilja a.m.k. í orði kveðnu vera svolítið kristilegur?

Jón Valur Jensson, 27.4.2009 kl. 10:51

7 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Bjarni sýndi skynsemi í kosningabaráttunni og tók ósigrinum vel eins og þú segir. Hann var málefnalegur í þeim umræðum sem hann tók þátt í og hvatningarorð hans til Sjálfstæðismanna voru ánægjuleg og er ég viss um að við munum ná okkur á strik aftur fyrr en varir.

Það var þó ljós í myrkrinu að við fengum inn 16 manninn um nóttina og munar um það.

Hilmar Gunnlaugsson, 27.4.2009 kl. 21:24

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég kann nú sjálfur að meta það líka, Hilmar. Fann til undarlegs feginleika þarna upp úr kl. 9 í fyrradag, þegar Framsókn tapaði sínu sæti fyrir norðaustan og skringileg orsakaröð gaf okkur sæti fyrir suðvestan og það reyndum jaxli, Jóni Gunnarssyni.

Eftir á sá ég betur þýðingu þessa, þar sem þrjátíu og þriggja, en ekki 34 sæta meirihluti S, B og O myndi reynast slíku stjórnarmynztri heldur lítið veganesti, sem betur fer, því að þetta fólk gæti annars þeim mun auðveldar komið sér saman um verstu verk eins og EBé-umsókn eða dýrt stjórnlagaþing sem tæki jafnvel stjórnarskrárvöldin af Alþingi og færði þau í orði kveðnu til þjóðarinnar, en með þeim gerræðis-flýtis-hætti, að alvarlegri kollsteypu gæti valdið og svipt okkur réttaröryggi í raun.

Ja, svo þú ert þá sjálfstæðismaður, karl minn!

Jón Valur Jensson, 27.4.2009 kl. 22:50

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

PS. Svo var ég vitaskuld að tala um Canossa-klaustrið í innlegginu til Ragnhildar, en þangað hélt Þýzkalandskeisari í yfirbótarferð, með páfann innan dyra, og píslaði sig með svipuhöggum nokkra rúnta kringum klaustrið, unz páfi veitti honum aflausn syndanna.

Jón Valur Jensson, 27.4.2009 kl. 22:52

10 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Já, það er ég Jón. Ég get að nokkru tekið undir þessar áhyggjur þínar af núverandi vinstri stjórn og þá einkum ef stjórnin ákveður að ganga í ESB án samþykkis þjóðarinnar.

Hilmar Gunnlaugsson, 27.4.2009 kl. 23:00

11 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Sæll Hilmar; þakka þér fyrir heimsóknina.

Jón Valur; þú ert að misskilja e-ð, því ég var ekkert að grínast. Mínar hugmyndir um iðrun eru aðrar en þína. Ég býð ekki fram hina kinnina þegar ég er slegin utanundir og ég biðst ekki afsökunar bara til að biðjast afsökunar. Orð geta verið innantóm og því betra, sé sekt til staðar, að sýna yfirbót í verki.

Ég geri ráð fyrir að alltaf séu einhverjir óánægðir með samþykktir flokksins og ég skil vel þína afstöðu til "lífsverndar- og siðferðismála". Þetta eru grundvallarmálefni sem snerta okkur öll. Atburðarásin sem átti sér stað í aðdraganda kosninganna sýnir að þarna var pottur brotinn.

Sjálfstæðisflokkurinn þarf á siðbót að halda. Það kom skýrt fram í atburðarás síðust daga. Ég tel að skellurinn í kosningunum eigi að vekja menn til vitundar um það. Það hefði hins vegar verið óráð hjá nýjum formanni að hefja sinn formannsferil á því að kljúfa flokkinn. Betra að taka skellinn sem hvort eð var óumflýjanlegur og láta kjósendum eftir að koma vitinu fyrir þá sem ekki voru tilbúnir að horfast í augu við eigin gerðir.

Við sjáum svo til hver útkoman verður.

Ragnhildur Kolka, 27.4.2009 kl. 23:25

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér fyrir þetta, Ragnhildur. Ég ætla ekkert að reyna mig við meira reiptog en orðið er, stend einungis við orð mín og sé ekki þörf á að bæta neinu við í þetta sinn.

Jón Valur Jensson, 27.4.2009 kl. 23:43

13 Smámynd: Baldur Hermannsson

Þessi orðræða ykkar rifjar upp skemmtilega bernskuminningu. Ég var í skriftastólnum hjá séra Hacking og sagði honum að ég hefði talsverðar áhyggjur af sjálfum mér, því staðreyndin væri sú að ég finndi ekki til iðrunar vegna synda minna. Hann sagði mér að hafa ekki áhyggjur af því - sú staðreynd að þetta ylli mér áhyggjum væri ótvíræð vísbending um að raunveruleg iðrun væri fyrir hendi. Mikið gladdist ég að heyra þetta. Og oft hef ég velt fyrir mér merkingu hugtaksins iðrun, þegar forhertir bófar segjast iðrast gjörða sinna - þegar öllum má vera ljóst að þeir iðrast einungis þeirrar klaufsku sinnar að láta góma sig.

Baldur Hermannsson, 28.4.2009 kl. 00:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband