Leita í fréttum mbl.is

Sögur af vinstrimönnum og villum þeirra

Ég hef oft verið spurð hvers vegna ég birti hér ekki greinar sem tímaritið Þjóðmál hefur gefið út. Því er helst til að svara að ég hef hreinlega ekki nennt því. Nú ætla ég að bæta um betur en þó aðeins hvað varðar síðustu grein mína og birti ég hana hér í framhaldssöguformi. Enginn skyldi þó ætla að hér sé um skáldsögu að ræða því allt er hér bakkað upp af atburðum sem átt hafa sér stað.

Kafli 1.

Tvískinnungur og undanbragðahefð

riddara réttlætisins

Það var trú manna, þegar sjónvarpið kom fyrst fram, að útvarp myndi fljótlega heyra sögunni til. En önnur er raunin. Útvarpið heldur fyllilega stöðu sinni og vandfundinn er sá sem ekki á sér einhvern uppáhalds útvarpsþátt í öllu því litrófi tals og tóna sem finna má á öldum ljósvakans. Til að tryggja stöðu sína og salt í grautinn þurfa útvarpsmenn þó að halda vel á spöðunum, sérstaklega þeir sem stjórna spjallþáttum. Þeir þurfa að fá til sín  viðmælendur sem eru óragir að lýsa skoðun á því sem efst er á baugi hverju sinni.  Stjórnmálamenn eru vinsælir viðmælendur og ekki þykir  verra ef hægt er að etja þeim saman við pólitískan andstæðing. En það á enginn sigur vísan í pólitískri umræðu og jafnvel kemur fyrir að báðir viðmælendur haltra af sviðinu, sárir og illa til reika. Ein slík viðureign átti sér stað á vordögum, í morgunútvarpi Bylgjunnar, þar sem Ögmundur og Brynjar á góðri stundtókust á alþingismennirnir Ögmundur Jónasson og Brynjar Níelsson. Umræðuefnið var frumvarp á Íraksþingi sem lögleiðir barnaníð og nauðganir ef samþykkt. Frumvarpið gerir ráð fyrir lækkun hjónabandsaldurs stúlkubarna úr 18 árum niður í 9 ár. Skal brúðguminn þó ekki vera undir 15 ára aldri. Ástæða breytingarinnar er að stjórnvöldum þykir það stríða gegn ströngum Sharialögum að nýta ekki stúlkukindurnar betur. Vildi þáttastjórnandinn, Heimir Karlsson, fá að heyra sjónarmið þeirra og benti hann á að sér þætti viðspyrnan á Vesturlöndum gagnvart þessum málum vera veik; eins og menn veigruðu sér við að gagnrýna allt það sem viðkemur íslamstrú.

Áður en Heimir bar upp spurninguna hafði Ögmundur látið gamminn geysa um ferðalag sitt til Kúrdistan og leyndi sér ekki að hann hafði orðið fyrir opinberun í því mikla landi jafnréttis. Þar sem deilan um Krím var í algleymingi hafði hann líka rutt úr sér rullunni um vestræna hagsmunavinda sem blása um Ukraínu og sérstaklega Krímskagann og minnti á átökin í Líbýu, Afganistan og Írak svo ekki færi milli mála hverjir gætu sleppt að setja upp geislabauginn. Hernaðarveldi og olíuhagsmunir komu þar sterklega við sögu. Má með sanni segja að Ögmundur sé trúr sinni fortíð og má mikið læra af því sem hann þegir um ekki síður en það sem hann segir. Brynjar, sem ekki leggur sig eftir að orðlengja um hlutina og nær þar af leiðandi ekki að klófesta nema um það bil 10%  af útsendingartímanum, var í þetta sinn fyrri til að svara spurningu Heimis. Sagðist hann hafa þá kenningu að ástæðan fyrir þessum vægu viðbrögðum væri sú að pressan á Vesturlöndum væri svo vinstri sinnuð. Því tæki hún frekar undir málstað þessara Langt-í-burtu landa og benti á að meira að segja hörðustu femínistar láti vera að gagnrýna mannréttindabrot gegn konum, þótt þeir séu fljótir til þegar eitthvað ber útaf á Vesturlöndum. Allt er þetta rétt, þótt það útskýri í sjálfu sér fátt og kafi ekki djúpt. Þó virtist Brynjar snerta þarna aumann blett hjá Ögmundi, því ekki er að orðlengja það að hann tóks á flug og kvað langa drápu um störf sín sem fréttamaður, átök í Sýrlandi, afstöðu fólks til frelsis og svei mér þá ef heilbrigðisþjónustan hér heima og strætó komu ekki líka við sögu. Og ekki má gleyma hinni klassísku kanínu í hatti vinstri manna; hrikalegum ofsóknum kirkjunnar á miðöldum. Eftir að hafa slengt öllu nema eldhússvaskinum inn í umræðuna stóð ekkert eftir annað en að Ögmundur hafði ekki minnst einu orði á afstöðu sína til upphaflegu spurningarinnar „hvers vegna eru viðbrögð Vesturlanda svona veik í þessum málum“.

Heimir_Karlsson Þáttastjónandinn var ekki sáttur við þessi undanbrögð og hélt áfram að spyrja um afstöðu þeirra  og benti á hávær mótmæli hér og annars staðar þegar illa er farið með konur á Indlandi eða í Rússlandi. En þegar kemur að konum í arabaheiminum þá er eins og enginn þori að segja neitt. Brynjar ákvað að halda sig við kenningu sína og benti Ögmundi á að það stæðist ekki að kalla þetta annan menningarheim því Rússland væri annar menningarheimur og sama mætti segja um Indland. Ögmundur var kominn út í horn og klikkti því út með að hann hafnaði vinstri-hægri kenningu Brynjars en sagði svo „Skýringin er sú að við gagnrýnum síður það sem fjær okkur er, en nær okkur“. Á þeim punkti skellti ég upp úr.

Þennan þátt mætti nota sem kennsluefni í tvískinnungi og undanbragðahefð vinstri manna.  Á  sigurvegara umræðunnar, þáttastjórnandann sem sleppti ekki viðmælendunum af önglinum fyrr en allt líf var úr þeim undið, má hins vegar hengja orðu. Þótt Brynjar hafi átt loka lagið í síðu Ögmundar þá hefði hann mátt fylgja kenningu sinni betur eftir, því kenning er ekki kenning ef hún er ekki rökstudd á trúverðugan hátt. Brynjar hafði greinilega ekki hugsað þetta mál mjög djúpt en í þess stað reitt sig á eigið innsæi. Ögmundur brást hins vegar við að vinstri manna sið; fór undan í flæmingi og dreifði umræðunni með orðgnótt, sem hljómað hefði glimmrandi í óperettu eftir Gilbert og Sullivan, en svaraði engu.

.......... framhald síðar

Myndi # 1 er af www.eyjan-pressan.is

Mynd # 2 er af www.vb.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband